Gæðamat á sumarveðrum 1987-2009, súlurit

Það hljóta flestir að vera sammála því að nýliðið sumar var gott sumar veðurfarslega séð allavega hér á suður og vesturlandi. Við getum þar að auki varla kvartað yfir sumrum síðustu ára sem hafa boðið upp á ýmsar tegundir af góðviðrum svo sem langvarandi sólarköflum, þurrviðrum, hitabylgjum og hægviðrum og stundum öllu þessu í senn. En liðin ár vilja oft renna saman í eitt og erfitt getur verið að muna og meta hvort eitt sumar sé betra en annað.

Sem eindreginn veðuráhugamaður vil ég hafa svona lagað á hreinu enda skrái ég niður veðrið daglega eins og ég hef kominn inn á áður og komið mér upp afskaplega fínu einkunnakerfi til að meta veðurgæði. Það geri ég með því að gefa hverjum degi veðurfarslega einkunn sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, vindi og hita og getur hver dagur samkvæmt því getur fengið einkunn á bilinu 0-8. Þannig get ég gefið hverjum mánuði meðaleinkunn og svo líka hverju sumri einkunn. Þessum veðurskráningum hef ég áður gert skil t.d. sýndi ég og útskýrði hvernig ég skráði sl. janúarmánuð (hér) og svo einnig júlí núna í sumar (hér) sem einmitt fékk hæstu veðureinkunn sem ég hef gefið nokkrum mánuði.
Útfrá þessu veðureinkunnakerfi get ég nú borið saman veðurgæði allra sumra frá árinu 1987 eins og sést á þessu súluriti. Þarna sést að sumarið í sumar fær hæstu einkunn sem ég hef gefið fram að þessu með einkunnina 5,36. Í öðru til þriðja sæti eru svo sumrin 2004 og 2007 með sömu einkunnina 5,13. Lakasta sumar tímabilsins var hinsvegar árið 1989 með 4,23 í einkunn.

Sumur 87-09

 
Að auki hef tekið hér saman mjög stuttaralega lýsingu á öllum sumrum frá árinu 1987. Þetta er kannski ekki alveg tæmandi lýsing en eins og oft áður hjá mér er hér aðallega miðað við Reykjavík enda er það mitt heimapláss. 

Lýsing á sumrum:

1987 Gott sumar en júlí var þó frekar þungbúinn. Ágúst var óvenju sólríkur.
1988 Sumarið byrjaði með mjög umhleypingasömum og sólarlausasta júní frá upphafi mælinga. Júlí stóð sig með ágætum og bauð upp á skemmtilegt þrumuveður í Reykjavík þann 10. júlí
1989 Mjög leiðinlegur júlímánuður eyðilagði sumarið í Reykjavík. Mánuðurinn var sá sólarminnsti frá upphafi mælinga og þar að auki kaldur. Júní og ágúst voru talsvert skárri. Hámarkshiti sumarsins var ekki nema 15,6 gráður.
1990 Sumarið frekar dapurt en þó ágætur kafli seint í júní og fram í júlí.
1991 Júní var sérstaklega sólríkur og á eftir fylgdi heitasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík og voru slegin hitamet víða um land. Í mikilli hitabylgju náði hitinn 23,2 stigum í borginni þann 9. júlí en sá mánuður er hlýjastur allra mánaða í Reykjavík 13,0 gráður. 
1992 Sumarið var ekkert sérstakt og aldrei mjög hlýtt. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna í annars mjög köldum júnímánuði, þar snjóaði fyrir norðan og einnig til fjalla sv-lands.
1993 Ágætt tíðarfar en besta veðrið var í júlí. Þá var mjög bjart og þurrt í Reykjavík en kalt fyrir norðan.
1994 Sumarið var sæmilegt með köldum júnímánuði en júlí var frekar hlýr.
1995 Sumarið ekki gott nema hvað júlí var ágætur. Ágúst var mjög þungbúinn.
1996 Fátt eftirminnilegt þetta sumar. Ágúst var mjög dapur í Reykjavík en góður kafli kom um miðjan júlí.
1997 Sumarið var þurrt og bjart framan af en júlí og ágúst ollu vonbrigðum SV-lands.
1998 Sumarið var gott í heildina. Júnímánuður var bjartur og þurr og var ásamt ágúst sá hlýjasti í mörg ár.
1999 Sumarið var frekar blautt þar til í ágúst, en þá var bjart og hlýtt.
2000 Ágætt sumar með köflum en mjög sólríkt og þurrt var fyrir norðan og austan.
2001 Sumarið var ágætt í heildina þó lítið væri um hlýja daga.
2002 Af sumarmánuðunum var júní að þessu sinni sá hlýjasti, hæst komst þá komst hitinn í 22 stig sem er hitamet fyrir júní. Sumarið þótti ekkert sérstakt en var nokkuð milt.
2003 Júní og ágúst voru hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík enda var sumarið það hlýjasta sem mælst hefur í borginni sem og víða um land. Þó nokkuð rigndi með köflum.
2004 Sumarið var bæði hlýtt og sólríkt. Í ágúst gerði mikla hitabylgju SV-lands þar sem hitinn fór yfir 20 stig í borginni fjóra daga í röð, nýtt hitamet í Reykjavík var þá slegið í Reykjavík 24,8°.
2005 Sumarið var sæmilegt fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí.
2006 Sumarið var þungbúið suðvestanlands framan af en rættist úr því seinni hlutann.
2007 Sumarið var yfirleitt hlýtt og þurrt og mjög gott um mest allt land. Í Reykjavík var júlímánuður sá næst hlýjasti frá upphafi.
2008 Afar sólríkur og þurr júnímanaður en síðan köflóttara, mjög rigningarsamt í lok ágúst. Aftur var slegið hitamet í Reykjavík í hitabylgju undir lok júlí þegar hitinn komst í 25,7 stig.
2009 Mjög gott sumar sunnan og vestanlands og þá sérstaklega júlímánuður sem var sá þurrasti í Reykjavík síðan 1889 og sjálfsagt einn af bestu veðurmánuðum sem komið hafa í Reykjavík.

- - - - 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Gaman væri ef þú gætir einhvern tíma birt svona súlurit yfir einstaka mánuði sumarsins.

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.9.2009 kl. 11:07

2 Smámynd: Loftslag.is

Skemmtilegt graf - en segðu mér, hvert væri gæðamatið ef þú værir bóndi

Loftslag.is, 4.9.2009 kl. 12:50

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ef ég væri bóndi væri gæðamatið það sama. En það væri verra ef ég væri gras.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.9.2009 kl. 13:28

4 Smámynd: Loftslag.is

Loftslag.is, 4.9.2009 kl. 13:50

5 identicon

Þetta er mjög flott. Væri gaman að sjá „trendline“ þ.e. meðaltalslínu. sýnist þetta allt vera á mikilli uppleið.

Óli (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 15:17

6 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Veðurgæði hafa hægt og sígandi verið á uppleið í mörg ár, en botninn var þó sennilega árið 1983 sem var versta sumarið síðan einhverntíma í gamla daga. Ég er ekki svo flottur á því að bjóða upp á „trendline“ en meðalhækkun á ári virðist vera um 0,02 stig.

Súlurit yfir einstaka mánuði gæti orðið frekar snubbótt ef það telur bara 3 súlur (eða 4). Hinsvegar væri hægt að gera súlurit sem tekur fyrir vikutímabil eða 10 daga. Sumarmánuðirnir komu annars þannig út: Júní: 5,1 - Júlí 5,8 - Ágúst 5,2.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.9.2009 kl. 17:20

7 identicon

Nýliðið sumar var nú eiginlega frekar ömurlegt á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Allavega síðari hluti þess, frá miðjum júlí og allur ágúst. En það er svosem auðvitað ágætt að þorri þjóðarinnar sem býr á suðvesturhorninu fái gott sumar.

Bjarki (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 19:19

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já gæðunum var nokkuð misskipt að þessu sinni. Eiginlega hefði verið best á þessu kreppusumri þegar flestir ferðuðust innanlands að dreifa góðviðrinu aðeins betur. Sjálfur ætlaði ég á Austfirðina í sumar en það hreinlega viðraði ekki til þess, hinsvegar átti ég góða daga á Vestfjörðum fyrir tveimur árum.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.9.2009 kl. 21:56

9 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Flott framsetning. Ég átti einmitt samtal við kunningja minn í dag, sem nefndi sumarið 1983 í sambandi við versta sumar sem hann hafði upplifað (í Reykjavík).

Sveinn Atli Gunnarsson, 4.9.2009 kl. 23:41

10 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Er til fyrirmyndar Emil Hannes hvernig þú skráir hjá þér veðrið alla daga og heldur skipulega utan um skýrslur þínar.  Endilega haltu því áfram.  Fáir skrifa hjá sér nú orðið tíðafarslýsingu hvers mánaðar líkt og þú gerir.  Það var vissulega algengara áður fyrr.  Við höfum auðvitað samantektarklausuna í  Veðráttunni fyrir landið í heild, en staðbundnar lýsingar eru fátíðar.  Og einkunargjöfin fyrir hvern dag finnst mér fín, þó svo að svona huglægir kvarðar séu nú ekki hátt skrifaði alls staðar.

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 5.9.2009 kl. 11:12

11 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Takk fyrir það Einar og Svatli. Miðað við hvað ég hef gert þetta lengi þá þarf mikið til að þessar skráningar leggist af hjá mér. Upphaflega ætlaði ég bara að punkta hjá mér veðrið í eitt sumar (1986) en það þróaðist fljótlega í skráningarkerfi sem síðan hefur haldist nánast óbreytt. Skráningarnar eru þó ekki alveg huglægar því ég er með allskonar viðmiðanir, sem skipta á máli í öllum samanburði. Sennilega eru þessar skráningar bara nokkuð merkilegar þó ég segi sjálfur frá en sjálfsagt líka sérviskulegar. En allavega þá hef ég lært heilmikið um veður með þessu athæfi.

Emil Hannes Valgeirsson, 5.9.2009 kl. 12:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband