26.10.2010 | 00:14
30 ára kuldaskeiðinu lauk með snjóflóðinu á Flateyri
Í upphafi árs 1965 kom talsverður hafís að landinu og lá í framhaldinu úti fyrir norðurlandi fram eftir vetri með tilheyrandi kuldum á norðurhelmingi landsins. Þetta var sennilega fyrsta merki um það sem í vændum var því næstu árin fór hafísinn að gerast mun nærgöngulli en tíðkast hafði lengi og við tók kalt tímabil sem stóð yfir meira og minna næstu þrjá áratugina, með smá hléum á milli þó. Á tímabilinu 1965-1995 var meðalhitinn á árunum í Reykjavík 4,2 stig, sem er 0,7 gráðum lægra en 30 árin þar á undan og rúmlega einni gráðu kaldari en meðalhiti síðustu 10 ára. Það munar um minna.
Hámark þessa kuldaskeiðs, sem ég hef áður kallað pínulitlu ísöldina, má segja að hafi verið á árunum 1979-1983 og uppfrá því fór veðurlag eitthvað að mildast. Síðasti virkilega harði veturinn hér á landi var veturinn 1994-95 sem einkenndist af miklum snjóalögum Norðanlands og í einu illviðrinu þann vetur féll snjóflóðið mikla í Súðavík. Veturinn þar áður féll einnig gríðarlega stórt snjóflóð niður í Tungudal skammt frá Ísafjarðarkaupstað sem kostaði eitt mannslíf.
Óhugur í Vestfirðingum haustið 1995Það var engin furða að óhugur væri í Vestfirðingum haustið 1995 þegar stórhríðir byrjuðu af fullum krafti seint í október. Um það fjallaði athyglisverð DV-frétt sem ég klippti út á sínum tíma og birtist daginn fyrir snjóflóðið á Flateyri undir fyrirsögninni: Komandi vetur sker úr um búsetuna. Þar segir Súðvíkingur meðal annars: Þessi vetur sem nú er greinilega genginn í garð, sker úr um hvort hér verður einhver búseta í framtíðinni. Það er óhugur í fólki; það er kvíðið og útlitið ekki björgulegt eins og núna blæs. Síðan er haft eftir íbúa á Flateyri: Menn eru orðnir verulega hvekktir á þessu. Ef til vill er þessi landshluti kominn norður fyrir mörk hins byggilega heims
(Til að lesa fréttina má stækka hana upp með því að smella nokkrum sinnum)
Daginn eftir að fréttin birtist eða um morguninn þann 26. október féll svo hið mannskæða snjóflóð á Flateyri með þeim afleiðingum að 20 manns fórust. Þetta hörmulega snjóflóð var nokkurskonar endurtekning á þeim atburðum sem áttu sér stað í Súðavík í upphafi sama árs. En þó ekki alveg, því ólíkt því sem gerðist eftir Súðavíkurflóðið þá gerði skaplegt veður strax eftir snjóflóðið á Flateyri sem gerði aðstæður bærilegri en annars hefðu orðið. Góð vetrartíð hélt áfram næstu misserin og skemmst er frá því að segja að sú góða veðurtíð hefur haldist meira og minna síðan með nokkrum hléum þó. Það má því segja að 30 ára kuldaskeiðið 19651995 hafi byrjað með hafískomunni í upphafi árs 1965 og endað með dramatískum hætti með snjóflóðinu á Flateyri þann 26. október árið 1995. Enn er blómleg byggð við lýði á Vestfjörðum og ekki lengur talað um að sá landshluti sé kominn norður fyrir mörk hins byggilega heims. Allavega er það varla veðrinu að kenna ef fólk hefur flutt þaðan burt.
Þótt vetrarveðrátta sé hafin á landinu er ekki þar með sagt að langvarandi harðindi og vetrarhörkur séu framundan. Í því sambandi má nefna það sem Einar okkar Sveinbjörnsson nefnir í lokDV greinarinnar að varasamt er að draga ályktanir af einstökumatburðum, eins og kom í ljós með óveðrið í októberlok 1995. Hinsvegar má örugglega líka hafa í huga að tíðarfar síðustu ára er ekki endilega vísbending um tíðarfar næstu ára.
Veðurspá fyrir landið þann 25. október 1995, samkvæmt DV þann 24. október.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.10.2010 | 01:19
Bara Helvetica
Allar leturgerðir hafa sinn karakter. Sum letur eru flippuð eða flúruð og önnur eru fáguð og virðuleg. Sum letur eru framúrstefnuleg á meðan önnur eru forn eða klassísk. Svo eru til letur sem eru svo hógvær að þau falla í fjöldann án þess að nokkur veiti þeim sérstaka athygli. Eitt þeirra er hið stílhreina letur Helvetica en það er svo venjulegt á að líta, að ósjálfrátt segja menn gjarnan bara Helvetica ef það ber á góma. Þó er það eitt dáðasta og mest notaða steinskriftarletur letur sem komið hefur fram.
Helvetica letrið er ættað frá Sviss og nefnt eftir fornu latnesku heiti landsins Confderatio Helvetica. Hönnuður letursins Max Miedingar er að sjálfsögðu svissneskur en letrið kom upphaflega fram undir heitinu Neau Haas Grotesk árið 1957. Stundum er talað um Svissneska skólann í grafískri hönnun en sá stíll einkennist af miklum hreinleika og formfestu og þykir mjög vitsmunalegur. Helvetican féll mjög vel að þessum hreina stíl enda hvert smáatriði þaulhugsað og vandlega frágengið þannig að næstum má tala um fullkomnun í formum.En auðvitað hefur Helvetica sinn karakter. Þetta er steinskriftarletur eins og þau letur eru kölluð sem eru án þverenda en slík letur fóru ekki að vera algeng fyrr en eftir aldamótin 1900. Ef til vill má líta á Helveticu nú orðið sem grunnletur allra steinskriftarletra líkt og Times letrið er á meðal fótaletra. Helvetica er mjög læsilegt letur og er því mikið notað samfelldum texta og þykir hentugt í allskonar smáaletursútskýringar auk misskemmtilegra eyðublaðatexta. Helvetican nýtur sín þó vel í meiri stærðum þar sem hin stílhreina teikning í hverjum staf kemur vel fram. Það er enda ekki að ástæðulausu að Helvetica, og þá sérstaklega Bold útgáfan, er notuð í fjöldamörgum merkjum stórfyrirtækja um allan heim.
Oft hefur notkun Helveticu ekki þótt standa fyrir miklu dirfsku og frumlegheit í grafískri hönnun. Á hippaárunum þótti Helvetican til dæmis alltof stíf og leiðinleg og á níunda áratugnum var hún ekki nógu fríkuð og framúrstefnuleg. Á síðustu 10-15 árum hefur Helvetican hinsvegar fengið einskonar uppreisn æru á sama hátt og eðalhönnun sjötta áratugarins, ekki ósvipað og stólarnir hans Arne Jakobsen.
Til eru nokkur letur sem eru mjög svipuð Helveticu, t.d. Univers og skrifstofuletrið Arial. Ef einhver vill þekkja Helveticu frá þessum letrum og öðrum er ágætt að miða við nokkur atriði
- Hver stafaendi er skorinn beint lárétt eða lóðrétt. Þetta sést vel í bold útgáfunum.
- Skáleggurinn í stóra R er sveigður. (Atriði 1 og 2 eiga einnig við Univers)
- Í tölustafnum 1 myndast rétt horn þar sem litla strikið er.
- Bókstafurinn stóra G er með lóðrétt strik í endann auk lárétta striksins.
- Litla a í light og regular letrinu endar í greinilegu sveigðu skotti.
- - - - - -
Að lokum má svo nefna að Helvetica er meðal örfárra leturheita sem fallbeygjast í íslensku (Helvetica um Helveticu o.s.frv.) og er jafnvel notuð með greini eins og kemur fyrir hér í pistlinum.
LETUR | Breytt 17.10.2010 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.10.2010 | 21:21
Kólnunin mikla í Norður-Atlantshafi
Það er stundum um að gera að vera nógu dramatískur í fyrirsögn. Kannski er ástæða að þessu sinni og kannski ekki. En áður en ég kem að því vil ég nefna tvær furðufréttir sem báðar snúast um meinta dramatíska kólnun sem gæti átt sér stað á næstunni í Evrópu og á hafsvæðinu hér í kring.
Á mbl.is is á þriðjudag birtist frétt sem var síðan fljótlega kippt í burtu og hefur ekki sést þar aftur. Þar kom fram að samkvæmt pólskum vísindamönnum gæti komandi vetur í Evrópu orðið sá kaldasti í heil 1.000 ár vegna þess að Golfstraumurinn væri við það lognast út af. Afleiðingin gæti orðið langvarandi kuldaskeið og allt að því ísaldarástand í Norður-Evrópu. Við nánari skoðun virðist þetta hafa verið hysteríufrétt sem fáir taka undir, ættuð úr erlendum fréttamiðlum.Þessi meinta harðindafrétt hefur sennilega verið afbökuð túlkun á orðum ítalsks eðlisfræðings Dr. Gianluigi Zangari, um að vegna olíumengunarinnar í Mexíkóflóa hefði komið ákveðið hik á sjávarhringrásir þar sem Golfstraumurinn á uppruna sinn sem gætu þýtt verulega röskun á streymi hlýsjávar út á Norður-Atlantshaf. Frétt tengd þessu birtist á Pressunni í síðasta mánuði og varað við að algert hrun gæti orðið á fiskistofnum vegna olíumengunar ásamt því að golfstraumurinn myndi stöðvast. Nokkrum dögum síðar var svo á Pressunni haft eftir íslenskum haffræðingi að þessi frétt væri óttalegt rugl eins og aðrar dómsdagsspár og auk þess erfitt að fá út að olíumengun berist hingað á sama tíma og Golfstraumurinn væri horfinn.
Sjálfsagt er engin ástæða til að óttast að Golfstraumurinn sé að stöðvast. Reyndar hefur norðurhluti Norður-Atlantshafs verið allra hlýjasta móti um nokkurt skeið og ekkert bendir til þess að Golfstraumurinn hafi veikst enda upplifum við nú eindæma hlýindi hér á landi. Hlýindum er líka spáð áfram næstu mánuði og í Reykjavík er góður möguleiki á hlýjasta árinu frá upphafi mælinga.
En hvað?
Fyrir nokkrum vikum sá ég fyrir tilviljun sjávarhitaspá frá Japönsku JAMSTEC stofnuninni (Japan Agency for Marine-Earth-Science and Technology) sem sjá má hér að neðan. Þar kemur fram að þegar líður á veturinn muni taka að kólna verulega á hafsvæðinu suður af Grænlandi og Íslandi. Þetta má sjá á hér á myndinni sem ég setti saman úr þremur spákortum sem gilda þrjá mánuði í senn fyrir komandi vetur. Hvað boðar þetta? Er kannski Golfstraumurinn að gefa sig eftir allt?
Hvað sem er hér á ferðinni þá finnst mér þetta athyglisverð spá, því ef hún gengur eftir gæti það þýtt talsvert bakslag í hitanum hér hjá okkur jafnvel næstu árin því svona kuldafrávik hefur sennilega ekki verið á Íslandsmiðum árum eða áratugum saman. Hvað býr að baki þessari Japönsku sjávarhitaspá er svo spurning. Tengist þetta olíumenguninni í Mexíkóflóa eða er þetta náttúrulegt bakslag, eða tengist þetta jafnvel minnkandi sólvirkni á einhvern hátt?
Kannski er svo bara ekkert að marka þessa langtímaspá og kannski er ég ekki að lesa rétt úr þessu. Mér finnst þetta samt vera ágæt áminning um að hvenær sem er getur komið bakslag í það mikla hlýviðraskeið sem við höfum upplifað hér á slóðum. Sjávarhitinn og heilbrigði Golfstraumsins skiptir miklu máli fyrir okkur því þótt það sé almennt að hlýna í heiminum til langs tíma litið, geta miklar sveiflur orðið á sjávarhita og hitafari á okkar slóðum eins og átti sér í kringum 1970.
Þetta er ágætt að hafa í huga á þessum hlýju októberdögum því hugsanlega erum við að upplifa síðustu góðærisdagana til sjávar og sveita að sinni allavega hvað veðrið varðar.
- - -
Ath. Undirstrikuð orð eru linkar á aðrar síður.
2.10.2010 | 12:36
Stóra sumarhitamyndin
Nú þegar heitasta sumar sem mælst hefur í Reykjavík er að baki er tilvalið að birta heilmikla mynd og dálitla samantekt sem ég hef undanfarið unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum. Þarna er um að ræða grafíska mynd af hitafari allra daga í Reykjavík frá maí til september síðustu 20 ár þ.e. árin 1991-2010. Hver láréttur borði er eitt sumar, ártalið er vinstra megin og meðalhiti sömu mánaða samkvæmt gögnum Veðurstofunnar hægra megin. Að vísu telst maí ekki til sumarmánaða hjá Veðurstofunni en ég hef hann samt með hér. Hver dagur fær sinn lit samkvæmt hitakvarðanum undir myndinni en í mínum veðurskráningum fær hver dagur hitatölu sem ég tel lýsa best hitanum yfir daginn algengt er að sú tala sé 1-2 gráðum undir hámarkshita dagsins. Með svona mósaíkmynd er auðvelt að sjá í fljótu bragði hvernig hitastig hefur þróast hvert sumar og einnig er gott að bera saman hitafar einstakra sumra. Undir myndinni hef ég svo gert lauflétta samantekt.
Lauflétt samantekt um helstu hita- og kuldauppákomur:
Hitabylgjur og hitamet
Tímabilið sem myndin nær til er hefst á hinu eftirminnilega sumri 1991 þegar geysiöflug hitabylgja gekk yfir landið fyrri hlutann í júlí. Sá mánuður reyndist sá hlýjasti frá upphafi í Reykjavík og víðar um land og mörg hitamet slegin. Þessi júlímánuður var eiginlega alveg úr takti við sína samtíð og er í anda bestu sumarmánaða sem við höfum upplifað hin síðari ár og einnig nokkurra mánaða frá hlýviðraskeiðinu um miðja síðustu öld.
Næsti almennilegi hitaatburður varð þann 11. júní 2002 þegar júní-hitametið var slegið í Reykjavík, 22,4 stig og stendur það enn. Auk lofthitans var annars mikið hitamál þessa daga hinir viðsjárverðu Falun Gong liðar sem streymdu til landsins til að hrella Kínaforseta.
Árið 2003 varð ágústmánuður sá hlýjasti sem mælst hafði í Reykjavík, 12,8 stig. Þetta var á sama tíma og mannskæð hitabylgja gekk yfir Evrópu og smitaðist sá hiti að hluta til hingað til lands án þess þó að hægt hafi verið að tala um alvöru hitabylgju hér.
Í ágúst 2004 kom hinsvegar hitabylgja svo um munaði hér á landi og var meðal annars sett nýtt hitamet í Reykjavík, 24,8 stig þann 11. ágúst, en hlýjast varð á Egilsstöðum þar sem hitinn náði rúmum 29 stigum. Mánuðurinn sló þó ekki út meðalhitamet ágústmánaðar í Reykjavík frá fyrra ári því meðalhiti mánaðarins var 12,6 stig sem þó er afar gott.
Hitametið í Reykjavík frá árinu 2004 var svo slegið á ný síðdegis í júlí 2008 þegar hitinn fór í 25,7 stig. Það voru fleiri heitir dagar þarna og þjóðin full bjartsýni og eftirvæntingar enda stutt í Ólympíuleika þar sem handboltastrákarnir ætluðu sér stóra hluti.
Nýliðið sumar reyndist svo vera það heitasta frá upphafi mælinga eins og komið hefur fram. Við fengum heitasta júnímánuð í Reykjavík, 11,4 stig og júlí jafnaði meðalhitametið frá árinu 1991. September stóð sig líka vel en mest munaði um mjög hlýja daga framan af mánuðinum og svo núna í lokin.
Kuldaköst og hret
Eitt mesta kuldakast síðari ára að sumri til var Jónsmessuhretið árið 1992. Það hret sker sig að vísu ekki mikið úr myndinni sem hér fylgir enda náði sólin að hita loftið yfir hádaginn hér í Reykjavík. Hretið var mest afgerandi á Norðurlandi þar sem ullar- og fiðurfénaður fékk illa að kenna á snjókomunni.
Snemma í júní 1997 kom mjög snarpt norðanhret sem má kalla Smáþjóðaleikahretið þar sem glæstir fulltrúar Evrópskra smáþjóða ýmist börðust áfram eða fuku undan norðannepjunni á Laugardalsvellinum. Kaldast var þann 7. júní í Reykjavík þegar hitinn fór vart yfir 4 stig. Sjálfur var ég þá staddur fyrir norðan í orlofshúsi á Illugastöðum þar sem hnoðaður var myndarlegur snjókarl.
Litlu hlýlegra var á Laugardalsvellinum kvöldið 1. júní árið 2000 þegar hinn heimsfrægi Elton John tróð upp og endaði með norðvestan snjóélin beint í fangið. Elton John-hretið er því kannski við hæfi sem nafngift.
20.-25. maí 2006 var mjög kalt á landinu með tilheyrandi snjókomu á Norðurlandi. Þessa daga var þjóðin mjög með hugann við Eurovision og vel mætti kalla þetta Silvíu Nætur-hretið.
Mikil kuldaköst hafa ekki verið áberandi síðsumars en þó er ástæða til að nefna köldu dagana eftir miðjan júlí árið 2009 þegar kartöflugrösin hríðféllu í næturfrosti Þykkvabæ. Kartöflukuldinn má því kannski kalla þetta kuldakast sem annars var algerlega úr takti við veðurlag þessa hlýja mánaðar.
Að lokum má rifja upp sérstaka hitasveiflu sem varð snemma í júlí 1995. Þann 3. júlí komst hitinn í Reykjavík í 20,5 stig og hafði þá ekki farið yfir 20 stig síðan sumarið 1991. Aðeins þremur dögum síðar var komið norðanáhlaup og þá skrái ég dagshita upp á 7 stig í Reykjavík, sem er eini blái dagurinn júlímánuði.
- - - -
Núna þegar þessi pistill er frágengin er kominn 2. október og 13 stiga sumarhiti í borginni. Það stefnir því allt í að þetta verði gulur haustdagur nema hitinn rjúki upp enn meir.
Vísindi og fræði | Breytt 2.11.2018 kl. 23:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)