Stóra sumarhitamyndin

Nú þegar heitasta sumar sem mælst hefur í Reykjavík er að baki er tilvalið að birta heilmikla mynd og dálitla samantekt sem ég hef undanfarið unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum. Þarna er um að ræða grafíska mynd af hitafari allra daga í Reykjavík frá maí til september síðustu 20 ár þ.e. árin 1991-2010. Hver láréttur borði er eitt sumar, ártalið er vinstra megin og meðalhiti sömu mánaða samkvæmt gögnum Veðurstofunnar hægra megin. Að vísu telst maí ekki til sumarmánaða hjá Veðurstofunni en ég hef hann samt með hér. Hver dagur fær sinn lit samkvæmt hitakvarðanum undir myndinni en í mínum veðurskráningum fær hver dagur hitatölu sem ég tel lýsa best hitanum yfir daginn  – algengt er að sú tala sé 1-2 gráðum undir hámarkshita dagsins. Með svona mósaíkmynd er auðvelt að sjá í fljótu bragði hvernig hitastig hefur þróast hvert sumar og einnig er gott að bera saman hitafar einstakra sumra. Undir myndinni hef ég svo gert lauflétta samantekt.

sumarhitar

Lauflétt samantekt um helstu hita- og kuldauppákomur:

Hitabylgjur og hitamet
Tímabilið sem myndin nær til er hefst á hinu eftirminnilega sumri 1991 þegar geysiöflug hitabylgja gekk yfir landið fyrri hlutann í júlí. Sá mánuður reyndist sá hlýjasti frá upphafi í Reykjavík og víðar um land og mörg hitamet slegin. Þessi júlímánuður var eiginlega alveg úr takti við sína samtíð og er í anda bestu sumarmánaða sem við höfum upplifað hin síðari ár og einnig nokkurra mánaða frá hlýviðraskeiðinu um miðja síðustu öld.
Næsti almennilegi hitaatburður varð þann 11. júní 2002 þegar júní-hitametið var slegið í Reykjavík, 22,4 stig og stendur það enn. Auk lofthitans var annars mikið hitamál þessa daga hinir viðsjárverðu Falun Gong liðar sem streymdu til landsins til að hrella Kínaforseta.
Árið 2003 varð ágústmánuður sá hlýjasti sem mælst hafði í Reykjavík, 12,8 stig. Þetta var á sama tíma og mannskæð hitabylgja gekk yfir Evrópu og smitaðist sá hiti að hluta til hingað til lands án þess þó að hægt hafi verið að tala um alvöru hitabylgju hér.
Í ágúst 2004 kom hinsvegar hitabylgja svo um munaði hér á landi og var meðal annars sett nýtt hitamet í Reykjavík, 24,8 stig þann 11. ágúst, en hlýjast varð á Egilsstöðum þar sem hitinn náði rúmum 29 stigum. Mánuðurinn sló þó ekki út meðalhitamet ágústmánaðar í Reykjavík frá fyrra ári því meðalhiti mánaðarins var 12,6 stig sem þó er afar gott.
Hitametið í Reykjavík frá árinu 2004 var svo slegið á ný síðdegis í júlí 2008 þegar hitinn fór í 25,7 stig. Það voru fleiri heitir dagar þarna og þjóðin full bjartsýni og eftirvæntingar enda stutt í Ólympíuleika þar sem handboltastrákarnir ætluðu sér stóra hluti.
Nýliðið sumar reyndist svo vera það heitasta frá upphafi mælinga eins og komið hefur fram. Við fengum heitasta júnímánuð í Reykjavík, 11,4 stig og júlí jafnaði meðalhitametið frá árinu 1991. September stóð sig líka vel en mest munaði um mjög hlýja daga framan af mánuðinum og svo núna í lokin.

Kuldaköst og hret
Eitt mesta kuldakast síðari ára að sumri til var Jónsmessuhretið árið 1992. Það hret sker sig að vísu ekki mikið úr myndinni sem hér fylgir enda náði sólin að hita loftið yfir hádaginn hér í Reykjavík. Hretið var mest afgerandi á Norðurlandi þar sem ullar- og fiðurfénaður fékk illa að kenna á snjókomunni.
Snemma í júní 1997 kom mjög snarpt norðanhret sem má kalla Smáþjóðaleikahretið þar sem glæstir fulltrúar Evrópskra smáþjóða ýmist börðust áfram eða fuku undan norðannepjunni á Laugardalsvellinum. Kaldast var þann 7. júní í Reykjavík þegar hitinn fór vart yfir 4 stig. Sjálfur var ég þá staddur fyrir norðan í orlofshúsi á Illugastöðum þar sem hnoðaður var myndarlegur snjókarl.
Litlu hlýlegra var á Laugardalsvellinum kvöldið 1. júní árið 2000 þegar hinn heimsfrægi Elton John tróð upp og endaði með norðvestan snjóélin beint í fangið. Elton John-hretið er því kannski við hæfi sem nafngift.
20.-25. maí 2006 var mjög kalt á landinu með tilheyrandi snjókomu á Norðurlandi. Þessa daga var þjóðin mjög með hugann við Eurovision og vel mætti kalla þetta Silvíu Nætur-hretið.
Mikil kuldaköst hafa ekki verið áberandi síðsumars en þó er ástæða til að nefna köldu dagana eftir miðjan júlí árið 2009 þegar kartöflugrösin hríðféllu í næturfrosti Þykkvabæ. Kartöflukuldinn má því kannski kalla þetta kuldakast sem annars var algerlega úr takti við veðurlag þessa hlýja mánaðar.

Að lokum má rifja upp sérstaka hitasveiflu sem varð snemma í júlí 1995. Þann 3. júlí komst hitinn í Reykjavík í 20,5 stig og hafði þá ekki farið yfir 20 stig síðan sumarið 1991. Aðeins þremur dögum síðar var komið norðanáhlaup og þá skrái ég dagshita upp á 7 stig í Reykjavík, sem er eini blái dagurinn júlímánuði.

- - - -
Núna þegar þessi pistill er frágengin er kominn 2. október og 13 stiga sumarhiti í borginni. Það stefnir því allt í að þetta verði gulur haustdagur nema hitinn rjúki upp enn meir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er bráðskemmtileg samantekt!

Baldur (IP-tala skráð) 2.10.2010 kl. 23:19

2 identicon

Þetta er mjög skemmtileg framsetning en mikið vill meira.  Hvernig væri að framlengja myndina og fá inn ár eins og 1983 og 1979?  Sumir gætu hrokkið við að sjá svoleiðis.

Haraldur Ólafsson (IP-tala skráð) 20.10.2010 kl. 00:23

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það væri auðvitað áhugavert að framlengja myndina lengra aftur í tímann eða gera sérstaka mynd fyrir 20 ára tímabilið 1971-1990. Mín dagbókargögn sem ég nota ná þó ekki svo langt. En það má finna leiðir til að bjarga því.

Emil Hannes Valgeirsson, 20.10.2010 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband