30.11.2012 | 18:24
Óleyfileg athugasemd
Kristinn Pétursson skrifar í dag bloggfærsluna: Nú verður fjallað opinberlega um jöklastöðu á Íslandi fyrir 2500 árum þar sem hann gerir hlýindi fyrri árþúsunda á íslandi og nágrennis að umtalsefni. Hann talar m.a. um hvað jöklar voru smáir hér á landi fyrir 2.500 árum sem reyndar er vel þekkt staðreynd. Einnig spáir hann í hvernig Grænlandsjökull hafi litið út á hlýrri tímum og kallar eftir grafískri mynd af jöklinum á fyrri tíð og líka af ísnum á norðurpólnum. Í framhaldinu koma svo fram hjá honum klassískar efasemdir um það hvort nokkuð sé að marka mælingar á hitafari jarðar og svo ýmislegt fleira í þeim dúr. Ekki tókst mér að skrifa athugasemd við færslu hans þar sem ég hef ekki leyfi til þess enda er þetta eldheitt málefni og sígild deiluefni hér á blogginu þar sem hver telur sig vita best og skil ég þar sjálfan mig ekki undan. Ég tók skjáskot af athugasemdinni sem ég birti hér að neðan. Þetta er því ekki eiginleg bloggfærsla hjá mér enda er ég að hugsa um að taka þetta út aftur áður en langt um líður.
Athugasemdin var á þessa leið:
"Minni jöklastaða hér fyrr á tímum er vel þekkt meðal vísindamanna og ég veit ekki betur en að þeir séu almennt sammála um ástæður þess að loftslag hafi farið smám saman kólnandi síðustu árþúsund og fram að upphafi 20. aldar.
Grafískar myndir um stærð jökla og ísbreiða aftur í tímann eru mjög háðar ágiskunum. Þó er nokkuð ljóst að Grænlandsjökull hefur haldið flatarmaláli sínu að mestu enda er Grænland eins og skál sem er full af ís. Þegar ís Grænlandsjökuls minnkar þá lækkar í skálinni en flatarmál breytist lítið. Þetta er ólíkt Íslandi sem er meira bungulaga með jöklum ofaná sem eru miklu viðkvæmari fyrir bráðnun."
Fleira mætti gera athugasemdir við í skrifum Kristins en þar skín í gegn sú hugmynd hans og reyndar margra annarra að hlýindin núna séu ekki svo merkileg vegna þess að hlýtt hafi einnig verið áður fyrr og það sem við séum að upplifa núna sé bara náttúruleg sveifla sem mun vonandi ekki ganga til baka. Málið er hinsvegar það að núverandi hlýindi, eins góð og þau eru akkúrat fyrir okkur hér íslandi nú um stundir, eru talin vera aðeins hluti af þeirri hnattrænu hlýnun sem sennilega mun halda áfram langt fram á næstu öld ef ekki lengur. Hlýindin sem voru hér fyrir nokkrum árþúsundum voru af allt öðrum toga en þau sem eru í dag. Þau voru aðallega bundin við norðurhvel og orsökuðust af meiri möndulhalla jarðar sem gerði það að verkum að sólgeislun var meiri að sumarlagi á norðurhveli þannig að ís og jöklar áttu erfiðara uppdráttar en í dag. Þróunin til minni sólgeislunar að sumarlagi mun halda áfram í nokkur þúsund ár til viðbótar eftir því sem jörðin réttir meira úr sér en síðan mun þróunin snúast aftur við.
Hver sem er getur gert hér athugasemdir eins og ávallt á þessari bloggsíðu.
23.11.2012 | 23:54
Skeggtíska endurspeglar tíðarandann
Við lifum á skeggjuðum tímum þar sem ekkert þykir sjálfsagðara en að karlmenn láti andlitshár sín vaxa óskert. Þannig hefur það þó ekki alltaf verið enda er skeggtíska nátengd tíðarandanum hverju sinni rétt eins og önnur tískufyrirbæri. Fyrir nokkrum dögum var skeggfræðingur kynntur til sögunnar í sjónvarpinu en sá hafði skrifað BA-ritgerð um skeggsögu Íslendinga. Náði sú athugun eitthvað aftur í aldir en endaði sirka á hippaárunum kringum 1970 ef ég man rétt. Sjálfsagt mjög athyglisverð rannnsókn.
En skeggsagan endar þó ekki þar og frá árinu 1970 hefur skeggtískan farið heilan hring eða jafnvel tvo, þannig að eiginlega má tala um skeggjaðar og óskeggjaðar kynslóðir eins og ég ætla að reyna að rekja hér. Ég get svo sem upplýst að ég er fæddur árið 1965 sem þýðir að ég varð tvítugur árið 1985. Á þeim árum datt varla nokkrum ungum manni á uppleið í hug að láta sér vaxa skegg enda má segja að ég tilheyri skegglausu kynslóðinni. Á árunum um og upp úr 1980 þótti hjá ungum mönnum það vera beinlínis gamaldags, kallalegt og fúlt að vera með skegg.
Hetjur 9. áratugarins voru heldur ekki með skegg, hvorki pönkararnir né nýrómantísku poppararnir. Eiginlega áttu menn að vera kvenlegir ef eitthvað var in the eighties, með mikið blásið hár upp í loftið í penum skófatnaði og jafnvel málaðir, á sama tíma og konurnar voru með axlapúða til að gerast karlmannlegri. Þetta voru líka tímar framtíðarhyggju enda voru tölvurnar farnar að gera það gott og allt sem var nútímalegt og framsækið þótti jákvætt. Þetta voru líka tímar efnishyggju og þá þótti allt annað en skammarlegt að vera svokallaður uppi.
Ýmsir menn á besta aldri voru þó með skegg á 9. áratugnum en það voru þá leifar frá hárunum um og eftir 1970 þegar mikil skeggtíska var í gangi sem tengdist hippamenningunni. Helst voru það þá hinir rótækari sem létu skegg sitt vaxa og stundum mjög frjálslega. Vinstri menn, verkalýðsleiðtogar, spekingar og svo auðvitað margir popparar voru þarna áberandi skeggjaðir og eru sumir jafnvel enn. Mörg skeggin hafa þó rýrnað mjög með tímanum og eru í dag varla nema svipur hjá sjón eða jafnvel horfin. Hægri menn og Framsóknarmenn áttu sín skegg líka en þar voru yfirvaraskeggin meira í tísku. Þau voru líka góð og gild á diskótímanum en kolféllu út úr myndinni eftir það og fátt hefur verið fráleitara en yfirvaraskegg hjá minni kynslóð og þeim seinni jafnvel líka.
Þegar leið á 9. áratuginn fór þetta smám saman að breytast. Ameríska rapp- og hjólabrettamenningin fór að verða áberandi, og draumaliðið USA í körfubolta sló í gegn. Þá þótti smart að vera með frjálsleg hálfskegg og hárlitlir menn fengu uppreisn æru og máttu raka það sem eftir var á kollinum í stíl við Michael Jordan. Þarna var líka komin heilmikil þreyta gagnvart framtíðarhyggju og skynsemishyggju 9. áratugarins. Nýaldarmenning allskonar hófst með 10. áratugnum og hippatískan var endurunnin með síðum hárum og ýmsum skeggútgáfum að ógleymdu "grönsinu" með Kurt Kóbein í broddi fylkingar. Þetta frjálslega lúkk gekk þó ekki þegar menn ætluðu sér stóra hluti í ört vaxandi fjármálaheimi upp úr aldamótunum. Þar réði snyrtimennskan ríkjum með vel snyrtum andlitum og burstuðum skóm. Tíska og tíðarandi hefur annars oft skipst í tvær fylkingar. Í úthverfum borgarinnar og nágrannsveitarfélögum þróaðist hnakkamenningin sem var mjög mótfallin öllum líkhamshárum neðan hnakka. Til mótvægis voru svo krakkarnir í hundraðogeinum sem tilheyrðu krúttskynslóðinni. Þótt áherslan hafi þar verið á hið barnslega sakleysi létu strákarnir sér þó vaxa það skegg sem í boði var og þótti passa einkar vel við prjónahúfurnar.
Í dag þegar draumaheimar frjálshyggjunnar hafa kollsteypst virðist hið frjálslega útlit hafa tekið völdin með sigri hipsteramenningarinnar. Í stað Arne Jakobsen snúast smartheitin nú um að endurnýta það gamla. "Retró" er málið og Slippfélagshúsið er orðið að hóteli með gamaldags veggfóðrum og Kexverksmiðjan Frón heitir nú KEX Hostel og þar getur varla nokkur vel rakaðaður maður látið sjá sig. Jafnvel menn af minni kynslóð eru farnir að sjást með skegg, man til dæmis eftir einum skólabróðir úr MH sem kannski ætlar að verða formaður Samfylkingarinnar og fleiri mætti nefna. Sjálfur er ég í engum slíkum hugleiðingum en viðurkenni þó að rakvélin er ekki notuð á hverjum degi.
Myndaröðin hér að ofan er tekin af bloggsíðunni Beards of Reykjavik þar sem sjá má mikið samansafn að skegglingum.
Á hinum myndunum má annarsvegar sjá drengjahljómsveitina Duran Duran og hinsvegar mynd sem ég tók af tveimur pólitíkusum af vinstri kantinum á fyrstu vikum búsáhaldabyltingarinnar. Skeggjaður guðfræðiprófessor sýnist mér líka gægjast þarna inn.
Um BA-ritgerð Siggeirs F. Ævarsonar, Upphaf íslenskrar skeggtísku, má lesa nánar hér:
Skeggfræðingur rannsakar skeggsögu Ísland.
Vísindi og fræði | Breytt 24.11.2012 kl. 00:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.11.2012 | 18:23
Útsynningur á vefmyndavél
Hin óstöðuga suðvestanátt með sínum skúrum eða slydduéljum og einstaka hagléljum er ákaflega myndrænt veður, einkum þegar geislar skammdegissólarinnar ná að varpa dulmagnaðri birtu á skýjabakkana. Hér kemur smá sýnishorn af útsynningi dagsins en myndirnar eru skjáskot af vefmyndavél Veðurstofunnar og sýna veðrið í Reykjavík með 15 mínútna fresti þann 15. nóvember frá kl. 12:15 til 14:00.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2012 | 23:45
Hamfaraheimskort
Þó að við hér á Íslandi búum við mikinn fjölbreytileika í náttúruhamförum þá eru þær hamfarir sem betur fer ekki mjög dramatískar á heimsmælivarða. Til að skoða það betur þá hef ég gert hér tilraun til að kortleggja náttúruhamfarir heimsins til að sjá við hverju má búast hér og þar. Útkoman er kortið hér að neðan sem gæti kallast hamfaraheimskort og er í stíl við hamfarkortið af Íslandi sem ég útbjó á sínum tíma. Greinilegt er að sum svæði verða fyrir meira aðkasti en önnur. Í Bandaríkjunum og Suðaustur-Asíu eru til dæmis varla pláss fyrir allar uppákomurnar á meðan önnur svæði eru nánast auð. Það má skipta flestum náttúruhamförum í tvo meginflokka: veðurfarslegar hamfarir og jarðfræðilegar. Fjölmennustu svæði jarðar eru auðvitað viðkvæmari fyrir duttlungum náttúrunnar en þau fámennari og svo skiptir ríkidæmi líka máli því mesta manntjónið verður iðulega í fátækari löndunum á meðan eignatjónið er mest í hinum ríkari löndum. Katastrófur kallast svo það þegar mikið manntjón auk eignatjóns verður í hinum ríkari og þróuðu löndum. En hér er kortið nánari útlistun er svo fyrir neðan.
Nánari útlistun: Eldgos geta valdið miklu tjóni í nánasta umhverfi en þau stærstu geta valdið gríðarlegum hamförum og jafnvel kælt loftslag á allri jörðinni tímabundið. Eldvirkustu svæðin eru flest bundin við flekaskil þar sem úthafsfleki fer undir meginland t.d. allt í kring um Kyrrahafið. Indónesía blandast þarna inn í en er alveg sér á parti þegar kemur að eldvirkni. Í Evrópu er gýs aðallega á Ítalíu auk Íslands. Nokkur eldvirkni er við sigdalinn í Afríku þar sem álfan er að byrja að klofna og svo eru einstaka heitur reitur inná meginflekunum. Við flekaskil þar sem tveir meginlandsflekar koma saman er oft bara um jarðskjálfta að ræða eins og Himalayjafjölllum. Gjörvallur Kyrrahafshringurinn framkallar einnig mikla jarðskjálfta og í þeim stærstu á Kyrrahafi og Indlandshafi er hætt við hamfaraflóðbylgjum í stíl við það sem íbúar Asíu hafa fengið að kynnast í tvígang á þessari öld. Slíkar skjálftaflóðbylgjur verða ekki á Atlantshafinu enda er botn Atlantshafsins að gliðna um hrygginn suður eftir öllu hafinu í frekar rólegu ferli, nema kannski hér á Íslandi þar sem hryggurinn liggur ofansjávar. Á fjöllóttum svæðum geta skriður gert mikinn usla í rigningartíð og þurrkað út heilu þorpin. Af veðurfarslegum fyrirbærum er annars af nógu að taka en þar fá fellibyljirnir í Ameríku mesta athygli, sérstaklega ef þeir nálgast Bandaríkin. Annað og kannski öllu meira fellibyljasvæði er vestast í Kyrrahafinu þar sem lætin skella á löndum Austur-Asíu. Minni hitabeltisstormar eru á víð og dreif sitt hvoru megin miðbaugs og svo þekkjum við vel styrk vetrarstormanna hér á norðanverðu Atlantshafi. Merkilegt er annars að sunnanvert Atlantshaf er alveg laust við fellibylji enda fréttum við ekki af fellibyljum í Argentínu og Brasilíu. Hafísinn merki ég inn hér norður af landi. Hann er þó kannski úr sögunni sem vandamál en þó er aldrei að vita. Hitabylgjur og kuldaköst verða helst á tempruðum svæðum þar sem stutt er bæði í kalt og hlýtt loft. Hinsvegar tekur fólk hitabylgjum fagnandi á kaldari norðlægum slóðum enda verða þær sjaldnast til vandræða þar. Kuldaköstin geta þó teygt sig nokkuð langt suður eftir Asíu að vetralagi og sama má segja um hitabylgjur að sumarlagi. Flóð geta einnig víða valdið usla eins og t.d. í Pakistan, Kína og víðar í Asíu. Bandaríkjamenn, Evrópubúar og Ástralir þurfa einnig að kljást við flóð þegar regnið fer úr böndunum en svo eru þurrkarnir oft öllu verri á sömu slóðum ekki síst þegar uppskeran er í húfi. Á því hafa íbúar austur Afríku oft fengið að kenna en þar er öll afkoma fólksins beinlínis háð hinu hárfína sambandi regns og þurrka. Önnur afleiðing þurrka utan eyðimarka eru svo skógareldarnir sem eiga það til að fara úr böndunum og nálgast íbúðabyggðir, jafnvel heimkynni fræga fólksins í Hollywood. Bandaríkinn eru einnig land skýstrókanna en lítið fréttist af þeim annarstaðar. Fyrir utan jarð- og veðurhamfarir má svo auðvitað nefna engisprettufaraldinn sem getur eyðilagt uppskeruna á stórum landsvæðum í heitu löndunum. Engisprettur falla sennilega í hamfarahópinn sem gæti kallast meindýr, plágur og óargadýr en ég fer ekki nánar út það hér. Ekki fer ég heldur út í þá tegund hamfara sem mannskepnan stendur fyrir sjálf í friði og ófriði. Það kallar á alveg sérstaka kortagerð.
Vísindi og fræði | Breytt 16.11.2012 kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.11.2012 | 23:03
Vindstigin endurskoðuð
Fyrir nokkrum árum var ákveðið að leggja niður gömlu góðu vindstigin en taka upp í staðinn mælieininguna metrar á sekúntu. Þessi skilgreining hefur sjálfsagt ýmsa kosti - er til dæmis nákvæmari en gamla vindstigakerfið. Hitt er annað mál að þegar vindafar ber á góma í daglegu tali þá notar fólk ekki tölur enda hafa fæstir almennilega tilfinningu fyrir því hvað vindur fer hratt í metrum á sekúntu talið. Fólk segir bara að það sé logn, dálítið hvasst eða jafnvel helvíti hvasst og það skilst. Gömlu orðin sem voru tengd vindstigunum gerðu þetta líka að vissu marki, samanber kul, stinningsgola og stormur en voru hinsvegar komin nokkuð til ára sinna og ekki alltaf skiljanleg nútímafólki. Flestum finnst t.d. það vera öfugmæli að rok skuli vera meira en stormur enda þekkja það fæstir þegar sjóinn tekur að rjúka upp í roki. Það fyrirbæri má þó gjarnan sjá t.d. í Kollafirði í mestu veðrunum eins og við höfum fengið að kynnast í norðanáttinni undanfarið.
Til að reyna að bæta eitthvað úr þessu ætla ég að koma hér með tillögu að nýju kerfi til að lýsa vindhraða sem miðast við málvitund nútímafólks. Gömlu heitin og vindhraði í metrum á sekúntu eru í sviga.
0 Blánkalogn ( Logn 00,2 m/s )
1 Logn ( Andvari 0,31,5 m/s )
2 Bongó ( Kul 1,63,3 m/s )
3 Smávindur (Gola 3,45,4 m/s )
4 Dálítill vindur ( Stinningsgola 5,57,9 m/s )
5 Soldið hvasst ( Kaldi 8,010,7 m/s )
6 Leiðindavindur ( Stinningskaldi 10,813,8 m/s )
7 Ansi hvasst ( Allhvasst 13,917,1 m/s )
8 Helvítis rok ( Hvassviðri 17,220,7 m/s )
9 Brjálað rok ( Stormur 20,824,4 m/s )
10 Snarvitlaust rok ( Rok 24,528,4 m/s )
11 Alveg bilað ( Ofsaveður 28,532,6 m/s )
12 Ó-mæ-god! ( Fárviðri > 32,6 m/s )
Dæmigerð norðanáttar-óveðurspá gæti samkvæmt þessu hljómað svona: Ansi hvasst eða helvítis rok af norðri á landinu og jafnvel brjálað rok allra vestast. Hvessir enn meira um kvöldið með norðaustan helvítis- eða jafnvel snarvitlausu roki. Ó-mæ-god í verstu hviðunum.
Með veðurspám í þessum dúr er ég viss um að óveðuspár fari ekki framhjá nokkrum manni.
Vísindi og fræði | Breytt 3.11.2012 kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)