Lífseigur óbrynnishólmi á Hawaii

Hawaii eldgos

Öðru hvoru berast smáfréttir af eldgosinu endalausa á stærstu eyju á Hawaii-eyjaklasans sem hófst í janúar árið 1983 og virðist engan enda ætla að taka nú 30 árum síðar. Þetta er dæmigert dyngjugos sem einkennist af lítilli virkni með þunnfljótandi hraunrennsli niður hlíðar Kilauea sem er í næsta nágrenni risa-elddyngjunnnar Mauna Loa. Virknin hefur verið nokkuð breytileg í gosinu og allur gangur á því hvernig hraunið rennur. Það finnur sér ýmsa nýja farvegi, stundum nær það að seytla alla leið út í sjó en stundum gerir það ekki annað en að fylla upp í nýmyndaðar öskjur uppi á gossvæðinu sjálfu.

Kilauea loftmynd

Á NASA / Earth Observatory-vefnum var á dögunum birt þessi gervitunglamynd sem tekin var 15. maí 2011 og sýnir víðáttumiklar dökkar hraunbreiður í hlíðum Kilauea-fjalls umkringja gróið svæði þar sem finna má eitt hús og einhverja vegi sem enda undir hraunbrúninni. Allt þetta dökka hraun hefur runnið á síðustu árum eða áratugum nema þetta ljósgráa sem er splunkunýtt hraun á hreyfingu og ógnar þarna húsinu eina sem kennt er við Jack Thompson.

Svæðið sem húsið stendur á ber nafnið Royal Gardens og var skipulagt á árunum kringum 1960 í hlíðum Kilauea. Það voru einkum grunlausir Bandaríkjamenn frá meginlandinu sem keyptu sér þarna land og þegar gosið hófst árið 1983 höfðu 75 íbúðarhús risið á svæðinu. Talsverður kraftur var í gosinu í byrjun og fór húsunum ört fækkandi eftir því sem meira hraun rann niður aflíðandi hlíðarnar. Að lokum var hús Jack Tompsons hið eina sem eftir stóð og þar bjó hann áfram umkringdur nýjum hraunum á alla kanta og vonaðist til gæfan yrði honum hliðholl eins og hún hafði verið fram að þessu.
En honum varð ekki að ósk sinni því snemma árs 2012 fóru hraunstraumarnir að gerast æði nærgöngulir og ógna húsinu. Þá var ekki um annað að ræða en að kalla á þyrlur, safna saman mikilvægasta hafurtaskinu og yfirgefa húsið. Það var svo þann 2. mars í fyrra sem húsið brann og hvarf síðan undir hægfara helluhraunið.

Myndirnar hér eru frá síðustu dögum búsetu Jack Tompsons í Royal Gardens. Þær eru teknar úr 7 mínútna myndbandi sem einnig fylgir hér að neðan. Þar leiðir karlinn okkur um svæðið og við fáum að fylgjast með því þegar hann yfirgefur húsið í síðasta sinn. 

Royal Garden myndasyrpa

 

 

- - - -
Sjá nánar:

Last house standing at Royal Gardnes / Nasa Earth Observatory

Hawaiian Volcano Observatory / Kilauea

 


Tunglið séð frá jörðinni og jörðin séð frá tunglinu

Ýmsu má velta fyrir sér þegar kemur að himni og jörð. Hvernig er það til dæmis að vera staddur á tunglinu og horfa til jarðar? Sjáum við jörðina koma upp á tunglinu og setjast aftur eins og tunglið gerir hér á jörðu - og ef svo er, hversu hratt gerist það? Eða er jörðin kannski bara alltaf á sínum stað á tunglhimninum? Þessu fór ég að velta fyrir mér um daginn þegar ég sá nýlegt tunglið lágt á suðvesturhimni. Reyndar þóttist ég vita hvernig þessu væri háttað en hafði þó satt að segja ekki hugsað þessa hluti alveg til enda. Hefst þá bloggfærslan.

Tunglið 12 feb 2013
Tunglið séð frá Jörðu
Eins og við vitum þá gengur tunglið um jörðina. Þó mætti líka segja að jörð og tungl gangi umhverfis hvort annað, en vegna þess hve jörðin er miklu massameiri en tunglið þá hreyfist jörðin mjög lítið miðað við tunglið. Við segjum því að tunglið gangi umhverfis jörðina sem það og gerir á um 29,5 dögum, eða næstum því á einum mánuði. Braut tunglsins er nálægt því að vera á sama fleti og sólkerfið sem þýðir að tunglið ferðast um himininn á svipuðum brautum og sólin.

Almennt séð kemur tunglið upp í austri og sest í vestri, en hversu langt frá þessum höfuðáttum það rís og hnígur hverju sinni fer þó eftir því hvar við erum stödd á jörðinni og hvar við erum stödd í tunglmánuðinum. Hér norður á Íslandi getur tunglið komið upp í suðaustri og rétt náð yfir sjóndeildarhringinn áður en það sest í suðvestri eins og sólin gerir í skammdeginu. En breytingin er hröð og hálfum mánuði síðar rís það í norðaustri, fer hátt á suðurhiminn og sest að lokum í norðvestri eins og sólin gerir á bjartasta tíma ársins. Þróun tunglgöngunnar um himininn er því um 12 sinnum hraðari en sólargangsins. Við miðbaug eru ekki eins miklar sveiflur í tunglgöngunni, ekki frekar en í sólargangi.

Tunglið er auðvitað ekki bara á lofti í myrkri þó að við sjáum það oftast í myrkri. Þegar það er beint á móti sólinni er það fullt, en eftir því sem það nálgast sól frá okkur séð stækkar skuggahlið þess og svo kemur nýtt tungl þegar það byrjar að fjarlægast sólina á ný. Fullt tungl um hávetur kemst alltaf hátt á lofti um miðnætti frá Íslandi séð en fullt tungl um hásumar kemst aldrei nema rétt á loft á suðurhimni, sem er rökrétt því fullt tungl er alltaf beint á móti sól. Nýtt tungl að sumarlagi fylgir hinsvegar sólinn hátt á loft en sést þá ekki mikið vegna birtu, nema jú að það hreinlega gangi fyrir sólina í sólmyrkva. Að sama skapi kemst nýtt tungl að vetrarlagi varla hátt á loft frekar en sólin, enda nýtt tungl ávallt í slagtogi við sólina. Hér á norðurslóðum getur tunglið aldrei verið hátt á norðurhimni, ekki frekar en sólin.

Jörðin séð frá Tunglinu
Skemmst er frá því að segja að ferðalag jarðar á tunglhimni er mun einfaldara en tunglgangan á okkar himni. Ég var áður búinn að nefna að tunglið gengur umhverfis um jörðu á um 29,5 dögum en það góða er að tunglið snýst um sjálft sig á jafn löngum tíma enda löngu búið að samstilla snúning sinn við umferðartímann um jörðu af praktískum þyngdaraflsfræðilegum ástæðum. Þar af leiðir snýr tunglið alltaf sömu hlið að jörðu á meðan fjærhliðin er okkur ævinlega hulin. Það er skuggahlið tunglsins eða „Dark side of the Moon“ eins og sagt er á ensku og allir Pink Floyd aðdáendur kannast við. Sú hlið tunglsins nýtur þó jafn mikillar sólar og sú sem snýr að okkur.

Samstilling umferðartíma tunglsins við eigin snúning leiðir einnig til þess að ef við settumst að á tilteknum stað á tunglinu þá sæjum við jörðina alltaf á sama stað á himninum, þ.e. ef við erum réttu megin. Ef við byggjum hinsvegar á fjærhlið tunglsins sæjum við aldrei jörðina nema með því að leggjast í ferðalag. Þeir sem byggju þarna á jaðrinum upplifðu bara hálfa jörð sem væri hvorki að koma upp né setjast. Kannski þó ekki alveg því eitthvað hnik er vegna lítilsháttar halla tunglbrautarinnar. Að horfa á jörðina frá tunglinu þarf þó ekki að vera tilbreytingalaust því ólíkt því sem við upplifum með tunglið á jörðinni, þá sjáum við jörðina snúast, séð frá á tunglinu. Eina stundina blasir því Afríka við tunglbúum en nokkrum tímum síðar kemur Ameríka í ljós og svo framvegis svo ekki sé nú talað um veðurkerfin með sitt síbreytilega skýjafar.

Kvartilaskipti eru á jarðkúlunni eins og með tunglið hjá okkur en eru öfug í tíma, þ.e. jörð er vaxandi á tunglinu þegar tungl er minnkandi hjá okkur. Full jörð séð frá tunglinu er þegar sólin er í gagnstöðu við jörð, þ.e. þegar tunglið er á milli jarðar og sólar og ný jörð væri þá þegar jörðin er á milli tungls og sólar. Eins og með tunglið hjá okkur þá tekur þessi sveifla um einn mánuð eða þann tíma sem það tekur tunglið að fara í kringum jörðina. Hver sólarhringur á tunglinu er að sama skapi um einn mánuður sem þýðir að sólin skín í 14-15 jarðdaga og nóttin er aðrar 14-15 jarðnætur. Sólin ferðast því löturhægt um himininn á tunglinu en er ekki föst á sínum stað eins og jörðin. Stjörnurnar hreifast svo auðvitað líka á tunglhimni eins og sólin.
Dagsbirtan á tunglinu hlýtur að vera sérstök fyrir okkur jarðarbúa. Á tunglinu er enginn lofthjúpur og því enginn himinblámi. Þrátt fyrir flennibirtu á sólbökuðu tungli er himinninn bara svartur eins og hann er í raun. Sólin ætti því að sjást eins og hver önnur skínandi ljósapera í myrkvuðu tómarúmi. Þegar sólin sest á tunglinu ættu stjörnurnar að sjást vel, ekki síst á þeirri hlið sem jarðarljóss gætir ekki. Þá eru menn svo sannarlega á skuggahlið tunglsins.
- - - -

Best að ljúka þessu svona. Kannski er ekki útilokað að eitthvað hafi hringsnúist í þessari upptalningu og ef einhver veit til þess, má alveg láta vita.

Jorðin frá Tunglinu

Jörðin séð frá tunglinu. Myndin er tekin af japanska Kaguya geimfarinu sem skotið var á loft árið 2007.

Efri myndin af tunglinu er tekin frá Víðimelnum 12. febrúar 2013,

 


Gamla Nýlistin (Art Nouveau)

SaraBernhÞað er oftast mikil skammsýni að kenni eitthvað við nýjungar. Art Nouveau upp á frönsku er þó heitið á miklu tískufyrirbæri sem tröllreið lista- og hönnunarheiminum nálægt aldamótunum 1900. Annað heiti á fyrirbærinu, Jugendstil upp á þýsku er líka mikið notað og útfrá því íslenska þýðingin: Ungstíll. Þessi stíll náði yfir öll svið hönnunar allt frá stærstu byggingum niður í fíngerðustu skartgripi en var líka mjög áberandi í öllu myndmáli sem og í bókahönnun og leturgerðum. Sem listastefna vó Art Nouveau kannski ekki þungt en hafði þó greinileg áhrif á listamenn síns tíma. Áhrifamesti fulltrúi stílsins og eiginlegur upphafsmaður er tékkneski listamaðurinn Alphonse Mucha sem sló í gegn í París með glæsilegu leikhússplakati með Söru Bernhards árið 1895. Spænski arkitektinn Antóni Gaudi sem teiknaði skrítnu húsin og hálfbyggðu kirkjuna í Barcelóna er einnig verðugur fulltrúi.

Art Nouveau er fjarri því að vera unglegur eða nútímalegur stíll í dag, enda ber hann glögglega með sér horfinn tíðaranda gömlu daganna. Líta má á stílinn sem mótvægi við hinn stífa og upphafna Nýklassíska stíl sem sótti fyrirmyndir sínar alla leið aftur til Grikkja og Rómverja. Með Art Nouveau voru það hin frjálsu form náttúrunnar sem gengið var útfrá, fegurðin var sótt blómaskrúð og vafningsjurtir allskonar og helst mátti ekkert vera beint eða hornrétt - hvað þá í ströngum hlutföllum. Að ýmsu leyti má því líkja þessu við blómaskeið '68 kynslóðarinnar sem einnig var uppreisn gegn hinu stranga og siðaða.

Art Nouveau er í raun rómantískur stíll og má segja að hann sé nokkuð kvenlegur enda kvenfígúrur og þokkagyðjur vinsælt myndefni. Þær eru þá gjarnan sýndar svífandi um í blómaskrúði dreymnar á svip þar sem einhver forneskja svífur yfir vötnum. Þetta voru líka tímar þegar hið dularfulla var mikils metið með tilheyrandi spíritisma og handanheimum. Í dag tengist svoleiðis því að vera nýaldarsinnaður sem er líka viss tenging við nýja tíma.

En hvar sem líður forneskjulegum tilvísunum þá var Art Nouveau stíllinn á sínum tíma nútímalegur að yfirbragði og léttleikandi. Evrópumenn voru á þessum tímum að uppgötva framandi menningarheima þar sem hægt var að sækja í nýstárlegt myndmál og skraut. Japönsk grafíklist hafði þarna sitt að segja en Japönsk list einkenndist að fagurlega dregnum línuteikningum sem er svo einkennandi í Art Nouveau stílnum.

ArtNouveau sýnishorn
Art Nouveau tímabilið stóð ekki lengi. Kannski má segja að það hafi sokkið með Titanic ásamt svo mörgu öðru sem telst til lystisemda gömlu dagana. Í Bandaríkjunum þróaðist þó Art Deco stíllinn sem bauð upp á nýstárlegan tignarleika sem naut sín vel í nýju skýjakljúfunum en í Evrópu fóru í hönd viðsjárverðari tímar þar sem blásið var til byltinga og stríðsátaka. Í þeim tíðaranda var lítið pláss fyrir fínlegheit og annað dúllerí. Sumir vildu þá fara alla leið og gerilsneyða umhverfið af öllu skrauti. Kannski mætti reyna að rekja eitthvað að því síðar.


Þrálátar austanáttir skrásettar

Nú hef ég í minni eigin heimilisveðurstofu farið yfir veðurfar nýliðins janúarmánaðar og reyndist hann vera sá hlýjasti síðan 1987 en það var einmitt fyrsti janúarinn sem ég skráði í Veðurdagbókina. Samkvæmt mínum viðmiðunum voru 20 hlýir dagar umfram kalda árið 1987 en nú í ár voru þeir 15 talsins, sem þó er mjög gott.

En einna athyglisverðast við veðurfar undanfarna tvo mánuði er hvað austanáttin hefur skorað hátt í vindáttasamanburðinum og jafnvel verið einráð dögum saman.
Áður en ég kem að því er mynd hér að neðan sem sýnir hvernig mánaðarleg vindáttatíðni hefur verið að meðaltali þessa mánuði, tíu árin á undan hér í Reykjavík, miðað við mínar skráningar. Tölurnar eru fengnar með ákveðnum hætti og byggjast bæði á tíðni vindátta og vindstyrk. Samkvæmt því er austanáttin þarna með meðalgildið 17, sunnan og suðaustan eru báðar með 11 og svo framvegis. Vestan- og norðvestanvindar hafa lægsta gildið og norðanáttin er frekar slök. Samanlagt gildi vindstyrks er 64 sem er eðlilegt því ef vindur væri í meðallagi í heilan mánuð kæmi út tala sem er tvöfalt hærri en fjöldi daga mánaðarins.
Vindáttir Des+Jan

En þá að óvenjulegheitunum. Vindrósirnar hér að neðan sýna hvernig austanáttin hefur algerlega haft yfirhöndina síðustu tvo mánuði. Í desember komust vindáttir frá vestri til suðurs ekki einu sinni á blað en austanáttin er með gildið 46 af 67 sem er heildarvindstyrkur mánaðarins. Talan 46 er reyndar hæsta talan sem vindátt einstaka mánaðar hefur fengið hjá mér frá upphafi skráninga samkvæmt minni tölfræði. Í janúar er austanáttin með töluna 36 en nánast ekkert blæs úr áttunum frá suðvestri til norðurs nema einn hægviðrisdag sem ég hef úrskurðað sem vestanátt.

Vindáttir Des2012+Jan2013
Reyndar er það svo að vindur er stundum mjög breytilegur innan dagsins og því ekki alltaf auðvelt að úthluta dögum sérstakri vindátt. Ég tek einnig fram að ég skrái einungis veðrið yfir daginn, en ekki kvöld- og næturveðrið. Það sem ég hef til grundvallar eru vindhraða- og vindáttalínurit frá veðurstofunni sem birtast á vedur.is, samanber þetta línurit sem sýnir vel austanáttina um vikuskeið undir lok janúar.

VÍ vindattalínurit

Þessar tíðu austanáttir hafa skilað sér í nokkuð hagstæðu veðri hér Suðvestanlands. Það hefur t.d. varla sést snjór í höfuðborginni en stundum hefur vindurinn reyndar verið nokkuð ágengur inn á milli. Kannski er einn fylgisfiskurinn sá að meira hefur fallið á silfurborðbúnað en venjulega og hef ég reyndar heyrt húsmæður hér í Vesturbænum kvarta yfir því. Í austanáttum blæs vindur frá jarðhitavirkjunum á Hengilssvæðinu til Reykjavíkur en það væri athugandi að gera einhvertíma almennilegan samanburð þessu silfuráfalli með tilliti til vindátta.

En nú er kominn nýr mánuður og samkvæmt veðurspám virðist meiri fjölbreytni vera framundan í vindáttum með meira af norðlægu og Amerísk-ættuðu vetrarlofti á kostnað hins Evrópska. Í bland við annað gæti útsynningurinn því látið á sér kræla með sínum klassíska éljagangi hér suðvestanlands.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband