Um hæstu fjöll Norðurlanda

Öræfajökull

Það er auðvitað alveg bráðnauðsynlegt að hafa á hreinu hvaða fjall er hæst í hverju landi og ekki síður hvort það fjall sé hærra en hæsta fjallið í næsta landi. Yfirleitt er slíkur samanburður ekki erfiður eins og til dæmis þegar kemur að hæsta fjalli á Norðurlöndunum sem er óumdeilanlega í Noregi. Ja … nema Grænland sé talið með Norðurlöndum þótt það sé í Ameríku. Málið vandast þegar kemur að samanburði á hæsta fjalli Íslands og hæsta fjalli Svíþjóðar, Kebnekaise, en það fjall hefur einmitt verið í fréttunum vegna flugvélar sem flogið var á það. Samanburður á hátindum Norðurlanda kemur hér:

GaldhöppingenNoregur. Hæsta fjall Noregs og þar með Norðurlanda, ef við teljum Grænland ekki með, er Galdhöpiggen, 2.469 metrar. Fjallið er í miðju Jötunheimahálendinu þar sem norsku fjöllin er hæst og mest. Næst hæsta fjallið er Glittertind sem einu sinni var talið það hæsta, en vegna snjóbráðnunar hefur það lækkað dálítið og er nú talið 2.464 metrar. Hlýnandi loftslag mun þó ekki breyta neinu fyrir 
Galdhöpiggen því hæsti tindur þess stendur bjargfastur upp úr jökli.

Ísland. Eins og við vitum þá er Hvannadalshnúkur hæsti tindur Íslands. Talan 2.119 metrar hefur ætíð verið greypt í huga okkar sem lukum skólagöngu á síðustu öld. En svo var farið að mæla með nýjustu tækni og ný hæð tilkynnt með viðhöfn: 2.110 metrar (nákvæm mæling 2.109,6). Hnjúkurinn hafði því skroppið saman um 9 metra og það sem verra var, hæðin komin niður fyrir hæsta fjall Svíþjóðar. Þarna var ekki bara um að kenna nýjum mæliaðferðum því toppur Hvannadalshnúks er ístoppur og þar með breytilegur á hæð en fer lækkandi til lengri tíma litið nema loftslag fari kólnandi á ný. Væntanlega er þó ekki langt niður á fast og ekki ástæða til að óttast að hann lækki niður úr öllu valdi.

KebneakaiseSvíþjóð. Hæsta fjallið, Kebnekaise er í norðurhluta Svíþjóðar nálægt landamærunum við Noreg. Það er yfirleitt sagt vera 2.111 metrar á hæð og þar með 1 metra hærra en Hvannadalshnúkur. En nú er það svo að toppur Kebnekaise er einnig gerður af ís sem þýðir að hæðin er ekki endanleg. Og viti menn, eftir endurmælingu kemur í ljós að vegna hlýnunnar og minnkandi snjóalaga er hæð fjallsins ekki nema 2.106 metrar þannig að Hvannadalshnúkur hefur aftur vinninginn.

HaltiFinnland er frægara fyrir ótal vötn frekar en ótal fjöll, en þau eru varla að finna nema allra nyrst. Landamæri Noregs og Finnlands liggja þannig að mjór angi sem tilheyrir Finnlandi teygir sig til norðvesturs inn í norska fjallgarðinn en þar er einmitt hæsta fjall Finnlands. Nefnist það Halti og er 1.365 metrar. Reyndar er þessi hæsti punktur fjallsins Noregsmegin við landamærin en hæsti punktur fjallsins sem tilheyrir Finnlandi er nokkru lægri eða 1.324 metrar sem er því opinberlega hæsti punktur Finnlands.

Slættartindur

Færeyjar eru mjög hálendar og þar eru fjöll eins og há og plássið leyfir. Það hæsta er Slættartindur á Norðurhluta Austureyjar 882 metrar og er hæðin því í stíl við Esjuna en líkist meir Skarðsheiði í útliti með sínum hvassa tindi. Meira hef ég ekki um málið að segja.



MøllehøjDanmörk á engin fjöll en þar eru þó ýmsar hæðir sem bungast upp yfir 100 metrana. Mjög litlu munar á allra hæstu hæðunum á Jótlandi suður af Himmelbjerget. Hæsti náttúrulegi punktur landsins samkvæmt nýjustu og nákvæmustu mælingum er nú talinn vera Møllehøj, 170,86 metrar, sem liggur rétt við Ejer Bavnehøj 170,35 metrar. Yding Skovhöj er á sömu slóðum og er aðeins hærri eða 172,54 metrar ef talin er forn víkingahaugur sem þar er. Um þetta fjallaði ég nýlega í sérstökum pistli: Um hæstu hæðir Danmerkur.

GunnbjarnarfjallGrænland. Það er eiginlega ekki hægt annað en að minnast á okkar næsta nágranna enda eru hæstu fjöll Grænlands alvöru fjöll. Gunnbjarnarfjall nefnist það hæsta og er 3.694 metrar á hæð (3.700 metrar skv. eldri mælingum). Það er eiginlega í næsta nágrenni við Ísland, eða beint norðvestur af Hornbjargi. Toppur Gunnbjarnarfjalls rís upp úr jökli við austurströndina og er um leið hæsti tindur norðan heimskautsbaugs og er nefnt eftir Gunnbirni Úlfssyni sem fyrstur norrænna manna villtist til Grænlands. Þetta svæði á Grænlandi er jarðfræðilega skylt Íslandi því þarna eru fjöllin gerð úr basalthraunlögum eins og á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi og einnig Færeyjum, enda tengist þetta allt heita reitnum okkar og opnun Atlantshafsins á sínum tíma.

Hin mikla ísbreiða Grænlands er að meðaltali í um 2.100 metra hæð. Hæsta bunga jökulsins hefur hinsvegar mælst 3.290 metrar en sú tala er auðvitað breytingum háð. Það er ansi langt niður á fast á Grænlandsjökli því þykkt jökulsins er á við hæðina sem þýðir að láglendissvæði eða jafnvel innhaf yrði eftir ef jökullinn færi. Slíkt er ekkert að fara að gerast á næstunni og hefur ekki gerst í hundruð þúsundir ára að minnsta kosti.

Líkur hér umfjöllun um fjöll að þessu sinni.

- - - -

Heimildir eru aðallega af Wíkipedíunni.

Ljósmyndina af Öræfajökli tók ég nálægt Krikjubæjarklaustri í ágúst 2006


Heimsóknafjöldi úr böndunum

Þetta er dálítið sjálfhverfur pistill að þessu sinni. En nú eftir 462 bloggfærslur frá því í september 2007 hef ég loksins náð þeim áfanga að gestafjöldinn er kominn yfir 100 þúsund. Þetta eru nú svo sem engin ósköp því margir hafa náð þessari tölu á mun skemmri tíma og sumir löngu komnir yfir milljónina. Reyndar átti ég ekki von á að ná hundraðasta þúsundinu fyrr en eftir næstu mánaðarmót og var ætlunin að skrifa einhvern háfleygan pistil þegar að því kæmi.

Síðasta miðvikudag, þann 21. mars gerðust hinsvegar þau ósköp að heimsóknafjöldinn á bloggsíðu mína fór algerlega úr böndunum af óútskýrðum ástæðum eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti og heimsóknatölfræði. Þennan dag var þó ekkert nýtt og krassandi efni á síðunni og átti ég því engan veginn von á yfir 750 gestum svona upp úr þurru. Þetta er líka það langmesta sem ég hef séð á einu degi. Annað merkilegt við þennan gestagang var að heimsóknir virtust nánast allar hafa komið frá sömu IP-tölunni, sem gæti reyndar þýtt að þetta hafi bara verið kerfisvilla. Eða þá að bloggsíðan hafi fengið einhverja heilmikla fjöldadreifingu á miðlægu tölvukerfi sem notar eina IP-tölu. Ég þekki þetta þó ekki vel. Heimsóknum fór svo að linna um kvöldið og voru komnar í eðlilegt horf fyrir miðnætti.

En nú er ég orðinn 100 þúsund kall og það heldur fyrr en ég átti von á. Bloggskrifin hafa undanfarið verið í þeim fasa að ég skrifa einn pistil á viku en ekki tvo eins og löngum áður. Pistlarnir eru iðulega óháðir málefnum líðandi stundar og ekki tengdir fréttum. En þetta er bara aukapistill – vikulegi pistillinn er langt kominn og mun fjalla um . . .

 

Heimsóknasúlur


STÓRSTJÖRNUR Á SUÐURHIMNI

Það hafa ekki gefist mörg tækifæri að undanförnu til að dást almennilega að stjörnuhimninum hér í Reykjavík. Föstudagskvöldið 4. mars brá hinsvegar svo við að stjörnur himins skinu sínu skærasta í bland við norðurljósin eins og þær stefna í að gera kvöldið þegar þetta er ritað.

Uppröðun fastastjarnanna utan sólkerfisins má segja að sé algerlega kaótískt nema hvað þéttleikinn eykst dálítið eftir því sem við horfum meira í plani við vetrarbrautina en ekki þversum út úr henni. Af hreinni tilviljun getur kaótísk uppröðun þó stöku sinnum myndað eitthvað sem er nokkuð reglulegt og beint. Það getur til dæmis átt við nokkrar stjörnur sem tilheyra Óríon-merkinu sem er á suðurhimni frá Íslandi séð og sést á ljósmyndinni sem ég tók áðurefnt föstudagskvöld. En það er ekki bara uppröðunin sem er athyglisverð því stjörnurnar þarna eru aldeilis ekki bara einhver smástirni. Nánar um það hér að neðan þar sem ég hef soðið saman upplýsingum úr ýmsum áttum.

Orion 4.mars 2012
Stjörnurnar sem raða sér svo smekklega þrjár saman í röð hafa verið nefndar Fjósakonurnar á Íslensku. Þær eru miðhluti stjörnumerkisins Óríón eða Veiðimannsins og marka beltið um hann miðjan. Þetta stjörnumerki hefur frá fornu fari verið eitt aðalmerkið á himni enda staðsett nálægt miðbaug og sést því á báðum jarðarhvelum. Þessar þrjár stjörnur eru allar feiknastórar og fjarlægar. Sú í miðjunni er þeirra svakalegust og nefnist Alnilam. Hún er í 1340 ljósára fjarlægð og birtumagnið er 375 þúsund meira en okkar sólar takk fyrir. Hinar tvær eru Alnitak í 800 ljósára fjarlægð og fjölstirnið Mintaka í um 915 ljósára fjarlægð.

VeiðimaðurinnTvær stjörnur Betelgás og Rígel gera stjörnumerkið mjög auðþekkjanlegt enda liggja þær þvert á Fjósakonurnar (eða Óríonbeltið) og nokkurn vegin jafn langt frá því frá okkur séð. Báðar eru þær miklar að vöxtum og flokkast sem reginrisar eins og beltisstjörnurnar en eru heldur nálægari og meðal skærustu stjarna himinsins.

Betelgás er sú efri og markar hægri öxl veiðimannsins (eða þá vinstri frá okkur séð). Stjarnan er risastór og orðin rauð af elli enda má búast við að hún endi sína lífdaga þá og þegar með mikilli súpernóvu-sprengingu. Hún gæti raunar þegar verið sprungin án þess að vitum af en þó er kannski líklegra að milljónir ára sé í þann atburð. Ljósmagnið af þeirri sprengingu gæti verið álíka fyrir okkur og birta tunglsins og stæði atburðurinn yfir í nokkur ár. Stærð og fjarlægð stjörnunar virðist eitthvað á reiki en 400-650 ljósár eru gjarnan nefnd. Stærðin ræðst af fjarlægðinni sem er óviss en ef Betelgás væri í miðju sólkerfisins næði hún samt örugglega út fyrir sporbaug Jarðar og jafnvel Mars. Meira að segja hefur verið nefnt að hún gæti náð allt að sporbaug Júpiters. Já já, þannig er nú það.

Rígel er bjartasta stjarna stjörnumerkisins og það 5. bjartasta á stjörnuhimninum öllum. Hér er enn einn risastjarnan á ferð þótt hún jafnist ekki á við Betelgás í stærð. Rígel markar vinstra hné veiðimannsins og er blár risi en það þýðir að hún enn á unglingsaldri og á framtíðina fyrir sér. Fjarlægðin er um 860 ljósár og skín hún 50-60 þúsund sinnum skærar en sólin á sýnilega ljóssviðinu og næði út fyrir braut Merkúrs.

Sverð Óríons er hópur stjarna og stjörnuþoka sem liggur neðan við „beltið“. Þarna má finna Sverðþokuna frægu M42 sem er sýnileg með berum augum og einnig Riddaraþokuna með sitt hestshöfuð.
Fleiri stórstjörnur mætti nefna eins og Bellatrix - vinstri öxlin og Saiph - hægri fótur veiðimannsins.

Síríus er ekki hluti af Óríón-merkinu en það er sjálfsagt að nefna hana líka því hún er auðfundinn með því að framlengja línu niður til vinstri frá Fjósakonunum, þ.e. þegar hún sést á annað borð. Síríus er bjartasta fastastjarnan á gjörvöllum stjörnuhimninum en hún tilheyrir í raun suðurhveli og sést því hér aldrei nema lágt á lofti í suðri. Síríus er stundum kölluð hundastjarnan en sú nafngift er ævaforn og hefur ekkert með hann Jörund að gera, annað en að hann ríkti á hundadögum þeim sem hefjast ár hver þegar Grikkir sjá Síríus koma upp seint í júlí. Hér á landi sést Síríus hinsvegar ekki nema um vetrartímann. Síríus er heldur stærri en sólin en alls enginn stórstjarna eins og aðrar sem ég hef nefnt. Hin mikla birta stjörnunar skýrist af nálægðinni, en fjarlægðin er „ekki nema“ um 8,6 ljósár frá jörðu eða bara helmingi fjær nálægustu fastastjörnunum Proxima Century og Alfa Century A og B.

- - - -
Það má auðvitað endalaust skrifa um stjörnur enda eru þær endalaust margar. Stjörnufræðivefurinn sinnir því ágætlega og þekkja til mála mun betur en ég, enda fæ ég sumar upplýsingar þaðan ásamt af Vísindavefnum. Stundum er eitthvað misræmi þegar kemur að tölum en hvað sem er rétt þá fæ ég flestar tölur sem ég nefni héðan: http://www.bitacoradegalileo.com/en/2011/07/19/orion-the-cathedral-of-the-sky/


Útsynningur á gervitunglamynd

Ég get ekki stillt mig um að birta þessa gervitunglamynd frá því í gær 8. mars sem sýnir éljaloftið sem streymir hingað frá köldu svæðunum í vestri. Ísland er til hægri á myndinni, að mestu í skýjaþykkni, en vel sést í suðurhluta Grænlands. Ískalt heimskautaloftið blæs suður frá ísjaðrinum vestan Grænlands og síðan í fallegum boga suður fyrir og dreifir úr sér og berst með suðvestanáttinni hingað. Það má líka greina lægðarmiðju í éljaloftinu milli Íslands og Grænlands sem á sína sök á þessu öllu saman. Það má vel ímynda sér að mikill vindstrengur sé við suðurodda Grænlands sem éljaböndin raða sér eftir. Vindurinn sem blæs frá ísbrúninni af miklum móð þarna vestanmegin hlýtur að auka útbreiðslu íssins vestan Grænlands auk þess sem nýmyndum íss hlýtur að vera talsverð. 

Éljaloftið myndast þarna eins og endranær þegar kalda loftið berst yfir hlýrri sjó, þannig að neðstu loftlögin hitna og loftið gerist æði óstöðugt. Fer ekki nánar út í svoleiðis en bloggveðurfræðingarnir okkar, þeir Einar og Trausti eru báðir með mjög svo fræðilega pistla um ástand mála.

Útsynningur 8. mars 2012

Myndin er skjáskot af vefsíðu NASA - Arctic Mosaic. Þetta er hluti stórrar myndar af Norður-Heimskautasvæðunum sem uppfærist smám saman á hverjum degi.

Slóðin er: http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic

 


Hásæti Satans í Berlín

Um daginn var sýndur tónleikaþáttur með þungarokkshljómveitinni Iron Maiden í Sjónvarpinu. Þegar sveitin hafði tekið sitt þekktasta númer, 666 - the Number of the beast fannst mér komið gott að sinni, enda enginn sérstakur þungarokksaðdáandi. Eftir smá flakk á milli stöðva staðnæmdist ég við ansi athyglisverðan, en þó mjög undarlegan fræðsluþátt á Ómega sem ég hef eitthvað séð af áður á sömu stöð en þar er fjallað um þau myrkraöfl sem óðum eru að ná tökum á Evrópu með ófyrirséðum afleiðingum. Já það var eiginlega bara gefið í skyn að Satan sjálfur væri að leggja undir sig álfuna án þess að íbúarnir áttuðu sig á alvarleika málsins og lýsti sér meðal annars í gyðingahatri Evrópubúa ásamt undirgefni gagnvart múslimum.

EvrupeningurÞað er erfitt að rekja í stuttu máli allt það sem kom fram í þættinum en það má reyna. Fyrst skal nefna hina nýju táknmynd Evrópu sem sýnir Evrópumærina ríðandi á bola. Sú táknmynd kemur meðal annars fram í evrupeningum sumra landa og ekki síst sem skúlptúrverk fyrir framan einhverja af byggingum Evrópusambandsins í Brussel. Þarna er vísað í fornar sagnir um Gríska himnaguðinn Seif sem brá sér gervi bola, narraði Evrópu á bak sér, hljóp með hana út á haf og nauðgaði henni áður en hann afhúpaði hver hann væri í raun. Átti svo með henni þrjú börn.

Hásæti SatansPergamon-altarið
Hið alvarlegasta af öllu alvarlegu er, samkvæmt því sem fram kom í þættinum á Omega, hið alræmda Pergamon altari sem staðsett er í samnefndu safni í Berlín. Þetta er talsvert mannvirki sem Hellenar reistu á vesturhluta Tyrklands á 2. öld fyrir Krist, sennilega til heiðurs guðunum og þá ekki síst Seifi sjálfum, höfuðguði Grikkja.

Samkvæmt sjónvarpsþættinum er tengsl þessa mannvirkis við myrkraöflin alveg ljós útfrá því sem fram kemur í Opinberunarbók Jóhannesar: „Engli safnaðarins í Pergamos skaltu rita: Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og beitta: Ég veit að þú býrð þar sem hásæti Satans er.
Pergamon hefur ekki verið talinn góður staður fyrir gyðinga og með krókaleiðum er hægt að finna út að Seifur er í raun sá sem múslimar tilbiðja í raun og veru, eða tunglguðinn. Þessi tunglguð er Satan sjálfur sem hefur bæði horn og klaufir eins og við vitum. Hornin hafa sama form og mánasigðin sem er einmitt tákn múslima.

Seint á 19. öld hóf Þýskur fornleifafræðingur rannsóknir á rústum þessa altaris og fór svo að það var flutt til Þýskalands stein fyrir stein og endurbyggt. Fyrst árið 1901 og síðar í nýju safni sem opnaði í Berlín árið 1930. Ekki þarf að spyrja að afleiðingunum því upp úr því hófst uppgangur Nasismans í Þýskalandi með öllu því sem því fylgdi. Hitler hélt mikið upp á musterið og notaði það sem fyrirmynd af sínum eigin hástalli í Nurnberg þar sem hann hélt miklar vakningarsamkomur. Í stríðinu var Pergmaon altarið tekið niður og varið en það féll síðan í hendur Rússa við fall Berlínar. Það var endurreist í Leningrad með öllum þeim illu öflum sem því fylgir en var svo flutt aftur til Austur-Berlínar upp úr 1958.
Íbúar Vestur-Evrópu voru ósnortnir af hinum illu öflum altarisins fram að falli Berlínarmúrsins. Nú hefur Berlín verið endurvakin sem höfuðborg Þýskalands á sama tíma og Þjóðverjar eru á ný orðnir öflugasta ríki Evrópu. Ekki þarf að spyrja að því hverja Evrópumenn styðja í heilögu stríði Ísraelsmanna við hina alræmdu Palestínumenn. Á sama tíma fara áhrif múslima vaxandi í Evrópu og styttist í allsherjar yfirtöku þeirra í Evrópu. Allt þetta mátti fræðast um í þættinum The Rape of Europe, sem virðist öðru hvoru vera á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar Omega.

- - - -
Já það er vandlifað í henni veröld og við sem teljumst til hinna hófsömu í skoðunum, eigum stundum undir högg að sækja. Öfgahyggja tilheyrir ekki bara fortíðinni, hún kemur úr ýmsum áttum og hefur örugglega ekki sungið sitt síðasta. 

Létt lag hér í lokin:


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband