Ísinn mölbrotnar á Norður-Íshafinu

Nú er farið að vora á norðurhveli og sólin skín allan sólarhringinn á norðurpólnum. Sjálfur er ég farinn að fylgjast með hvernig hafísinn bregst við vorkomunni og þá er ómetanlegt að hafa aðgang að gervitunglamyndum sem birtast daglega, eins og mósaík-myndinni af norðurslóðum sem finna má í skúmaskotum NASA-Earthdata vefsins.

Hafiskort rammiNúna í apríl hefur greinilega mikið gengið á þegar stórt íssvæði norður af Alaska tók að brotna upp eins og sjá má á myndum hér að neðan. Kortið sýnir hvaða svæði um ræðir. Sumarbráðnun er raunar varla farin í gang enda hörkufrost þarna ennþá og því eru sprungur sem opnast á þessum slóðum fljótar að frjósa á ný. Hafísinn þarf þó sitt pláss ef hann á að springa svona upp og það pláss skapast ekki síst vegna útstreymis hafíss frá Norður-Íshafinu. Hvort þetta uppbrot á ísnum sé óvenju mikið veit ég ekki, en óumdeilt er að hafísinn er þynnri nú en á árum áður og því að sama skapi brothættari og hreyfanlegri.
Heildarútbreiðsla hafíssins var annars nálægt meðallagi undir lok vetrar og þá vel yfir meðallagi Kyrrahafsmegin en vel undir því Atlantshafsmegin. Þetta segir þó lítið um lágmarkið í lok sumars sem veltur mikið á hversu mikið bráðnar á því svæði sem sést hér á myndunum. Ég mun standa vaktina að venju.

Hafis 7.apríl 2012

Hafis 13. apríl 2012

Hafis 14. apríl 2012

Myndirnar setti ég saman af gervitunglamyndum sem ég nálgaðist héðan:
http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/subsets/?mosaic=Arctic


Haförn í Esju

Haförn

Í gönguferð á Esjuna sumardaginn fyrsta kom ég auga á þennan tignarlega haförn og ekki annað að sjá en hann hafi klófest fullorðinn fugl þarna í björgunum. Myndin er tekin niður af bjargbrún við klettabeltið mikla fyrir ofan Esjuberg. Örninn birtist bara allt í einu á harðaflugi töluvert fyrir neðan mig í stóru gili sem ég var einmitt að ljósmynda og náði ég því að fanga hann á mynd með bráð sína.

Esjuberg

Klettabeltið og gilin á þessum slóðum eru alveg feiknarlega tignarleg. Þessi mynd er tekin í rúmlega 700 metra hæð og sést í Kjalarnes og í fjarska þarna efst til vinstri er Reykjavík. Eins gott er að vera ekki mikið að þvælast niður þessi gil, en á sama tíma var útlendingur og koma sér í sjálfheldu austar í Esjunni.

Kerhólakambur

Ferðinni var annars heitið á þennan tind sem er sjálfur Kerhólambur í Esju, 852 metrar á hæð. Sjónarhornið er úr norðvestri og eins og sjá má er mikill snjór þarna að norðanverðu. Sé einhver ekki með það alveg hreinu hvaða hluta Esjunnar ég er að tala um, þá hjálpar þessi mynd hér að neðan væntanlega eitthvað. Gönguleiðin er merkt inn með rauðu.

Esja Kerhólakambur

 

 


Örfá orð um Titanicslysið

Þessa bloggfærslu skrifaði ég fyrir þremur árum en ég endurbirti hana með smábreytingum nú þegar nákvæmlega 100 ár eru liðin frá því að Titanic sigldi á borgarísjakann illræmda. Það er gjarnan vitnað í þennan dramatíska atburð við ýmis tækifæri enda slysið fyrir löngu orðið að einskonar tákni sem harmleikur allra tíma – harmleik sem hefði mátt koma í veg fyrir með örlítið meiri varkárni og fyrirhyggju. Þarna á líka vel við eins og oft er sagt að stórslys verða ekki nema eftir röð mistaka. Þessi atriði ásamt öðrum staðreyndum eru tekin hér saman þótt ég nefni ekki öll smáatriði, sumt af þessu eru umdeild atriði og ekki alltaf víst hvar ábyrgðin liggur. Auk þess hafa ýmsar langlífar missagnir hafa verið í gangi. Sjá t.d. síðuna: (Titanics myths).

Systurskip Titanic var númer tvö í röð þriggja systurskipa sem White Star Line skipafélagið lét smíða. Hið fyrsta, Olympic, hóf farþegasiglingar tveimur árum fyrr en það var eitthvað örlítið minna en Titanic og átti farsælan feril. Þriðja skipið Britannic var sjósett árið 1914 og var aðallega nýtt sem sjúkraskip í stríðinu en það sökk á Miðjarðarhafinu árið 1916 eftir að hafa siglt á tundurdufl. Skipin voru stærri og búin öflugri vélum en gerðist á þeim tíma og gátu því flutt fleiri farþega á skemmri tíma en keppinautarnir gátu boðið upp á.

Oft hefur verið sagt að Titanic hafi átt að vera ósökkvandi en slíkar yfirlýsingar komu reyndar aldrei frá skipafélaginu sjálfu, hins vegar átti það að illsökkvanlegt enda útbúið sínum frægu skilrúmum sem áttu að koma í veg fyrir að sjór gæti flætt um allt skipið ef gat kæmi að því. Skipið gat haldið sjó þótt tvö samhliða hólf fylltust nema fremst þar sem fjögur hólf máttu fyllast.

Titanic átti ekki að setja hraðamet eins og oft er haldið fram enda þótti ekki ráðlegt að keyra vélarnar á fullu afli í þessari jómfrúarferð auk þess sem ákveðið var að sigla dálítið lengri leið sunnar en venjulega til að forðast hafís. Til stóð hins vegar að prufukeyra vélarnar á fullu afli undir lok siglingarinnar en til þess kom aldrei. Metnaðurinn og markmiðið var hinsvegar fyrst og fremst að halda áætlun í þessari fyrstu ferð.

„Dularfulla skipið“ Californian
Fjórum dögum eftir að Titanic lét úr höfn frá Sauthampton á Englandi var skipið komið langleiðina yfir hafið og að varasamasta hluta leiðarinnar því óvenju mikið var af hafís og borgarísjökum suður af Nýfundnalandi enda hafði veturinn verið kaldur á þessum slóðum. Tilkynningar um ísjaka fóru að berast frá nágrannaskipum, en það skip sem var nálægast Titanic var flutningaskipið Californian, það hafði stöðvað ferð sína og sendi loftskeytamanni Titanics þá tilkynningu að þeir væru umkringdir hafís. Eftir að fleiri slíkar tilkynningar fóru að berast svaraði loftskeytamaðurinn að lokum með þessum orðum: „Shut up, shut up. I am busy. I am working Cape Race“ sem þýddi að vakthafandi loftskeytamaður á Titanic kærði sig ekki um slíkar truflanir enda var hann upptekinn við að senda almenn skeyti frá ferþegum til Cape Race á Nýfundnalandi. Þetta afgerandi svar varð hinsvegar til þess að slökt var á fjarskiptatækjum um borð í Californian og loftskeytamaðurinn þar lagðist til svefns. Frekari samskipti urðu ekki milli skipana sem þó eru talin hafa verið í sjónmáli hvort við annað nóttina örlagaríku. Californian hefur stundum verið nefnt dularfulla skipið en kom t.d. hvergi fram í síðustu stórmyndinni sem gerð var um Titanicslysið.

Siglt áfram þrátt fyrir viðvarnanir
Þrátt fyrir hafíssviðvaranir hélt Titanic siglingu sinni áfram. Því er haldið fram að Bruce Ismay framkvæmdastjóri skipafélagsins sem var um borð hafi gefið skipstjóranum Edward J. Smith þá fyrirskipun, en tvennum sögum fer að því. Ismay þessi hefur annars verið afgreiddur með réttu eða röngu skúrkurinn um borð sem hugsaði mest um að bjarga eigin skinni þegar á reyndi, ólíkt Smith skipstjóra sem stóð sína vakt allt til enda, en skipstjórinn er annars annars sá maður sem ber ábyrgð á sínu skipi og þar með sjóferðinni sjálfri.

Um kl 23:40 þann 14. apríl sáu vaktmennirnir tveir uppí varðturni skipsins stóran borgarísjaka óþægilega nálægt framundan. Því miður höfðu þeir ekki sjónauka meðferðis því hann hafði óvart gleymst í Sauthampton. Smith skipsstjóri var ekki lengur á vakt en sjötti stýrimaður skipsins Murdoch brást við með þvi að gefa fyrirskipun um að stöðva skrúfur skipsins, setja á fulla ferð afturábak og stýra skildi skipinu til vinstri eins og mögulegt var (orðað sjálfsagt öðruvísi á sjómannamáli). Í fyrstu leit út fyrir að þetta hafi verið vel sloppið en því miður varð útkoman versta mögulega gerð af árekstri sem hugsast gat við þessar aðstæður. 

Rétt viðbrögð við yfirvofandi árekstri?
Það er auðvitað enginn hægðarleikur að stöðva eða taka krappar beygjur þegar risaskip eins og Titanic er annarsvegar. Einhverntíma heyrði ég í útvarpinu vangaveltur um hvort rétt hefði verið að setja skrúfur skipsins í bakkgír á sama tíma og taka þurfti krappa beygju. Skrúfa skipsins er einmitt staðsett þannig að hún vinni með stýrinu og það að snúa skrúfunni afturábak hefur því hugsanlega unnið gegn virkni stýrisins. Einnig má líka segja eftirá, úr því að svona fór, að best hefði hreinlega verið að sigla skipinu beint á ísjakann en þannig hefði stefnið auðvitað stórlega laskast og áreksturinn orðið harður en vegna skilrúmanna hefði sjórinn ekki flætt inn í fleiri en fjögur hólf og skipið því haldist á floti. Tíminn sem var til taks var auðvitað allt of lítill til að taka yfirvegaðar ákvarðanir, en ekki treysti ég mér til að dæma um hvort ákvörðun stýrimanns hafi verið samkvæmt handbókinni eða tekin í einhverskonar panikástandi.

Áreksturinn
Lengi var talið að ein stór 95 metra rifa hefði myndast framarlega á hægri síðu skipsins sem sjórinn hefði flætt inn um. Rannsóknir á flaki skipsins hafa hinsvegar leitt í ljós að frekar var um að ræða margar minni sprungur og smágöt hér og þar sem varð þess valdandi að sjór flæddi inn um 5 fremstu hólf skipsins. Þessi göt opnuðust þegar samskeytin milli stálplatnanna hrukku í sundur hvert af öðru en ekki vegna þess að gat hafi komið á plöturnar sjálfar enda skipið smíðað úr úrvalsstáli þess tíma. Hinsvegar er ljóst að sami styrkur hefur ekki verið í festingunum sem hélt þeim saman

Titanic sekkurSkipið sekkur
Eftirleikurinn þegar skipið var að sökkva er flestum kunnur en slæm nýting á þeim takmarkaða fjölda björgunarbáta sem voru í boði, var þó kannski alvarlegastur. Björgunarbátar skipsins voru 20 talsins og gátu samanlagt borið 1,178 manns en sjálfsagt hafði mönnum ekki dottið í hug að til þeirra þyrfti að grípa á svona illsökkvanlegu skipi. Sjósetning bátanna gekk hægt fyrir sig í fyrstu en í fyrsta bátnum sem var sjósettur voru aðeins 12 manneskjur, aðallega konur og börn af fyrsta farrými. Lægri klassa farþegar voru hins vegar læstir í neðri hluta skipsins framanaf og þar voru þeir auðvitað mun meðvitaðri um að skipið væri að sökkva.

S.O.S.
Neiðarsendingar frá Titanic fóru að berast til nærliggjandi skipa fljótlega upp úr miðnætti en því miður var ekkert þeirra skipa sem námu sendingarnar svo nærri að vænta mætti björgunar í tæka tíð. RMS Carpathia var þeirra næst en átti þó fjögurra tíma siglingu að Titanic. Því miður voru skipverjar á nágrannaskipinu Californian glórulausir um að nokkur hætta væri á ferðum þótt þeir hafi séð neyðarflugeldana frá Titanic. Skýringin gæti verið sú að flugeldunum var ekki skotið á loft á þann hátt sem reglur segja til um þegar um neyðartilfelli er að ræða, en samkvæmt þeim átti að skjóta flugeldum upp með einnar mínútu millibili en ekki 6-7 eins og gert var í þessu tilfelli. Californian var aðeins í 16 kílómetra fjarlægð frá Titanic og hefði getað verið komið á staðinn á klukkutíma. Jafnvel hefur komið fram að stjórnendur skipsins hafi ekki vitað að skipið sem þeir sáu í fjarska hafi verið sjálft Titanic enda tæknin ennþá frumstæð á þessum tíma.

Björgunin
Farþegaskipið Carpathia kom loks á slysstað um klukkan fjögur um nóttina, einum og hálfum tíma efir að Titanic hvarf í hafið. Tölur eru dálítið á reiki um hversu margir fórust en alls voru það 705 manneskjur sem var bjargað og náðu þar með að komast á leiðarenda til New York. Talið er að 2.223 manneskjur hafi verið um borð þegar það lagði úr höfn sem þýðir að 1.518 hafi ýmist horfið í hafið eða króknað úr kulda í ísköldum sjónum.

Titanicslysið vakti að vonum heimsathygli og allskonar áleitnum spurningum var varpað fram til að fá skilning á því hvernig þetta gæti gerst. Ýmsar reglur voru hertar í kjölfarið til að auka öryggi eins og að fjöldi björgunarbáta ætti alltaf að vera í samræmi við fjölda fólks um borð og loftskeyti þurftu að vera vöktuð allan sólarhringinn. Ýmislegt mætti segja hér í lokin um það hvernig ófyrirséðar hættur koma upp í síbreytilegum heimi framfara. Ég læt mér þó nægja að minna fólk á að fara varlega í umferðinni.

- - - - - 

Nokkrar heimildir:
http://www.webtitanic.net/frameimage.html
http://www.titanichistoricalsociety.org/articles/titanicmyths.asp

Hér er nokkuð ýtarleg bloggfærsla á íslensku:
http://www.hugi.is/saga/articles.php?page=view&contentId=4050523


Silfurtónar og Ferry

Það þykir stundum sniðugt að villa á sér heimildir. Ein tegund af slíku er þegar framsæknir tónlistarmenn taka upp á því að hæðast að smekk fjöldans með ákveðnum hætti sem mætti kalla íróníska nálgun í póstmódernískum anda. Ég veit ekki alveg hvenær svona lagað hófst í menningarsögunni en mig grunar að þetta hafi ekki tíðkast mikið fyrr en seint á síðust öld.

Svona kúvendingar takast misvel og ekki alltaf víst að allir fatti djókið. Eitt svona dæmi er þegar hin metnaðarfulla djasshljómsveit Ljósin í bænum komu fram með lagið Diskó Friskó en það var hugsað sem háðsádeila á diskóið. Lagið sló í gegn og er eitt af frægustu diskósmellum íslensku tónlistarsögunnar, en fæstir kannast hinsvegar nokkuð við þá tónlist sem þau gáfu sig annars út fyrir að leika. Sykurmolarnir ætluðu upphaflega að herja á smekkleysuna með sykursætuna að vopni og afhendu smekkleysuverðlaun þeim sem þá þóttu skara fram úr í smekkleysu. Hemmi Gunn var meðal þeirra sem hlutu þau vafasömu heiðurverðlaun.

Af svipuðum rótum og Sykurmolarnir er hlómsveitin Silfurtónar sem hafði á að skipa strákum úr pönk- og nýbylgjugeiranum en þekktastur er sennilega annar söngvari sveitarinnar, Magnús Jónsson, leikari og fyrrum GusGus meðlimur. Það kannast sjálfsagt margir við lagið Töfrar sem er algerlega sykursætt glassúrpopp og bara nokkuð gott sem slíkt en ekki er þó víst að allir hafi áttað sig á djókinu þegar lagið hljómaði á útvarpsstöðvum fyrir um 15-20 árum síðan.



Meiri músik. Bryan Ferry er heldur ekki allur sem hann er séður og kemur sjaldnast til dyranna eins og hann er klæddur. Snemma tók hann að sér hlutverk hins heimsborgaralega sjarmörs og kvennaflagara sem var nokkuð úr takti við þá sem vildu taka sig alvarlega. Myndabandið sem fylgir er frá 1976. Bryan er í sínum hvíta smóking og greinilega ekki staddur í sama tíðaranda og undirleikararnir. Glæsikvendið Jerry Hall lætur þó heillast og á þarna aldeilis fína innkomu þegar líður á lagið.

 


Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Einn alfastasti liðurinn af öllum föstum liðum á þessari síðu eru Esjumyndirnar sem teknar hafa verið fyrstu vikuna í apríl þegar skyggni leyfir. Fyrsta myndin var tekin árið 2006 og með myndinni í ár eru þær orðnar sjö talsins.

Það hefur ekki sést mikið til Esjunnar síðustu daga en sem betur fer gufuðu skýin upp þann 2. apríl og var sá dagur því sjálfkjörinn til myndatöku þetta árið. Tilgangur myndanna er aðallega sá að bera saman snjóalög í Esju undir lok vetrar og læt ég fylgja með hverri mynd hvenær ég tel að síðasti skaflinn hafi horfið.
Í ár er Esjan nokkuð stórflekkótt eftir allnokkur hlýindi undanfarið en vegna mikilla snjóalaga fyrr í vetur sitja nú eftir töluverðir skaflar sem gætu enst langt fram á sumar og alls ekki víst að síðustu skaflar nái að hverfa fyrir haustið.
Í fyrra gerðist það í fyrsta skipti á þessari öld að Esjan náði ekki að hreinsa af sér síðasta smáskaflinn í Gunnlaugssakarði. Þar með varð endi bundinn á lengsta tímabil sem þekkt er þar sem Esjan nær að verða snjólaus. Það er reyndar mögulegt að síðasti skaflinn hafi bráðnað undir skýjaþykkni seinni hlutann í október en er samt ólíklegt, allavega sást sást snjólaus Esja aldrei frá Reykjavík. Vorið í fyrra var líka frekar kalsasamt og það snjóaði í Esjuna lengi fram eftir vori og varð hún meira að segja alhvít að morgni 10. júní. Annars hefur verið mjög misjafnt hvenær síðasti skaflinn hefur horfið, á því hlýja ári 2010 gerðist það t.d. óvenju snemma, eða um miðjan júlí, eins og má sjá hér að neðan.

Esja april 2012

Esja april 2011

Esja april 2010

Esja april 2009

Esja april 2008

Esja april 2007

Esja april 2006

- - -
Sem bónus þá læt ég hér fylgja uppstækkaðan hluta myndar úr hinni óviðjafnanlegu myndaseríu 365 Reykjavík (www.365reykjavik.is) sem ég tók í fyrra. Þarna sést glitta í skaflinn sem þraukaði yfir sumarið, en myndin er frá 24. september 2011. Einnig er á Veðurstofuvefnum grein (sjá hér) um þennan síðasta skafl en þar kemur fram að skaflinn hafi enn verið til staðar þann 15. október undir snjóföl.

Skafl sept. 2011


Vetrarhitasúlur

Nú þegar aðal vetrarmánuðirnir eru að baki ætla ég að bjóða upp súlurit sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík frá nóvember til mars nú í vetur. Tölurnar sem þarna liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum en hver súla sýnir dæmigerðan hita hvers dags. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir.

Vetrarsúlur 2011-2012

Svo farið sé aðeins yfir þetta þá sést vel hversu hlýtt var í nóvember enda mánuðurinn lengst af framarlega í samkeppninni um hlýjustu nóvembermánuði. Það kólnaði þó mjög í lok nánaðarins og þá sérstaklega síðasta daginn þegar frostið fór niður úr öllu valdi en þá byrjaði einmitt kuldakastið sem mörgum þótti svo óskaplegt. Sjálft kuldakastið stóð yfir í 10 daga og kaldasta daginn, þann 9. desember, skrái ég 8 stiga frost. Mest fór frostið niður í 11,7 stig á Veðurstofumælinum um kvöldið eða nóttina eftir og var það mesta frost vetrarins – eftir því sem ég kemst næst. Það telst reyndar ekkert óvenjulegt sem mesta frost vetrarins.
Það sem eftir lifði desember og lengst af í janúar var hitinn ekki fjarri meðallagi og án mikilla öfga en vegna kuldakastsins var þessi desember sá kaldasti síðan 1981 og auðvitað alveg óvenju snjóþungur. Febrúar var mjög hlýr miðað við það sem venjan er enda bara tveir frostdagar. Sama má segja um nýliðinn marsmánuð sem státar af miklum hlýindum síðustu 10 dagana.
Í heildina má segja að veturinn hafi staðið undir nafni frá lokum nóvember til síðustu vikunnar í janúar, en í báða enda var veturinn mjög hlýr hér í Reykjavík. Enn mun þó eitthvað framboð vera af köldu lofti norðurundan sem gæti gert atlögu að okkur enda veturinn ekki alveg búinn.

Til frekari samanburðar þá eru sambærileg súlurit fyrir tvo síðustu vetur í myndaalbúminu Veðurgrafík, hér til vinstri á síðunni.

- - - - -
Læt hér svo fylgja mynd sem ég tók úr vinnunni þann 14. nóvember þegar „hitabylgja“ mánaðarins var í hámarki. Óvenjuleg birta var þann dag þegar dimmt ský lagðist yfir borgina sem skammdegissólin skein undir í austsuðaustanátt og 11 stiga hita.

14. nóvember 2011


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband