28.6.2010 | 01:00
Hafís nálægt landinu
Á þessari fínu MODIS-gervitunglamynd sem tekin er 27. júní sést vel hvað stutt er í hafísinn út af Vestfjörðum. Þetta mun víst vera heldur í meira lagi miðað við árstíma enda dálítið sérstakt að sjá hafís þetta nálægt nú um hásumarið. Sjálfsagt þurfum við þó ekkert að óttast að þessi hafís berist að landi á næstunni því af veðurspám að dæma mun nokkuð góð lægð koma upp að landinu í vikunni með stífum norðaustan- og austlægum áttum. Það er líka athyglisvert að sjá þennan blágræna lit á sjónum við Breiðafjörð, þetta er einhver þörungablómi sem tíðkast mjög þarna á þessum árstíma.
Hafísinn sem liðast svona fagurlega á sjávarfletinum eins og reykjarslæða, er að stórum hluta kominn alla leið frá Norður-Íshafinu en stærri brotinn hafa sennilega slitið sig frá landföstum vetrarísnum við Grænlandsstrendur. Inn á milli geta svo verið einstaka borgarísjakar sem brotnað hafa frá skriðjöklum Grænlands þar sem þeir ná í sjó fram.
Eitthvað af þessu geta líka verið ísbirnir. Kannski eru þeir á leiðinni hingað á flótta undan ört bráðnandi hafís á Norður-Íshafinu - okkur til skemmtunar og ánægju. Kannski er það ekki svo, en hitt er víst að mikill hafís núna við Íslandsstrendur er alls engin vísbending um að hafís sé að aukast í heildina á norðurslóðum. Svo vill reyndar til að útbreiðsla hafíss á norðurhveli er í heildina minni en mælst hefur áður á þessum árstíma, en þá er átt við gervitunglamælingar sem ná aftur til 1979. Svo geta menn rifist um hversu langt aftur fyrir þann tíma þarf að fara til að finna annað eins.
Á þessu línuriti frá Dönsku veðurstofunni má sjá samanburð á útbreiðslu hafíssins á norðurhveli miðað við síðustu ár. Þetta línurit miðast við stöðuna þann 27. júní, sama dag og loftmyndin að ofan er tekin.
- - - - -
En vel á minnst. Ég get líka bent á, svona ef einhver kynni að hafa áhuga, að ég var með gestapistil á loftslag.is þar sem má lesa einhverjar óábyrgar vangaveltur um hafísinn. Sjá hér: Íshafsbráðnun og siglingaleiðir.
22.6.2010 | 22:42
Hvað varð um rokið í Reykjavík?
Þegar þetta er skrifað er hægur vestan-andvari hér í Reykjavík. Það er svo sem ekkert óvenjulegt, svona var þetta líka í gær og svona verður þetta jafnvel næstu daga ef mark er takandi á veðurspám. Jafnvel hér í Vesturbænum hreyfast varla laufin á trjánum en Vesturbærinn er í hugum margra frekar vindasamur staður miðað við önnur hverfi í borginni. En svona hefur þetta ekki alltaf verið því þegar ég var að alast upp var öldin önnur. Þá gnauðaði vindurinn árið um kring og á veturna mátti varla almennileg lægð koma upp að landinu öðruvísi en að þakplötur tækust á loft og flugu jafnvel inn um stofuglugga hjá saklausu fólki sem sat kannski inni hjá sér við kertaljós eftir að rafmagnskerfi borgarinnar var slegið út af laginu.
En af öllum léttleika slepptum þá virðist það vera staðreynd að meðalvindhraði í Reykjavík hefur mjög farið minnkandi síðustu áratugi. Til að skoða þetta almennilega þá teiknaði ég upp línurit út frá gögnum Veðurstofunnar þar sem ég ber saman meðalvindhraða í Reykjavík, Akureyri og á Keflavíkurflugvelli frá árinu 1961.
Á línuritinu má sjá að í upphafi tímabilsins var vindurinn í Reykjavík á sama róli og suður á Keflavíkurflugvelli eða um og yfir 6 metrum á sekúndu sem nær því að vera 4 vindstig á gamla skalanum eða stinningsgola. Síðan skiljast leiðir því á sama tíma og vindur helst að mestu óbreyttur suður á velli þá hægist vindur í Reykjavík smám saman, ekki síst eftir aldamótin og er nú svo komið að meðalvindhraðinn í Reykjavík er ekki nema rétt rúmlega 4 metrar á sekúndu sem gera þrjú vindstig eða golu. Þess má geta að árið 2009 var meðalvindhraði í Reykjavík 3,9 m/s.
4 metrar á sekúndu er álíka mikill vindur og hefur verið að meðaltali á hægviðrisstaðnum Akureyri á tímabilinu og má því segja að vindurinn í Reykjavík hafi þróast frá því að vera á pari við Keflavíkurflugvöll um 1961 og niður í það sem tíðkast á Akureyri. Að vísu hefur vindurinn á Akureyri einnig verið mjög hægur allra síðustu árin, en á tímabilinu í heild er ekki að sjá þar sömu þróun og í Reykjavík.
Miðað við að vindur á Keflavíkurflugvelli hefur ekki minnkað frá 1961 þá hljóta það að vera lókalaðstæður hér í Reykjavík sem valda hægari vindi. Auðvelt er að giska á að aukin byggð og aukinn trjávöxtur í borginni hafi þarna mest áhrif. Veðurstofan hefur verið á sömu hæðinni fyrir ofan Bústaðaveg frá árinu 1973 en frá þeim tíma hefur allt umhverfi borgarinnar þróast talsvert.
Merkilegt er samt hvað meðalvindhraðinn fellur á árunum 1999-2001 og hefur verið hægur síðan. Árið 1999 var hætt að miða við gamla vindstigakerfið og metra á sekúndukerfið tekið upp. Kannski var þá bara settur upp splunkunýr metra á sekúndumælir sem aldrei hefur náð sér á strik. Varla getur það annars verið. Reyndar ættu flestir borgarbúar að vera sammála því að öll ár þessarar aldar hafa bara verið nokkuð góð veðurfarslega séð í Reykjavík, og eins og annarstaðar á landinu hafa þau ekki síst verið hlý.
Vísindi og fræði | Breytt 23.6.2010 kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
20.6.2010 | 02:17
Plötukynning: Sandinista - The Clash
Ef ég hefði verið spurður að því fyrir svona 20 til 25 árum, hvaða hljómplötu ég myndi taka með mér á eyðieyju, (gerum þá við ráð fyrir að hægt sé að spila hljómplötur á eyðieyjum) kæmi platan Sandinista með the Clash strax upp í hugann. Ein ástæðan (en ekki sú helsta) er sú að platan er þreföld að magni með alls 36 lögum og var upphaflega gefinn út þannig í vínilútgáfunni árið 1980 en þannig fékkst mikið fyrir lítið. En burtséð frá lagafjölda þá er þessi plata sannkölluð músíkveisla sem ég naut til fulls árum saman og geri reyndar enn öðru hvoru.Sandinista, var gefin út í lok árs 1980 og kom í kjölfarið af London Calling sem fyrir flestum aðdáendum er mikilvægasta plata hljómsveitarinnar. Með útkomu Sandinista má segja kveðið hafi við nýjan tón hjá hljómsveitinni sem reyndar fór misvel í hörðustu aðdáendur. Nú var ekki bara pönk og nýbylgjurokk á boðstólnum því á þessari plötu er farið um víðan völl í tónlistarheiminum, allskonar tónlistarstefnum hrært saman: raggie, ska, funk, jass, kalipsó, gospel, rapp og jafnvel barnamúsík. Þetta var plata fyrir heiminn eða eins og þeir sögðu sjálfir: "to hell with Clash style, there's a world out there." Semsagt, einskonar heimsplata þar sem umfjöllunarefni texta fór langt út fyrir öngstræti verkamannahverfana heima fyrir. Heimspólitíkin er þarna fyrirferðamikil, svo sem kalda stríðið sem á þessum árum var sjaldan kaldara, flestir gerðu ráð fyrir að kjarnorkuvetur skylli á hvað úr hverju ekkert global warming í þá daga.
En þótt tónlistin sé dimm og þung á köflum á plötunni er hún líka heit. Suðræn calipsó stemmning er ekki dæmigert fyrir það sem Clash hafði staðið fyrir en í þeirra höndum fær þessi tónlist nýjan tón og nýja merkingu. Þeir halda líka kúlinu allan tíma, Joe Strummer var auðvitað einn mesti töffari rokksögunnar en auk hans fá allir í hljómsveitinni að spreyta sig í söng ásamt reyndar nokkrum utansveitarmönnum, konum og jafnvel börnum.
Viðbrögð aðdáenda og gagnrýnenda við þessari undarlegu Clash plötu voru frekar misjöfn. Sumir eru sammála mér um að þetta sé eiginlega bara meistaraverk en aðrir eru ekki sáttir. Gjarnan er nefnt að ýmsu hefði mátt sleppa og hægt hefði verið að gera einfalda 12 laga plötu með bestu lögunum. Allskonar tilraunastarfsemi fær enda að fljóta með, sérstaklega á seinustu plötunni, sumt má flokka sem dub eða mix af lögum sem þegar hafa koma fyrir á plötunni. Sumir vildu síðan bara fá sitt gamla góða Clash-rokk og ekkert annað en hvað mig varðar þá skiptir það sjálfsagt máli að þetta var fyrsta Clash platan sem ég hlustaði almennilega á.
Því má bæta við að platan Sandinista lenti í 19. sæti í nýlegri samantekt New Musical Express yfir bestu plötur 9. áratugarins. Þann lista má sjá í bloggfærslu hjá Jens Guð.
Það er auðvitað nauðsynlegt að koma með tóndæmi. Þar er úr vöndu að ráða því ekkert lag er í rauninni dæmigert fyrir plötuna, en fyrir valinu er flott lag sem mætti kalla hjarta plötunnar, Washington Bullets. Þetta lag gæti allt eins heitið Sandinista en titill plötunnar er komið úr þessu lagi, þar sem vísað er til Sandinistahreyfingarinnar í Nicaragua. Í þessu lagi fá stórveldin að heyra það, ekki bara Bandaríkin þótt halda megi það í fyrstu. Þarna má heyra spilað á tré-ásláttarhljóðfæri nem nefnist marimba eftir því sem mér skilst. Clash gerði yfirleitt ekki tónlistarmyndbönd á sínum tíma en þessi samsetning sem kemur hér er framtak einhvers áhugamanns. En lagið er gott og skilaboðin standa fyrir sínu.
Tónlist | Breytt 21.9.2012 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2010 | 21:55
Attabad stífluvatnið í Pakistan
Það er víðar en á Íslandi sem náttúruöflin hafa verið til vandræða. Þann 4. janúar á þessu ári féll stór skriða í fjallahéruðum Kasmír nyrst í Pakistan með þeim afleiðingum að stórt stöðuvatn hefur smám saman myndast í dalnum aftan við skriðuna. Í byrjun júní var stífluvatnið orðið um 20 kílómetra langt og allt að 100 metra djúpt og tvö stór þorp að hálfu í kafi. Þúsundir manna búa þarna í dalnum, margir að vísu í hlíðunum fyrir ofan og eins og má ímynda sér er öll lífsafkoma fólksins í uppnámi. Dalurinn hefur lengi verið mikilvæg samgönguleið milli Pakistan og Kína en snarbrött fjöllin þarna eru í suðurjaðri Karakórum fjallgarðsins þar sem K2, annað hæsta fjall heims rís upp til himna.
En vandræði íbúanna á svæðinu eru ekki síðri neðan skriðunnar því lengi hefur verið óttast að stífluvatnið kunni að brjóta sér leið með offorsi í gegnum skriðuna með tilheyrandi stórflóði og því hafa þúsundir íbúa þurft að yfirgefa blómlega dalina fyrir neðan. Hunzai áin sem rann þarna í gegn og málið snýst um, sameinast nokkru sunnar Indusfljótinu sem rennur niður eftir Pakistan og til sjávar. Á síðustu dögum hefur það gerst að yfirborð vatnsins hefur náð upp að efri brún skriðunnar, vatn byrjað að seytla í gegn og farið að mynda nýjan og stækkandi farveg í skriðunni. Spurningin er svo hvort og hversu lengi skriðan nái að halda aftur af sjálfu stífluvatninu en hugsanlegt er auðvitað að þetta sé varanleg landbreyting og stöðuvatnið sé komið til að vera. Krítíski tíminn er nú framundan því sumarbráðnun jökla á svæðinu er í fullum gangi og regntími auk þess að hefjast. Ef eitthvað stórt gerist má búast við að það rati í heimsfréttir en annars hefur ekki mikið verið fjallað um þessa atburði í fréttum hér svo ég viti (meðfylgjandi ljósmynd er tekin við skriðuna 10. júní).
Rúsínan í pulsuendanum er síðan þetta myndskeið af YouTube þar sem vegfarandi náði að festa á filmu sjálf skriðuföllin þann 4. janúar og eins og sjá má gengur ekki lítið á.
Frétt um þessa atburði má annars t.d. finna á BBC fréttavefnum, sjá hér: http://news.bbc.co.uk/2/hi/south_asia/8692623.stm
Einnig er daglega fylgst með framgangi máli á þessari bloggsíðu hér sem annars einbeitir sér að hamförum vegna skriðufalla í heiminum: http://daveslandslideblog.blogspot.com/
Loftmyndin af vatninu er fengin af vefnum NASA Earth Observatory þar sem ég las fyrst um þessa náttúruhamför.
13.6.2010 | 00:57
Heimsókn til Nýja heimsins
Síðustu viku gerði ég mér ferð vestur um haf til að njóta dásemdar hinnar miklu borgar Nýju Jórvíkur þar sem húsin standa upp á rönd í stórum stíl. Borgin sem er betur þekkt sem New York hefur ekki breyst mikið á þeim 22 árum sem liðin eru frá því ég kom þangað síðast, sumt er þó horfið eins og frægt er en annað hefur bæst við. Að sjálfsögðu var myndavélin með í för og til að gefa dálitla innsýn inn í það sem fyrir augum bar kemur hér einskonar myndablogg úr ferðinni.
Fyrir það fyrsta þá stenst ég ekki að birta þessa hafísmynd sem tekin er 4. júní við strendur Labrador, eða við Helluland eins og Leifur Eiríks og félagar kölluðu þetta hrjóstruga landsvæði. Þarna er greinilega frekar kuldalegt yfir að líta og vetrarísinn ekki alveg horfinn.
Öllu sumarlegra var í Miðgarði laugardaginn 5. júní þar sem borgarbúar hvíldu sig í 30 stiga hitamollu ættaðri beint frá Suðurríkjunum.
Á Tímatorgi er alltaf aragrúi af fólki og litríkum ljósaskiltum.
Hér kveður við annan tón í skiltagerð. Þetta fólk er statt neðst á Manhattan og er að mótmæla fyrirhugaðri moskubyggingu á þeim heilaga stað þar sem tvíburaturnarnir stóðu áður. Hugmyndin með að reisa þarna mosku er sjálfsagt sú að sýna fram á umburðarlyndi og sáttahug New Yorkbúa gagnvart múslimum og kannski í leiðina að minnka líkurnar á nýjum hryðjuverkum. Það var þó ekki mikinn sáttahug að finna hjá þessu fólki ef marka má það sem á skiltunum stendur. Á meðan svo er má efast um hvort hugmyndir um moskubyggingu þarna sé sniðug. Erfitt getur þó verið að hætta við.
Enduruppbygging eru annars í fullum gangi þarna á Ground Zero. Turnarnir í baksýn voru hluti af World Trade Center en sluppu þegar allt annað hrundi. Þarna er One World Trade Center turninn byrjaður að rísa og verður með spíru og öllu saman hæsta bygging Bandaríkjanna, eða 541 metri sem gera 1776 fet sem kallast á við stofnár Bandaríkjanna. Til að forðast að storka vondum útlendingum munu þeir vera hættir við að kalla bygginguna Freedom Tower en auk hans eru einnig þrjú önnur háhýsi fyrirhuguð á svæðinu.
Ofar á Manhattan, í miðbænum, eru þessar byggingar. Chrysler-byggingin er fyrir miðju en hún var um tíma hæsta bygging heims þar til Empire State sló henni við. Chryslerinn er þó alltaf flottastur.
Minna fínni húsin líta gjarnan svona út. Brunastigar utan á húsum eru mikið notaðir í amerískum bófamyndum og njóta sína vel þarna í síðdegisbirtunni.
Best að enda þetta á borgarljósunum. Hér er horft frá Brooklyn brúnni yfir á háhýsin neðst á Manhattan. Ýmsir eru greinilega að vinna frameftir í þessari miðstöð fjármála. Smíði brúarinnar lauk 1883 og var auðvitað þar um mikið byggingarafrek að ræða. Eftir nokkur ár mun nýi One World Trade turninn gnæfa þarna yfir í baksýn.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.6.2010 | 21:40
Svart og snjólaust á hálendinu
Ég hef öðru hvoru birt línurit með samanburði milli ára á snjódýpt við Setur sunnan Hofsjökuls. Staðurinn er í 693 metra hæð og er þar hvít jörð allan veturinn og snjódýptin oft vel á annan metra. Undanfarin ár hefur snjórinn verið í hámarki í apríl og tekið upp að fullu um miðjan júní. Nú ber hins vegar svo við að eftir mjög snjóléttan vetur er nú snjólaust á Setri, mun fyrr en venjan er (ljósblá lína). Upplýsingarnar gref ég upp af eldri vef veðurstofunnar þar sem hægt er að nálgast snjódýptina hverju sinni og úr þeim upplýsingum vinn ég línuritið og uppfæri reglulega með hálfsmánaðar millibili. Reyndar eru nokkrir dagar síðan snjóinn tók upp þarna en það virðist hafa gerst í kringum 22. maí eftir því sem mátti lesa úr sjálfvirku mælingunni.
Þetta snjólétta vor á Setri er í ágætu samræmi við það hversu þurrt og milt hefur verið í vetur um mestan hluta landsins. Samkvæmt því sem maður hefur heyrt eru snjóalög á jöklum landsins með allra minnsta móti og taldir varhugaverðir yfirferðar vegna snemmopinna sprungna. En þá er komið að þessu svarta í fyrirsögninni. Á gervihnattamynd sem tekin var sólskinsdaginn 24. maí, má sjá að víða er svört jörð á suðurhálendinu og grátt öskulag liggur yfir miðhálendinu og jöklunum þar í kring. Því er hætt við að litadýrðin að fjallabaki verði af skornum skammti í sumar og einhverjar öskuagnir eiga örugglega eftir að þyrlast upp að vitum hálendiskönnuða.
Myndin fengin af MODIS vefnum http://rapidfire.sci.gsfc.nasa.gov/realtime/single.php?T101441320
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)