24.7.2012 | 20:07
Græn Sahara
Það er sæmilega vel þekkt staðreynd að Sahara eyðimörkin hefur ekki alltaf verið eyðimörk heldur hefur hún líka átt sínar stundir sem gróðri vaxið landssvæði með ám og stöðuvötnum. Miklar vatnbirgðir er enn að finna djúpt undir yfirborðinu en þar er um að ræða vatn frá því tímabili þegar enn rigndi í Sahara, en síðustu 5.000 ár hefur ekkert bæst við þann forða. Þetta mál á sér sínar merkilegustu hliðar sem ég hef aðeins verið að grúska í undanfarið og sett saman í smá texta.
Umrætt græna tímabil í Norður-Afríku hófst skömmu eftir að síðasta jökulskeiði lauk fyrir 10-11 þúsund árum og stóð í nokkur þúsund ár en smám saman tók landið að þorna og breytast aftur í þá sandeyðimörk sem við þekkjum í dag. Það merkilega við þetta er síðan að eyðimerkurmyndunin hélst í hendur við smám saman kólnandi veðurfar á núverandi hlýskeiði og því ekki óeðlilegt að spyrja hvort núverandi hlýnun og framtíðarhlýnun geti leitt til aukinnar úrkomu í Sahara og þar með aukins gróðurfars.
Fyrri grænu tímabil
Eyðimerkursaga Norður-Afríku hefur verið rannsökuð með því að skoða setlög í Atlantshafinu vestur af Marokkó. Samkvæmt því hefur eyðimerkurástandið verið rofið þrisvar á síðustu 150 þúsund ár. Fyrst fyrir um 110-120 þúsund árum, svo fyrir 45-50 þúsund árum og núna síðast fyrir 10-5 þúsund árum. Athyglisvert er að á miðtímabilinu fyrir 45-50 árum var ekki hlýskeið á jörðinni eins og á hinum tímabilunum enda hófst síðasta jökulskeið smám saman fyrir um 110 þúsund árum og lauk fyrir um 10 þúsund árum. Þó þetta jökulskeið hafi reyndar einkennst af miklum óstöðugleika þar sem jöklarnir ýmist komu og fóru, hefur loftslag varla verið svo hlýtt fyrir 45-50 árum að það jafnist á við það sem gerðist eftir lok síðasta jökulskeiðs sem þýðir að eitthvað annað hlýtur að koma rigningunni af stað í Sahara en bara hlýtt loftslag.
Ástæður
Það sem helst liggur undir grun til að koma rigningu af stað í Sahara eru eiginlega hin sömu öfl og talin eru valda jökul- og hlýskeiðum á norðurhveli, nefnilega Milankovitch-sveiflurnar svokölluðu: pólvelta, breytilegur möndulhalli og sveiflur í sporbaugslögun jarðar. Þessar sveiflur vinna ýmist með eða á móti hverri annarri en í tilfelli Sahara er það 41 þúsund ára sveiflan á möndulhalla sem sennilega skiptir mestu. Fyrir um 10 þúsund árum, þegar síðasta jökulskeiði lauk og Sahara tók að grænka, var möndulhalli jarðar í hámarki 24,5° en síðan hefur jörðin verið að rétta úr sér og er nú komin hálfa leið í minnsta halla sem er 22,1°. Við hámarks-möndulhalla eykst sólgeislun að sumri til á hærri breiddargráðum sem hefur áhrif á það ógnarjafnvægi sem ríkir í Norður-Atlantshafi hvað varðar sjávarstrauma og seltujafnvægi. Þannig þykir líklegt að hámarks sólgeislun auki kraft Norður-Atlantshafshringrásarinnar sem leiðir til þess að monsúnrigningarnar í Afríku ná lengra í norður og eyðimerkursandar gróa upp. Hugsanlega þá með þeim aukaverkunum að þurrara verður við Miðjarðarhaf.
Til að koma á alvöru hlýskeiði sambærilegu því sem ríkt hefur síðustu 10 þúsund ár og fyrir 110-120 árum þarf þó meira til en hámarks möndulhalla ef dæmið á að ganga upp. Þar er hentugt að bæta við 100 þúsund ára sveiflunni í sporbaugslögun jarðar um sólu sem einmitt hefur verið okkur hagstæð frá ísaldarlokun.
Út úr Afríku
Nú er það svo að Afríka sunnan Sahara, nánar tiltekið sigdalurinn mikli, hefur í gegnum tíðina verið þróunarmiðstöð mannkynsins og þaðan hafa komið helstu nýjungar og uppfærslur í þróunarsögu mannsins, t.d. Homo Erectus og Neantherdalsmaðurinn. Gróðri vaxin Sahara hefur að öllum líkindum haft þar mikil áhrif enda eyðimörkin löngum verið mikill farartálmi. Lokaútgáfa mannsins Homo Sapiens leitaði einmitt fyrst út úr Afríku á hlýskeiðinu fyrir 110-120 þúsund árum. Sú útrás fór þó reyndar fyrir lítið þegar kólnaði á ný. Hugsanlega leituðu menn aftur til baka og kannski náðu einhverjir lengra í austur til Asíu. Það var svo á græna skeiðinu fyrir 45-50 þúsund árum sem lokaútrás nútímamanna átti sér loksins stað frá Afríku til Evrópu og víðar og leysti af hólmi hina eldri týpu, Neanderdalsmanninn. Síðasta græna skeiðið hafði síðan úrslitaáhrif í sögu okkar. Græn Sahara hefur verið gósenland fyrir safnara og veiðimenn fyrir 10-8 þúsund árum og eru þá fiskveiðar alls ekki útilokaðar. Þegar svo rakinn minnkaði má gera ráð fyrir að menn hafi safnast saman þar sem enn var vatn að finna sem að lokum leiddi til fyrstu menningarsamfélaganna á bökkum og árósum Nílarfljóts en sama þróun gæti einnig hafa átt sér á öðrum vaxandi eyðimerkursvæðum utan álfunnar svo sem í núverandi Írak.
Hlýnandi heimur
Þótt loftslag á núverandi hlýskeiði (Holocene) hafi verið nokkuð stöðugt, hefur smám saman farið kólnandi frá því fyrir um 8 þúsund árum. Það er að reyndar erfitt að bera saman hitafar nákvæmlega milli árþúsunda en með þeirri miklu hlýnun sem hefur verið í gangi undanfarið er sennilegt að hitafar sé komið upp undir það sem hæst gerðist á meðan Sahara var gróðri vaxin eða stefnir að minnsta kosti í það. En hvað gerist varðandi úrkomu í Sahara í hlýnandi heimi er stóra spurningin og þar eru menn ekki sammála. Hinir bjartsýnu benda á þá staðreynd að hlýtt loft getur innihaldið meiri raka sem þýðir meiri úrkomu og minnkandi eyðimerkur. Hinir svartsýnu telja hinsvegar að meira þurfi til í tilfelli Sahara-eyðimerkurinnar því ef hún á að gróa upp þurfi veðurkerfin og monsúnregnið að færast í norður. Slíkt er ekki að gerast enda möndulhalli jarðar minni nú en fyrir 8-10 þúsund árum og sólgeislun að sumarlagi að sama skapi minni. Ekki bólar heldur mikið á regni í Sahara og enn berast fréttir af þurrkum og hungursneiðum í löndum eins og Súdan. Framtíðin er óskrifað blað og ekki víst að allir skilji náttúruöflin eins vel og þeir telja.
Nokkrar heimildir:
ScienceDaily: The green Sahara, A Desert In Bloom
ScienceDaily: Greening of Sahara Desert Triggered Early Human Migrations out of Africa
The Daily Galaxy: Shift in Earth's Orbit Transformed 'Green Sahara' into Planet's Largest Desert
Vísindi og fræði | Breytt 29.1.2016 kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.7.2012 | 17:50
Birkið á Skeiðarársandi
Á ferð minni austur um land fyrr í sumar lét ég verða að því að taka mynd af gróskumiklum birkihríslum sem nú vaxa á Skeiðarársandi. Þessi trjágróður er hinn merkilegasti fyrir ýmsar sakir enda vitnar hann um heilmiklar breytingar sem eru í gangi á sandinum.
Trjágróðurinn er mestur rétt norðan þjóðvegar vel inn á miðju Skeiðarársands en auk birkisins má einnig sjá talsverðan lággróður, aðallega lyng. Greinilega er töluvert liðið síðan vötn runnu þarna suður um sanda og svæðið hefur sloppið við hlaupið mikla eftir Gjálpargosið. Líklegast hafa þessi tré hafi vaxið af fræjum sem hafa borist með vindum frá Skaftafelli en kannski ekki síður frá Bæjarstaðaskógi enda virðast trén vera af úrvalskyni og allt annað en kræklótt. Hæstu trén gætu verið um tveir metrar og samkvæmt rannsóknum eru þau nú sjálf farin að dreifa fræjum og því fátt sem virðist ógna því að þarna verði kominn hinn myndarlegasti birkiskógur áður en langt um líður.
Skeiðarárjökull hefur hörfað mikið eins og flestir jöklar landsins. Að sama skapi hefur rennsli jökulánna suður undan jökulsporði einnig tekið miklum breytingum. Í stað margra kvíslna falla öll vötn nú niður um Gígjukvísl vestarlega á sandinum en sjálf Skeiðaráin er þornuð upp. Þessu valda ekki síst jökulgarðarnir sem hlóðust upp við framrás jökulsins á liðnum öldum en svo skipta lónin líka máli sem myndast þar sem hörfandi jökullinn hefur grafist niður í sandinn.
Jafnvel er talið að breytingin á rennslinu sé það afgerandi að stærstu hlaup úr jöklinum muni ekki ná í farveg Skeiðarár. Brúin mikla mun því standa nánast á þurru um langa framtíð og svæðið allt gróa upp með tímanum og leita til þess horfs sem var á landnámstíð. Svæðið verður þó aldrei alveg eins. Í Öræfasveitinni er til dæmis gríðarlega mikið af lúpínu allt í kringum jökulinn og sennilega bara tímaspursmál hvenær hún berst yfir á sandana. Ég athugaði ekki að taka mynd af fjólubláum undirhlíðum Öræfajökuls en það má athuga það næst.
Myndina hér að ofan vann ég út frá loftmynd frá Google Maps en hún er sennilega tekin áður en rennsli Skeiðarár breyttist árið 2009. Það ár skrifaði ég einnig myndskreytta bloggfærslu sem ég nefndi: Hopandi skriðjöklar, stækkandi lón og horfnar jökulár
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.7.2012 | 19:47
Á toppi Botnsúlna
Undanfarin sumur hef ég komið mér upp þeirri venju að ganga einsamall á eitthvert gott fjall sem ég hef ekki gengið á áður. Bestar eru þessar göngur þegar maður á fjallið alveg útaf fyrir sig og nægur tími til ráðstöfunnar. Það eru alltaf takmörk fyrir því hversu miklar fjallgöngur skynsamlegt er að leggja út í einsamall en nauðsynlegt er þó að einhver viti af ferðum manns og svo er farsíminn auðvitað gagnleg uppfinning sem öryggistæki. Ekki fer ég þó í fjallgöngur til að hanga í símanum og ekki hef ég heldur með mér músíkgræjur nema kannski vasaútvarp til vonar og vara. Hinsvegar er fuglasöngurinn alltaf kærkominn þótt flytjendur hans séu ekkert alltof hressir með að ró þeirra sé raskað, svipað og með blessaðar rollurnar sem horfa á mann úr fjarska með tortryggnum augum.
En þá að fjalli sumarsins sem að þessu sinni var Syðsta-Súla í Botnsúlum sem blasir við ofan Þingvalla. Þangað fór ég þriðjudaginn 10. júlí í björtu og hlýju veðri en dálitlum vindi af norðri sem greinilega spólaði upp fínlegum söndum við Langjökul og olli mistri sem skerti heldur útsýnið í austur. Ég lagði í gönguna frá gamla túninu við Svartárkot ofan Þingvalla en til að komast að fjallinu þarf að krækja fyrir hið hyldjúpa Súlnagil. Bæði er hægt að fara upp fyrir gilið eða niður fyrir eins og ég gerði. Í heildina hef ég gengið nálægt 13 kílómetra í göngunni sem tók um 8 klukkutíma með góðum stoppum. Leiðin að fjallinu er mjög þægileg en sama er ekki hægt að segja uppgönguleiðina austast á hryggnum sem er stórgrýtt og laus í sér áður en komið er að miklu móbergsklungri.
Sjálfur hryggurinn er misgreiðfær og með ýmsum truflunum sem þarf að krækja fyrir, en þá er vissara að hafa í huga að norðurhluti hryggjarins er eiginlega bara hengiflug. Þótt ég sé ekki mjög lofthræddur þá hvarflaði samt að mér á tímabili að þetta ferðalag væri kannski ekki svo mjög sniðugt. En þá var bara að fara varlega og ana ekki að neinu. Útsýnið var líka stórbrotið, ekki síst þegar horft var í norður þar sem fleiri og öllu óárennilegri Botnsúlur blöstu við í þessum fjallaklasa. Fjær mátti sjá Langjökul, Þórisjökul, Okið og fleira flott.
Sjálfum toppnum var að lokum náð. Syðsta-Súla er 1093 metrar á hæð og um leið hæsti tindur Botnsúlna. Á hæsta punkti er steyptur landmælingastöpull þar sem tilvalið er að stilla upp myndavélinni og láta sjálftakarann mynda kappann með Hvalfjörðinn og hálfan Faxaflóan í baksýn.
Á bakaleiðinni lagði ég smá lykkju á leið mína til að skoða Súlnagilið. Það kom mér á óvart hversu hrikalegt það er en það hefur grafist lóðrétt og djúpt niður í þykkan mósbergsgrunn og svo þröngt að ekki sést allstaðar til botns.
Ferðalög | Breytt 13.7.2012 kl. 00:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.7.2012 | 17:23
Talsvert af hafís á Grænlandssundi
Að gefnu tilefni kem ég hérna með dálitlar hafíspælingar en svo virðist sem hafísinn sé ekki ekki mjög fjarri landi norðvestur af Vestfjörðum miðað við árstíma. Myndina útbjó ég frá MODIS gervitunglamyndum frá 4. júlí og hef strikað með blárri línu þar sem mér sýnist hafísjaðarinn vera. Vestfjarðakjálkinn er þarna vel sjáanlegur og strönd Grænlands alveg efst. Mikið hægviðri hefur verið ríkjandi kringum Ísland vikum saman og því fátt sem heldur aftur af hafísnum og því sem honum fylgir. Í takt við það hefur lítið verið um almennilegar norðaustanáttir á Grænlandssundi sem annars eru þar ríkjandi, en sú vindátt heldur einmitt aftur af hafísreki hingað.
Þessi útbreiðsla hafíssins á Grænlandssundi er þó ekki merki um batnandi ástand hafíss á Norðurslóðum í heild sinni - eiginlega síður en svo. Á myndinni hér að neðan sést hafísútbreiðslan á norðurhveli og er appelsínugul lína látin tákna meðalútbreiðslu hafíssins (m.v. árin 1979-2000). Samkvæmt því er útbreiðslan víða langt undir meðaltali en þá sérstaklega norð-austast í Atlantshafinu þar sem útbreiðslan er minni en vitað er um á sama árstíma. Heildarútbreiðslan á norðurhveli er annars við það minnsta sem áður hefur mælst, en núna um hásumarið bráðnar hafísinn hratt á alla kanta og í september mun koma í ljós hvort nýtt lágmarksmet í útbreiðslu verður sett. Sjálfum finnst mér það ekki ólíklegt enda er ísinn sífellt að þynnast. Athuga það sjálfsagt síðar.
Eina undantekningin á lítilli útbreiðslu hafíssins er einmitt austur af Grænlandi eins og þarna sést. Þar gæti komið við sögu meira ísrek frá Norður-Íshafi en venjulega og líka ríkjandi vindáttir sem beint hafa ísnum í austur frá Grænlandi, í stað þess að hann reki lengra suður með austurströnd Grænlands.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2012 | 18:57
Bæjarins besti júní?
Nú eru liðin 26 frá því ég hóf mínar eigin veðurskráningar fyrir veðrið í Reykjavík. Þetta hef ég gert sjálfum mér til gagns og gamans en upphaflega stóð aldrei til að halda út þessum skráningum lengur en bara sumarið 1986. Reyndin varð þó önnur. EInhversstaðar hef ég sagt að ég sé heimilisveðurfræðingur en starfsemin fer aðallega fram í stofunni heima, sem er því nokkurskonar einkaveðurstofa.
Eitt af því sem hefur viðhaldið skráningaráhuganum er einkunnakerfið sem byggist á því að ég gef hverjum degi einkunn á skalanum 0-8 eftir ákveðnu kerfi sem byggist á veðurþáttunum fjórum: sólskini, úrkomu, hita og vindi. Eftir hvern mánuð reikna ég svo út meðaleinkunn mánaðarins og þannig get ég borið saman veðurgæði einstakra mánaða og jafnvel ára. Auðvitað er samt alltaf álitamál hvernig skilgreina á gott eða slæmt veður og svo getur verið allur gangur á því hvernig einkunnir einstaka mánaða endurspegla raunveruleg veðurgæði. Um þetta hef ég skrifað nokkrum sinnum áður eins og sumir ættu kannski að kannast við.
Það telst mjög gott ef mánuðir ná 5,0 í meðaleinkunn en afleitt ef mánuður nær ekki 4,0 þannig að einkunnabilið er ekki mjög mikið. Fram að þessu er versti skráði mánuðurinn, janúar 1989, með 3,3 í einkunn. Sá besti hefur hinsvegar verið júlí 2009, með afgerandi bestu einkunnina 5,8. En nú hafa stórtíðindi orðið.
Júní 2012: Einkunn 5,9.
Já nú hefur það gerst að liðinn mánuður er ekki bara bæjarins besti júní-mánuður frá 1986, heldur er hann besti mánuður allra skráðra mánaða og hefur slegið út þann fyrrum besta: júlí 2009. Rétt er þó að taka fram að tekið er tillit til árstíðasveiflu í hita þannig að allir mánuðir árins geti átt sama möguleika á bestu einkunn.Hér til hliðar sýni ég skráninguna fyrir nýliðinn júní. Þar má meðal annars sjá veðureinkunn dagsins í aftasta dálki. Hér á eftir kemur dálítil greinargerð um einstaka veðurþætti:
Sólardaga skrái ég sem heila eða hálfa daga og eru þarna 12 sannkallaðir sólardagar en 13 hálfskýjaðir. Þá eru ekki eftir nema 5 dagar þar sem sólin hefur varla látið sjá sig. Samtals eru þetta því 18,5 sólardagar sem er í flokki hins allra besta en þó ekki met samkvæmt mínum skráningum því árið 2008 var júní með 19,5 daga. Samkvæmt opinberum mælingur var þetta reyndar sólríkasti júní í Reykjavík síðan 1928 en þá skiptir máli að ég skrái veðrið eins og það er yfir daginn en ekki seint á kvöldin eða á nóttinni. Sólríkar vornætur skipta því ekki máli hjá mér.
Úrkoma var mjög lítil og skráði ég aðeins 5 daga með úrkomu en í öll skiptin var hún minniháttar eða skúrir í bland við sólskin, stundum að vísu nokkuð öflugar dembur. Gegnblautur rigningardagur var enginn. Ég vek athygli á dropa sem er teiknaður 7. júní í annars alauðum dálki fyrir framan einkunnina. Hann stendur fyrir blauta jörð (eða snjó) á miðnætti og er oftast miklu skrautlegri þetta. Mánuðurinn er því einn af þessum þurrkamánuðum sem einkennt hefur sumrin frá árinu 2007.
Hiti er skráður sem dæmigerður hiti yfir daginn. Táknin fyrir aftan hitatöluna segja til hvort dagurinn sé kaldur hlýr eða meðal. 19. júní flokkaðist sem kaldur (ferningur) en 8 dagar voru hlýir (hringur). Mánuðurinn byrjaði með hlýindum og var 4. júní hlýjasti dagur mánaðarins: 17 stig. Eftir smá slaka voru góð hlýindi aftur ríkjandi, sérstaklega síðustu 10 dagana. Í heildina var þetta hlýr mánuður sem var yfir meðallagi síðustu 10 ára og auðvitað langt yfir opinberu viðmiðunartímabili áranna 1960-1990.
Vindur er auðvitað mikilvægur þáttur þegar kemur að veðurgæðum. Í samræmi við önnur veðurgæði var þessi mánuður mjög hægviðrasamur og kannski það sem gerir útslagið með góða einkunn en til að ná meteinkunn þurfa allir veðurþættir gjöra svo vel að standa sig. Hlykkjóttar pílur eru áberandi í skráningunni og standa fyrir hægan vind. Tvöföldu strekkingsvinds-pílurnar eru hinsvegar hvergi sjánlegar. Í kassanum neðst til vinstri er samantekt á vindáttum. Norðvestan hafgoluáttin er tíðust á meðan sunnan- og suðvestanáttirnar eru í núlli. Þetta eru alveg rakin einkenni góðviðrismánaðar að sumarlagi hér í bæ og segir í raun það sem segja þarf. Samtals er vindstyrkur mánaðarins 43 en sú tala er fengin úr skráningarkerfinu og er með því lægsta sem ég hef skráð.
- - - -
Það er ágætis útrás fyrir veðurskrif að taka fyrir metmánuð eins og þennan. Ég ætla þó ekki að taka fleiri mánuði fyrir svona ýtarlega nema einhver mánuðurinn tekur upp á því að dúxa - nú eða kolfalla með fordæmalausum hætti.
Vísindi og fræði | Breytt 1.9.2017 kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)