Tímamót á norðurslóðum

Það er nú ekki hægt annað en að fjalla aðeins um hafísinn á Norður-Íshafinu sem aldrei hefur verið minni á okkar tímum, hvort sem talað er um útbreiðslu, flatarmál eða rúmmál. Hversu langt aftur „okkar tímar“ ná er síðan matsatriði en við gætum örugglega verið að tala um mannsaldur, sennilega líka aldir eða jafnvel þúsund ár. Fyrra metið hvað varðar útbreiðslu hafíssins var sett með afgerandi hætti árið 2007 og markaði það einnig mikil tímamót. En þetta eru einnig tímamót hjá mér sjálfum því það var einmitt vegna hafíslágmarksins 2007 sem ég skrifaði mína fyrstu bloggfærslu og hef ég verið að síðan. Þar á meðal eru ófáir hafíspistlar enda hef ég fylgst þar nokkuð grannt með málum.

En hvað get ég sagt gáfulegt sem ekki hefur þegar komið fram um þetta títtnefnda hafíslágmark? Sennilega ekki mikið en það má samt alltaf steypa saman einhverju. Það má til dæmis byrja á að bera saman þessar myndir til sýna hvað við er að eiga.

Hafis 1980 2012

Myndin til vinstri er frá 17. september 1980 en sú til hægri er sami mánaðardagur nú í ár. Eins og sést er þá er stór hluti Norður-Íshafsins nú opið haf og ekki langt í að Norðurpólinn sjálfur sé íslaus. Mestur og þéttastur er ísinn er norður af Grænlandi og Kanadísku heimskautaeyjunum en þar er að finna það sem eftir er af fjölærum þykkum hafís sem áður var allsráðandi á mest öllu Norður-Íshafinu. Nú eru hinsvegar tímarnir breyttir því sá nýji ís sem myndast yfir veturinn er mun viðkvæmari fyrir sumarbráðnun næsta árs. Auk þess er gisnari hafísbreiða líka hreyfanlegri gagnvart vindum og straumum sem t.d. beina ísnum út um sundið milli Grænlands og Svalbarða þaðan sem hann berst suður með Austur-Grænlandsstraumnum og áleiðs til okkar. Kortin er af síðunni The Cryosphere Today.

Nú gæti einhver sagt að það sé til lítils að bera saman ísinn í dag við það sem var á árinu 1980 þegar loftslag var frekar kalt - allavega á okkar slóðum. Þótt gervihnattagögn af útbreiðslunni nái aðeins aftur til ársins 1979 eru til ýmsar mælingar og gögn sem ná lengra. Þetta línurit frá Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni nær aftur til ársins 1953 og ef það er nærri lagi þá er greinilegt að þessi þróun hefur staðið lengi. Að vísu er ekki búið að setja inn árið 2012 en sú lína næði alveg niður í kjallara myndarinnar. Ath. línuritið sýnir frávik frá meðaltali en ekki sjálfa útbreiðsluna.

Hafís 1953-2011

Það er líka merkilegt við síðustu ár hvað sveiflurnar hafa aukist milli árstíða. Útbreiðsla undanfarna vetur hefur nefnilega verið alveg þokkaleg miðað við þróunina í heild en það virðist þó ekki skipta máli þegar kemur að sumarlágmarkinu. Á næstu mynd sem ættuð er frá frændum vorum Dönum sést þróun síðustu ára betur. Svarta línan er árið 2012 og árin frá 2005 eru til samanburðar. Þarna sést að útbreiðsla síðasta vetrar var heldur í meira lagi miðað við mörg síðustu ár. Það hefur hinsvegar ekkert að segja því þá telja einnig svæði sem eru vel utan við Norður-Íshafið og bráðna iðulega snemma hvort sem er. Það er hinsvegar ekki fyrr en um sumarið sem kemur í ljós hvernig hinn eiginlegi hafís á norðurslóðum plummar sig. Ísinn er eitthvað farinn að aukast á ný þessa dagana eins og vera ber og gæti á næstu vikum náð upp í bláu línuna frá fyrra metárinu 2007.

Hafíslínurit DMI 19 sept 2012

En af hverju svona mikil bráðnun akkúrat í ár? Það eru sjálfsagt ýmsar skýringar á því. Sumarið 2012 þykir reyndar ekki eins sérstakt og sumarið 2007 sem einkenndist af miklu sólskini yfir ísbreiðunni og vindum sem pökkuðu ísnum saman auk þess að beina honum suður í Austur-Grænlandsstrauminn. Í ár dreifðist ísinn hinsvegar meira vegna breytilegra vindátta og varð fljótlega frekar gisinn. Mjög stór lægð gerði síðan nokkurn usla snemma í ágúst og sem flýtti fyrir því sem verða vildi en ekki er þó víst að sú lægð hafi endilega gert útslagið með sjálft lágmarkið.

En svo skipta líka máli aðstæður yfir vetrarmánuðina, þ.e. hversu mikinn frið ísinn hefur til að þykkna almennilega yfir veturinn, t.d. vegna aðstreymis af hlýju lofti og hlýrri sjávar. Þá rifjast upp mynd sem ég setti saman fyrir bloggfærslu snemma í febrúar núna í ár þegar talsverðir Síberíukuldar höfðu helst yfir Evrópu. Kuldunum olli öflugt hæðarsvæði yfir Skandinavíu sem um leið dældi hlýju lofti lengst norður á bóginn. 

Hafís og veðurkort feb 2012

Best að ljúka þessari bloggfærslu á texta sem ég setti saman þarna í febrúar og ekki lokum fyrir það skotið að ég hafi kannski dálítið séð fyrir það sem átti eftir að gerast nú í sumar:

Sunnanáttirnar hafa verið eindregnar milli Íslands og meginlandsins og náð lengst norður í höf með óvenju miklum hlýindum. Á Longerbyen á Svalbarða mældist t.d. fyrir stuttu, hæsti hiti sem mælst hefur á eyjunum í febrúar, ein 7 stig. … Mjög lítill ís er einnig við Svalbarða og er norðurströndin þar íslaus, en íslaust svæði teygir sig langleiðina til smáeyjaklasans, Franz Josefslands. Það má því segja að það sé sumarástand á hafísútbreiðslunni þarna. Það er þó enn vetur og nóg eftir af honum á norðurslóðum … Þessi mikli skammtur af hlýindum þarna norðurfrá hlýtur þó að hafa sín áhrif á framhaldið og getur haft sitt að segja þegar kemur að sumarbráðnunnni.

(Úr bloggfærslunni: Óvenju hlýtt í Evrópu - óvenju hlýtt í Norðurhöfum frá 12. febrúar 2012)


20 stiga hitar í Reykjavík og á Akureyri

Sem óbeint framhald af síðustu færslu þar sem 20 millimetra úrkomumarkið kom við sögu er alveg tilvalið að taka fyrir 20 stiga hitamarkið. Reykjavík er þannig í sveit sett að öfgar í hitafari eru ekki miklar í hvora áttina sem er og því er það alltaf dálítill viðburður þegar hitinn nær 20 stigum. Á Akureyri eru hitasveiflur meiri og hámarkshiti sumarsins hærri enda nánast regla að hámarskhitinn nái 20 stigum á Akureyri einhverntíma á sumrin og stundum vel það og nokkrum sinnum. Samt sem áður er meðalhitinn í Reykjavík hærri á sumrin sem og aðra mánuði. 20 stiga hitasögu þessara staða frá 1930 má sjá á nýuppfærðum línuritunum sem ég útbjó á sínum tíma útfrá Veðurstofugögnum. Fyrst er það Reykjavík:
20 stig Reykjavik 1930-2011

Á Reykjavíkurmyndinni má sjá að 20 stiga hámarkshiti náðist reglulega á hlýju árunum 1934-1960. Greinilega þó oft með nokkrum herkjum en hæst komst hitinn í 23,1°C árið 1950. Eftir 1960 liðu heil 15 ár án 20 stiga en svo þegar það loksins gerðist árið 1976 varð það með slíkum glæsibrag að nýtt hitamet var sett í borginni, 24,3°C. Mjög hlýtt var einnig í lok júlí 1980 þegar hitinn náði 23,7°C en þessir tveir hitatoppar eru annars mjög ódæmigerðir fyrir hina köldu tíð þessi árin. Eftir aldamótin hefur hlýnað svo um munar og 20 stiga hámarkshiti frekar orðin venja en undantekning. Nýtt hitamet var sett í ágúst-hitabylgjunni árið 2004: 24,8°C og svo aftur þann 31. júlí árið 2008: 25,7°C. Nú í sumar náði hitinn hæst upp í 21,3° þann 16. ágúst í einskonar mini-hitabylgju.

Hærri hitar hafa sjálfsagt mælst á sjálfvirkum stöðvum í borgarlandinu en það tel ég ekki með hér. Það verður líka að hafa í huga að Veðurstofan var á nokkru flakki þar til flutt var á Bústaðaveginn árið 1973.

20 stig Akureyri 1930-2011

Á Akureyramyndinni eru gulu 20 stiga súlurnar allsráðandi allt tímabilið, nokkrar brúnleitar 25 stiga súlur skjóta líka upp kollinum á meðan aðeins fjórar súlur eru gráar. Hæsta súlan sýnir hvorki meira né minna en 29,4°C sem mældist í júní árið 1974 og er það meðal hæstu hitagilda sem mælst hafa á landinu. Að vísu þykir grunsamlegt hversu hátt hitinn komst á þeim árum en Trausti Jónsson hefur þetta um málið að segja í greinargerðinni: Hitabylgjur og hlýir dagar: „Hitametið frá Akureyri 1974 (29,4°C) hefur þann kross að bera að skýlið stendur á bílastæði sem varla er hægt að telja staðalaðstæður.“ Aðstæður á Akureyri þekki ég reyndar ekki mjög vel en mér skilst þó að athuganir hafi síðar verið færðar yfir á grasflöt þarna skammt frá sem gæti skýrt að hluta að eftir hitabylgjuna í júlí 1991 hefur hitinn ekki náð 25 stigum á Akureyri. Hann var þó ekki fjarri því í sumar þann 9. ágúst þegar hitinn mældist 24,4°C.

Hvað sem allri óvissu líður þá fer ekkert á milli mála að hámarkshiti sumarsins er að öllu jöfnu hærri á Akureyri en í Reykjavík og gæti munað eitthvað um 4 stigum. Menn geta auðvitað unað vel við það fyrir norðan en ég er ekkert að gera neinum þann óleik að bera saman lágmarkshitann.


Hellt úr fötu

Af veðrinu er það að segja að dagurinn í dag, 5. september var sérlega úrkomusamur í Reykjavík en samkvæmt veðurfréttum í útvarpi mældist úrkoman 19 mm frá kl. 9 í morgun til kl. 18 síðdegis. Til samanburðar þá var úrkoman í öllum maímánuði einnig 19 mm en bara um 13 mm allan júnímánuð. Þótt rigningar séu ekki fátíðar í Reykjavík þá rignir samt sjaldan svona eindregið allan daginn og það með dembum inn á milli eins og hellt væri úr fötu.

Þar sem ég stunda veðurskráningar þá reyni ég eftir bestu getu að fylgjast með hvað kemur upp úr hinni opinberu úrkomudollu Veðurstofunnar og þá ekki síst á svona dögum. Í veðurskráningum mínum er ég nefnilega með ýmsar viðmiðanir og þar á meðal eru svokölluð öfgamörk sem hafa áhrif á veðureinkunnagjöfina. Í úrkomunni er ég með öfgamörk upp á 20 mm úrkomu frá kl 9-18 yfir daginn og dregst þá eitt stig frá þeirri einkunn sem dagurinn hefði annars fengið. Þessi öfgamörk náðust sem sagt ekki í dag þrátt fyrir vænlega atlögu og fær því dagurinn eftir sem áður 2 stig (af 8) fyrir það að vindur og hiti hafi verið í meðallagi. 20 mm dagsúrkomu mætti kannski líkja við það í tíðni að hitinn fari yfir 20 stig, sem eru reyndar önnur öfgamörk hjá mér og gefa +1 aukastig í einkunnagjöf.

Eftir að hafa farið lauslega í gegnum bækur þá sé ég að ég hef reyndar bara 7 sinnum skráð yfir 20 mm dagsúrkomu frá upphafi skráninga í júní 1986 - eitthvað gæti þó hafa farið fram hjá mér. Þrír dagar eru þar efstir og jafnir, allir með 26 mm úrkomu yfir daginn: Síðast gerðist það 30. desember 2007 en sá mánuður reyndist úrkomusamasti desember sem mælst hefur í Reykjavík, 197 mm. Þar áður mældist 26 mm dagsúrkoma þann 29. maí 1994 daginn eftir borgarstjórnarkosningar þar sem R-listinn vann sögulegan sigur með Ingibjörgu Sólrúnu fremsta í flokki. Elsta skráða dæmi mitt um 26 mm dagsúrkomu er 31. mars 1989. Þeim degi man ágætlega eftir en sá dagur einkenndist af eindreginni rigningu í hægviðri sem fór yfir í slyddu um kaffileytið en um kvöldmatarleytið fór að snjóa alveg látlaust með þeim afleiðingum að snjódýptin að morgni 1. apríl mældist 33 cm í Reykjavík og þótti frásögum færandi - meira að segja á þeim árum.

Af einstökum dembum slær þó fátt út 18 millimetra úrhellið í Reykjavík að kvöldi hins 16. ágúst 1991. Alveg óháð því reyndu nokkrir að koma skikk á málin í Sovétríkjunum sálugu tveimur kvöldum síðar með misheppnaðri valdaránstilraun. Boris Yeltsín tók hinsvegar völdin í staðinn, bannaði kommúnistaflokkinn og lagði svo Sovétríkin niður. Hann var frekar skrautlegur karakter en þótti helst til blautur.


Stóra sumarveðurmyndin

Nú þegar hinir eiginlegu sumarmánuðir eru liðnir er kominn tími á smá yfirlit unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum sem ná aftur til 7. júní 1986. Í þessari margbrotnu mósaíkmynd sem ég hef dundað mér við að koma saman upp úr skráningarbókunum, má sjá hvaða daga sólin hefur skinið og úrkoma fallið í Reykjavík yfir sumarmánuðina. Litakvarðinn er sýndur undir myndinni en annars ætti þetta að skýra sig sjálft. Sjá má hvernig þróunin hefur verið í stórum dráttum, en eins og íbúar Reykjavíkur og nágrennis ættu að vera sammála um þá hafa mörg undanfarin sumur verið með besta móti  hin síðari ár og af sem áður var. Tölurnar hægra megin sýna skráða sólardaga í Reykjavík þegar lagðir hafa verið saman heilir og hálfir sólardagar. Samkvæmt þem sést að á sólríkum sumrum eru sólardagar nálega tvöfalt fleiri en á sólarsnauðum sumrum. Nánari bollaleggingar eru undir myndinni.

Sumarveður Rvik 1986-2012

Nánari bollaleggingar: Allt fram til hinna síðustu ára má segja sumur með 25-35 sólardögum hafi verið normið. Sumarið 1991 þótti á sínum tíma einstaklega gott og þá skráði ég 38,5 sólardaga en þá var júní sérstaklega sólríkur. Júlí það sumar er þar að auki sá heitasti sem komið hefur í Reykjavík ásamt júlí 2010. Árið 2004 kom svo fyrsta 40 sólardaga sumarið sem ég skrái en eftir það hafa fjögur bæst við, þar á meðal sumarið í ár. Sólarminnsta sumarið skrái ég 1995 en einnig eru sumrin 1988, 1989 og 1992 ansi döpur. Sólskinið segir þó ekki allt þegar kemur að veðurgæðum því samkvæmt mínu veðureinkunnakerfi er árið 1989 lakasta sumarið á meðan sumarið 2009 trónir á toppnum.

Svo má líka skoða einstaka mánuði frá 1986. Samanburðinn er hér unninn upp úr Veðurstofutölum en eins og sjá má ber allt að sama brunni. Jákvæðu metin eru öll frá árinu 2004 og síðar en hin neikvæðu eru öll fyrir þá tíð. Hlýindi síðustu ára er svo annar kapítuli en þar svipaða sögu að segja.

Best og verst frá 1986


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband