Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Vitringarnir þrír í sögu Marco Polos

Vitringarnir þrír

Fræg er sagan í Mattheusarguðspjalli um vitringana þrjá sem komu frá Austurlöndum til Betlehem til að veita Jesúbarninu lotningu og færi því gjafir. Lítið annað fáum við að vita um þá, svo sem hvaðan þeir komu nákvæmlega, hverjir þeir voru og hvað á daga þeirra dreif í framhaldinu. Ýmsar sagnir eru þó til um þessa þremenninga og þar á meðal er frásögn í ferðabók Marco Polos er segir frá því er hann var á ferð í Persíu, þar sem núna er Íran, en þar hitti hann fólk sem kunni góð skil á vitringunum þremur og átrúnaði þeim tengdum og er meira að segja sagt frá því að líkamar þeirra séu vel varðveittir í grafhvelfingum. Nú veit maður ekki hversu mikið er til í þessu en það má taka fram að Marco Polo var þarna á ferð seint á 13. öld þegar hinir skelfilegu Mongólar höfðu lagt undir sig stóran hluta af Evrasíu en Marco Polo einmitt á leið austur á bóginn, ásamt föður sínum og frænda, til fundar við sjálfan Mongólaleiðtogann Kublai Khan.

Bókin um ferðir Marco Polos kom upphaflega út skömmu eftir heimkomu hans frá Austurlöndum og var reyndar skráð af samfanga Morco Polos er sá síðarnefndi sat tímabundið bak við lás og slá vegna þátttöku í sjóorrustu. Sú bók af ferðum Marco Polos sem ég hef undir höndum kom út árið 1940 í íslenskri þýðingu Haraldar Sigurðssonar, stytt og endursögð af Aage Krarup Nielsens, sem ég kann ekki deili á. Kaflinn í bókinni um vitringana þrjá kemur hér, eftir að ég hef stytt, endurraðað og endursagt að hluta. Skáletranir eru orðréttar:

Persía er stórt ríki, sem forðum var frægt og voldugt, en er nú herjað og eitt af Törtötum. Í Persíu er borgin Saba, en þaðan fóru vitringarnir þrír til þess að sýna Jesú Kristi lotningu. Þeir hvíla nú hlið við hlið í Saba í þremur stórum grafhvelfingum, en yfir hvelfingunum stendur ferhyrnt hús, og er því vandlega viðhaldið. Líkamar vitringanna hafa geymst órotnaðir með hári og skeggi. Einn vitringanna hét Caspar, annar Melchior og þriðji Baltasar.

Borgin sem þarna er nefnd Saba í bókinni heitir með réttu Saveh og mun vera nálægt Teheran. Mongólar eru þarna nefndir Tartarar. Sagt er frá því að íbúar Saba (Saveh) hafi haft litla þekkingu á þremenningunum sem þarna lágu. Þrjár dagleiðir frá Saba, kom Marco Polo hinsvegar að sveitaþorpi er nefnist Cala Ataperistan sem þýðir borg eldsdýrkendanna. Eins og nafnið ber með sér þá tilbáðu íbúarnir eldinn og kunnu sögu vitringanna þriggja öllu betur en íbúar Saba. Samkvæmt Marco Polo er frásögn íbúanna af vitringunum á þessa leið:

Í fyrndinni lögðu þrír konungar af stað í ferðalag frá landinu til þess að tilbiðja spámann, sem var í heiminn borinn. Þeir höfðu með sér þrjár tegundir fórnargjafa: gull, reykelsi og myrru, til þess að ganga úr skugga um, hvort spámaður þessi væri guð, jarðneskur konungur eða læknir. Konungarnir sögðu með sér: Veiti spámaðurinn gullinu viðtöku, þá er hann jarðneskur konungur, vilji hann reykelsi fremur, er hann guð, en taki hann myrruna, er hann læknir.

Samkvæmt frásögninni gengu vitringarnir, sem þarna eru nefndir konungar, fyrst fyrir Jesúbarnið einn í einu en þeim til furðu var alls ekki um neitt barn að ræða heldur virtist það vera jafnaldri hvers þeirra. Síðan segir: Konungunum kom ásamt um að ganga allir samtímis fyrir barnið og er þeir gerðu það, leit barnið út eins og náttúrulegast var en það var um það bil þrettán daga. Og konungarnir veittu barninu tilbeiðslu og báru fram gjafir sínar, gull, reykelsi og myrru. /Barnið tók við öllum gjöfunum/ og þegar konungarnir sáu það, sögðu þeir með sjálfum sér: Barnið er sannur guð, sannur konungur og sannur læknir. /Barnið/ rétti konungunum að launum litlar, lokaðar öskjur. Að því búnu héldu þeir heimleiðis til ríkja sinna. /Er þeir/ höfðu farið margar dagleiðir, fýsti þá að sjá gjöf barnsins. Þeir opnuðu öskjurnar og fundu þar lítinn stein /sem var/ tákn þess að sú trú sem nú var gróðursett í sál þeirra, skyldi dafna í sál þeirra og verða óbrotgjörn eins og steinn, því barnið vissi vel hvað konungunum var í huga.

En því miður þá misskildu konungarnir táknmál steinsins og köstuðu honum niður í næsta brunn. Í sama bili laust eldingu af himni niður í brunninn. Þegar konungarnir sá þetta jarteikn, urðu þeir forviða og hörmuðu sáran að hafa kastað steininum. Nú skildu þeir glöggt, að steinninn hafði mikilvæga, helga tjáningu. Konungarnir tóku nokkurn hluta logans og fóru með hann heim í lönd sín og komu honum fyrir í fagurri og skrautlegri kirkju. Síðan hefur eldur þessi brunnið stöðugt, og fólkið veitir honum tilbeiðslu eins og guði, og við eld þennan eru allar brennifórnir færðar. Slokkni eldurinn, er brugðið við og farið til annarra þorpa, þar sem sama trú ríkir, og eldurinn sóttur að nýju. Slíkar eru orsakir þess að fólk hér um slóðir tilbiður eldinn. Oft ber það við að sækja þurfi eldinn tíu dagleiðir. Þannig er saga sú, sem íbúarnir Cala Ataperistan sögðu herra Marco Polo. Þeir fullvissuðu hann um, að svona væri saga konunganna þriggja og einn þeirra hefði verið frá Saba, annar frá Ava og sá þriðji frá borg þeirri, sem enn í dag tilbiður eldinn eins og gert er um allar nærliggjandi slóðir.

Þannig hljóðar frásögnin um vitringanna frá Austurlöndum í bókinni um Marco Polo sem kom út hér á landi árið 1940. Ýmsar meiningar eru um hvaða menn þetta voru. Oftast tölum við um vitringa og þannig eru þeir nefndir í Biblíunni og í bókinni um Marco Polo, nema þar sem vitnað er í frásögn bæjarbúa Cala Ataperistan þar sem þeir eru nefndir konungar. Ef til vill voru þetta Zaraþústraprestar en Zaraþústratrúin er ein af elstu trúarbrögðum sögunnar og þar er eldurinn einmitt í hávegum hafður. Ferðalag vitringanna þriggja var mikil ferð en þó frekar stutt í samanburði við þær miklu vegalengdir sem Marco Polo átti eftir leggja undir fót en hann átti þarna langa ferð fyrir höndum til Mongólaleiðtogans Kublai Kahn sem þá sat í borginni Xanadu nálægt þar sem nú er Peking. Þaðan átti hann síðan eftir að ferðast um víða lendur Mongólaveldisins í þágu stórkahnsins áður en hann snéri til baka til Feneyja ásamt föður sínum og frænda árið 1269, eftir 24 ára ferðalag. Allt saman mikil saga og merkileg.

Frekari lesningu um vitringanna má finna hér: http://www.farsinet.com/wisemen/magi.html
Einnig héðan, þaðan sem myndin er fengin: https://en.wikipedia.org/wiki/Biblical_Magi


Moska eða listaverk?

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum manna við framlagi Íslands til Feneyjartvíæringsins að þessu sinni. Ég vil þó ekki bendla neinn við fíflaskap þótt aðrir hafa gert það, en hér á moggablogginu voru óneytanlega ýmsir stórorðir, einkum þá ýmsir eldri íhaldssamir karlar sem vissu varla hvert þeir ætluðu í vandlætingu sinni yfir þeirri ósvinnu, að þeirra mati, að setja upp mosku í kaþólskri kirkju í nafni Íslands. Gott ef ekki var kallað eftir afsögn menntamálaráðherra vegna þessarar "vitleysu".

Jú. Vissulega getur þetta verk talist ögrandi á vissan hátt í ljósi allrar þeirrar togstreytu sem ríkt hefur milli hins múslímska og vestræna heims undanfarin ár. Það er ekkert nýtt að listin ögri á einhvern hátt en það þarf þó ekkert að vera aðalatriðið í þessu. Í stað ögrunar má miklu frekar líta á þetta verk sem einskonar samkomulag í nafni friðar. Séu menn á annað borð tilbúnir til þess, sem kannski er ekkert víst. Í stað þess að hæðast, skopast eða að gera lítið úr þeim sem eru okkur framandi er þeim boðið í "okkar" tilbeiðsluhús en í leiðinni gefst þeim gestum sem ekki eru múslímar og hafa aldrei í mosku komið, tækifæri til að kynnast framandi tilbeiðslusiðum - sem ég get ekki séð að sé hættulegt, nema ég sé alveg staurblindur. Heimboðið er þó kannski ekki alveg í nafni Feneyjarborgar sem vilja helst setja einhverjar furðulegar reglur um að gestir í sýningarskála Íslands séu ekki of múslimalegir.

Hvað sem hægt er að segja um trúarbrögð nú til dags þá held ég að tilbeiðsla til æðri máttarvalda sé eitt af þeim atriðum sem einkennir mennska tilveru og jafnvel eitt af stóru atriðunum sem aðgreindi manninn frá dýrum á sínum tíma. Í þann flokk má líka bæta listinni sjálfri enda hafa þessi tvö atriði lengi verið samofin í menningunni. Hver menningarheimur hefur svo komið sér saman um sína heimsmynd, sinn skilning eða misskilning og sínar tilbeiðsluaðferðir og serimóníur í sambandi við þær. Hinsvegar hefur oft kárnað gamanið þegar ólíkir menningarheimar mætast því þá vaknar upp óttinn við að framandi hópar séu að þröngva sinni menningu yfir okkar og hefur það vissulega verið upptök margra átaka og sér jafnvel ekki fyrir endann á. Í slíku ástandi er oft stutt í öfgahyggju af trúarlegum eða þjóðernislegum toga.

Það er staðreynd að fjöldi þjóða játar múslímska trú rétt eins og margir játa kristni og því verður ekki breytt. Það er líka staðreynd að fjöldi múslima býr í Evrópu hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Megnið af því fólki vill þó iðka sína trú í friði án þess að vera bendlað við það að vilja ganga milli bols og höfuðs á þeim sem ekki játa íslam. Moskur eru notaðar í tilbeiðsluskini rétt eins og okkar kirkjur. Uppsetningin er þó önnur og siðirnir, og verða það áfram. Hvað varðar framlag okkar til Feneyjartvíæringsins þá sver það sig í ætt við góða nútímamyndlist sem snýst ekki síst um að stilla upp hlutum á óvæntan hátt og skapa nýtt samhengi. Þar hefur okkur tekist vel upp að þessu sinni, með aðstoð listamannsins og nýbúans Christoph Büchel. Útkoman er sterkt listaverk - og þar sem það er listaverk er það í raun hvorki moska né kirkja, ef það huggar einhvern.

Feneyjamoska


Trúarhátíð trúleysingja?

Nú er páskahátíð og þjóðin komin í páskafrí. Fyrsti er það skírdagur sem reyndar svona hálfheilagur dagur þar sem við minnumst síðustu kvöldmáltíðarinnar og svo föstudagurinn langi, sorgardagurinn mikli þegar Jésú var krossfestur. Stund milli stríða er svo laugardagurinn þar sem ekkert sérstakt gerðist. Páskadagurinn er svo stærsti dagurinn en þá var sá mikli atburður í den að frelsarinn sigraði dauðann og reis upp af gröf sinni. Páskahátíðinn á sér að vísu lengri sögu en kristnin. Engu að síður eru atburðir þessara daga, grundvallaratriði í kristindómnum enda sýnir upprisan að Jésú var ekki bara hver annar vandræðagemsi sem þóttist vera eitthvað meira en aðrir. Hér og víðar um lönd kallar þetta á auka hátíðisdag sem við köllum annan í Páskum. Framhaldsagan heldur áfram nokkru síðar þegar við tökum okkur aftur frí í miðri viku og minnumst uppstigningar Jésú til himna þar sem hann hefur síðan setið við hægri hönd Guðs föður almáttugs, dæmandi lifendur og dauða. Ekki má svo gleyma Hvítasunnudegi sem fæstir vita hvers vegna er haldin hátíðlegur en eitthvað hlýtur það að vera merkilegt því það þarf mánudaginn einnig til að klára það mál.

Stærstur hluti þjóðarinn telst vera kristinn enda eru flestir bæði skýrðir og fermdir. Öðru máli gegnir þó um sannfæringuna, hvað þá kirkjusókn. Fleiri eru þeir sennilega sem amast við klingjandi kirkjuklukkum á sunnudagsmorgnum heldur en fara í kirkju og þó að hér sé Þjóðkirkja þá má varla minnast á kristna trú við skólakrakka. Kristin gildi má heldur ekki minnast á landsfundum stjórnmálaflokka jafnvel þótt sjálfur Guðdómurinn sé til umfjöllunar í Þjóðsöngnum okkar. Blessunarlega má þó óska eftir blessunar Guðs á örlagastundum.

Hvað er hér annars á ferðinni? Er rétt að gefa trúlausri þjóð frí frá vinnu í þrjá daga vegna Páskanna eins og ekkert sé sjálfsagðara? Skólar gefa meira segja enn lengra frí, jafnvel eftir verkfall. Vikulangt  Páskafrí eða meira skal það vera í trúlausum skólum landsins. Trúfrelsi er auðvitað sjálfsögð mannréttindi og enginn er skyldugur til að trúa nokkru frekar en hann kýs. Annað væri líka eitthvað öfugsnúið því það að trúa eða trúa ekki, er einlæg afstaða hvers og eins. Eiginlega finnst mér þetta þó vera þannig að úr því það er verið að gefa okkur alla þessa frídaga þá mættum við alveg launa það með því að hugsa með dálitlum jákvæðum huga til kirkjunnar og þess boðskaps sem þar er fram borinn, hvort sem við trúum á upprisu Jésú Krists eða ekki. Og ef menn hinsvegar vilja endilega ögra með því að spila Bingó opinberlega á föstudaginn langa þá er eiginlega grundvöllur fyrir þessum frídögum horfinn og menn gætu allt eins farið að vinna. Það er reyndar gert í henni Ameríku, þar sem páskarnir eru bara hver annar sunnudagur eða svona rétt rúmlega það.

Gleðilega páska!

 


Hásæti Satans í Berlín

Um daginn var sýndur tónleikaþáttur með þungarokkshljómveitinni Iron Maiden í Sjónvarpinu. Þegar sveitin hafði tekið sitt þekktasta númer, 666 - the Number of the beast fannst mér komið gott að sinni, enda enginn sérstakur þungarokksaðdáandi. Eftir smá flakk á milli stöðva staðnæmdist ég við ansi athyglisverðan, en þó mjög undarlegan fræðsluþátt á Ómega sem ég hef eitthvað séð af áður á sömu stöð en þar er fjallað um þau myrkraöfl sem óðum eru að ná tökum á Evrópu með ófyrirséðum afleiðingum. Já það var eiginlega bara gefið í skyn að Satan sjálfur væri að leggja undir sig álfuna án þess að íbúarnir áttuðu sig á alvarleika málsins og lýsti sér meðal annars í gyðingahatri Evrópubúa ásamt undirgefni gagnvart múslimum.

EvrupeningurÞað er erfitt að rekja í stuttu máli allt það sem kom fram í þættinum en það má reyna. Fyrst skal nefna hina nýju táknmynd Evrópu sem sýnir Evrópumærina ríðandi á bola. Sú táknmynd kemur meðal annars fram í evrupeningum sumra landa og ekki síst sem skúlptúrverk fyrir framan einhverja af byggingum Evrópusambandsins í Brussel. Þarna er vísað í fornar sagnir um Gríska himnaguðinn Seif sem brá sér gervi bola, narraði Evrópu á bak sér, hljóp með hana út á haf og nauðgaði henni áður en hann afhúpaði hver hann væri í raun. Átti svo með henni þrjú börn.

Hásæti SatansPergamon-altarið
Hið alvarlegasta af öllu alvarlegu er, samkvæmt því sem fram kom í þættinum á Omega, hið alræmda Pergamon altari sem staðsett er í samnefndu safni í Berlín. Þetta er talsvert mannvirki sem Hellenar reistu á vesturhluta Tyrklands á 2. öld fyrir Krist, sennilega til heiðurs guðunum og þá ekki síst Seifi sjálfum, höfuðguði Grikkja.

Samkvæmt sjónvarpsþættinum er tengsl þessa mannvirkis við myrkraöflin alveg ljós útfrá því sem fram kemur í Opinberunarbók Jóhannesar: „Engli safnaðarins í Pergamos skaltu rita: Þetta segir sá sem hefur sverðið tvíeggjaða og beitta: Ég veit að þú býrð þar sem hásæti Satans er.
Pergamon hefur ekki verið talinn góður staður fyrir gyðinga og með krókaleiðum er hægt að finna út að Seifur er í raun sá sem múslimar tilbiðja í raun og veru, eða tunglguðinn. Þessi tunglguð er Satan sjálfur sem hefur bæði horn og klaufir eins og við vitum. Hornin hafa sama form og mánasigðin sem er einmitt tákn múslima.

Seint á 19. öld hóf Þýskur fornleifafræðingur rannsóknir á rústum þessa altaris og fór svo að það var flutt til Þýskalands stein fyrir stein og endurbyggt. Fyrst árið 1901 og síðar í nýju safni sem opnaði í Berlín árið 1930. Ekki þarf að spyrja að afleiðingunum því upp úr því hófst uppgangur Nasismans í Þýskalandi með öllu því sem því fylgdi. Hitler hélt mikið upp á musterið og notaði það sem fyrirmynd af sínum eigin hástalli í Nurnberg þar sem hann hélt miklar vakningarsamkomur. Í stríðinu var Pergmaon altarið tekið niður og varið en það féll síðan í hendur Rússa við fall Berlínar. Það var endurreist í Leningrad með öllum þeim illu öflum sem því fylgir en var svo flutt aftur til Austur-Berlínar upp úr 1958.
Íbúar Vestur-Evrópu voru ósnortnir af hinum illu öflum altarisins fram að falli Berlínarmúrsins. Nú hefur Berlín verið endurvakin sem höfuðborg Þýskalands á sama tíma og Þjóðverjar eru á ný orðnir öflugasta ríki Evrópu. Ekki þarf að spyrja að því hverja Evrópumenn styðja í heilögu stríði Ísraelsmanna við hina alræmdu Palestínumenn. Á sama tíma fara áhrif múslima vaxandi í Evrópu og styttist í allsherjar yfirtöku þeirra í Evrópu. Allt þetta mátti fræðast um í þættinum The Rape of Europe, sem virðist öðru hvoru vera á dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar Omega.

- - - -
Já það er vandlifað í henni veröld og við sem teljumst til hinna hófsömu í skoðunum, eigum stundum undir högg að sækja. Öfgahyggja tilheyrir ekki bara fortíðinni, hún kemur úr ýmsum áttum og hefur örugglega ekki sungið sitt síðasta. 

Létt lag hér í lokin:


Var Jesú sólguð, frjósemisguð eða frelsari?

Nú er komið að stóru Jesuskrifunum. Ég skrifaði fyrir síðustu jól um vetrasólstöðurnar og velti aðeins fyrir hvort fæðing frelsarans tengdist endurkomu sólarinnar um jólin og spurði þessarar spurningar: Hver var hann í raun þessi Jesú sem fæðist um jólin á sama tíma og sólin og er fórnað um páska? Ég hafði reyndar eitthvað heyrt óljósar hugmyndir um að Jesúfræðin gætu verið talsvert flóknari heldur en frásagnir Biblíunnar gæfu til kynna og að finna mætti fleiri Jésúa í öðrum og eldri trúarbrögðum. Hugsanlegu er viss skyldleiki milli flestra trúarbragða sem upp hafa sprottið í gegnum árþúsundin meira og þau meira og minna samtengt rétt eins og menningin og tungumálið.

LjosHeimsinsSama dag og ég birti umræddu grein kom svo einmitt umfjöllun í Fréttablaðinu um þetta og var þar lagt útfrá myndinni Zeitgeist sem ég vissi ekki af þá en margir hafa séð á netinu en fyrsti hluti hennar er lagður undir þessi Jesúmál. Í nefndri mynd eru taldir upp ýmsir fornir guðir sem tengdust átrúnaði á sólina og því haldið fram Jesú hafi í raun verið sólguð og sagnir um hann séu meira og minna byggðar á fornum goðsögnum og fyrirmyndum sem finna má í ýmsum trúarbrögðum. Meðal þeirra sem nefndir eru til sögunnar eru: Hórus - sólguð Egypta, Krisna - Kristur Hindúa og Mítra - Guð Persa. Þessir heilögu guðir og ýmsir fleiri eiga margt sameiginlegt. Þeir fæðast allir um vetrasólhvörf, gjarnan meyfæðingu, eru guðssynir, ljós heimsins, frelsa menn frá illu, lækna sjúka og deyja að lokum fyrir syndir mannanna – sumir jafnvel krossfestir.
Og talandi um kross, þá er krossinn auðvitað tákn kristinnar trúar en á sér um leið samsvörun í heiðnum átrúnaði á sólina þar sem miðja hans táknar sólina en höfuðáttirnar eru svo útfrá henni. Í fornum myndum af Jesú var reyndar höfuð hans gjarnan sýnt á miðju krossins eins og sólguði sæmir - ljósi heimsins.

En svo eru það páskarnir. Þeir eru auðvitað eins og jólin, forn hátíð. Jesú kom einmitt til Jerúsalem til að halda upp á páskana, en var þar svikinn, handtekinn, krossfestur, dáinn og grafinn en reis svo upp á þriðja degi aftur upp frá dauðum. Páskana ber upp á þeim tíma þegar jafndægur eru að vori, eða því sem næst eins og fjallað er um í áðurnefndri Zeitgeist mynd. En í myndinni er hins vegar minni áhersla lögð á annan þátt páskahátíðarinnar, sem er nefnilega sá að páskarnir séu frjósemishátíð og sennilega ævaforn sem slík. Páskana ber upp á þann tíma þegar gróður jarðar fer að dafna eftir veturinn og það sem skiptir kannski meira máli hér, er að páskarnir eru sá tími þegar korninu er sáð í jörðu. Útsæðinu er fórnað, fyrir nýja uppskeru og því betri uppskeru eftir því sem guðirnir eru okkur hliðhollari. Á þeim örlagaríku páskum sem kristnir menn halda upp á, var sjálfum Jesú Guðssyni fórnað. Er þar kannski komin tilvísun í miklu eldri fórnarhátíðir um páska? Líta má svo á að eins og sáðkornið sem spíraði eða lifnaði við eftir að hafa legið í jörðinni í þrjá daga þá reis Jesú upp á þriðja degi „til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki heldur hafi eilíft líf“ eins og segir í trúarjátningunni. Svo má líka nefna að í bók fræðimannsins Einars Pálsonar er að finna frásögn um frjósemisguðinn Frey Njarðarson sem kemur úr ásatrúnni en þar er talað um að Njörður hafi fórnað sjálfum sér í syni sínum fyrir mannkynið og í myrkasta skammdeginu éta menn líkama hans og drekka blóðið, eða éta kornið og drekka ölið.

Þar hafa menn það, Jesú var maður eða goðsagnarvera sem átti sér marga eldri bræður frá mörgum samfélögum, sem voru sólarguðir og/eða frjósemisguðir. Jesú kristinna manna er hinsvegar samkvæmt Biblíunni ekki goðsagnavera, hann lifði og starfaði meðal fólksins, boðaði fyrirgefningu syndanna og frelsun mannanna. Það er í sjálfu sér ekkert sem sannar það Jesú Kristur hafi yfirleitt verið til, hvað þá að hann hafi verið eingetinn sonur guðs og risið upp frá dauðum. En þetta er auðvitað trúaratriði og verður hvorki sannað eða afsannað og eins og fellst í orðinu trú, þá er ekki um fullvissu að ræða heldur trú. 

- - - - - - 

Ég læt hér fylgja slóð á myndina Zeitgeist: http://www.zeitgeistmovie.com/main.htm. Eftir inngang að myndinni þá fjallar fyrsti hluti hennar um hugmyndina um Jesú sem sólarguð en annars virðist tilgangur hennar vera sá að fletta ofan af hlutunum eins og kristindómnum, en einnig um samsæriskenningar í sambandi við árásina á World Trade Center og svo kemur umfjöllun um peningakerfið í heiminum. 

Einnig bendi ég á grein á bloggsíðunni Greinasafn Sigursveins, en þar fékk ég fróðleik um Frey Njarðarson, en einnig er þar fjallað um tengsl fornra trúarbragða og frjósemisdýrkenda við hinn heilaga berserkjasvepp.


Eilífðarmálin

God-creation

Þótt maðurinn sé vitsmunavera þá getur hann ekki vitað allt og þar sem þekkinguna þrýtur taka gjarnan trúarbrögðin við. Fyrir daga nútímavísinda og skynsemishyggju spannaði hið óþekkta stórt svið og svigrúm trúarbragðana til að útskýra heiminn því mikið. Hvernig varð heimurinn til? Hvernig urðu mennirnir til og hver stjórnar þessu öllu saman? Til að viðhalda einingu milli manna þurftu samfélögin að koma sér saman um svör við hinu óþekkta, þótt í ljósi aukinnar þekkingar hafa þau svör oft reynst vera byggð á misskilningi. Kannski má segja að trúarbrögðin séu til vegna þess að hvert samfélag þarf að skilja heiminn á sama hátt. Eða eigum við kannski að segja, misskilja heiminn á sama hátt?

Þrátt fyrir aukna þekkingu og allar þær tækniframfarir sem orðið hafa er hið óþekkta ennþá til staðar. Við vitum jú og trúum flest að heimurinn varð til í svokölluðum miklahvelli, jörðin er ekki miðja alheimsins og lífið þróaðist í flóknar lífverur úr nánast engu. En ef maður spyr nokkurra klassíska spurninga, þá verður  fátt um svör og svigrúm fyrir trú á æðri máttarvöld kannski enn til staðar: Af hverju er heimurinn til? Hví er ég, ég en ekki þú? Hvar endar alheimurinn?“ Hið rétta svar hins vísindalega þenkjandi og jarðbundna nútímamanns við svona spurningum er einfaldlega: „Því er ekki hægt að svara miðað við þekkingu okkar í dag“.

Það er hluti af mannlegu eðli að sætta sig ekki við ósvaraðar gátur, sérstaklega ekki ef þær snúast um hinstu rök tilverunnar. Þess vegna leitar trúin enn á fólk sem vill fá svörin, hin kristna trú hefur að vísu ekki alltaf svörin en þar er allavega kominn æðri vera, Guð, skapari himins og jarðar sem bindur þetta allt saman og vegir hans eru órannsakanlegir. Ef fólk kýs að trúa á almáttugan Guð, þá geri ég engar athugasemdir við það og ef fólk kýs að trúa ekki á hann þá geri ég engar athugasemdir heldur. En ef annar hópurinn hefur rétt fyrir sér þá hlýtur hinn að misskilja, kannski eru báðir hóparnir að misskilja, en bara ekki á sama hátt. Hvort heldur sem er, þá ríkir ekki eining í samfélaginu um þessi mál í dag. Í þeirri umræðu finnst mér best að taka öllu með ró, fullyrða sem minnst, trúa sem fæstu en njóta þess að mæta í kirkju ef svo ber undir.


mbl.is Innbyggð trú rannsökuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólatunglið yfir Esjunni

Síðast skrifaði ég um jólasólina í suðri en nú er komið að jólatunglinu í norðri en þessa mynd tók ég á núna á Þorláksmessu þegar tunglið var að skríða upp á norðurhimininn í allri sinni dýrð. Síðustu geislar sólarinnar leika um miðbæinn og lýsa upp þá hlið tunglsins sem snýr að okkur enda er tunglið í gagnstöðu við sólina  frá okkur séð. Ólíkt sólinni sem rétt skríður yfir sjóndeildarhringinn þá á tunglið eftir mikla næturferð hátt upp á suðurhimininn, sömu leið og sólin gerir á daginn við sumarsólstöður. Þegar tunglið er svona lágt á lofti virkar það alltaf stærra en venjulega vegna nálægðar við kennileiti á jörðu. Frá þessu sjónarhorni eru það þrír byggingarkranar sem teygja sig næst tunglinu, þeir eru eins og vitringarnir þrír sem eru komnir til að fylgjast með fæðingu frelsarans í suðri. Síðar munu þeir svo snúa sér að fyrri störfum og reisa handa okkur musteri undir tónlist. 

Gleðileg hvít jól 

midbaer23des07


Vetrarsólstöður, sólin og jólin.

Þegar sólin sest á stysta degi ársins hverfur hún á bakvið fjallið Keili séð frá Suðurgötunni og Ægisíðunni í Reykjavík. Það má alveg halda því fram að þetta sé ekki tilviljun, til forna voru ýmis kennileiti í landslagi notuð til að marka sólarganginn t.d. við vetrarsólhvörf. Það má vel ímynda sér að hinn píramídalagaði Keilir hafi einmitt verið tilvalinn sem slíkur viðmiðunarpunktur og jafnvel átt sinn þátt í því hvar fyrsti landnámsmaðurinn hafi valið bæ sínum stað. Sólin, tunglið og stjörnurnar skipuðu stóran sess í trúarlífi fólks til forna. Þegar sólin hafði sest bakvið fjallið á stysta degi ársins var beðið milli vonar og ótta þar til ljóst var að guðunum hafði þóknast að lengja sólarganginn á ný. Það kom hinsvegar ekki endanlega í ljós fyrr en 2-3 dögum eftir vetrarsólstöður og þá var ástæða til fagna nýju ári, nýju upphafi eða jafnvel nýjum mannkynsfrelsara, sú hátíð heitir í dag jól sem er orð sem rímar við sól.

Fyrir mörgum árum var í sjónvarpi allra landsmanna frétt um þessi tengsl milli staðsetningar Reykjavíkur, sólarinnar og Keilis við vetrasólhvörf og voru þá fleiri staðir nefndir til sögunnar. Ef dregin er lína milli miðbæjar Reykjavíkur og Keilis kemur í ljós að sú lína liggur einnig um Bessastaði á Álftanesi og Kapelluhraun við Straumsvík, en af einhverjum ástæðum hefur það þótt helgur staður til forna. Ef línan er hins vegar framlengd í hina áttina frá Reykjavík í norðnorðaustur liggur hún um kirkjustaðinn og landnámsbæinn Brautarholt á Kjalarnesi, og hvort sem það er tilviljun eða ekki, þá liggur línan einnig um Saurbæ í Hvalfirði og Reykholt í Borgarfirði, en þeir staðir eru að vísu ekki í sjónlínu við Keili.

Þessar vangaveltur tengjast vitanlega því sem fræðimaðurinn Einar Pálson hélt fram á sínum tíma. Hann stúderaði og gaf út bækur um skipan heimsins út frá ýmiss konar tölfræði tengdri gangi sólar og hvernig rætur íslenskrar menningar tengjast goðsagnarheimi fornra Miðjarðarhafsþjóða og Kelta. Það má svo hugsa sér í þessu sambandi hvort rætur kristninnar liggi víðar og eigi sér lengri sögu en almennt er talað. Hver var hann í raun þessi Jesú sem fæðist um jólin á sama tíma og sólin og er fórnað um páska? Ég hætti mér ekki út í þau fræði hér og nú en ætla í staðinn að minnast á myndina hér að neðan sem ég tók á köldum og björtum degi við vetrarsólhvörf árið 1981. Þarna við Ægisíðuna sést hvar sólin er á leiðinni að setjast bakvið Keili og ef vel er að gáð má sjá Bessastaði á réttum stað í sólroðanum.

Og þá er bara eftir að óska öllum gleðilegra jóla. 

solarlag


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband