Eilífðarmálin

God-creation

Þótt maðurinn sé vitsmunavera þá getur hann ekki vitað allt og þar sem þekkinguna þrýtur taka gjarnan trúarbrögðin við. Fyrir daga nútímavísinda og skynsemishyggju spannaði hið óþekkta stórt svið og svigrúm trúarbragðana til að útskýra heiminn því mikið. Hvernig varð heimurinn til? Hvernig urðu mennirnir til og hver stjórnar þessu öllu saman? Til að viðhalda einingu milli manna þurftu samfélögin að koma sér saman um svör við hinu óþekkta, þótt í ljósi aukinnar þekkingar hafa þau svör oft reynst vera byggð á misskilningi. Kannski má segja að trúarbrögðin séu til vegna þess að hvert samfélag þarf að skilja heiminn á sama hátt. Eða eigum við kannski að segja, misskilja heiminn á sama hátt?

Þrátt fyrir aukna þekkingu og allar þær tækniframfarir sem orðið hafa er hið óþekkta ennþá til staðar. Við vitum jú og trúum flest að heimurinn varð til í svokölluðum miklahvelli, jörðin er ekki miðja alheimsins og lífið þróaðist í flóknar lífverur úr nánast engu. En ef maður spyr nokkurra klassíska spurninga, þá verður  fátt um svör og svigrúm fyrir trú á æðri máttarvöld kannski enn til staðar: Af hverju er heimurinn til? Hví er ég, ég en ekki þú? Hvar endar alheimurinn?“ Hið rétta svar hins vísindalega þenkjandi og jarðbundna nútímamanns við svona spurningum er einfaldlega: „Því er ekki hægt að svara miðað við þekkingu okkar í dag“.

Það er hluti af mannlegu eðli að sætta sig ekki við ósvaraðar gátur, sérstaklega ekki ef þær snúast um hinstu rök tilverunnar. Þess vegna leitar trúin enn á fólk sem vill fá svörin, hin kristna trú hefur að vísu ekki alltaf svörin en þar er allavega kominn æðri vera, Guð, skapari himins og jarðar sem bindur þetta allt saman og vegir hans eru órannsakanlegir. Ef fólk kýs að trúa á almáttugan Guð, þá geri ég engar athugasemdir við það og ef fólk kýs að trúa ekki á hann þá geri ég engar athugasemdir heldur. En ef annar hópurinn hefur rétt fyrir sér þá hlýtur hinn að misskilja, kannski eru báðir hóparnir að misskilja, en bara ekki á sama hátt. Hvort heldur sem er, þá ríkir ekki eining í samfélaginu um þessi mál í dag. Í þeirri umræðu finnst mér best að taka öllu með ró, fullyrða sem minnst, trúa sem fæstu en njóta þess að mæta í kirkju ef svo ber undir.


mbl.is Innbyggð trú rannsökuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Helga Sigurðardóttir

mjög skemmtilegar vangaveltur. stundum finnur maður hvað er sannleikurinn, en það er bara minn sannleikur, eins og þú eða bjössi hafið ykkar sannleik ! svona er það nú

Bless inn í kvöldið !

steina

Steinunn Helga Sigurðardóttir, 20.2.2008 kl. 20:56

2 Smámynd: Sigurður Árnason

Góð grein. Mikið til í þessu.

Sigurður Árnason, 21.2.2008 kl. 21:58

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Skemmtilegar pælingar. Einhvern veginn grunar mann nú að miðað við hvernig ástandið er og hefur verið í heiminum séu ansi margir að misskilja ansi margt.

Verst að geta ekki leiðrétt misskilninginn af því maður er svo fávís og takmarkaður.

Lára Hanna Einarsdóttir, 21.2.2008 kl. 22:05

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst trúin ekki geta svarað þessum spurningum sem þú tiltekur. Að mínu viti eru þær ósvaranlegar og eiginlega engin þörf á að svara þeim. Þar fyrir utan getur guð alveg verið til.

Sigurður Þór Guðjónsson, 23.2.2008 kl. 23:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband