Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Hversu gott var veðrið í ágúst?

Þá er komið að dagbókaryfirliti fyrir nýliðinn ágústmánuð í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár. Sem fyrr er þetta unnið upp úr eigin veðurskráningum sem ná aftur til ársins 1986. Aukaafurð þessara skráninga er mitt háþróaða einkunnakerfi sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita. Alslæmir dagar fá 0 í einkunn en algóðir dagar fá 8. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn.


Skráning ágúst 2011Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn ágúst. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Fyrri hluta ágústmánaðar miða ég meðallagið við 10-15 stig en seinni hlutann 9-14.

Ágúst 2011 - Einkunn 5,2
Nýliðinn ágúst fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,2 stig sem telst góð einkunn og vel yfir meðallagi. Allir mánuðir frá því í maí hafa verið góðir í Reykjavík og náð einkunn í kringum 5 stig en nýliðinn ágúst gerir betur og fær hæstu einkunn það sem af er ári. Frá því skráningar hófust hefur aðeins einn ágústmánuður náð betri einkunn, en ég kem að því hér síðar.
Mánuðurinn var vissulega sólríkur en margir hafa þó verið sólríkari og hann var hlýr þótt margir hafa verið hlýrri, hinsvegar er þetta með allra þurrustu ágústmánuðum í borginni og að auki fæ ég út að hann hafi verið óvenju hægviðrasamur og er að því leyti eins og bestu vormánuðir. Boxið neðst til vinstri á skráningarsíðunni sýnir tíðni og styrk hverrar vindáttar og þar fær norðanáttin hæsta gildið enda voru 5 norðanáttardagar í röð um miðjan mánuðinn. Hlykkjóttar hægviðrispílur eru algengar en aldrei þurfti ég að teikna tvöfaldar hvassviðrispílur. Talan 43 fæst með því að leggja tölurnar saman í boxinu en þetta er lægsta vindatalan sem ég hef skráð fyrir ágúst. Eftir á að koma í ljós hvort Veðurstofan sé sammála mér þarna.
Hæsti hiti mánaðarins náðist þann 5. ágúst í skýjaðri norðaustanátt og það er eina skiptið sem hitinn náði 20 stigum í borginni í sumar og voru það akkúrat 20 stig eftir því sem ég best veit. Skráðar hitatölur hjá mér (dálkur á eftir vindörvunum) sýna dæmigerðan hita yfir daginn hverju sinni. Meðaltal þeirra er 13,3° og það getum við kallað dæmigerðan dagshita í mánuðinum.

Bestu ágústmánuðir frá 1986
Ágúst 2004 - Einkunn 5,3. Þessi mánuður er sögulegur vegna hitabylgjunnar óvenjulegu sem þá reið yfir og þetta er með allra hlýjustu mánuðum sem yfirleitt hafa komið í Reykjavík þótt reyndar hafi verið enn hlýrra að meðaltali árið á undan. Mánuðirinn var einnig mjög sólríkur og þurr og hefði fengið algera úrvalseinkunn ef fyrstu og síðustu dagarnir hefðu ekki skemmt fyrir.
Ágúst 2009 og 2011 - Einkunn 5,2. Hér er nýliðinn mánuður í góðum félagsskap með ágúst 2009. Það sumar var með eindæmum gott í Reykjavík, allavega samkvæmt mínum bókum en sumrin hafa reyndar flest verið mjög góð undanfarin ár hér í borginni. Ágúst 2009 var heldur sólríkari og hlýrri en nú í ár en ekki eins hægviðrasamur.
Ágúst 1987 - Einkunn 5,1. Þessi mánuður þótt aldeilis góður á sínum tíma enda voru sumrin ansi misgóð á 9. áratugnum. Eins og oft gerist datt botninn úr þessum mánuði í lokin því lengst af stefndi þarna í mun hærri einkunn.
Ágúst 1994, 2003 og 2010 - Einkunn 5,0. Þarna má sjá ágústmánuð í fyrra og hlýjasta ágúst sem mælst hefur í Reykjavík á því hlýja ári 2003. Ágúst 1994 gerði það gott með alhliða gæðum en ekki endilega mörgum sólardögum.

Og þeir verstu:
Ágúst 1995 - Einkunn 4,0. Þarna skráði ég bara 3,5 sólardaga sem segir sína sögu enda var þetta mjög þungbúinn sunnanáttarmánuður sem nýttist betur norðanlands og austan.
Ágúst 2005 - Einkunn 4,2. Einhvern veginn tókst þessum mánuði að falla á prófinu en hann var ekkert afgerandi slakur nema þá helst vegna sterkra vinda úr ýmsum áttum og misslæmum veðrum inn á milli.

Fleiri mánuði nefni ég ekki til sögunnar en allir hinir hafa fengið einkunnir á bilinu 4,4–4,9. Enn eitt góðviðrissumar er að baki hér í Reykjavík. Senn svífur að hausti með kraftmeiri veðrum, meira fjöri og áframhaldandi veðurskráningum. Ég á síður von á að að halda birtingum á þeim áfram nema þjóðin fari fram á það með miklum látum – sem er frekar ólíklegt.


Hitabylgjurnar 2004 og 2008 í Reykjavík.

Það lítur út fyrir að við sleppum við meiriháttar hitabylgjur þetta sumarið. Hæsti hitinn í Reykjavík hingað til í sumar var 5. ágúst 20,0° í skýjuðu veðri og gæti það kannski flokkast sem míkró-hitabylgja. Hér ætla ég hinsvegar að rifja upp tvær alvöru hitabylgjur frá árunum 2004 og 2008 sem báðar voru sögulegar. Þetta er þó ekkert allsherjaryfirlit og læt ég nægja að rekja hitann í Reykjavík. Á vef Veðurstofunnar er hægt að sjá hitaferla frá sjálfvirkum athugunum síðustu 6 sólarhringa hverju sinni og þaðan nálgaðist ég á sínum tíma myndirnar sem báðar sýna hitann í Reykjavík. Til glöggvunar hef ég bætt við gráum svæðum sem eiga að þýða næturhúmið. Bláa línan á myndunum er daggarmark en loftið er rakara eftir því sem línurnar eru nær hvor annarri. Annars er rauði hitaferillinn aðalatriðið.

Hitabylgja 2008

Hitabylgjan í júlí 2008 var óvenjuöflug og þá voru sett met víða um land en hitinn fór hæst í 29,7 stig á Þingvöllum sem mun vera hæsti hiti sem mælst hefur hér á landi þar sem öllum kröfum er fullnægt. Í Reykjavík hófst hitabylgjan þann 25. júlí (sem er utan myndar) en þá fór hitinn yfir 22 stig (hef það ekki nákvæmar). Næstu tvo daga var vel hlýtt þótt nokkuð væri í 20 stigin. Þann 29. júlí var skýjað veður og hitinn undir 15 stigum en til marks um að eitthvað var að gerast þá kólnaði eiginlega ekkert um nóttina. Mánudaginn 29. júlí skein sólin á ný og rauk hitinn þá yfir 22 stig. Lítilsháttar hafgola hefur þó væntanlega skorið toppinn af hita dagsins.
30. júlí er svo aðaldagurinn því eftir að hitinn hafði náð 20 stigum um hádegi, hélt bara áfram að hlýna uns hámarki var náð undir lok dags þegar hitinn komst í 25,7 stig. Það er opinbert hitamet í Reykjavík á hefðbundnum hitamæli við Veðurstofuna og eina skiptið sem hitinn hefur farið yfir 25 stig. Á þeirri sjálfvirku fór hitinn hins vegar í 26,4 stig. Þessi hitatoppur stóð stutt og daginn eftir var skýjað veður með 15 stiga hita.
Lokadagur hitabylgjunnar í Reykjavík var svo föstudagurinn 1. ágúst en þá var meira en 20 stiga hiti yfir daginn náði hæst í 23,6° síðdegis sem þykir nú bara aldeilis gott.

Hitabylgja 2004

Hitabylgjan í ágúst 2004 var ekki síður merkileg enda einstaklega hlýtt loft yfir landinu. Hegðun hitans í Reykjavík var mjög undarleg og venjur um dægursveiflur algerlega hundsaðar. Þetta byrjaði þó með nokkuð hefðbundnum hlýjum sunnudegi þann 8. ágúst þar sem hitinn náði 18 stigum í hlýjum austanvindi. Mánudagurinn fór vel af stað þegar hitinn rauk yfir 20 stig strax um morguninn en hrapaði jafnharðan aftur þegar þykknaði upp með svalari golu af hafi. Öllu máli skipti þarna eins og endranær hvort andar af hafi eða landi. Aðfaranótt þess 10. hefur hlý landgola tekið yfir og þótt náttmyrkur væri skollið á komst hitinn upp í 20 stig sem er vægast sagt mjög sérstakt. Þegar birti af degi tók væg hafgola við og hitinn í sólinn lækkaði niður í 17-18 stig. Aftur náði hitinn 20 stigum undir myrkur þegar vindur stóð af landi á ný og önnur óvenjuhlý nótt tók við.
Miðvikudaginn 11. ágúst hafði hitinn loksins betur yfir daginn en þá komst hitinn í Reykjavík í 24,8 stig sem þá var nýtt hitamet í borginni og stóð það met í 4 ár eða þar til áðurnefnt hitamet var sett í júlí árið 2008. Eldra metið var frá 1976: 24,3°. Þrátt fyrir hægviðri náði hafgolan sér eiginlega ekkert á strik en þegar mjög hlýtt er í háloftunum er loftið mjög stöðugt og því minni grundvöllur fyrir hafgolumyndun. Þó sér maður útfrá á hitaferlinum að 11. ágúst hefði getað gert enn betur ef nálægð sjávarins hefði ekki spilað inní.
Dægursveiflan getur talist hefðbundin þann 12. ágúst en þá náði hitinn 20 stigum fjórða sólarhringinn í röð sem er einsdæmi í Reykjavík. Lokaandvarp hitabylgjunnar kom föstudaginn 13. en þá slagaði hitinn uppí 19 stig snemma morguns en var síðan ofurliði borinn af kaldara Faxaflóalofti. Í framhaldinu tóku við margir sólríkir dagar með venjulegum síðsumarhitum uppá 14-15 stig sem þá þótti ekkert sérstakt eftir það sem undan var gengið.


Hafístíðindi - endaspretturinn framundan

Linurit_DMI_8Agust2011

Þegar ég skrifaði um hafísinn fyrir mánuði benti margt til þess að söguleg tíðindi væru framundan varðandi útbreiðslu hafíssins á Norður-Íshafinu. Útbreiðslan hafði þá skotist niður fyrir það sem var á sama tíma metárið 2007 og ekki annað að sjá en að æsilegt kapphlaup væri fram undan. Seinni partinn í júlí breyttust hinsvegar veðuraðstæður, lægðir fóru að gera vart við sig, það dró fyrir sólu auk þess sem vindar blésu út frá ísbreiðunni sem stuðluðu að aukinni dreifingu í stað þess að pakka ísnum saman. Þróun útbreiðslunnar náði því ekki lengur að halda í við árið 2007 og loks varð dálítið bakslag nú um mánaðarmótin sem reyndar hefur gengið til baka. Útbreiðslan er samt sú næst lægsta miðað við sama tíma á fyrri árum. Þetta má sjá á línuritinu frá Dönsku veðurstöfunni DMI.

 

CT_7August2011+min2007

Hér að ofan er mynd sem sýnir ísbreiðuna þann 7. ágúst en til samanburðar hef ég útlínað septemberlágmark ársins 2007. Talsverð ísasvæði eru enn utan við 2007-lágmarkið. Mikið af því er gisinn ís og væntanlega ört bráðnandi. Varðandi ísmagn verður að hafa í huga að útbreiðsla og flatarmál ísinns er ekki það sama, hvað þá heildarrúmál. Ísinn pakkaðist mikið saman sumarið 2007 sem skilaði sér í mjög lítill útbreiðslu en ekki endilega minna heildarísmagni en því sem við erum að horfa á í ár. 

 

Loftþrýstingur Norðupóll Agust2011

Veðurspákort af Norðurhveli fyrir miðvikudaginn 10. ágúst.  

Ekki er öll von út enn ef menn vilja sjá nýtt útbreiðslulágmark í september þótt ljóst sé að við ramman reip verður að draga. Nýjustu tíðindi eru þau að veðrakerfin eru aftur að raða sér upp í  æskilega stöðu til að vinna á ísbreiðunni. Hæðarsvæði er að styrkjast þarna á ný og með hjálp lægða yfir Síberíuströndum myndast vindstrengur yfir Norður-íshafinu suður að Fram-sundi milli Svalbarða og Grænlands, en hafís sem fer það í gegn á ekki afturkvæmt og bráðnar að lokum við strendur Grænlands. Tíminn til að gera stóra hluti fer þó minnkandi því sólin lækkar á lofti og mun að lokum ekki ná lengur að halda yfirborðshitanum yfir frostmarki. Veðuraðstæður breytast auðvitað sífellt og endaspretturinn ræðst af því hvernig veðri og vindum reiðir af allt til loka bræðsluvertíðarinnar í september. 


Hversu gott var veðrið í júlí?

Þá er komið að veðurdagbókaryfirliti fyrir nýliðinn júlí í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár en meiningin er að birta samskonar yfirlit fyrir alla sumarmánuðina nú í ár. Eins og ég nefni alltaf í inngangi er aukaafurð þessara skráninga einkunnakerfið sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn.

Skráning júlí 2011Hér er veðurskráningin fyrir nýliðinn júlí. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Í júlí miða ég meðallagið við 11-15 stig.

Júlí 2011 – Einkunn 5,0
Nýliðinn mánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,0 sem er frekar góð einkunn og stendur fyllilega undir þeim kröfum sem við erum farin að gera til sumarmánaða í dag en veðurgæði hafa greinilega aukist að sumarlagi hér í Reykjavík.

Megnið af mánuðinum var mjög þurrt og til marks um það skráði ég enga úrkomu dagana frá 2. til 25. júlí sem þýðir að úrkoma á því tímabili var svo lítil að ekki tók því að nefna hana en úrkoma gæti þó hafa fallið að næturlagi. Dropadálkurinn aftan við loftvog á miðnætti sýnir hvort jörð sé blaut á miðnætti en sá dálkur er alveg auður í 20 daga samfleytt. Þessu þurrkatímabili (sem í raun hófst mun fyrr) lauk þann 26. með ekta landsynningsrigningu úr suðaustri og eina stig dagsins fékkst fyrir 13 stiga hitann sem ekki er hægt að kvarta yfir.

Einn dagur fær fullt hús stiga (8) en það er föstudagurinn 15. júlí sem jafnframt er heitasti dagurinn. Annars fá dagar ekki 8 stig nema þeir hafi virkilega unnið fyrir því. Einkunnin 0 er hinsvegar mjög sjaldgæf enda fer ekki saman mikil úrkoma og kuldi hér í Reykjavík.

Vindurinn í mánuðinum var ekkert sérlega hægur að meðaltali en aðallega þá vegna nokkra hvassra daga þar sem strekkingsvindur var úr suðaustri og því er gildi suðaustanáttarinnar (27) frekar hátt í vindáttaboxinu sem er þarna niðri til vinstri. Einkenni góðra sumarmánaða í Reykjavík er há tíðni norðvestanáttar sem gjarnan fylgir sólardögum sem hafgola. Norðvestanáttin hefur að þessu sinni næsthæsta gildið (12) á meðan sunnanáttin er t.d. í núlli. Þegar hálfir og heilir sólardagar hafa verið lagðir saman er útkoman 12 sólardagar sem er bara fínt – sama og var í fyrra, en samt nokkuð frá því besta.
Hitinn í mánuðinum er í samræmi við hlýindi síðustu ára. Enginn dagur telst vera kaldur og 5 dagar teljast hlýrri en viðmiðunin segir til um. Ekki fengum við 20 stig að þessu sinni en í Reykjavík má alls ekki ætlast til þess á hverju sumri þrátt fyrir almenn hlýindi. Kannski mun komandi ágústmánuður bæta þar úr.

Bestu júlímánuðir frá 1986.

Júlí 2009 - Einkunn 5,8. Þessi mánuður slær allt annað út í einkunnagjöf og má kallast alger stjörnumánuður. Meðalhitinn var örskammt frá mánaðarmetinu, sólskin það mesta frá 1974 og úrkoma sú minnsta síðan á 19. öld. Þessi háa einkunn ræðst ekki síst af því að góðviðriskaflinn hitti nokkuð vel á mánuðinn. Eini gallinn var stutt kuldakast seint í mánuðinum sem frægast er fyrir að hafa fellt kartöflugrös í Þykkvabænum.
Júlí 2007 - Einkunn 5,5. Sögulega séð er þessi mánuðir síðasti mánuðurinn þar sem góðæri ríkti í fjármálakerfi heimsins en síðan hefur leiðin bara legið niðurávið. Veðurfarslegt góðæri hér í Reykjavík stendur þó fyrir sínu. Þessi næst besti júlímánuður var ákaflega sólríkur fyrri hlutann en köflóttari eftir það. Mánuðirinn tók við af mjög góðum og sólríkum seinni hluta júnímánaðar. Besti mánaðarlangi kaflinn í mínum bókum fæst einmitt með því að taka meðaleinkunn yfir 31 daga tímabil sem nær yfir báða þá mánuði en þannig fæst einkunn upp á 6,1 tímabilið 21. júní til 21. júlí. 2007.
Aðrir mánuðir blanda sér ekki í toppbaráttuna þótt nægt úrval sé af góðum júlímánuðum. Júlí 2010 og 2004 fengu báðir 5,2 í einkunn. Júlí í fyrra deilir einmitt metinu „heitasti mánuðurinn“ í Reykjavík með hitabylgjumánuðinum júlí 1991. Sá mánuður árið 1991 fékk 5,1 í einkunn ásamt júlí árið 2000 og eru þar með taldir upp þeir júlímánuðir sem hafa fengið hærri einkunn en júlí í ár. Júlí 1993 og 2005 dæmast þó jafngóðir með sömu einkunn.

Og þeir verstu:

Júlí 1989 – Einkunn 3,8. Þetta er ekkert nema falleinkunn enda sólarminnsti júlí sem mælst hefur í Reykjavík auk þess sem meðalhitinn var ekki nema 9,6 stig sem er með því slakasta sem gerist. Þrálátar rigningar bættu svo ekki úr skák.
Júlí 1987 – Einkunn 4,1. Þetta var líka sólarleysismánuður og slakur á alla kanta þó ekki væri hann nálægt metum. Að öðru leyti var sumarið '87 mun betra og sólríkara.
Afleitir júlímánuðir hafa í raun ekki verið fleiri en þessir tveir sem báðir eru komnir til ára sinna. Á þessari öld eru tveir mánuðir sem fá bara 4,4 en það eru júlí 2002 og 2006. Þeir voru báðir í svalari kantinum og ekkert sérstakir að öðru leyti og sennilega flestum gleymdir eins og svo margir aðrir mánuðir þegar kemur að veðri. Þess vegna er ekkert verra að eiga þetta allt kyrfilega skráð.


Er heimurinn að hlýna eða kólna?

Það eru væntanlega fáir sem efast um að hlýnað hafi á jörðinni síðustu 100 ár enda sýna mælingar það svo ekki verði um villst. Þessar 0,7° gráður eða svo sem hlýnað hefur um í heiminum frá aldamótunum 1900 teljast varla vera nein katastrófa en haldi hlýnunin áfram á þessari öld með auknum hraða, gæti gamanið farið að kárna eins og margoft hefur verið varað við.

En hér eru ekki allir á sama máli, því inn á milli heyrast raddir um að loftslag á jörðinni stjórnast lítið sem ekkert af athöfnum manna – það hafi alls ekkert hlýnað undanfarin ár og framundan sé áratugalangt kuldaskeið af náttúrulegum orsökum en aðallega þá vegna minnkandi sólvirkni. Sumir hafa undanfarið jafnvel talið að kuldaskeiðið mikla væri í þann veginn að hefjast eins og þessar tilvitnanir segja til um:

It is likely that 2011 will be the coolest year since 1956, or even earlier, says the lead author of a peer-reviewed paper published in 2009. Our ENSO - temperature paper of 2009 and the aftermath by John McLean

„Global temperatures have suddenly returned to the same level they were in 1980 and are expected to drop much further. Given the momentum of the solar hibernation, it is now unlikely that our generation or the next one will return to the level of global warming that we have just passed through. Again, global warming has ended. It was always caused by the Sun and not mankind. The global cooling era has begun.“ Space and Science Research Center, February 4, 2011

Þessi síðari tilvitnun er frá því í febrúar nú í ár eftir að hitinn hafði fallið í byrjun árs. Ekki reyndist sú kólnun langvinn. Þeir sem kallast efasemdarmenn um hnatthlýnun hafa reyndar lengi bent á að mikið hitafall sé yfirvofandi eða í þann veginn að skella á. Slíkt hefur hingað til látið á sér standa eða frestast, því eftir hvert bakslag hefur hitinn náð sér á strik svo um munar. Myndir hér að neðan sýnir hitaþróun jarðar frá 1979 samkvæmt gervitunglagögnum UAH:

Hitalínurit UAH Jun2011

Sá þáttur sem hefur einna mest skammtímaáhrif á hitafar jarðar en ENSO sveiflan í Kyrrahafi, sem segir til um hvort hinn hlýji El Nino eða hin kalda La Nina ráði ríkjum hverju sinni en mestu áhrifin eru af völdum sterks El Nino árið 1998 enda var það ár það hlýjasta samkvæmt þessum gögnum. Frá 1950 hefur þróunin verið þannig (rautt = El Nino / blátt = La Nina):

ENSO 1950-2011

- - - - -

Ef við setjum þessar tvær myndir saman fyrir árin 1979-2011 þannig að ártölin stemma, þá sést vel hvað átt er við. Hitaþróunin eltir ENSO sveiflurnar en er þó oftast nokkrum mánuðum á eftir. Eina tímabilið sem passar illa er 1992-1993 en það er vegna kælingar af völdum stóra eldgossins í Pinatupo á Filippseyjum:

ENSO+UAH 1979-2011

Í þessum samanburði kemur það í ljós að hitaferill hefur smám saman verið að lyfta sér upp fyrir ENSO sveiflurnar eins og ég stilli þessu upp. Með öðrum orðum: Það er undirliggjandi hlýnun í gangi sem ekki verður skýrð með tíðni El Nino og La Nina. Á síðasta ári var uppi kalt La Nina ástand (lengst til hægri) sem dugði þó ekki nema til þess að lækka hitann rétt niður fyrir meðallag en stóð stutt. Nú þegar hlutlaust ENSO-ástand er komið á á ný hefur hitinn rokið aftur upp (+0,31°) og það langt yfir meðallag. Til að ná slíkri hæð á árunum fyrir 1995 hefði hinsvegar þurft eindregið El Nino ástand.

Annað mikilvægt er að hitaþróun síðustu ára virðist ekki vera í samræmi við þá minnkandi sólvirkni sem verið hefur síðustu ár - allavega ekki enn sem komið er. Vísbendingar eru um langvararandi sólardeyfð á næstu áratugum en hvaða áhrif það mun hafa hafa veit ég ekkert um. Allavega virðumst við ennþá vera í ferli hlýnunnar sem erfitt er að útskýra án þess að íhuga þann möguleika að eitthvað gæti kannski komið við sögu sem ef til vill hefur eitthvað með mannkynið að gera.


Af ört bráðnandi hafís á Norður-Íshafinu

Linurit_DMI_9jul2010

Eins og fyrir mánuði tek ég hér stöðuna á hafísnum sem bráðnar nú ört í sumarsólinni norður í Íshafinu. Sem fyrr vísa ég í línurit ættuðu frá hafísdeild dönsku Veðurstofunnar þar sem má sjá samanburð á útbreiðslu hafíssins síðustu árin. Svarta línan stendur fyrir núverandi ár en spennandi tímar eru framundan því samkvæmt línuritinu er útbreiðslan nú minni en verið hefur áður á sama tíma sumars þótt ekki muni miklu. (Myndina uppfærði ég í morgun enda hefur svarta línan fallið nokkuð síðan í gær)

Útbreiðslan hefur fram að þessu í sumar fylgt nokkuð árinu 2010 en nú skiljast leiðir því mjög dró úr rýrnun ísbreiðunnar í júlí í fyrra. Því olli lægðarsvæði sem þá myndaðist á Norður-Íshafinu með aukinni skýjahulu og vindum úr óæskilegum áttum fyrir rýrnun ísbreiðunnar. Samanburðurinn við bláu línuna (2007) er auðvitað áhugaverðastur og á næstu vikum kemur í ljós hvort bráðnun ársins 2011 heldur í við bráðnun ársins 2007 sem endaði í metlágmarkinu fræga og var langt undan sinni samtíð. Það má vel gera ráð fyrir harðri baráttu framundan því ekki er spáð neinum truflandi lægðum á Norður-íshafinu á næstunni og reyndar er ekki annað að sjá en að hæðarsvæðið sem hefur verið þarna við norðurpólinn haldi velli áfram með tilheyrandi heiðríkju og sólbráð á stórum svæðum.

Hæðina má sjá hér að neðan á spákorti fyrir þriðjudaginn 12. júlí. Enn öflugri staða með tilliti til vinda kæmi þó upp ef hæðin fikraði sig aðeins til vinstri að ströndum Ameríku og smálægðin við Síberíustrendur efldist

Loftþrýstingur Norðupóll jul2011

Hér að neðan er svo mynd sem sýnir ísbreiðuna þann 6. júlí en til samanburðar hef ég útlínað septemberlágmark ársins 2007. Það metlágmark þarf kannski að fara að vara sig ef aðstæður breytast ekki enda er ísinn núna að öllum líkindum þunnildislegri og auðmeltanlegri en fyrir fjórum árum. Heilmikið ísmagn er þó við að eiga eins og sést á myndinni.

CT_7jul2011+min2007

Myndin er fengin af vefnum: The Cryosphere Today http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/

Svo er ekki úr vegi að vísa í júlíyfirlit Bandarísku hafísstofnunarinnar: http://nsidc.org/arcticseaicenews/


Hversu gott var veðrið í júní?

Esja 10. júní 2011

Þá er komið að dagbókaryfirliti fyrir nýliðinn júnímánuð í Reykjavík ásamt smá samanburði við fyrri ár. Sem fyrr er þetta unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum samanber meðfylgjandi sýnishorn. Aukaafurð þessara skráninga er einkunnakerfið sem einhver ætti að vera farinn að kannast við. Einfalda útskýringin er að það tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn. Það telst gott ef meðaleinkunn mánaðarins er yfir 5 stigum en afleitt ef hún nær ekki 4 stigum. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og eru ætlaðar sjálfum mér til gagns og gamans en yfirlit sumarmánaðana munu birtast hér í sumar.

Skráning júní 2011Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn júní. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort hiti dagsins teljist í meðallagi, hlýr eða kaldur. Fyrri hluta júnímánaðar miða ég meðallagið við 9-13 stig en seinni hlutann 10-14.

Júní 2011 - Einkunn 4,9.
Nýliðinn mánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 4,9 stig sem telst nokkuð góð einkunn og yfir meðallagi. Mánuðirinn var eindreginn norðanáttamánuður og því mjög misskiptur í gæðum eftir landshlutum og þar sem verst lét var veðrið hvorki mönnum, skepnum né fuglum bjóðandi. Hitinn í Reykjavík var lægri en hefur að meðaltali verið síðustu 10 ár en þó fyrir ofan opinberan meðalhita (1961-90). Fyrstu 10 dagarnir voru kaldir en umskipti til hins betra urðu eftir að Esjan náði að verða hvít aðfaranótt 10. júní. Slíkt háttalag Esjunnar í júní er mjög óvenjulegt. Annars varð það sólskinið og lítil úrkoma sem gerði útslagið í sambandi við ágæta einkunn mánaðarins. Veðurbókin hugsar sem fyrr ekkert um gróðurinn sem hefði alveg þegið meiri úrkomu. Aðeins tvisvar sá ég ástæðu til að skrá úrkomu en í bæði skiptin skein sólin einnig sama daginn. Enginn dagur fékk lægri einkunn en 3 en lökustu dagarnir voru allir á hinum köldu upphafsdögum mánaðarins. Síðasta daginn var ekki um annað að ræða en að gefa sparieinkunnina 8 enda voru allir veðurþættirnir upp á það besta.

Oft þarf að leggjast í miklar bollaleggingar þegar finna á viðeigandi lýsingu á meðalveðri dagsins enda veðrið oft ansi breytilegt. Stundum þarf að gera einhverjar málamiðlanir til að fá sem sanngjörnustu útkomu en þó innan þess marka sem skráningarkerfið býður upp á.

Þá er það samanburður við fyrri ár. Síðan dagbókarskráningar hófust árið 1986 eru þrír júnímánuðir jafnir í 1.-3. sæti með 5,3 í einkunn:

Júní 1991 - Einkunn 5,3. Þessi mánuður var eftirminnilegur góðviðrismánuður enda mjög sólríkur og úrkomulítill. Það gerist t.d. ekki oft hér í borginni að við fáum 9 léttskýjaða eða heiðskíra sumardaga í röð eins og varð dagana 13-21. júní. Hitinn í mánuðinum var hinsvegar bara í góðu meðallagi.
Júní 1998 - Einkunn 5,3. Hlýr mánuður þar sem meðalhitinn náði að skríða yfir 10°C, en það hafði ekki gerst í júní í Reykjavík síðan 1966. Margir fínir sólardagar voru í mánuðinum en að auki er þetta hægviðrasamasti júní sem ég hef skráð.
Júní 2008 - Einkunn 5,3. Mánuðurinn var enn ef þeim sólríkustu sem mælst hafa í Reykjavík og auk þess mjög þurr og hlýr. Hér hefði fengist enn hærri einkunn ef nokkrir vindasamir dagar hefðu ekki dregið einkunnina niður.
Júní 2010 - Einkunn 5,2. Þetta er hlýjasti júní sem mælst hefur í Reykjavík og víðar, meðal annars í Stykkishólmi. Eins og undanfarin ár var nokkuð þurrt en sólskinsdagar voru þó ekki fleiri en venjulega.

Og þeir verstu:
Júní 1988 - Einkunn 3,6. Versti sumarmánuðurinn sem ég hef skráð. Þetta var vindasamur og kaldur rigningarmánuður og sólarminnsti júní sem mælst hefur í Reykjavík. Ekki bætti úr skák að verstu veður mánaðarins komu einmitt á sjómannadaginn og þjóðhátíðardaginn 17. júní.
Júní 1992 - Einkunn 4,0. Afar kaldur mánuður og sennilega frægastur fyrir Jónsmessuhretið. Ásamt júní 1978 er þetta kaldasti júní sem komið hefur síðan 1922.
Júní 2006 - Einkunn 4,1. Hér voru einfaldlega allir veðurþættir daprir án þess þó að um söguleg frávik hafi verið að ræða.
- - - -

Ljósmyndin af Esju er tekin að morgni 10. júní


Ofurplönturnar taka völdin

Skógarkerfill

Nú er blómatími sumarsins gengin í garð og þrátt fyrir litla úrkomu er borgin víða að kafna í gróðri. Þar á meðal er hinn hávaxni skógarkerfill að verki en hann er orðinn áberandi í borgarlandinu og blómstrar hvítum blómum um þessar mundir. Skógarkerfill er ættingi hvannarinnar og má finna talsverðar breiður af honum í Öskjuhlíðinni, Vatnsmýrinni, Elliðaárdal og víðar og sumstaðar er kerfillinn farinn að sækja inn í lúpínubreiður sem segir sína sögu hversu öflug planta þetta er.

Skógarkerfillinn er innflutt planta eins og lúpínan en er hingað komin sem skrautjurt snemma á síðustu öld og hefur verið notuð sem slík áratugum saman í görðum. Smám saman hefur plantan dreift úr sér og finnst nú víða um land við mismiklar vinsældir. Hún þykir orðin full aðgangshörð í Eyjafirði og Hrísey og þar hafa verið gerðar tilraunir til eyðingar á henni. Skógarkerfillinn er ólíkur lúpínunni að því leyti að hann fer ekki yfir ógróið land enda vinnur hann ekki köfnunarefni úr loftinu eins og belgjurtin lúpínan gerir. Kerfilinn lætur því aðrar jurtir um að skapa jarðveginn sem hann sækir síðan í. Væntanlega munu stóru lúpínubreiðurnar umhverfis borgina smám saman láta undan skógarkerflinum sem muna síðan ráða ríkjum í þéttum breiðum þar til einhver önnur og öflugri ofurplanta nemur land. Í Esjuhlíðum við Mógilsá er þetta mjög greinilegt þar sem grænhvíti-liturinn hefur nánast tekið við af þeim fjólubláa. Lúpínan mun þó halda áfram sínu landnámsstarfi um holt og hæðir, lyng og móa.

Gott eða slæmt?
Skógarkerfillinn og lúpínan eru ekki taldar til náttúrulegrar íslenskar flóru. Þessar plöntur eru ættaðar úr öflugri vistkerfum og stuðla að varanlegri breytingu á gróðurfari. Eins og ýmsir aðrir er ég ekki alltof hrifinn af þessari þróun sem skilar sér í einsleitara gróðurfari þar sem örfáar ofurplöntur gerast allsráðandi. Mér finnst þó ekki sérstök ástæða að amast við þessu innan byggðarinnar eða í næsta umhverfi þar sem hvort sem er ægir saman allskonar gróðri innlendum og innfluttum. Þetta er líka hinar fallegustu plöntur á meðan þær eru í blóma. Hinsvegar finnst mér verra þegar landgræðsla er stunduð með lúpínu og þegar fólk er beinlínis að stuðla að útbreiðslu hennar og fjöll of firnindi. Hefðbundið rótgróið gróðurfar á landinu er í mikilli sókn samkvæmt rannsóknum, ekki síst vegna aukinna hlýinda og minnkandi beitar. Landið er ekki að fjúka á haf út eins og óttast var fyrir nokkrum árum eða áratugum og virðist fullfært um að græða sig sjálft á eigin forsendum með tíð og tíma.

Blómaskrúð

Skrautlegar ofurplöntur í Öskjuhlíð í harðri valdabaráttu.

- - - - -

Nánar um Skógarkerfilinn má finna hér á vef Náttúrfræðistofnunar:

http://www.ni.is/grodur/rannsoknir/agengartegundir/skogarkerfill


Af snjóalögum sunnan Hofsjökuls

 SeturTrooperar_6

Ég hef öðru hvoru birt línurit með samanburði milli ára á snjódýpt við Setur sunnan Hofsjökuls þar sem jeppamannafélagið er með skála. Upplýsingarnar gref ég upp af eldri vef Veðurstofunnar þar sem hægt er að nálgast snjódýptina hverju sinni og úr þeim upplýsingum vinn ég línuritið og uppfæri reglulega með hálfsmánaðar millibili.

Setur er í 693 metra hæð og er þar iðulega hvít jörð allan veturinn og snjódýptin vel á annan metra seinni hluta vetrar samkvæmt mælingum. Snjórinn er venjulega í hámarki í apríl og horfinn um miðjan júní og eins og sjá má á línuritinu á það einnig við í ár þrátt fyrir nokkuð svala tíð undanfarið. Ég fylgist að vísu ekki alltaf með upp á dag hvenær snjórinn hverfur en í ár hitti það alveg á 15 júní.

Snjodýpt SETUR jun 2011

Framan af vetri var að mjög lítil snjósöfnun á Setri en úr því var bætt eftir áramót af miklum ákafa uns vorsólin fór að hafa betur. Mér sýnist vera þó nokkur samsvörum milli snjódýptar þarna upp undir Hofsjökli og ástandsins almennt á suðurhelmingi landsins, en væntanlega síður norðan jökla. Maður sér þetta til dæmis ágætlega á Esjunni sem var nánast snjólaus um síðustu áramót en bætti síðan heilmiklu á sig.
Þarna sést líka vel hvað veturinn 2009-2010 (ljósblá lína) var snjóléttur þótt hann hafi byrjað nokkuð bratt. Árið í fyrra skilaði enda mjög neikvæðri afkomu helstu jökla landsins en auk þurrka bættust við langvinn sumarhlýindi og öskufall úr Eyjafjallajökli. Skaflar Esjunnar hurfu í samræmi við þetta óvenjusnemma síðasta sumar eða um miðjan júlí. Það eru varla nokkrar líkur á að þeir hverfi svo snemma í ár, þeir ættu þó að hverfa fyrir næstu vetrarkomu sé tekið mið af síðustu árum.

- - - -

Minna má á veðurgrafíska myndalbúmið hér á síðunni þar sem þessu línuriti hefur verið komið fyrir ásamt öðru veðurtengdu sem ég hef dundað mér við að setja saman.

Ljósmyndin af Setri er tekin af Kjartani Pétri Sigurðssyni.


Um sumarbráðnun hafíssins á Norður-Íshafinu

Linurit_DMI_8jun2010

Nú skal spáð í hafíssinn. Á meðfylgjandi línuriti ættuðu frá hafísdeild Dönsku Veðurstofunnar má sjá samanburð á útbreiðslu hafíssins síðustu ára. Svarta línan er núverandi ár og samkvæmt því er útbreiðslan þessa dagana með lægsta móti en þó svipuð og á sama tíma og í fyrra. Vetrarhámarkið í ár var einnig með lægsta móti ekki ósvipað og árin 2005 til 2007. Ef rýnt er í myndina sést að í raun er lítið samband á milli vetrarhámarks og sumarlágmarks og jafnvel segir staðan nú í sumarbyrjun lítið um árlega lágmarkið sem oftast á sér stað í september.

Árið 2007 sker sig nokkuð úr í sumarlágmarkinu enda fór bráðnun íssins það ár fram úr öllum væntingum og óttuðust margir að dagar hafíssins að sumarlagi yrðu taldir að fáum árum liðnum. Árið 2007 er því mikið viðmiðunarár og varð til þess að ýmsir fóru að fylgjast nánar með hafísnum, þar á meðal ég sjálfur.

Hvað gerist í framtíðinni er erfitt að spá um. Ef allt leggst á eitt gæti ísinn alveg horfið í sumarlok innan 10 ára en einnig er mögulegt að íslaust Norður-Íshaf verði ekki að veruleika fyrr en eftir marga áratugi, ef það gerist þá yfirleitt. Þegar kemur að því að íslaust Norður-Íshaf verður að veruleika, þarf það ekki endilega að vera árviss atburður þar á eftir, því nýtt upphaf á sér stað með hverjum vetri og nýjum ís. Munurinn er þó hinsvegar sá að einsvetrargamall ís er alltaf viðkvæmari fyrir bráðnun heldur en margravetragamall ís.

Næsti stóri atburður þarna norðurfrá verður væntanlega þegar norðurpóllinn sjálfur nær að verða almennilega íslaus. Slíkt hefði þó aðallega táknrænt gildi því norðurpóllin sjálfur er bara hver annar staður á Norður-Íshafinu en nokkuð mikið þarf að gerast ef hafið á að opnast akkúrat þar.

Nú fylgjumst við með hvað gerist í sumar. Byrjunin lofar góðu fyrir þá sem vilja sjá sem mesta bráðnun. Hæðarsvæði, bjartviðri og almenn veðurrólegheit hafa ríkt á Norður-Íshafinu undanfarið en slíkt stuðlar að meiri bráðnun heldur en þrálátir lægðarvindar, að sögn kunnugra. Einnig skiptir máli hversu mikið af mildu meginlandslofti mun berast yfir á Íshafið í sumar, sérstalega frá Síberíu. Vindur og ríkjandi straumar þurfa svo ekki síður að beina ísnum sem mest að Fram-sundi milli Grænlands og Svalbarða en Norður-Íshafið virkar sem risastór trekt með Fram-sund sem aðal undankomuleið. Ísinn safnast þannig saman „okkar megin“ á Norður-Íshafinu á meðan opnu höfin myndast frekar „hinu megin“, þ.e. Kyrrahafsmegin á Norður-Íshafinu.

Þetta sést ágætlega á mynd sem sýnir ástand hafíssins þann 7. júní en til samanburðar hef ég útlínað hið fræga septemberlágmark ársins 2007. Verður eitthvað slíkt endurtekið í ár?

CT_8jun2011+min2007

Myndin er fengin af vefnum: The Cryosphere Today http://arctic.atmos.uiuc.edu/cryosphere/


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband