Færsluflokkur: Vísindi og fræði
2.6.2011 | 20:52
Veðurskráning maí 2011
Eins og um síðustu mánaðarmót kemur hér dálítið veðuryfirlit fyrir nýliðinn mánuð og smá samanburður við fyrri ár. Þetta er unnið upp úr mínum eigin veðurdagbókarskráningum samanber meðfylgjandi sýnishorn og eins og ég hef oft nefnt áður er aukaafurð þessara skráninga, einkunnakerfi, sem tekur mið af veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita, þannig að alslæmir dagar fá 0 stig og algóðir dagar einkunnina 8. Hver mánuður fær síðan sína einkunn útfrá meðaltali allra daga mánaðarins. Allt þetta miðast eingöngu við veðrið í Reykjavík yfir daginn. Það telst gott ef mánaðareinkunn er yfir 5 stigum en afleitt ef mánuður nær ekki 4 stigum. Þetta útskýrði ég örlítð betur síðast. Þessar skráningar hafa staðið yfir frá árinu 1986 og eru bara ætlaðar sjálfum mér til gagns og gamans, en nú er ég að hugsa um að deila skráningum með þjóðinni næstu mánuði, eða bara í sumar.
Hér til hliðar er veðurskráningin fyrir nýliðinn maí. Tölurnar aftast eru einkunnir. Í dálki á eftir vindörvum er hiti dagsins. Táknin þar fyrir aftan segja til um hvort dagurinn teljist í meðallagi hlýr (þríhyrningur), hlýr (hringur) eða kaldur (ferningur). Meðallagið hef ég nokkuð vítt og er breytilegt eftir árstíðum. Fyrri hluta maímánaðar miða ég við 4-9 stig en seinni hlutann 7-12 enda er maí að öllu jöfnu ört hlýnandi mánuðir.
Maí 2011
Nýliðinn maímánuður fékk samkvæmt þessu skráningarkerfi einkunnina 5,0 sem telst nokkuð góð einkunn. Kannski finnst sumum þetta hafa verið kaldur mánuður en það er væntanlega vegna þess að hitafarið var öfugsnúið í mánuðinum með sannkölluðum sumarhitum fyrri partinn en frekar svölu veðri seinni partinn. Slíkt háttarlag er ekki vænlegt til vinsælda á vormánuðum en veðurbókin hefur engar tilfinningar fyrir slíku. Öfgarnar fyrstu tvo dagana er merkilegar því mánuðurinn byrjaði á bólakafi í snjó en 14 stiga hita daginn eftir. Eins og gjarnan er í maí var yfirleitt nokkuð bjart í veðri og úrkomudagar fáir. Ég vek athygli á næstsíðasta dálkinum sem er að mestu auður. Þar sést hvort blautt sé yfir um miðnætti eða jörð hvít eins og tilfellið var eftir fyrsta daginn. Yfirleitt er þessi dálkur miklu skrautlegri, sérstaklega yfir veturinn.
Merkisatburður mánaðarins var auðvitað Grímsvatnagosið sem hófst að kvöldi þess 21. Sá sólskinsdagur fékk 6 stig í einkunnakerfinu en til að fá bestu einkunn hefði vindur þurft að vera hægari og hitinn hærri. Enginn dagur náði sparieinkunninni 8 að þessu sinni. Sumir dagar fyrri hlutann voru þó mjög nálægt því og hefðu í raun alveg átt það skilið. Enginn dagur fékk heldur hina alslæmu 0-einkunn (enda mjög fátítt) og enginn fékk bara 1 stig, sem á sinn þátt í ágætri einkunn mánaðarins.
Nokkrir góðir maímánuðir til samanburðar:
Maí 2010 - Einkunn 5,5. Þetta er mjög góð einkunn og með því allra besta sem nokkur mánuður hefur fengið hjá mér í einkunn. Þetta var sannkallaður sumarauki að vori enda hlýr mánuður og alveg laus við kuldaköst eins og oft hefur einkennt maímánuði hér á landi. Þar að auki var sólríkt, hægviðrasamt og þurrt hér í Reykjavík og varla hægt að fara fram á meira, nema hvað að stöku sinnum gerði hér dálítið öskumistur vegna gossins í Eyjafjallajökli.
Maí 1995 - Einkunn 5,4. Þessi mánuður er kannski nokkuð óvænt og afgerandi í öðru sæti. Hitinn var þó ekkert sérstakur en allt annað í góðu lagi. Það sem vegur hátt í góðri einkunn er hvað vindurinn var hægur en frá upphafi minna skráninga er þetta allra hægviðrasamasti mánuðurinn í Reykjavík. Opinberar athuganir eru þó ekki alveg sammála enda mælist nú hvað eftir annað mun hægari meðalvindur á Veðurstofutúni í ört vaxandi gróðri og byggð þar umhverfis.
Maí 2002, 2003, 2005 og 2006 - Einkunn 5,1. Þessir mánuðir eru allir sólríkir og þurrir og því nokkuð dæmigerðir fyrir veðurlag sem algengt er hér á vorin. Gallinn við þá (fyrir utan 2003) eru hinsvegar nokkrir kaldir norðanáttardagar sem þó skora ágætlega í einkunnakerfinu vegna sólskins. Það sem bjargar málunum er að hér í Reykjavík fer saman skjól fyrir köldum vindum úr norðri og varmi sólarinnar úr suðri. Kuldakastið seinni hlutann í maí 2006 var þó ansi hastarlegt, en eins og nú í ár var fyrri hluti mánaðarins mjög hlýr og komst t.d. hitinn í 18 stig þann 7. maí.
Maí 2008 - Einkunn 4,8. Þetta telst að vísu bara góð meðaleinkunn en ég nefni mánuðinn því hann þetta er hlýjasti maí í Reykjavík síðan 1960. Vindar voru nokkuð suðlægir og ekki alltaf hægir. Hitinn var nokkuð jafn allan mánuðinn, yfirleitt svona 9-12 stig yfir daginn.
Og þeir verstu:
Maí 1989 - Einkunn 4,0. Þessi mánuður á alveg skilið að vera neðstur á blaði. Meðalhitinn var ekki nema 4,8 stig og úrkoman var sú mesta sem mælst hefur í maí hér í Reykjavík. Að þessu sinni kom kuldinn ekki bara úr norðri heldur líka úr suðvestri og því gerði nokkrum sinnum slydduél og jafnvel stundum snjóél með hvítri jörð. Sumarið sem á eftir kom náði sér aldrei á strik og var nokkuð kalt og leiðinlegt.
Maí 1991 - Einkunn 4,2. Þetta telst ekki alveg vera falleinkunn en mánuðurinn skorar ekki hærra vegna þrálátra rigninga og sólarleysis. Stöku slydduél úr suðvestri hrjáðu einnig höfuðborgarbúa framan af mánuði. Að þessu sinni fylgdi óvenjugott sumar og sögulegt miðað við það sem fólk átti að venjast þarna fyrir 20 árum.
- - - -
Almennt að lokum. Það er hægt að hafa misjafnar skoðanir á því hverskonar veður eru góð eða slæm en miðað við þær forsendur sem ég gef mér er þetta niðurstaðan. Einkunnarkerfið er auðvitað ekki gallalaust en er samt ágætis viðmiðun og útgangspunktur fyrir veðursamantektir eins og þessa.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.5.2011 | 15:29
Þétt öskuský á gervitunglamynd
Á mynd dagsins má sjá helstu útflutningsafurð Íslands í dag.
Uppruni myndarinnar er af vefnum MODIS Rapid Response System.
![]() |
Aska yfir Skotlandi á morgun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.5.2011 | 16:25
Um hópsálir eldfjalla
Þótt Grímsvatnagosið hafi ekki gert mikil boð á undan sér er samt ekki hægt að segja að það sé mjög óvænt. Grímsvötn eru í eldvirknisfasa sem byrjaði með smágosi árið 1983 en stærri gosum eftir það. Fyrir 1983 hafði ekki gosið í Grímsvötnum svo talandi sé um síðan 1934.
Það getur verið snúið að ráða í hegðunarmynstur Íslenskra eldfjalla og ekki er alltaf hægt að treysta sögunni. Í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins, sem ég keypti mér nú um helgina, nokkra klukkutíma fyrir gos, er ágætis grein eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing þar sem hann veltir upp ýmsum erfiðum spurningum varðandi hegðun sunnlensku eldstöðvanna og hugsanlega samtengingu þeirra í virkni. Hugsanlega hefur orðið einhver meginbreyting á hegðun eldstöðvanna á seinni hluta 20. aldar sem lýsir sér með ýmsum hætti.
Katla sem hefur ekki gosið síðan 1918, er nú í sínu lengsta goshléi frá landnámi og engin veit hvenær því líkur. Hinsvegar fóru Vestmannaeyjar í gang með Surtseyjargosinu og síðar Heimaeyjargosinu, á þeim tíma sem vænti hefði mátt eldgoss úr Kötlu.
Hekla tók að gjósa á áratugafresti með gosinu 1970 og sé hún enn í þeim fasa hefði hún átt að gjósa í fyrra. Hinsvegar kom upp gos í Eyjafjallajökli sem vekur upp þá spurningu hvort Hekla hafi nokkurt púður til að láta til sín taka. Ekkert virðist benda til þess að Katla sé að fara í gang þótt sagan segi að hún fylgi á eftir Eyjafjallajökli. Almennileg Kötlugoss gera boð á undan sér með ýmsum hætti svo sem jarðskjálftahrinum, landrisi og uppþornuðum lækjum, ekkert slíkt virðist vera í gangi núna.
Skaftárkatlar hafa hlaupið reglulega á um 2ja ára fresti síðan 1955 sem gæti samkvæmt grein Sigmundar, verið enn eitt tákn um nýjung og jafnvel tengst breyttri goshegðun í Heklu þótt orsakasamhengið sé óljóst.
Nú veit ég ekki, en kannski þykir sumum ástæða til að endirskoða viðteknar hugmyndir sem menn hafa haft um einstaklingseðli og sjálfstæði megineldstöðva. Ef til vill er þær hópsálir og meira þrýsti- og kvikusamband á milli eldstöðvanna en almennt hefur verið talið.
Spádómar.
Hvort sem það er tilviljun eða ekki, þá hófst núverandi Grímsvatnagos sama dag og heimurinn átti að farast samkvæmt útreikningum amerísks sjónvarspredikara. Sjálfur hef ég stundum verið að leika mér með spádóma samanber mína árlegu haustspádómana um hvar muni gjósa næst á Íslandi. Það sakar ekki að geta þess að í síðustu spá minni voru Grímsvötn efst á blaði:
Líkindi þessa að næsta eldgos verði í viðkomandi eldstöð (Spá síðan 27. nóv 2010)
- Grímsvötn: 34%
- Hekla: 22%
- Katla: 15%
- Eyjafjallajökull (áframhald): 12%
- Bárðarbunga: 7%
- Askja og nágrenni: 5%
- Aðrir staðir: 5%
- Samtals: 100%
Sbr. hér: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1120590/
Myndin sem fylgir greininni er útlensk og sýnir eldgos í Kilauea á Hawaieyjum árið 1924.
8.5.2011 | 17:34
Horft á heiminn III
Í okkar þrívíða heimi er reglan sú að hlutir minnka fyrir augum okkar eftir því sem fjarlægðin til þeirra eykst uns þeir að lokum hverfa í fjarskann. Samsíða línur í umhverfinu stefna í áttina að sameiginlegum hvarfpunktum. Þráðbeinir vegir sem við horfum eftir mjókka þannig í átt að einum punkti einhverstaðar við sjóndeildarhringinn. Þetta tók ég fyrir er ég horfði á heiminn síðast og var þá að lokum horfinn í víðáttumikinn hvarfpunktaheim þar sem allt var farið að bjagast og verpast meira en góðu hófi gengi. En nú verða hlutirnir einfaldari því hér verður heimurinn skoðaður án slíkra hvarfpunkta og sjónhverfinga. Það er hin fjarvíddarlausa sýn á heiminn þar sem hlutir minnka ekki með aukinni fjarlægð. Á þessari teikningu sést hvernig Japanir fóru að þegar þeir teiknuðu upp rými. Hér eru engin fjarvíddaráhrif. Allar línur sem eru samsíða í umhverfinu halda áfram að vera samsíða á myndinni og ekkert minnkar með aukinni fjarlægð hvorki fólk, né byggingar. Þessi sýn er nálægt hinni klassísku ísómetríu sem mikið er notuð tækniteikningum og útskýringamyndum allskonar.
Í hreinni ísómetríu er horft skáhalt á formin, teningslaga hlutir mynda 60 og 120 gráðu horn og við sjáum á þrjár hliðar í einu. Þegar horft er ofaná húsbyggingar og þær teiknaðar upp með þessari aðferð er hægt að víkka út sjónsviðið án þess að nokkuð bjagist, allt er jafn nálæg og það er aldrei neinn sjóndeildarhringur. Veggir og allt það sem lyftist upp af yfirborðinu rís lóðrétt upp af grunnmyndinni, en vegna þess að grunnmyndin hallast (30°) verða allir lóðréttir flettir skakkir sem því nemur.
Önnur útgáfa af svona fjarvíddar- lausri sýn er þegar horft er beint ofaná grunnmyndina þannig að 90 gráðu horn halda sér í láréttum flötum eins og ef horft væri beint ofaná. Svona teikningar eru stundum kallaðar axónómetría, en það orð getur reyndar líka verið samheiti yfir allar svona fjarvíddarlausar þrívíddar- teikningar, þar á meðal ísómetríu.
Ísómetría og axonometría eru ekki eðlileg sýn á heiminn vegna skorts á fjarvídd og sjást því nánast bara í teikningum og gjarnan í tölvuleikjum. En nú er það svo að fjarvíddaráhrif minnka eftir því sem við horfum á heiminn úr meiri fjarlægð. Þegar við horfum í gegnum sjónauka ruglast til dæmis fjarlægðarskynið því þá erum við að stækka upp það sem er langt í burtu án þess að fjarvíddaráhrifin fylgi á eftir.
Það er líka athyglisvert að sjá hvað gerist í þessari mynd hér að neðan sem tekin er úr geimnum af borginni San Francisco og minnir einna helst á tölvuleikinn SimCity Þarna er sjónarhornið mjög þröngt og hátt, en myndin stækkuð mikið upp. Við þetta verða fjarvíddaráhirfin nánast engin og ekki verður betur séð en að þarna séum við komin mjög nálægt axónómetríunni.
Til samanburðar er næsta mynd sem tekin er ofan úr Empire State niður á byggingar Manhattan. Hér eru fjarvíddaráhrifin komin inn enda erum við mun nær jörðu og sjónsviðið víðara.
- - - -
Þar með hef ég lokið fjarvíddarpælingum að sinni. Hlekkir eru hér að neðan á fyrri hlutana tvo í þríleiknum:
Vísindi og fræði | Breytt 2.9.2013 kl. 23:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
1.5.2011 | 10:12
Hversu slæmt var veðrið í apríl?
Áður en ég kem að því hversu slæmt veðrið var í apríl (hafi það yfirhöfuð verið slæmt) þá finnst mér ég fyrst þurfa að gera smá grein fyrir veðurskráningunum mínum sem staðið hafa í tvo og hálfan áratug enda veit ég aldrei hversu vel kunnugir lesendur eru þeim. Ég skrái semsagt hjá mér veðrið í Reykjavík hvern dag með myndrænum hætti og tölum sem eiga að lýsa hinu dæmigerða veðri yfir daginn hverju sinni. Útfrá þessum skráningum gef ég hverjum degi einkunn á kerfisbundinn hátt en þar er einfaldlega gengið út frá því að hiti sé betri en kuldi, sólskin betra en sólarleysi, hægviðri betra en hvassviðri og þurrviðri betra en úrkoma. Allir þessir fjórir veðurþættir hafa svipað vægi í einkunnagjöfinni. Hver veðurþáttur getur fengið 0-2 stig, þannig að algóður dagur getur mest fengið 8 stig en alsæmur 0 stig. Hver mánuður fær síðan sína einkunn útfrá meðaltali allra daga mánaðarins. Það telst gott ef mánaðareinkunn er yfir 5 stigum en afleitt ef mánuður nær ekki 4 stigum.
Apríl 2011
Nýliðinn aprílmánuður fékk samkvæmt þessu skráningar- kerfi einkunnina 3,7 stig sem telst eiginlega vera falleinkunn en sjálfsagt í ágætu samræmi við upplifum flestra borgarbúa.
Hér til hliðar er veðurskráningin. Aftasti dálkur eru einkunnir, aftan við vindörvarnar er hiti dagsins og tákn sem segja hvort dagurinn telst vera í meðallagi hlýr (þríhyrningur), hlýr (hringur) eða kaldur (ferningur). ATH. Myndin birtist stærri ef smellt er á hana.
Í mánuðinum skráði ég aðeins einn alvöru sólskinsdag og nokkra hálfa. Úrkomudagarnir voru hinsvegar margir og úrkoman oft ansi lárétt enda var þetta mjög vindasamur mánuður með þrálátu skúra- og éljaveðri úr suðri- eða suðvestri. Það góða var þó að hitinn var vel yfir meðallagi og í góðu samræmi við meðalhita aprílmánaða síðustu ára. Mánuðinum lauk með snjókomu og hvítri jörð eftir kaldasta dag mánaðarins.
Tvo merkisatburði hef ég skráð til hliðar. Þann 9. var Icesave-kosningin undarlega sem kannski var bara stormur í vatnsglasi en daginn eftir kom alvöru stormur og fékk sá dagur 0 stig í skráningunni sem er mjög sjaldgæft. Dagurinn hefði reyndar átt að fá 1 stig vegna hita í meðallagi en það stig strokaðist út vegna stormsins sem gaf eitt mínusstig sem neikvætt öfgatilfelli.
Nokkrir góðir aprílmánuðir til samanburðar:
Apríl 1998 - Einkunn 5,4. Þetta er mjög góð einkunn og sú hæsta sem aprílmánuður hefur fengið hjá mér. Mánuðurinn er kannski ekki mjög eftirminnilegur en var góður á alla kanta og tók þetta eiginlega á seiglunni án þess að slá nokkur met.
Apríl 2008 - Einkunn 5,3. Mjög svipaður mánuður og apríl 1998 með alla veðurþættina góða. Þurr, hlýr sólríkur og hægviðrasamur mánuður.
Apríl 2000 - Einkunn 5,1. Þessi mánuður er eftirminnilegur vegna feiknamikils sólskinskafla dagana 14.-25. apríl sem gerði þetta að sólríkasta apríl í Reykjavík sem mælst hefur. Hinsvegar var hitinn ekki mikill og kaldari apríl hefur ekki mælst síðan. Eðlilega var lítið um úrkomu í svona mánuði þannig að á mælikvarða gróðurs var þetta ekki óskamánuður. Einkunnakerfi þessu er reyndar alveg sama um það.
Apríl 2001, 2003 og 2005 - Einkunn 5,0. Hér má minnast á apríl 2003 vegna þess að það er hlýjasti apríl sem mælst hefur í Reykjavík og víða um land. Aðrir veðurþætti voru hinsvegar nærri meðallagi í Reykjavík. Dálítið athyglisvert er að köldustu dagar mánaðarins voru fyrsti og síðasti dagurinn, nánast allir aðrir dagar voru mildir eða hlýir.
Og sá versti:
Apríl 1987 - Einkunn 3,6. Þetta er fyrsti skráði aprílmánuðurinn hjá mér og sá sem enn situr uppi með lægstu einkunnina. Nýliðinn aprílmánuður er reyndar sá eini sem hefur náð að ógna þessum frá 1987. Veðrið var reyndar ekki ósvipað og í ár og mánuðirnir eiga ýmislegt sameiginlegt. Mikill óstöðugleiki var með tíðum útsynningséljagangi en þó var öllu kaldara 1987. Síðasta vikan var sérlega éljasöm og hvöss og alveg í lokin stökk lægð yfir Grænlandsjökul sem olli mikilli snjókomu síðasta kvöld mánaðarins og fram á nóttina þannig að snjódýptarmet var sett fyrir maímánuð í Reykjavík morguninn eftir. Sá mikli snjór bráðnaði þó hratt í ört rísandi 1. maí-sólinni (sjá meðfylgjandi frétt úr Mbl. 3. maí 1987). Snódýpin að morgni 1. maí 1987 mældist 17 cm en til samanburðar mældist hún nú í ár 16 cm að morgni 1. maí, ekki munar miklu.
Almennt að lokum
Það er hægt að hafa misjafnar skoðanir á því hverskonar veður eru góð eða slæm en miðað við þær forsendur sem ég gef mér er þetta niðurstaðan. Veðrið eins og það var í Reykjavík núna í apríl er ekki vinsælt meðal fólks og ekki það vorveður sem fólk gerir sér vonir um. Sé farið lengra aftur í tímann má kannski finna verri aprílmánuði og marga harðindalegri. Veðurminni fólks er upp og ofan og því má segja um nýliðinn apríl að hann hafi allavega verið verri en yngstu menn muna og jafnvel einnig hinir eldri.
24.4.2011 | 16:05
Horft á heiminn II
Þegar listamenn miðalda þurftu að teikna mannlegt rými með öllum sínum beinu línum og réttu hornum, lentu þeir gjarnan í hinu mesta basli með það sem við köllum fjarvídd. Kannski ekki nema von, því rétt fjarvídd segir sig ekki alltaf sjálf. Menn áttuðu sig þó á því að hlutir minnkuðu með aukinni fjarlægð en síður hvernig það gerðist og í hvaða hlutföllum. Það var svo ekki fyrr en með endurreisninni sem reiknimeistarar og listamenn eins og Leonardo da Vincy náðu að komast til botns í þessum fræðum sem snýst um að varpa hinum þrívíða heimi yfir á tvívíðan flöt og sýna heiminn eins og við sjáum hann, en ekki endilega eins og hann er. Fjarvídd getur verið mikil stúdía og í mörg horn að líta. Það má sjá á þessum skýringarmyndum sem ég hef teiknað upp og sýna nokkur grundvallaratriði sem ágætt er að hafa í huga þegar glápt er á heiminn.
Þegar sjónsviðið er aukið mjög, koma æ betur í ljós takmarkanir þess að notast við beinar línur útfrá hvarfpunktum og einnig þær takmarkanir sem yfirleitt eru á því að sýna þrívíðan heim á tvívíðum fleti. Á myndinni táknar stóri græni hringurinn sjónsvið upp á 180° og nær það því alveg frá vinstri til hægri og beint upp og niður. Á milli andstæðra höfuðátta lárétt og lóðrétt eru nú komnar sveigðar línur sem formin laga sig eftir. Þannig getum við bæði horft niður á húsin og upp eftir þeim hærri, sem mjókka upp eins og þau eiga að gera og ef gata lægi beint frá austri til vestur myndi hún sveigjast í fallegum boga eftir línunni milli höfuðáttanna. Þetta eru semsagt sömu áhrif og koma fram og þegar teknar eru myndir með mjög gleiðri linsu. Bjögunin er mest í útjaðri hringsins en er minnst í miðjunni sem er X-merkt. Miðjan er líka sá staður sem við beinum sjónum okkar að og öll bjögunin á sér stað útfrá þessari miðju sem þýðir að bjögunin breytist ef horft er annað.
Þegar við horfum á heiminn er myndin sem við sjáum sjálfsagt eitthvað sambland af öllum þessum myndvörpunum. Eftir því sem hlutir eru nær okkur eða eru fyrirferðarmeiri í sjónsviðinu þá eykst bjögunin. Við einblínum reyndar bara á lítinn hluta umhverfisins í einu þannig að við tökum varla eftir þessum sveigða heimi sem birtist í neðstu myndinni. Sjónsvið okkar er heldur ekki svona vítt eins og þarna er og einnig verður að gera ráð fyrir að við búum yfir einhverjum innbyggðum bjögunar-afréttara í höfðinu. Allt þetta hjálpar til við að gera það sem við sjáum nokkurnvegin hreint og beint. Aðalatriðið er þó kannski það að þarna erum við að horfa á tvívíða mynd sem er smækkuð útgáfa af því sem við sjáum og undir miklu þrengra sjónarhorni en er í rauninni.
- - - -
En sjónheimurinn getur verið flóknari en þetta. Umhverfið er ekki alltaf samsett úr beinum línum og réttum hornum og hlutirnir í kringum okkur eru oftar en ekki á skakk og skjön. Hvarfpunktar geta því verið óendanlega margir í allri ringuleiðinni. Í staðin fyrir að eltast við það, mun ég næst setja punktinn yfir i-ið og leita aftur til einfaldleikans til að skoða hvernig heimurinn lítur út án nokkurra hvarfpunkta.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2011 | 12:35
Horft á heiminn
Það er stundum ágætt að velta fyrir sér hvernig við sjáum veröldina í kringum okkur. Það er nokkuð ljóst að við lífum í þrívíðum heimi. Það sem við sjáum er mislangt í burtu, sumt er öðru megin og annað hinumegin en svo getur verið afstætt hvað er fyrir ofan okkur og hvað fyrir neðan. Hinsvegar fer margt ofan garðs og neðan því við getum ekki séð allt í kringum okkur á sama augnabliki enda er víðsýni okkar takmörk sett af líffræðilegum ástæðum. Þessari þrívíðu heimsýn okkar má líkja við það að við séum inni í miðri kúlu með heiminn allt í kringum okkur, sem er öfugt við þá sýn þegar við horfum á hnöttinn okkar utanfrá.
Þegar það sem við sjáum er yfirfært yfir á tvívíða ljósmynd eða teikningu kemur í ljós að samsíða línur geta ekki alltaf birst beinar og samsíða. Á myndum þar sem sjónarhornið er mjög vídd hvelfast formin út og þá virðumst við ekki lengur vera inní kúlu heldur utan hennar. Bjögun á sér stað og verður meiri eftir því sem myndin er víðari. Svipað á sér stað á landakortum þar sem kúlulögun hnattarins veldur því að ekki er hægt að teikna stóra heimshluta án bjögunar.
Þessi sannindi má bera saman með því að skoða þessar tvær myndir hér að neðan sem teknar eru af sömu húsunum úr mismunandi fjarlægð. Sjónsviðið á myndinni til vinstri er mjög þröngt og þess vegna er bjögunin varla sjáanleg línur er hreinar og beinar miðað við myndina til hægri þar sem sjónsviðið er miklu víðara og talsverð bjögun kemur fram.
Beinar línur í náttúrunni eru annars ekki áberandi nema þar sem maðurinn hefur staðið að verki. Eiginlega má segja að sjóndeildarhringurinn sé eina beina línan í hinni náttúrulegu náttúru á meðan beinar línur og rétt horn einkenna mannanna verk. Frá okkur séð stefna samsíða fletir og línur í umhverfinu að sameiginlegum hvarfpunktum. Láréttar línur stefna að hvarfpunktum við sjóndeildarhring en lóðréttar línur eiga sína hvarfpunkta fyrir ofan okkur og neðan.
Þetta læt ég nægja að sinni en þessi færsla er annars bara hugsuð sem inngangur að næsta pistli sem er nánari skoðun á því hvernig við sjáum hinn þrívíða heim og hvernig honum er varpað yfir á tvívíðan flöt með fjarvíddarbrellum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2011 | 23:10
Hvernig kemur Esjan undan vetri?
Eins og venjulega í upphafi hvers aprílmánaðar er nú komið að einum af þessum föstu dagskrárliðum hjá mér, sem er hinn ómótstæðilegi árlegi myndasamanburður á snjóalögum Esjunnar. Að þessu sinni var ljósmyndin tekin mánudaginn 4. apríl í góðu skyggni en ekki miklu sólskini. Kollur Esjunnar hefur undanfarið verið allvetrarlegur enda hefur snjóað í éljaveðri síðustu daga.
Þrátt fyrir vetrarhaminn í efri hlíðum þarf þetta ekki endilega að þýða að snjóskaflar Esjunnar séu umfangsmeiri í ár en venjulega. Það snjóaði vissulega talsvert í mars en ekki svo mikið fyrri hluta vetrar. Snemma í janúar var t.d. mjög lítill snjór í Esjunni eins og má sjá á myndinni í síðustu færslu. Mikið af snjónum hefur fallið í þrálátum suðvestan-éljagangi en snjókoma úr þeirri átt fóðrar ekki að ráði lífseigustu skaflana vestur af Kerhólakambi og Gunnlaugsskarði.
Öll þessi samanburðarár hafa Esjuskaflar náð að bráðna fyrir haustið og hafa reyndar gert frá árinu 2001. Ég sé enga ástæðu til spá öðru en að svo muni einnig verða í ár, nema sumarið taki upp á því að verða kaldara og ómögulegra en verið hefur lengi, sem kannski er kominn tími á.
Hér að neðan er umrædd myndasería. Auk dagsetningar myndatöku má sjá hvenær ég tel að snjórinn hafi horfið um sumarið.
2.4.2011 | 10:10
Vetrarhitasúlur
Í tilefni þess að veturinn ætti nú að vera liðinn hef ég útbúið dálitla mynd sem sýnir hvernig hitinn í Reykjavík var frá degi til dags yfir vetrarmánuðina frá nóvember til mars. Þetta er unnið upp úr mínum eigin veðurskráningum en hver súla á að sýna dæmigerðan hita yfir daginn í Reykjavík. Nánari bollalengingar eru undir myndinni.
Eins og sést þá einkenndist veturinn af miklum óstöðugleika í hitafari sem sjálfsagt er ekkert svo óeðlilegt fyrir þennan árstíma þegar nægt framboð er af ísköldu heimskautalofti og suðlægu mildara lofti. Vetrardagar hjá okkur geta auðveldlega farið í 6-8 stig en ekki mikið hærra en það, hámarkið sjálft er gjarnan rúmlega 10 stig. Í hinn endann er mjög algengt að kaldasti dagurinn í Reykjavík sé í kringum mínus 10 stig en mestu frostin standa hér þó yfirleitt stutt.
Veturinn byrjaði nokkuð bratt með kaldasta nóvember síðan 1996 en desember var ögn hlýrri en mjög sveiflugjarn í hita. Hressilegur kuldakafli kom snemma í janúar en síðan tóku við miðvetrarhlýindi eins og svo algeng eru orðin undanfarin ár. Eftir mjög hlýjan febrúar kom kaldasti mánuður vetrarins en með hlýrri dögum í lokin náði nýliðinn marsmánuður að skríða yfir frostmarkið í meðalhita.
Kaldasti dagur vetrarins var 6. janúar en þá var um 10 stiga frost í Reykjavík og fór niður fyrir 11 stig sama sólahringinn. Þann dag var ansi hvass vindur beint úr norðri eins og ég og myndavélin fengum að finna fyrir uppi á Öskjuhlíðinni. Ég hef nefnilega dálítið verið að mynda bæinn frá þessu sjónarhorni undanfarið og þá ekki síst þegar veðrin eru verst. Kuldinn skilar sér reyndar ekki sérlega vel á myndinni og engan snjó að sjá nema eitthvað lítillega í Esjunni.
- - - -
Eitt í viðbót. Nú er ég búinn að stofna nýtt myndaalbúm hér á síðunni með samansafni af ýmissi veðurgrafík sem ég hef sett saman í gegnum tíðina. Þar má meðal annars sjá til samanburðar vetrarhitasúlurnar frá vetrinum í fyrra sem voru mun rauðari. Það er kominn tími á uppfærslu á sumum þessara mynda og verður það gert smám saman.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2011 | 20:25
Loftvogin
Eitt af grundvallar heimilistækjum á mínu heimili er loftvogin sem hangir uppi á vegg á góðum stað í íbúðinni. Þetta er loftvog af tegundinni Barigo sem mun vera gott og þekkt merki í þessum bransa. Loftvogin hefur reynst vel, allavega virðist henni bera vel saman við opinberar tölur bæði í háum og lágum þrýstingi. Loftvogina nýtti ég að vísu betur fyrir daga internetsins en þá las ég á hana í lok hvers dags til að skrá niður loftþrýstingin ásamt öðrum veðurþáttum en núna hef ég veðurstofuvefinn aðallega til hliðsjónar við þær skráningar.
Myndin af loftvoginni er tekin seint á fimmtudagskvöldi 24. mars og sýndi þá vogin 1026 millibör sem telst í hærra lagi en er samt nokkuð algengt á vorin. Dagana 23.-24. febrúar stóð loftvogin hinsvegar hálfhring neðar og þá hef ég merkt með handsnúna vísinum við 959 mb sem er mjög lágur þrýstingur
Einhverju sinni þegar djúp lægð var hér á sveimi, sá ég ástæðu til að framlengja kvarðann með pennastrikum þannig að hann næði allan hringinn. Eini gallinn á þessari loftvog finnst mér nefnilega vera kvarðinn sem nær bara niður í 954 millíbör, en það er eiginlega fulllítið í ljósi þess hversu djúp Íslandslægðin okkar getur orðið. Í hina áttina nær kvarðinn alveg uppí 1073 millíbör sem er alveg yfirdrifið enda háþrýstimetið fyrir landið ekki nema um 1058 millíbör og fer mjög sjaldan yfir 1045 mb. Þessi aukakvörðun er nú horfin að mestu en það má samt enn greina nokkra punkta.
Allralægstu loftþrýstingsgildin standa oftast stutt yfir enda bundin við lægðarmiðjuna sjálfa sem getur verið á hraðri ferð framhjá ef miðjan nær þá á annað borð að vera í næsta nágrenni. Það er því þannig að þótt ýmsar djúpar lægðir hafi verið hér á sveimi þá hef ég samt ekki, eftir að loftvogin kom í hús sumarið 1992, skráð lægri loftþrýsting á miðnætti en 951 millibar. Það var á miðnætti hins 10. janúar 1993 þegar ein af allradýpstu lægðum sem hér hafa komið var á sveimi suðaustur af landinu. Sú mældist 915 millibör samkvæmt því sem ég hef punktað hjá mér. Líklega var það þá sem ég bætti við kvarðann.Á mynd sem ég fann á heimasíðu loftvogaveldisins Barigo, er ágætis útskýring á sambandi loftþrýstings, hæðar, hita og sennilega þéttleika loftsins. Minna af andrúmslofti er fyrir ofan mann eftir því sem maður er ofar sjálfur og því lækkar þrýstingur með hæð. Miðað við 1013 millíbör við sjávarmál má gera ráð fyrir 899 millibörum í 1000 metra hæð en slíkan lágþrýsting er hugsanlega hægt að finna í miðju fellibylja við sjávarmál. Á Everesttindi í 8848 metra hæð er loftvægið ekki nema um 300 millíbör og frostið yfir 40 stigum.
Þetta var um sem sagt um loftvog og loftþrýsting. Kannski þykir gamaldags að tala um millíbör en ekki hektópasköl. Gildin munu samt vera þau sömu en millíbör finnst mér þægilegra orð
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)