Færsluflokkur: Bækur

Bókmenntaspjall

Lesmál

Ég er yfirleitt ekki mikill lestrarhestur en hef samt ánægju af lestri góðra bóka, eins og við flest sem teljumst til þessarar miklu bókmenntaþjóðar. Eins og vanalega á þessum tíma ársins er ég að lesa mig í gegnum þær bækur sem mér hafa hlotnast sem jólagjafir og gengur lesturinn frekar hægt, meðal annars vegna tímafrekra eigin skrifa hér á þessum vettvangi.

Mér datt í hug að setja upp lista með þeim 10 íslensku bókum sem mér finnst eftirminnilegri en aðrar af einhverjum ástæðum, eftir jafnmarga höfunda. Þetta eru auðvitað bara bækur sem ég hef lesið sjálfur þannig að ýmsar merkisbókmenntir verða sjálfsagt útundan. Margar bókanna eru fyrstu bækur höfundar eða frá því snemma á rithöfundarferli þeirra. Kannski er það tilviljun, en þarf þó alls ekki að vera. Hér eru bækurnar, nefndar í stafrófsröð:

1. Brekkukotsannáll - Halldór Laxness (1957)
Satt að segja hef ég ekki lesið margar bækur Laxness frá upphafi til enda en þrátt fyrir mikla stílsnilld  vantar kannski í bækur hans framvindu eins og algengt er með íslenskar bækur. Brekkukotsannáll hef ég hinsvegar lesið oftar en einu sinni enda er hún algert konfekt, þar sem heimspekingnum og kotbóndanum Birni í Brekkukoti er stillt upp við hliðina á heimssöngvaranum og oflátungnum Garðari Hólm. (stutt er síðan ég skrifaði um Björn í Brekkukoti, sjá hér)

2. Góðir Íslendingar - Huldar Breiðfjörð (1998)
Þessi bók vakta talsverða athygli þegar hún kom út árið 1998 en þessi vegabók er raunsæ lýsing á framandi dreifbýli landsins að vetrarlagi séð með augum borgarbarnsins úr 101. Sjálfur á ég sjaldan erindi til hinna fjarlægari landshluta en kynni mín af landsbyggðinni eru aðallega bundin við ferðalög að sumarlagi.
    
3. Í Suðursveit - Þórbergur Þórðarson (1956-1958, 1974)
Það er ljóst á lestri þessum að Þórbergur hefur strax í æsku verið sérlundaður snillingur. Einhverstaðar stendur skrifað að enginn verður samur eftir að hafa leið Suðursveitabækur Þórbergs og hvað mig varðar þá fannst mér ég vera orðinn áttræður að lestri loknum og finnst það stundum enn. (hér á ég einnig eldri bloggfærslu tileinkaðri Þórbergi og þessari bók)

4. Kaldaljós - Vigdís Grímsdóttir (1987)
Þótt ég sé frekar jarðbundinn svona yfirleitt fannst mér eitthvað seiðmagnað við þessa sögu á sínum tíma en hún segir frá myndlistarnema sem er mótaður af örlagaríku snjóflóði í heimaplássi sínu í bernsku. Dulrænir hæfilekar koma þarna við sögu.

5. Hvíldardagar - Bragi Ólafsson (1999)
Ég hef lesið allar bækurnar hans Braga en þessi fyrsta finnst mér vera einskonar lykilbók að því sem hann skrifar. Hér segir frá því hvernig ætlaðir hvíldardagar sögupersónunnar snúast upp í andhverfu sína án þess í rauninni að nokkurt gerist í bókinni. Þessi bók er bara gegnheil snilld.

6. Leiðin til Rómar - Pétur Gunnarsson (2002)
Önnur bók Péturs í röð sem hann kallar Skáldsaga Íslands. Þetta er þó eiginleg ekki skáldsaga heldur einskonar sagnfræðileg frásögn og vangaveltur með skýrskotunum til nútímans. Hér er meðal annars horfið til 14. aldar þegar menn byggðu risaguðshús á Skálholti úr timbri. Manni líður alltaf vel að lesa texta Péturs Gunnarssonar.

7. Leitin að landinu fagra - Guðbergur Bergsson (1985)
Súrrealísk furðusaga í stíl Guðbergs en vissulega ekki ekki með hans þekktari verkum en þarna segir frá sjóleiðangri fólks sem leitar að draumalandinu þar sem kartöflur eiga að vaxa í snjó. Ýmsir skrítnir heimar koma þarna við sögu sem eru ekki allir sem þeir eru séðir og kannski var leitað langt yfir skammt allan tíman. Af þeim fáu bókum sem ég hef lesið eftir Guðberg finnst mér þessi alltaf eftirminnilegust.

8. Riddarar hringstigans - Einar Már Guðmundsson (1995)
Fyrsta bók Einars Más og fjallar um strákamenningu í nýbyggðu borgarhverfi en þar geta leynst ýmsar óvæntar hættur fyrir stráka í riddaraleik. Þetta er ekki flókin saga en skiptist afgerandi í fyrri og seinni hluta og er því eiginlega tvær sögur. Þarna kannast maður við ýmislegt frá fyrri tíð

9. Þar sem Djöflaeyjan rís - Einar Kárason (1983)
Þessi bók skaut Einari Kára verðskuldað upp á stjörnuhimininn þegar hún kom út árið 1983. Minnti mig dálítið á bókina Hundrað ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marces sem skrifaði stíl sem kenndur er við töfraraunsæi með slatta af gráglettni í bland. Annars byggir Djöflaeyjan á raunverulegum atburðum eftirstríðsáranna, sennilega frá hinum svokallaða Kamp Knox á Melunum skammt frá þar sem ég bý í dag.
 
10. Þetta er allt að koma - Hallgrímur Helgason (1994)
Síðust en ekki síst í þessari upptalningu. Þetta er ein af góðu bókunum hans Hallgríms en þær eru nokkuð misgóðar. Þarna er mikill orðavaðall í gangi á mörgum blaðsíðum og dugar ekki minna þegar lýsa á ævi hinnar efnilegu Ragnheiðar Birnu sem hefði örugglega slegið í gegn ef ekki hefði vantað það sem til þess þarf.

- - - - -
Fyrir utan þessar bækur eru svo auðvitað ýmsar erlendar bækur sem eru eftirminnilegar og svo ýmsar fræðibækur eins og bók Halldórs Björnssonar, Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar, sem ég las nýlega af miklum ákafa og mætti taka hana fyrir við tækifæri. Nú er hins vegar í lestri bókin Rökkurbýsnir eftir Sjón og lofar hún góðu, en ég geri ráð fyrir að klára hana í mánuðinum. Þar á eftir verður það sennilega bókin Auðnin eftir Yrsu Sigurðardóttur og ef vel gengur með lesturinn klára ég hana fyrir páska.


Um hagfræði Björns í Brekkukoti

Ég ætla að leyfa mér í þessum pistli að birta smákafla úr bókinni Brekkukotsannál eftir Halldór Laxness þar sem söguhetjan Álfgrímur fjallar um útgerð afa síns Björns í Brekkukoti:

Björn í BrekkukotiÉg var ekki gamall þegar ég komst á snoðir um að sumir fiskikarlar voru afa mínum sárir af því hann seldi stundum suma soðníngu ódýrra en aðrir menn; þeir kölluðu ódreingilegt að etja með lægri boðum kappi við góða menn. En hvursu mikils virði er einn rauðmagi? Og hvurs virði er pundið í ýsunni? Ellegar kolinn? Það liggur kanski næst að svara þeirri spurníngu, og segja: Hvað kostar sólin, túnglið og stjörnurnar? Ég geri ráð fyrir að afi minn hafi svarað þessu svo með sjálfum sér, undirskilvitlega, að rétt verð, til að mynda á rauðmaga, sé það verð sem kemur í veg fyrir að upp hrúgist hjá fiskimanni peníngar umfram það sem þarf til nauðsynja.

Eftir hagfræðilegu lögmáli hneigðust menn til að hækka verð á fiski þegar afli var tregur eða daufar gæftir, allir nema Björn í Brekkukoti. Kæmi einhver til hans og segði: ég skal kaupa af þér alt sem þú hefur á börunum í dag við helmíngi eða jafnvel þrisvar sinnum hærra verði en vant er, þá leit hann með tómlæti á þann mann er slíkt boð gerði, og hélt áfram að vega í reislunni sinni eitt og eitt pund ellegar afhenda mönnum einn og einn rauðmaga uppúr börunum eftir því hvað hver þurfti í soðið, og við sama verði og venjulega. … En þegar ört var framboð og flestir fiskimenn þóttust tilknúðir að lækka fiskverð sitt á götunni, þá hvarflaði aldrei að afa mínum að lækka sig, heldur seldi hann afla sinn við sama verði og hann var vanur; Þá var fiskurinn orðinn langdýrastur hjá honum. Þannig afneitaði afi minn Björn í Brekkukoti grundvallaratriðum hagfæðinnar. Þess maður bar í brjósti sér dularfullan mælikvarða á penínga. Var þessi mælikvarði réttur eða rangur? Var kanski mælikvarði bánkans réttari? Vel má vera að hann hafi verið rangur hjá afa, en þó ekki rangari en svo að flestir sem höfðu vanist á að kaupa hjá honum fisk upp úr hjólbörum hans, þeir komu til að versla við hann einnig þá daga sem fiskurinn var dýrari hjá honum en öðrum mönnum. … menn trúðu því að að hann Björn í Brekkukoti drægi með einhverjum dularfullum hætti betri og fallegri fiska uppúr sjónum en aðrir menn. Og þessvegna vildu allir kaupa fisk hjá Birni í Brekkukoti, einnig þá daga sem fiskurinn var dýrari hjá honum en öðrum mönnum“

- - - - -

Burt séð frá því hversu ágætur texti þetta er hjá skáldinu þá er ekki víst að hagfræðin hans Björns í Brekkukoti sé gagnlegt innlegg í öllum þeim fjárhagsvangaveltum sem nú eru uppi. Allavega þá hefur ekki verið litið á það sem vandamál ef það ólíklega gerist að peningar hrúgist upp umfram það sem fólk þarf til nauðsynja.

Hagsveiflur eiga sér stað nú sem aldrei fyrr. Þar skiptast á gylliboð og verðbólgur sem margir fara flatt á. Sérstaklega er þetta varasamt þegar peningarnir sjálfir bjóðast á undirverði því þá æsast menn upp í góðærisgleði, slá lán og fjárfesta sem mest þeir mega fyrir þær tekjur sem væntanlegar eru í framtíðinni. Margir fara því inn í krepputíð sem óhjákvæmilega fylgir uppsveiflum með allt of miklar fjárhagsskuldbindingar á bakinu í stað þess að nota góðærið til að safna saman smá hrúgu af peningum sem nýtist þegar ver árar. Það eru nefnilega engir Birnir í Brekkukotum lengur sem bjóða alltaf sama verð, sérstaklega ekki á peningum því þeir lúta lögmálum framboðs og eftirspurnar eins og annað í dag.

- - - - - 

Á meðfylgjandi mynd sést Þorsteinn Ö. Stephensen í hlutverki Björns í Brekkukoti í sjónvarpsþáttunum sem gerðir voru eftir sögunni árið 1972.

 


Landslagslýsing að hætti Þórbergs Þórðarsonar

suðursveit 

 „Landið fyrir vestan Breiðabólstaðarbæi var mjög ólíkt landinu fyrir austan þá. Fyrir vestan var það miklu breiðara og meira af tilbreytingum í því. Þar var miklu lengra frá fjalli til fjöru og Lónið breiðara. Það var vegna þess, að fyrir austan bæina lá fjallið til suðvesturs í sömu stefnu og ströndin. En fyrir vestan þá beygði fjallið til vesturs og fjaran meira til suðurs. Af því varð meira undirlendi og meira af punti, sem komst fyrir í landinu.

Þennan texta má finna í bókinni Um lönd og lýði, sem er önnur af fjórum Suðursveitabókum Þórbergs Þórðarsonar. Ásamt endurminningum frá uppvaxtarárum má þar finna ýtarlegar náttúru- og mannlífslýsingar frá heimahögum rithöfundarins sem fæddist á þessum degi fyrir 120 árum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband