Bókmenntaspjall

Lesmál

Ég er yfirleitt ekki mikill lestrarhestur en hef samt ánægju af lestri góðra bóka, eins og við flest sem teljumst til þessarar miklu bókmenntaþjóðar. Eins og vanalega á þessum tíma ársins er ég að lesa mig í gegnum þær bækur sem mér hafa hlotnast sem jólagjafir og gengur lesturinn frekar hægt, meðal annars vegna tímafrekra eigin skrifa hér á þessum vettvangi.

Mér datt í hug að setja upp lista með þeim 10 íslensku bókum sem mér finnst eftirminnilegri en aðrar af einhverjum ástæðum, eftir jafnmarga höfunda. Þetta eru auðvitað bara bækur sem ég hef lesið sjálfur þannig að ýmsar merkisbókmenntir verða sjálfsagt útundan. Margar bókanna eru fyrstu bækur höfundar eða frá því snemma á rithöfundarferli þeirra. Kannski er það tilviljun, en þarf þó alls ekki að vera. Hér eru bækurnar, nefndar í stafrófsröð:

1. Brekkukotsannáll - Halldór Laxness (1957)
Satt að segja hef ég ekki lesið margar bækur Laxness frá upphafi til enda en þrátt fyrir mikla stílsnilld  vantar kannski í bækur hans framvindu eins og algengt er með íslenskar bækur. Brekkukotsannáll hef ég hinsvegar lesið oftar en einu sinni enda er hún algert konfekt, þar sem heimspekingnum og kotbóndanum Birni í Brekkukoti er stillt upp við hliðina á heimssöngvaranum og oflátungnum Garðari Hólm. (stutt er síðan ég skrifaði um Björn í Brekkukoti, sjá hér)

2. Góðir Íslendingar - Huldar Breiðfjörð (1998)
Þessi bók vakta talsverða athygli þegar hún kom út árið 1998 en þessi vegabók er raunsæ lýsing á framandi dreifbýli landsins að vetrarlagi séð með augum borgarbarnsins úr 101. Sjálfur á ég sjaldan erindi til hinna fjarlægari landshluta en kynni mín af landsbyggðinni eru aðallega bundin við ferðalög að sumarlagi.
    
3. Í Suðursveit - Þórbergur Þórðarson (1956-1958, 1974)
Það er ljóst á lestri þessum að Þórbergur hefur strax í æsku verið sérlundaður snillingur. Einhverstaðar stendur skrifað að enginn verður samur eftir að hafa leið Suðursveitabækur Þórbergs og hvað mig varðar þá fannst mér ég vera orðinn áttræður að lestri loknum og finnst það stundum enn. (hér á ég einnig eldri bloggfærslu tileinkaðri Þórbergi og þessari bók)

4. Kaldaljós - Vigdís Grímsdóttir (1987)
Þótt ég sé frekar jarðbundinn svona yfirleitt fannst mér eitthvað seiðmagnað við þessa sögu á sínum tíma en hún segir frá myndlistarnema sem er mótaður af örlagaríku snjóflóði í heimaplássi sínu í bernsku. Dulrænir hæfilekar koma þarna við sögu.

5. Hvíldardagar - Bragi Ólafsson (1999)
Ég hef lesið allar bækurnar hans Braga en þessi fyrsta finnst mér vera einskonar lykilbók að því sem hann skrifar. Hér segir frá því hvernig ætlaðir hvíldardagar sögupersónunnar snúast upp í andhverfu sína án þess í rauninni að nokkurt gerist í bókinni. Þessi bók er bara gegnheil snilld.

6. Leiðin til Rómar - Pétur Gunnarsson (2002)
Önnur bók Péturs í röð sem hann kallar Skáldsaga Íslands. Þetta er þó eiginleg ekki skáldsaga heldur einskonar sagnfræðileg frásögn og vangaveltur með skýrskotunum til nútímans. Hér er meðal annars horfið til 14. aldar þegar menn byggðu risaguðshús á Skálholti úr timbri. Manni líður alltaf vel að lesa texta Péturs Gunnarssonar.

7. Leitin að landinu fagra - Guðbergur Bergsson (1985)
Súrrealísk furðusaga í stíl Guðbergs en vissulega ekki ekki með hans þekktari verkum en þarna segir frá sjóleiðangri fólks sem leitar að draumalandinu þar sem kartöflur eiga að vaxa í snjó. Ýmsir skrítnir heimar koma þarna við sögu sem eru ekki allir sem þeir eru séðir og kannski var leitað langt yfir skammt allan tíman. Af þeim fáu bókum sem ég hef lesið eftir Guðberg finnst mér þessi alltaf eftirminnilegust.

8. Riddarar hringstigans - Einar Már Guðmundsson (1995)
Fyrsta bók Einars Más og fjallar um strákamenningu í nýbyggðu borgarhverfi en þar geta leynst ýmsar óvæntar hættur fyrir stráka í riddaraleik. Þetta er ekki flókin saga en skiptist afgerandi í fyrri og seinni hluta og er því eiginlega tvær sögur. Þarna kannast maður við ýmislegt frá fyrri tíð

9. Þar sem Djöflaeyjan rís - Einar Kárason (1983)
Þessi bók skaut Einari Kára verðskuldað upp á stjörnuhimininn þegar hún kom út árið 1983. Minnti mig dálítið á bókina Hundrað ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marces sem skrifaði stíl sem kenndur er við töfraraunsæi með slatta af gráglettni í bland. Annars byggir Djöflaeyjan á raunverulegum atburðum eftirstríðsáranna, sennilega frá hinum svokallaða Kamp Knox á Melunum skammt frá þar sem ég bý í dag.
 
10. Þetta er allt að koma - Hallgrímur Helgason (1994)
Síðust en ekki síst í þessari upptalningu. Þetta er ein af góðu bókunum hans Hallgríms en þær eru nokkuð misgóðar. Þarna er mikill orðavaðall í gangi á mörgum blaðsíðum og dugar ekki minna þegar lýsa á ævi hinnar efnilegu Ragnheiðar Birnu sem hefði örugglega slegið í gegn ef ekki hefði vantað það sem til þess þarf.

- - - - -
Fyrir utan þessar bækur eru svo auðvitað ýmsar erlendar bækur sem eru eftirminnilegar og svo ýmsar fræðibækur eins og bók Halldórs Björnssonar, Gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar, sem ég las nýlega af miklum ákafa og mætti taka hana fyrir við tækifæri. Nú er hins vegar í lestri bókin Rökkurbýsnir eftir Sjón og lofar hún góðu, en ég geri ráð fyrir að klára hana í mánuðinum. Þar á eftir verður það sennilega bókin Auðnin eftir Yrsu Sigurðardóttur og ef vel gengur með lesturinn klára ég hana fyrir páska.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hlakka til að sjá þig taka Gróðurhúsaáhrifin fyrir og ég var að hugsa um að gera það líka. Ég las hana um jólin.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.1.2009 kl. 12:22

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það verður allavega einhver að taka það að sér. Sjáum til hvort mér tekst að hnoða saman einhverju um það bókmenntaverk.

Emil Hannes Valgeirsson, 13.1.2009 kl. 13:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband