Færsluflokkur: LETUR

Hið forneskjulega Únsíal letur

uncial

Það vestræna letur sem við notum nú á dögum skiptist í HÁSTAFLETUR  og lágstafaletur þar sem meginreglan er sú að nota lágstafina í öllu meginmáli en hástafina í upphafi setninga og í sérnöfnum. Þessa gömlu hefð má rekja aftur til skrifara sem uppi voru á dögum Karlamagnúsar um árið 800 eða jafnvel fyrr. Á dögum Rómverja var einungis notast við hástafaletur enda var þá ekki um neitt lágstafaletur að ræða. Þegar farið var að skrifa upp guðsorð í stórum stíl á fyrstu öldum kristninnar þróaðist þetta hástafaletur í átt til léttari skriftar sem einkenndist af meiri bogalínum en verið hafði áður þannig að fljótlegra varð að skrifa. Þessi þróun varð til þess að lágstafirnir urðu til, menn höfðu þó ekki gleymt hástöfunum sem þóttu hátíðlegri og voru því áfram notaðir í fyrirsagnir og önnur virðulegheit eða bara eins og við notum þá í dag.

Trajan/Omnia

Sú leturgerð sem var allsráðandi í Evrópu á tímabilinu 400-800 hefur verið kölluð Únsíal letur og ber það öll einkenni þess að vera einskonar millistig hástafa og lágstafa. Ólíkt hinu rómverka letri er hringformið þarna áberandi en hugsanlega má rekja það til fornrar gotneskrar skreytilistar sem byggði mjög á bogdregnum línum og fléttum. Til eru nokkrar nútímaútgáfur af Únsíölum (Uncial letters) og ber ein sú dæmigerðasta nafnið Omnia og er það sýnt hér ásamt hinu Rómverska hástafaletri. Sumir bókstafirnir hafa ekki breyst mikið en mesta þróunin hefur orðið á stöfum á borð við A, D, M og H. Annað sem hefur breyst er að sumir stafir teygja sig upp fyrir leturhæðina og aðrir ná niður fyrir og er það einmitt eitt einkenni lágstafana okkar í dag. Þetta letur er eins og aðrir Únsíalar einingis til sem hástafaletur, eða lágstafaletur eftir því hvernig á að skilgreina það.

BookOfKellsÚnsíal letur datt að mestu uppfyrir á 9. öld þegar nútímalegri Karlungaletur komu fram og síðar hin skrautlegu og köntuðu gotnesku letur sem enn má t.d. sjá á mörgum blaðahausum eins og á Morgunblaðinu. Únsíal letur héldu þó lengst velli á Írlandi enda er það einskonar þjóðarletur þeirra og nota Írar það óspart þegar þeir vilja minna á sinn forna menningararf.Irish

Á Írlandi var einmitt Book of Kells skrifuð en hún er talin meðal fegurstu bóka sem ritaðar hafa verið. Myndin hér til vinstri er úr þeirri bók en letrið þar flokkast sem hálf-únsíall sem er afbrigði af þessu letri. Þessi írska útgáfa er líka stundum kölluð eyjaskrift (insular script).

Það er ekki algengt að rekast á únsíal letur á prenti eða í umhverfi okkar í dag. Það er þó athyglisvert að í nútímalegu glerhýsunum við Höfðatorg er veitingastaður sem ber hið forneskjulega nafn Eldhrímnir. Leturgerðin á skiltinu er einmitt hreinræktaður únsíall sem þykir sjálfsagt vel við hæfi.

eldhrimnir


TRAJAN leturgerðin

Trajansúlan

Það stafróf sem við notum hér á vesturlöndum kallast Latneskt stafróf eða latneskt letur og er eins og margt annað, arfleifð frá hinu forna Rómaveldi. Allra frægasta dæmið um notkun Rómverja á latneska letrinu er að finna á undirstöðum Trajan-súlunnar sem kennd er við Trianus Rómarkeisara. Súlan sjálf er frá árinu 113 og er þakin mikilli myndasögu sem segir af velheppnuðum herleiðöngrum keisarans. Letrið sem höggvið er í undirstöðuna hefur orðið einskonar útgangspunktur í klassískri leturgerð til okkar daga. Útfærsla letursins er greinilega þaulhugsað og ber klassískri fagurfræði vitni.

Þarna má t.d. sjá þá nýjung þess tíma að öll lárétt strik eru grennri en þau lóðréttu og allar bogalínur eru misþykkar samkvæmt því. Önnur nýjung sem hefur orðið ódauðleg í gegnum aldirnar er lítið þverstrik á endum strika, en slík letur eru nú almennt kallað fótaletur upp á íslensku eða Serífur, samanber letur eins og Times og Garamond. Ástæðan fyrir því að misþykkar línur og þverstrik komu til er gjarnan talin vera sú að letrið hafi verið málað á steininn með flötum pensli áður en letrið var meitlað. Það var svo ekki fyrr en á síðustu öld sem komu fram hrein og bein letur í nútímastíl án þessara skreytiþátta. Það eru letur eins og Helvetica og Arial, oft kölluð steinskriftir eða Sans Serif letur.

Á tímum Rómverja var ekki um neina lágstafi að ræða en þeir áttu eftir að þróast með tímanum þegar farið var að skrifa handrit í stórum stíl enda hentar þetta letur ekki vel til hraðritunnar, hinsvegar hefur sú hefð lengi verið ríkjandi að nota hástafi í upphafi setninga.

Trajan letur
Nokkrar leturgerðir hafa verið teiknaðar sem líkja eftir letrinu á Trajan súlunni Rómversku. Það þekktasta af þeim var teiknað árið 1989 og ber einfaldlega heitið TRAJAN. Letrið hefur talsvert mikið verið notað þegar á að ná fram klassískum virðuleika og fínlegheitum enda er þetta auðvitað afar fallegt letur.

Stundum er þetta letur kallað bíómyndaletrið því það hefur verið sérlega vinsælt að nota það á kvikmyndatitlum. Einnig mætti líka kalla það bókarkápuletrið miðað við hvað það hefur verið vinsælt til slíks brúks hér á landi og ef einhver er með vegabréfið sitt uppivið þá er Trajan letrið þar allsráðandi. Eins og á tímum Rómverja þá er nútímaútgáfa Trajan letursins aðeins til í hástöfum en það takmarkar auðvitað notkun letursins í löngum textum. Miðað við hvað Trajan letrið hefur verið mikið notað undanfarin ár, er kannski komið því að það þurfi smá hvíld sem aðalletur á bókarkápum og kvikmyndatitlum. Þetta letur mun þó verða notað lengi áfram þegar leitað er eftir klassa eða virðuleik í grafískri hönnun. Frumlegt er það þó ekki enda er klassíkinni ekki ætlað vera frumleg.

Trajan-notkun


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband