Hið forneskjulega Únsíal letur

uncial

Það vestræna letur sem við notum nú á dögum skiptist í HÁSTAFLETUR  og lágstafaletur þar sem meginreglan er sú að nota lágstafina í öllu meginmáli en hástafina í upphafi setninga og í sérnöfnum. Þessa gömlu hefð má rekja aftur til skrifara sem uppi voru á dögum Karlamagnúsar um árið 800 eða jafnvel fyrr. Á dögum Rómverja var einungis notast við hástafaletur enda var þá ekki um neitt lágstafaletur að ræða. Þegar farið var að skrifa upp guðsorð í stórum stíl á fyrstu öldum kristninnar þróaðist þetta hástafaletur í átt til léttari skriftar sem einkenndist af meiri bogalínum en verið hafði áður þannig að fljótlegra varð að skrifa. Þessi þróun varð til þess að lágstafirnir urðu til, menn höfðu þó ekki gleymt hástöfunum sem þóttu hátíðlegri og voru því áfram notaðir í fyrirsagnir og önnur virðulegheit eða bara eins og við notum þá í dag.

Trajan/Omnia

Sú leturgerð sem var allsráðandi í Evrópu á tímabilinu 400-800 hefur verið kölluð Únsíal letur og ber það öll einkenni þess að vera einskonar millistig hástafa og lágstafa. Ólíkt hinu rómverka letri er hringformið þarna áberandi en hugsanlega má rekja það til fornrar gotneskrar skreytilistar sem byggði mjög á bogdregnum línum og fléttum. Til eru nokkrar nútímaútgáfur af Únsíölum (Uncial letters) og ber ein sú dæmigerðasta nafnið Omnia og er það sýnt hér ásamt hinu Rómverska hástafaletri. Sumir bókstafirnir hafa ekki breyst mikið en mesta þróunin hefur orðið á stöfum á borð við A, D, M og H. Annað sem hefur breyst er að sumir stafir teygja sig upp fyrir leturhæðina og aðrir ná niður fyrir og er það einmitt eitt einkenni lágstafana okkar í dag. Þetta letur er eins og aðrir Únsíalar einingis til sem hástafaletur, eða lágstafaletur eftir því hvernig á að skilgreina það.

BookOfKellsÚnsíal letur datt að mestu uppfyrir á 9. öld þegar nútímalegri Karlungaletur komu fram og síðar hin skrautlegu og köntuðu gotnesku letur sem enn má t.d. sjá á mörgum blaðahausum eins og á Morgunblaðinu. Únsíal letur héldu þó lengst velli á Írlandi enda er það einskonar þjóðarletur þeirra og nota Írar það óspart þegar þeir vilja minna á sinn forna menningararf.Irish

Á Írlandi var einmitt Book of Kells skrifuð en hún er talin meðal fegurstu bóka sem ritaðar hafa verið. Myndin hér til vinstri er úr þeirri bók en letrið þar flokkast sem hálf-únsíall sem er afbrigði af þessu letri. Þessi írska útgáfa er líka stundum kölluð eyjaskrift (insular script).

Það er ekki algengt að rekast á únsíal letur á prenti eða í umhverfi okkar í dag. Það er þó athyglisvert að í nútímalegu glerhýsunum við Höfðatorg er veitingastaður sem ber hið forneskjulega nafn Eldhrímnir. Leturgerðin á skiltinu er einmitt hreinræktaður únsíall sem þykir sjálfsagt vel við hæfi.

eldhrimnir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þakka þér fyrir Emil, þetta var skemtilegt.

Hrólfur Þ Hraundal, 21.2.2010 kl. 17:13

2 Smámynd: Lauja

Mig langaði til að segja þér að Andri var að gera ritgerð um "leturgerðir" um daginn í skólanum.  Hann googlaði og upp kom þín síða.  Hann las þínar útskýringar sem hjálpuðu honum mjög mikið.  Mig langaði aðeins til að segja þér frá þessu - honum fannst þínar útskýringar afar auðskiljanlegar - og áttaði sig betur á einhverju eftir að hafa lesið "bloggið" þitt. 

Lauja, 26.2.2010 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband