Færsluflokkur: Veður
2.1.2017 | 18:08
Þannig var meðalhiti mánaðana í Reykjavík
Enn eitt árið að baki og allskonar yfirlit líta dagsins ljós. Hér kemur eitt þeirra en það er hitafarsyfirlit sem byggir á línuriti sem ég hef sett saman til að sýna meðalhita hvers mánaðar 2016 í Reykjavík samkvæmt tölum Veðurstofunnar. Til samanburðar eru rauðu súlurnar sem sýna meðalhita 10 áranna þar á undan og bláu súlurnar sem sýna 30 ára viðmiðunartímabilið sem enn er í gildi og uppnefnist hér "kalda meðaltalið" vegna þess hversu kalt þar var í raun. Til hægri eru að auki árshitasúlur sömu tímabila.
Eins og sjá má þá létu hlýindi á sér standa tvo fyrstu mánuðina og var febrúar undir kalda meðaltalinu. Fátt benti því til þess framan af að mjög hlýtt ár væri í uppsiglingu. Frá og með mars fór hitinn að ná sér á strik og voru átta af þeim tíu mánuðum sem eftir voru hlýrri en meðalhiti 10 áranna þar á undan. Mest afgerandi voru hlýindin í október sem var sá hlýjasti í rétt rúm 100 ár eða síðan í október 1915 en þá var örlítið hlýrra og er merkilegt í ljósi þess að almennt var nokkuð kaldara fyrir 100 árum. Þetta sýnir þó að óvenjuleg hlýindi, eða kuldar, geta komið upp burt séð frá ríkjandi ástandi hverju sinni. Frávik desembermánaðar miðað við meðaltöl var jafnvel enn meira en þau hlýindi voru þó ekki alveg eins óvenjuleg því einhver tilfelli eru um desembermánuði sem hafa náð 4 stigum en metið á desember 2002 (4,5 stig).
Hlýjasta árið í Reykjavík er 2003 þegar meðalhitinn var 6,1 stig. Árið 2016 endaði örlítið lægra eða í 6,0 stigum. Svo vill til að meðalhitinn árið 2014 var einnig 6,0 stig og eru þessi tvö ár, 2016 og 2014, í öðru til þriðja sæti yfir hlýjustu árin hér í borg. Fast á eftir þeim fylgjir árið 2010 og tvö ár frá hlýindaskeiðinu á síðustu öld 1939 og 1941 og var meðalhiti þeirra 5,9 stig. Samanburður milli þessara tímabila mun þó vera háður óvissu og því gæti dugað að tala um þessi sex ár: 1939, 1941, 2003, 2010, 2014 og 2016, sem hlýjustu árin í Reykjavík síðan farið var að mæla.
Það þýðir víst lítið fyrir mig að spá fyrir um meðalhitann á þessu nýbyrjaða ári enda er ég enginn veðurfræðingur og jafnvel þótt svo væri, væri sjálfsagt fátt um svör. Líklegra þykir mér þó að meðalhitinn verði lægri á þessu ári og þá aðallega vegna þess að erfitt er að toppa svona hlýtt ár. Miðað við fjölda 6-stiga ára undanfarið, þá má kannski alveg velta fyrir sér möguleikum á stórbætingu í meðalhita á næstu árum, þ.e. ef almenn hlýindi halda áfram. Slíkt gæti til dæmis oltið á því hvað gerist með þróun sjávarhita hér í kring og hvernig hafísmálum verður háttað í norðri. Þar hefur mikið verið að gerast undanfarið ár og blæs ekki byrlega fyrir hafísinn sem gæti rambað á barmi algers hruns á komandi sumri miðað við skortinn á eðlilegum fimbulkuldum þar undanfarið. Ýmislegt er allavega í boði til að fylgjast með í náttúrunni, tala nú ekki um þegar Katla fer að loksins gjósa, sem auðvitað er alveg borðleggjandi að gerist á þessu ári - eða þannig.
![]() |
Hlýtt ár að baki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veður | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2016 | 00:24
Mestu hitasveiflur milla ára í Reykjavík
Við fáum sennilega ekki árshitamet hér í Reykjavík í ár en þó má alltaf finna eitthvað til, vilji maður veðurmetast. Það er alvanalegt að meðalhiti sveiflist mikið milli tveggja ára og ekki alltaf frásögum færandi. Núna hinsvegar er dálítið sérstök staða uppi hvað varðar árshitasveiflur í Reykjavík. Eftir óvenju mikla dýfu í meðalhita ársins í fyrra á bendir allt til þess að uppsveiflan núna í ár verði í svipuðum stíl og jafnvel meiri en áður hefur orðið ef við miðum við tímabilið eftir 1900.
Munurinn á meðalhita hins mjög svo hlýja árs 2014 (6,0°C) og ársins 2015 (4,5°C) er -1,5 stig og hefur aðeins einu sinni kólnað jafn mikið milli tveggja ára, en það var þegar hið ofursvala ár 1979 (2,9°C) tók við af mun skaplegra ári 1978 (4,4°C). Í seinna skiptið vorum við því að fara úr mjög hlýju ástandi niður í eitthvað venjulegra, en í fyrra skiptið hins vegar úr venjulegu ástandi þess tíma, niður í sérlega kalt ástand.
Hin köldu ár hafa þó þann kost að eftir því sem þau eru kaldari þeim mun líklegra er að það hlýni aftur og það minnir á það sem ég sagði einhvern tíma í fyrra að eftir því sem árið þá, 2015, yrði kaldara, þeim mun líklegra væri að nýtt hlýnunarmet yrði sett í kjölfarið, þ.e árið 2016, án þess að ég hafi haft einhverja sérstaka trú á því þá. Nema hvað. Nú stefnir allt í að árið 2016 verði meðal allra hlýjustu ára hér í Reykjavík. Ársmeðalhitinn verður væntanlega 5,9-6,0 stig sem þýðir að hlýnunin milli ára verður 1,4 eða 1,5 stig.
Þá má aftur rifja upp kuldaárið 1979 en í kjölfar þess kom árið 1980 (4,3°C) sem var 1,4 stigum hlýrra en fyrra ár, sem er mesta hlýnun milli tveggja ára á tímabilinu frá 1900. Þessar tvær hitasveiflur eru því alveg sambærilegar að öðru leyti en því að dýfurnar eiga á sér stað úr mjög mismikilli hæð. Þegar þetta er skrifað á núverandi hitauppsveifla þó ágætis möguleika á að verða sú mesta hingað til, en þá þarf ársmeðalhitinn að ná 6,0 stigum, sem ágætis líkur eru á. Við förum varla fram á það úr þessu að meðalhitinn nái 6,1 stigi sem væri jöfnun á árshitametinu 2003. Eitthvað er nefnilega verið að spá frostakafla núna um og eftir jólin, hvað svo sem er að marka það.
Árið 2017 er svo handan við hornið en í ljósi þessi hversu hlýtt hefur verið núna í ár, þá má áætla að næsta ár verði kaldara. Það þarf þó ekki að vera, en miðað við það sem ég hef þegar sagt þá hljóta líkur á kólnunarmeti að vera mun meiri á næsta ári heldur en líkurnar á endurbættu hlýnunarmeti.
Veður | Breytt s.d. kl. 00:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2016 | 21:39
Mánaðarhitasúluritið að loknum október
Að loknum þessum afar hlýja októberbermánuði er varla hægt annað en að taka stöðuna á súlnaverkinu yfir meðalhita mánaðanna í Reykjavík. Ef þetta væru kosningaúrslit þá væri nýliðinn október ótvíræður sigurvegari hvað aukningu varðar og þá ekki bara í Reykjavíkurkjördæmi heldur einnig á landinu í heild. Annars sýna bláu súlurnar meðalhita mánaðanna samkvæmt opinbera viðmiðunartímabilinu 1961-1990, rauðu súlurnar sýna meðalhita síðustu 10 ára og þær fjólubláu standa fyrir árið í ár og eins og sjá má er októberhitinn í ár við það sem gengur og gerist í september. Meðalhitinn í Reykjavík að þessu sinni var 7,8 stig sem er þó ekki alveg met, því örlítið hlýrra var 1915, 7,9 stig. Hinsvegar var þetta metmánuður þegar kemur að úrkomu enda var hún mikil. Spurning er með vindinn, en samkvæmt óopinberum og ónákvæmum skráningum í eigin veðurdagbók, var þetta lang-vindasamasti október frá því eigin skráningar hófust árið 1986. Nánar um það í síðustu bloggfærslu.
Nú þegar aðeins tveir mánuðir eru eftir af árinu eru línur farnar að skýrast varðandi ársmeðalhitann. Fjólubláu tónuðu súlurnar tvær lengst til hægri á myndinni eiga að sýna það. Sé framhaldið reiknað út frá kalda meðaltalinu 61-90 fæst ársmeðalhitinn 5,5 stig, en sé framhaldið reiknað út frá síðustu 10 árum má gera ráð fyrir 5,7 stiga meðalhita. Hvort tveggja telst vera mjög hlýtt. Árshitamet er þó varla líklegt. Hlýjasta árið í Reykjavík er 2003 (6,1°C) en mér reiknast svo til að meðalhitinn það sem eftir er þurfi að vera hátt í 4°C svo það náist. Hinsvegar er alveg öruggt að þetta ár verður mun hlýrra en árið í fyrra (4,5°C, græn súla). Það var reyndar kaldasta árið af þeim fáu sem liðin eru af öldinni eða það minnst hlýja, eftir því hvernig menn vilja orða það því hér hefur ekki komið kalt ár síðan 1995 (3,8°C).
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2016 | 00:30
Óvenjuleg veðurskráning og upphaf 30 ára kuldaskeiðsins
Í mínum 30 ára veðurskráningum hef ég fært til bókar ýmsar gerðir af veðurlagi enda má segja að hér á landi ríki fjölbreytnin ein með miklu úrvali af misvinsælum veðrum. Fjölbreytnin er þó mismikil og stundum vill veðrið festast í ákveðnum einstrengingshætti dögum eða vikum saman. Þessi fyrri partur októbermánaðar hefur einmitt verið þannig og fer veðurdagbókin ekki varhluta af því eins og sjá má hér á myndinni.
Ég geri annars ekki mikið að því að birta sýnishorn af veðurskráningum mínum en óvenjulegheitin undanfarið gefa þó tilefni til þess. Skráningin á að sýna einskonar meðalveður hvers dags samkvæmt dagsetningunni í fyrsta dálki. Eins og örvarnar sýna, aftan við veðurlýsingu, þá hefur vindur staðið af suðri eða suðaustri alla daga mánaðarins og oftar en ekki með strekkingi eins og tvöföldu örvarnar bera með sér. Þetta hafa verið hlýir og rakir vindar með hita upp á 8-12 stig sem út af fyrir sig er mjög gott á þessum árstíma. Sjálfur skilgreini ég daga sem ná 9 stigum, fyrri hluta október, sem hlýja og það skýrir hringina fyrir aftan hitatölurnar, sem síðan hefur áhrif á einkunn dagsins í aftasta dálki sem er á skalanum 0-8.
Það lýtur loksins út fyrir að lát verði á þessum sunnanáttastrekkingi, allavega í bili. Eitthvað mun því kólna þó ekki sé kuldatíð sjáanleg í spákortum. Með þessum hlýindum ætti meðalhiti mánaðarins í Reykjavík að enda vel fyrir ofan meðallag og gæti jafnvel blandað sér í baráttuna um efstu sætin. Spurning er einnig með vindinn sé á annað borð keppt í því. Sólarhringsmeðalhiti fyrstu 13 dagana er hátt í 10 stig hér í Reykjavík en til samanburðar er meðalhiti október síðustu 10 ára 4,8 stig, og er þá miðað við allan mánuðinn. Meðalhitinn í október í Reykjavík fer afar sjaldan yfir 7 stig. Furðuhlýtt var í október 1915, 7,9 stig, og svo var hann 7,7 stig árin 1946 og 1959. Meðalhitinn í október 1965 var 7,0 stig og hefur ekki farið hærra síðan.
Talandi um hinn hlýja október 1965 þá var Trausti okkar Jónsson að líkja veðurlagi þess mánaðar við það sem nú hefur ríkt, með háþrýstisvæði í austri sem beinir hingað sunnanhlýindum með strekkingsvindi og úrkomu. Sjálfur vil ég bæta við, fyrir kuldaáhugamenn, að veturinn sem fylgdi í kjölfarið var kaldur og með hæfilegri nákvæmni má segja að ekki hafi farið að hlýna aftur fyrr en 30 árum síðar. Októbermánuður 1965 markar samkvæmt þessu, lok hlýindaskeiðsins sem staðið hafði í nokkra áratugi og við tók vetur sem stendur ágætlega sem upphaf 30 ára kuldaskeiðsins. En auðvitað er ekkert þar sem sagt í þessu. Framtíðin er alveg jafn óljós sem fyrr, hvað veðrið varðar.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2016 | 23:48
Skaflaferð upp í Gunnlaugsskarð
Sunnudaginn 18. september reimaði ég á mig gönguskóna og lagði leið mína upp að hinum vel kunna skafli í Esjunni sem oftast er kenndur við Gunnlaugsskarð og er gjarnan síðastur skafla til að bráðna á sumrin, ef hann bráðnar á annað borð. Þetta er hin sæmilegasta ganga þarna upp eftir og nokkuð brött á kafla. Skaflinn er í um 800 metra hæð á brattri austurbrún skálarinnar við Gunnlaugsskarð og liggur nokkurnvegin í norður-suður. Hann myndast sem hengja vetrum þegar snjóar eða skefur í austan- og suðaustanáttum sem er ekki óalgengt. Skaflinn hefur oftar en ekki náð að bráðna á þessari öld en að þessu sinni lifar hann góðu lífi, heill og óskiptur, og á ekki nokkra möguleika á að hverfa áður en vetrarsnjórinn leggst yfir.
Tilgangur ferðarinnar var ekki síst sá að mæla lengd skaflsins mér til gamans, en til þess nýtti ég mér GPS-hátækni með því að taka hnit á sitthvorum enda skaflsins. Samkvæmt þeirri mælingu er lengd skaflsins um 510 metrar, sem er talsvert og þýðir að lengdin er yfir helmingur af hæð Esjunnar.
Það að skaflinn skuli vera svona stór núna er svolítið sérstakt í ljósi þess að það hefur verið ágætlega hlýtt í veðri í sumar og árshitinn, sem af er, nálægt meðalhita síðustu 10 ára. Það snjóaði hins vegar heil ósköp í desember síðasta vetur og hafði ekki mælst annað eins í desember í Reykjavík. Enga almennilega hlýinda- og hlákukafla gerði svo það sem eftir var vetrar. Í ofanálag má gera ráð fyrir að stór uppistaða í þessum skafli núna sé snjór sem ekki náði að bráðna í fyrra en þá var skaflinn stærri í lok sumars en verið hafði frá því fyrir aldamót, sem passar líka við það að árið 2015 var afgerandi kaldasta árið í Reykjavík á þessari öld. Reyndar má deila um hvort 2015 hafi í raun verið kalt í ljósi þess hve öll hin voru hlý en í takt við það þá hurfu Esjuskaflar öll 10 fyrstu ár þessarar aldar sem er lengsta slíkt tímabil sem þekkt er.
Ég hef ekki verið nógu duglegur að ljósmynda Esjufannir síðsumars en ætla þó að birta mynd sem einn mikill Valsari tók á úrslitastund þann 15. ágúst í fyrra, árið 2015. Eins og sést var staðan þá í skaflamálum Esjunnar verulega snjónum í vil.
Snjóskaflarnir áttu auðvitað eftir að bráðna eitthvað áður en yfir lauk þarna í fyrra en á Veðurstofuvefnum kemur fram að samkvæmt mælingu á þeirra vegum, þann 8. október 2015, hafi skaflinn verið um 500 metrar sem er einmitt svipað og ég fékk út úr minni mælingu nú um helgina - næstum ári seinna.
Svo má geta þess að þetta er ekki alveg í fyrsta sinn sem ég fer í skaflamælingaleiðangur upp í Gunnlaugsskarð því sunnudaginn 19. ágúst 2012 fór ég við þriðja mann þangað uppeftir en þá dugði að hafa upprúllað málband með í för til mælinga. Skaflinn góði mældist þá ekki vera nema 32 metrar á lengd enda náði hann að hverfa að fullu fyrstu vikuna í september. Að sjálfsögðu var einnig bloggað um þá ferð: Skaflaleiðangur á Esjuna
Til að meta framhaldið þá gæti orðið einhverra ára bið á því að Esjan nái að hreinsa af sér alla skafla á ný í ljósi þess að undir yngsta snjónum leynist það sem eftir lifði frá síðustu árum. Þetta er svo sem ekkert til að hafa áhyggjur af, en það má samt alveg fylgjast með þessu enda ætti afkoma Esjuskafla að vera sæmileg vísbending um tíðarfar almennt og jafnvel jöklabúskap að einhverju leyti.
Veður | Breytt 19.9.2016 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.9.2016 | 21:15
Samanburður á sumarveðurgæðum í Reykjavík
Samkvæmt fréttum og því sem maður heyrir þá fær sumarveðrið almennt góða dóma, ekki síst hér í Reykjavík. Ég get sjálfur tekið undir slíkt enda í samræmi við niðurstöður sem unnar eru út frá mínum eigin veðurskráningum, en meðal afurða þeirra er einkunnakerfi þar sem hver dagur fær sína einkunn á skalanum 0-8 út frá veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita. Mánaðareinkunnir reiknast svo útfrá meðaltali allra daga og heildareinkunn sumarmánaðanna sem hér teljast vera júní, júlí og ágúst. Þannig get ég borið saman veðurgæðin eins og þau koma út úr mínum skráningum sem ná allt aftur til ársins 1986. Að þessu sinni fær sumarveðrið í Reykjavík 2016 einkunnina 5,17 og sómir það sér vel meðal margra góða sumra á þessari öld, þótt það hafi ekki náð sömu hæðum og sumrin 2009 og 2012. Með þessu sumri hafa veðurgæðin þar með jafnað sig að fullu eftir hrunið 2013 en síðan þá hefur leiðin bara verið upp á við.
Af einstökum mánuðum sumarsins þá var júní reyndar bara í sæmilegu meðallagi með einkunnina 4,8 en í þeim mánuði kom kafli upp úr miðjum mánuði sem var í daprara lagi. Að vísu missti ég af þeim kafla enda staddur suður í Róm þar sem veðrið var með þeim hætti að það hefði sprengt alla heimatilbúna gæðastaðla. En hvað um það. Veðurgæðin sótti síðan í sig veðrið hér heima og fékk júlí 5,4 í einkunn sem er mjög gott og ágúst náði 5,3 sem er jafn mikið og hitabylgjumánuðirinn ágúst 2004 fékk á sínum tíma. Sumarið að þessu sinni var reyndar öfgalaust að mestu og kemst svo sem ekki mikið í metabækur. Þetta var þó í heildina sólríkt, þurrt og hægviðrasamt sumar og ekki síst hlýtt. Það má taka fram hversu kvöldgott það var langt fram eftir ágústmánuði og næturhlýtt lengst af um hásumarið en annars miðar veðurskráningarkerfið mitt aðallega við veðrið yfir hádaginn.
Nákvæmum tölulegum niðurstöðum verður auðvitað að taka með fyrirvara enda miðast einkunnir bara við mitt skráningarkerfi en svona á heildina litið ætti þetta að gefa ágætis vísbendingar. Að hætti hússins kemur að sjálfsögðu súlurit sem sýnir samanburð aftur til ársins 1986 og eins og sjá má var ekki mikil sumargleði í Reykjavík árið 1989 en kannski skára annars staðar.
Það má hér í lokin vísa í sambærilega útlistun frá síðasta ári en þá spanderaði ég heilmiklu plássi í stuttaralega lýsingu á öllum sumrum frá árinu 1986:
Sjá hér: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1975011/
![]() |
Mikil ánægja með sumarfrí og veður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veður | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2016 | 22:52
Reykjavíkurhitasúluritið
Nú eru sjö mánuðir liðnir af árinu og allt stefnir í að 2016 verði allnokkuð hlýrra hér í Reykjavík heldur en síðasta ár. Ekki þarf að vísu mikið til því árið 2015 var kaldasta árið það sem af er öldinni. Af þeim sjö mánuðum sem liðnir eru hafa 4 mánuðir verið hlýrri en meðaltal síðustu 10 ára. Janúar og maí voru undir þessu 10 ára meðaltali en þó fyrir ofan hið opinbera en kalda viðmiðunartímabil 1961-1990. Febrúar er hinsvegar kaldasti mánuðurinn það sem af er, bæði í raun og miðað við meðalhita, enda var hann kaldari en kalda meðaltalið segir til um.
Á glænýrri útgáfu af súluritinu hér að neðan sést hvernig þetta lítur út. Fjólubláu súlurnar standa fyrir þá mánuði sem liðnir eru, en til viðmiðunar er meðalhiti mánaðanna síðustu 10 ár (rauðar súlur) og kalda opinbera meðaltalið 1961-1990 (bláar súlur). Eins og sjá má getum við vel við unað og sumarið hefur staðið sig vel hvað hita varðar.
Til hægri á myndinni eru fimm árshitasúlur. Bláa súlan þar er fyrir kalda meðaltalið þegar meðalhitinn í Reykjavík var einungis 4,3 stig en rauða súlan stendur fyrir síðustu 10 ár og er í 5,4 stigum. Tónuðu súlurnar tvær, sýna sem fyrr, áætlaðan árshita 2016 eftir því hvort framhaldið er reiknað út frá kalda meðaltalinu eða meðalhita síðustu 10 ára, samkvæmt mínum útreikningum. Kaldara framhaldið gefur okkur þannig 5,0 stiga árshita en verði framhaldið áfram í hlýrri kantinum verður meðalhitinn um 5,4 stig, sem einmitt er í takt við þau hlýindi sem við erum farin að venjast á þessari öld. Hvort heldur sem er þá stefnir árshitinn töluvert hærra en árið í fyrra (sem var 4,5 stig) en 2015 er sýnt þarna sem græn súla allra lengst til hægri. Hvað framhaldið varðar þá er auðvitað alltaf möguleiki á óvæntum öfgum í hitafari í aðra hvora áttina en burt séð frá því þá erum við í ágætis hitamálum nú um stundir og verðum vonandi áfram.
Veður | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2016 | 23:29
Stóra snjódagamyndin, 1986-2016
Enn einn veturinn er nú endanlega að baki og grundirnar fara senn að gróa - hér í Reykjavík að minnsta kosti. Þar með er líka komið að einu af vorverkunum hér á þessari síðu sem er að birta nýja útgáfu af stóru snjódagamyndinni sem á að sýna hvenær snjór hefur verið yfir jörðu í borginni. Myndin er unnin upp úr mínum eigin prívatskráningum á ýmsum veðurþáttum sem hófust á miðju ári 1986 og er þetta því 30. veturinn sem hefur verið færður til bókar. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna samanlagðan fjölda hvítra daga. Matsatriði getur verið hvort jörð sé hvít eða ekki en sé ég í vafa þá miða ég við 50% snjóhulu í mínum garði undir miðnætti hvers dags. Nánari útlistanir eru undir myndinni.
Eins og sést á tölunum hægra megin þá voru flestir hvítir dagar veturinn 1994-95 en fæstir voru þeir veturinn 2012-13. Undanfarnir tveir vetur voru af hvítara taginu með upp undir 100 hvíta daga og eru því meira í ætt við veturna fyrir aldamótin. Liðinn vetur var dálítið sérstakur að því leyti að fyrsti hvíti dagurinn kom ekki fyrr en 26. nóvember og hefur ekki komið síðar á skráningartímanum. En þegar snjórinn kom þá munaði um það því snjóþyngslin voru strax með þeim mestu sem mælst höfðu í Reykjavík í nóvember. Enn bætti í snjóinn og snemma í desember var snjódýptin 44 cm í Reykjavík og hefur ekki mælst meiri í þeim mánuði í borginni. Eftir alhvítan desembermánuð náði snjórinn að hverfa í tvígang í janúar en síðan tók við alhvítur febrúar. Það var þó ekki hægt að tala um snjóþyngsli í febrúar en þrálátur var hann. Eftir að snjórinn hvarf, snemma í mars, hefur aðeins einu sinni hvítnað og apríl hefur verið laus allra mála. Ef við fáum ekki síðbúna snjókomu í maí þá getum við reyndar sagt að snjótímabilið hafi ekki verið styttra á því tímabili sem myndin nær yfir, allavega miðað við þessar skráningar. Það var þó ansi hvítt meðan á því stóð.
Snjóþyngsli í garðinum heima, að kvöldi 1. desember 2015.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2016 | 23:35
Hvernig kemur Esjan undan vetri? Myndasyrpa
Esjan kemur misjafnlega undan vetri milli ára rétt eins og stjórnmálamenn. Mánudaginn 4. apríl skartaði fjallið sínu fegursta og sólargeislarnir gerðu sitt til að vinna á snjósköflum liðins vetrar. Þetta var líka kjörinn dagur til að taka hina árlegu samanburðarmynd af Esjunni fyrstu vikuna í apríl. Fyrsta myndin var tekin í aprílbyrjun 2006 og eru myndirnar því orðnar 11 talsins og koma þær allar hér á eftir í öfugri tímaröð, ásamt upplýsingum hvort og þá hvenær allur snjór hefur horfið úr Esjuhlíðum. Það má sjá greinilegan mun á milli ára. Til dæmis var Esjan alhvít um þetta leyti í fyrra í kuldalegri tíð en öllu minni var snjórinn árið 2010 enda hvarf snjórinn óvenju snemma það sumar.
Undanfarin þrjú sumur hefur Esjan ekki náð að hreinsa af sér alla snjóskafla frá borginni séð og var reyndar nokkuð fjarri því í fyrra. Það út af fyrir sig minnkar líkurnar á að Esjan nái að verða alveg snjólaus í ár því undir snjóalögum þessa vetrar lúra enn skaflar sem sem urðu eftir síðasta sumar. Núverandi skaflar eru auk þess sæmilega massífir að sjá þannig að nú reynir á sumarið ef allur snjór á að hverfa fyrir næsta vetur. En þá eru það myndirnar.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.4.2016 | 23:55
Vetrarhitamósaík
Veturinn sem nú er að baki var ekkert sérlega hlýr í borginni og reyndar bara frekar kaldur miðað við flesta vetur þessarar aldar. Þó var það þannig að almennilegar frosthörkur gerðu lítið vart við sig, að minnsta kosti hér í Reykjavík og vegna skorts á hlýindaköflum að auki var þetta frekar flatneskjulegur vetur í hitafari miðað við það sem oft gerist. Þetta má sjá mósaíkmyndinni sem byggð er á eigin skráningum og sýnir hitafar yfir vetrarmánuðina nóvember-mars í Reykjavík allt aftur til ársins 1989. Myndin er einfölduð þannig að í stað stakra daga er meðalhitinn tekinn saman nokkra daga í senn. Að venju miða ég við dæmigerðan hita yfir daginn en tölurnar lengst til hægri er hinsvegar reiknaðar út frá opinberum mánaðarhitatölum Veðurstofunnar. Ég veit að almennt telst nóvember ekki til vetrarmánaða en finnst þó sjálfum betra að hafa hann með.
Í heildina þá sést ágætlega hvernig veturnir fóru að verða hlýrri upp úr aldamótum með áberandi fleiri hlýindaköflum um hávetur og að sama skapi færri kuldaköstum. Veturinn 2002-2003 er afgerandi hlýjastur (3,2 stig) en kaldast var veturinn 1994-1995 (-1,0 stig). Síðustu tveir vetur eru frekar svipaðir upp á hitafar að gera en greinilegt er að hlýindaköflum um hávetur hefur fækkað miðað við það sem var fyrir nokkrum árum. Við fengum þó ágætan vikuskammt af hlýindum núna í mars sem gerði alveg út af við snjó og klaka í borginni.
Best finnst mér að segja sem minnst um hvort hlýindi síðustu ára séu að baki. Þau hlýindi voru óvenjuleg hvað sem öðru líður og því ekkert óeðlilegt að það kólni eitthvað hér hjá okkur. Það er þó dálítið sérstakt að við höfum alveg farið á mis við þau miklu hlýindi sem einmitt hafa einkennt norðurhluta jarðar þennan vetur. En það getur alltaf breyst.
- - - -
Það má annars velta sér upp úr tíðarfarinu og bera saman við fyrri ár á ýmsan hátt. Í næstu færslu verður það einnig gert. Þar er um að ræða einn fastasta árlega fastalið þessarar síðu. Föstustu lesendur vita kannski hvað átt er við.
Veður | Breytt 2.4.2016 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)