Færsluflokkur: Veður
13.12.2015 | 23:00
Kalt eða meðalhlýtt ár í Reykjavík?
Það hefur legið nokkuð ljóst fyrir að árið í ár mun verða það kaldasta það sem af er öldinni hér í Reykjavík sem og víðar um landið. Sjálfsagt mun þetta verða eitthvað rætt þegar lokatölur liggja fyrir enda skýtur það nokkuð skökku við að hér á landi skulum við fá tiltölulega kalt ár á meðan hiti á jörðinni í heild hefur ekki mælst hærri en á þessu ári. En þá vaknar upp sú spurning hvað sé kalt ár svona yfirleitt og einnig hvort viðmiðunum breytist ef allnokkur hlý ár koma í röð? Hlýtt og kalt byggist alltaf á einhverjum viðmiðunum og sama má segja um ýmislegt stórt og smátt. Er til dæmis lágvaxnasti maðurinn í körfuboltaliði örugglega lágvaxinn?
Svo við nefnum tölur þá er líklegt að meðalhitinn í Reykjavík verði nálægt 4,6 stigum (kannski 4,5 eða 4,7). Árið mun þó vera ofan við meðalhita viðmiðunartímabilsins 1961-1990 sem er 4,3 stig og mun því talið vera ofan meðallags í hita. En eins og við vitum þá er verið að miða við kalt tímabil sem var næstum 0,7 stigum kaldara en 30 ára tímabilið þar á undan sem hefur verið talið mjög hlýtt. Aftur á móti gæti þetta ár orðið næstum heilli gráðu kaldara en meðalhiti þessarar aldar sem inniheldur eiginlega ekkert nema hlý ár fram að þessu. Af þessu er ljóst að hitafar ársins 2015 í Reykjavík má skilgreina á ýmsan hátt eftir því hvað er miðað við eins og sést hér:
4,6°C Núverandi ár (?) 2015
4,3°C Núverandi 30 ára viðmiðunartímabil, 1961-1990
4,9°C Eldra 30 ára viðmiðunatímabil, 1931-1960
4,6°C Eldra+núverandi viðmiðunartímabil, 1931-1990 (60 ár)
4,9°C Síðustu 30 ár, 1985-2014
5,5°C Frá aldamótum, 2001-2014
2,9°C Kaldasta árið, 1979
6,1°C Hlýjasta árið, 2003
Það má sjá á þessari upptalningu að meðalhitinn 2015 stefnir í að vera nálægt meðalhita síðustu tveggja viðmiðunartímabila sem uppfærast á 30 ára fresti samkvæmt alþjóðastöðlum. Eða með öðrum orðum, meðalhitinn 2015 verður svipaður meðalhita áranna 1931-1990 sem inniheldur bæði kalt og hlýtt tímabil. Kannski væri því sniðugast í ljósi reynslunnar að miða við 60 ár en ekki 30 en samt þannig að viðmiðunartímabilið endurskoðist á 30 ára fresti. Þannig gæti næsta viðmiðunartímabil verið árabilið 1961-2020 og innihéldi þannig einnig hlýtt og kalt tímabil. Kem þessu hér með á framfæri þótt það sjálfsagt breyti engu.
Einnig má í ljósi reynslunnar gera tilraun til að skilgreina hvað sé kalt ár eða hlýtt, miðað við tölur úr Reykjavík. Það gæti litið út svona:
Mjög kalt ár: <3,7°C
Kalt ár: 3,84,3°C
Meðalár: 4,44,9°C
Hlýtt ár: 5,05,5°C
Mjög hlýtt ár: 5,6°C>
Samkvæmt þessu steinliggur árið 2015 í Reykjavík sem meðalhlýtt ár. En svo er það hinsvegar með hina margumtöluðu hlýnun jarðar. Ef hún er tekin með í reikninginn þá gæti skilgreiningin á því hvað sé hlýtt og hvað sé kalt tekið breytingum. Það er þó önnur saga en að mínu viti eiga hitameðaltöl ekki að taka tillit til framtíðarinnar enda ekki vitað hvað hún ber í skauti sér hvað sem öllum vísbendingum líður.
Veður | Breytt 9.1.2016 kl. 23:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.11.2015 | 20:32
Í hvað stefnir Reykjavíkurhitinn 2015?
Það hefur legið nokkuð ljóst fyrir að árið 2015 verður ekki með hlýjustu árum í Reykjavík eða yfirleitt á landinu. Fyrstu mánuðina var lítið um hlýindakafla í stíl við þá sem oft hafa komið að vetrarlagi og vormánuðirnir voru kaldir. Apríl og maí í Reykjavík voru báðir þeir köldustu það sem af er öldinni og maí reyndar sá kaldasti síðan 1979. Þegar svo júní bættist við sem rétt hékk í "kalda meðaltalinu" frá 1960-90 er ekki nema von að vangaveltur væru uppi hvort hlýindatímum hér á landi væri lokið, með snjóum fram á vor, kaldari sjó umhverfis landið og almennri vosbúð til sjávar og sveita. Sjálfur velti ég fyrir mér möguleikanum á mestu kólnun milli tveggja ára, hér í Reykjavík allavega, sem reyndar var ekki fjarri lagi í ljósi þess hve árið 2014 var hlýtt.
En þá er að skoða stöðuna nú þegar aðeins tveir mánuðir eru eftir af árinu. Þar kemur mánaðarhitasúluritið til sögunnar sem sýnir hvernig meðalhitinn í Reykjavík hefur þróast (fjólubláar súlur). Til viðmiðunar er meðalhiti mánaðanna síðustu 10 ár (rauðar súlur) og kalda opinbera meðaltalið 1961-1990 sem enn er í gildi (bláar súlur). Eins og sjá má hefur hitinn nokkuð tekið við sér þar sem fjórir síðustu mánuðir eru yfir kalda meðaltalinu og síðustu tveir mánuðir að auki yfir meðalhita síðustu 10 ára.
Lengst til hægri á myndinni eru árshitasúlur og að venju sýna tónuðu súlurnar þar áætlaðan árshita 2015 eftir því hvort hiti síðustu mánaðanna verði í samræmi við kalda meðaltalið eða síðustu 10 ár. Þannig fást tölurnar 4,5° með því að reikna með tiltölulega köldu framhaldi og 4,7° með tiltölulega hlýju framhaldi. Báðar tölurnar eru ofan við meðalhita áranna 1960-90 en nokkuð fyrir neðan meðalhita síðustu 10 ára og jafnframt ljóst, ef þetta verður raunin, að árið verður það kaldasta af þeim 15 árum sem þá verða liðin af öldinni. Þó er ekki endilega útséð með það. Meðalhiti ársins 2013 var 4,9 stig og rétt rúmlega það en mér reiknast svo til að meðalhiti síðustu tveggja mánaða ársins þurfi að vera um 3,3 stig til að ná árinu 2013. Þeir mánuðir voru reyndar yfir því í fyrra vegna mikilla hlýinda í nóvember en annars er á talsverðan bratta að sækja.
Svo er spurning hvort hægt sé að tala um kalt ár þótt meðalhitinn verði 4,5-4,7 stig. Það yrði þó yfir opinbera viðmiðunartímabilinu, sem ég hef nefnt hér kalda meðaltalið. Meðalhiti þessarar aldar er hinsvegar um 5,5 stig og ef við segjum að það sé réttari meðalhiti og eitthvað sem er eðlilegt og komið til að vera, þá er þetta vissulega kalt ár, en tæplega annars.
Veður | Breytt s.d. kl. 21:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.9.2015 | 22:19
Samanburður á sumarveðurgæðum í Reykjavík
Nú þegar aðal-sumarmánuðirnir er að baki er komið að því að skoða hvernig sumarið plummaði sig hér í Reykjavík miðað við fyrri sumur. Til grundvallar eru mínar eigin veðurskráningar en aukaafurð út frá þeim er einkunnakerfi þar sem hver dagur fær sína einkunn á skalanum 0-8 út frá veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, vindi og hita. Mánaðareinkunnir reiknast út frá meðaltali allra daga og sumareinkunnin sömuleiðis. Þannig get ég borið saman veðurgæðin eins og þau koma út úr mínum skráningum sem ná allt aftur til ársins 1986.
Að þessu sinni fær sumarveðrið í Reykjavík 2015 fær einkunnina 4,90 sem er bara nokkuð gott þó ekki sé það í sama stjörnuflokki og þau allra bestu. Nýliðið sumar var reyndar með allra besta móti í Reykjavík og nágrenni miðað við aðra landshluta, sérstaklega Norður- og Austurland þar sem sumarið var næstum eins ómögulegt og það getur orðið. Þannig er það bara, veðurgæðum er oft misskipt hér á landi og að þessu sinni hafði suðvesturhornið vinninginn.
Hæsta einkunnina frá upphafi fær sumarið 2009: 5,37. Sumarið 1989 er það lakasta með 4,10 stig en meðaleinkunn allra sumra er 4,74. Niðurstöðum má taka með fyrirvara enda miðast einkunnir bara við mitt skráningarkerfi en svona á heildina litið ætti þetta að gefa ágætis vísbendingar. Að sjálfsögðu kemur hér súlurit yfir niðurstöður og undir því er stuttaraleg lýsing á öllum sumrum frá 1986.
Stuttaraleg lýsing á öllum sumrum frá árinu 1986. Tek fram að aðallega er hér miðað við mitt heimapláss, Reykjavík, nema annað sé tekið fram.
1986 4,46 Júní var dimmur, kaldur og blautur suðvestanlands en júlí og ágúst öllu betri.
1987 4,73 Sólríkt og þurrt í júní og ágúst, en júlí var sólarlítill og blautur.
1988 4,30 Afar slæmur júnímánuður og einn sá sólarminnsti í Reykjavík. Júlí var ágætur en ágúst ekkert sérstakur. Óvenjumikið þrumuveður suðvestanlands þann 10. júlí.
1989 4,10 Júlí brást algerlega og var sá sólarminnsti sem mælst hefur í Reykjavík auk þess að vera kaldur. Júní og ágúst voru einnig frekar svalir er skárri að öðru leyti.
1990 4,50 Lítið eftirminnilegt sumar sem var í slöku meðallagi. Reykjavíkurhitinn í júlí var þó sá hæsti í 22 ár.
1991 4,93 Júní var sérstaklega sólríkur og á eftir fylgdi heitasti júlímánuður sem komið hefur í Reykjavík og voru slegin hitamet víða um land. Í mikilli hitabylgju náði hitinn 23,2 stigum í borginni þann 9. júlí en sá mánuður varð hlýjastur allra mánaða í Reykjavík 13,0 gráður.
1992 4,37 Sumarið ekkert sérstakt og aldrei mjög hlýtt. Eftirminnilegast er kuldakastið um Jónsmessuna í annars mjög köldum júnímánuði, þar snjóaði fyrir norðan og einnig til fjalla sv-lands.
1993 4,70 Ágætt tíðarfar en besta veðrið var í júlí en þá var mjög bjart og þurrt í Reykjavík en kalt fyrir norðan.
1994 4,80 Sumarið var sæmilegt með köldum júnímánuði en júlí var frekar hlýr.
1995 4,33 Sumarið ekki gott nema hvað júlí var ágætur. Ágúst var mjög þungbúinn.
1996 4,63 Fátt eftirminnilegt þetta sumar. Ágúst var mjög dapur í Reykjavík en góður kafli kom um miðjan júlí.
1997 4,80 Sumarið var þurrt og bjart framan af en júlí og ágúst ollu vonbrigðum SV-lands.
1998 4,93 Sumarið var gott í heildina. Júnímánuður var bjartur og þurr og var ásamt ágúst sá hlýjasti í mörg ár.
1999 4,60 Sumarið var frekar blautt þar til í ágúst, en þá var bjart og hlýtt.
2000 4,77 Ágætt sumar með köflum en mjög sólríkt og þurrt fyrir norðan og austan.
2001 4,70 Sumarið var ágætt í heildina þó lítið væri um hlýja daga.
2002 4,57 Júní var hlýjasti mánuðurinn að þessu sinni. Hitinn náði þá 22 stigum sem er hitamet fyrir júní. Sumarið þótti ekkert sérstakt en var nokkuð milt.
2003 4,80 Júní og ágúst urðu hlýrri en nokkru sinni í Reykjavík enda var sumarið það hlýjasta sem mælst hafði í borginni sem og víða um land. Nokkuð rigndi þó með köflum.
2004 5,13 Sumarið var bæði hlýtt og sólríkt. Í ágúst gerði mikla hitabylgju SV-lands þar sem hitinn fór yfir 20 stig í borginni fjóra daga í röð, nýtt hitamet var þá sett í Reykjavík: 24,8 stig.
2005 4,73 Sumarið var sæmilegt fyrir utan þungbúinn og svalan kafla í júlí.
2006 4,47 Sumarið var þungbúið og blautt suðvestanlands framan af en rættist heldur úr því er á leið.
2007 5,13 Sumarið var yfirleitt hlýtt og þurrt og mjög gott um mest allt land. Í Reykjavík var júlímánuður sá næst hlýjasti frá upphafi.
2008 4,90 Afar sólríkur og þurr júnímanaður en síðan köflóttara, mjög blautt í lok ágúst. Enn var slegið hitamet í Reykjavík, nú í hitabylgju undir lok júlí þegar hitinn komst í 25,7 stig.
2009 5,37 Mjög gott sumar sunnan og vestanlands, sérstaklega júlímánuður sem var sá þurrasti í Reykjavík síðan 1889 og sjálfsagt einn af bestu veðurmánuðum sem komið hafa í Reykjavík.
2010 5,13 Eitt hlýjasta sumar í Reykjavík. Júní var sá hlýjasti frá upphafi, júlí jafnaði metið frá 1991 og ágúst með þeim hlýjustu. Aldrei var þó um að ræða verulega hitabylgju.
2011 5,03 Sumarið byrjaði heldur kuldalega, sérstaklega norðaustanlands. Annars yfirleitt bjart og þurrt suðvestanlands.
2012 5,33 Mjög gott sumar víðast hvar. Sólríkt, þurrt og hlýtt. Óvenjudjúp sumarlægð kom suður að landi 22. júlí.
2013 4,37 Mikið bakslag í veðurgæðum sunnan- og vestanlands. Ágætis kafli seinni hlutann í júlí bjargaði þó miklu.
2014 4,73 Nokkuð blautt fram yfir mitt sumar og fáir sólardagar. Júní var þó með þeim allra hlýjustu. Ágúst nokkuð góður en endaði með óveðri í lok sumars.
2015 4,90 Ágætt sumar suðvestanlands en óvenju slæmt norðanlands og austan. Júní fremur kaldur í borginni framan af en annars var hitinn nærri meðallagi. Þurrt og nokkuð bjart var fram í miðjan ágúst þegar tók að rigna. Stuttur hlýindakafli kom seint í ágúst. Snjór var lengi að hverfa víða á hálendinu og allnokkrir skaflar í Esju lifðu sumarið.
Þannig er það. Því má svo bæta við að september hefur farið vel af stað norðan- og austanlands sem er nokkur sárabót fyrir sumarið þar. Annars er september ekki talinn með hér þótt hann sé almennt talinn til sumarmánaða. Það á þó ekki við um þetta yfirlit enda fer venjulega verulega að halla að hausti þegar líður á mánuðinn.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2015 | 00:01
20 stiga hitar í Reykjavík
Það eru alltaf viss tíðindi þegar hitinn í Reykjavík nær 20 stigum eins gerðist síðastliðinn þriðjudag þann 25. ágúst og ekki síður merkilegt að það gerist svona seint á sumrinu. Til að svo megi verða þarf helst af öllu hlýr loftmassi frá Evrópu að villast hingað með austanvindum sem knúnir eru af lægðarkerfum suður af landinu sem einmitt var reyndin að þessu sinni. Á þessari öld er það mun algengara en áður að hitinn nái 20 stiga markinu einhverntíma yfir sumarið. Kalda tímabilið á seinni hluta síðustu aldar státaði ekki af mörgum slíkum atburðum en aftur á móti gekk betur á hlýju áratugunum milli 1930-1960 þegar nálega annaðhvert sumar státaði af 20 stigum. Þetta má sjá á eftirfarandi mynd sem unnin er upp úr gögnum Veðurstofunnar.
Hæsti hiti sem mældist á hlýja tímabilinu um miðja síðustu öld var 23,2 stig, þann 17. júlí árið 1950. Hitinn náði 20 stigum fjórum sinnum næstu 10 árin en síðan liðu heil 15 ár án þess að það gerðist. Þann 9. júlí 1976 náði hitinn loks 20 stigum og það svo um munaði því nýtt glæsilegt hitamet var þá sett er hitinn komst í 24,3 stig. Aftur komst hitinn í hæstu hæðir í lok júlí 1980 þegar hann mældist í 23,7 stig. Merkilegt er reyndar að þetta er einu dæmin um 20 stiga hita á næstum 30 ára tímabili frá 1961-1989. Hitinn mjakaðist upp í 20 stig sumarið 1990 en í frægri júlíhitabylgju árið 1991 komst hitinn hæst í 23,2 stig. Upp úr aldamótum fór 20 stiga tilfellum fjölgandi og í ekki síður frægri hitabylgju í ágúst 2004 var nýtt hitamet sett í Reykjavík þann 11. ágúst er hitinn komst í 24,8 stig. Það met var ekki langlíft því það var slegið út af borðinu síðdegis þann 30. júlí árið 2008 er hitinn komst í 25,7 stig sem er núverandi met á hinum opinbera kvikasilfurmæli Veðurstofunnar. Ekki tókst hitanum að ná 20 stiga markinu sumarið 2014 en þó munaði mjög litlu en þar með lauk 7 ára 20 stiga syrpu sem hófst árið 2006. Við þekkjum auðvitað ekki framtíðina en höfum ekkert móti því að boðið verði reglulega upp á 20 stiga sumur á næstu árum en best er þó eins og ávallt að stilla væntingum í hóf.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2015 | 22:53
Kólnandi sjór í víðara samhengi
Kólnun sjávarins hér í Norður Atlantshafinu er hið merkilegasta mál enda eru þetta mikil umskipti frá því hlýsjávarástandi sem ríkt hefur umhverfis landið í allnokkur ár. Það á eftir að koma í ljós hvort þetta sé tímabundið ástand eða langvarandi kæling og byrjun á kuldaskeiði á okkar slóðum í stíl við kalda tímabilið á seinni hluta 20. aldar. Ýmislegt hefur verið sett fram sem ástæður þessarar kólnunar. Talað hefur verið um veikingu Golfstraumsins, bræðsluvatn frá Grænlandi eða óhjákvæmilega náttúrulega sveiflu. Þótt eitthvað gæti verið til í þannig vangaveltum til lengri tíma, þá er sennilegasta skýringin á þessum atburði, nokkuð eindregið ríkjandi veðurástand undanfarinn vetur (eða jafnvel tvo vetur) sem nær yfir stóran hluta Norðurhvels allt frá Kyrrahafi til Atlantshafs. Þetta lýsir sér í myndinni hér að neðan sem ég föndraði sjálfur, en kortið í grunninum er af vefsíðunni Climate Reanalyser og sýnir hitafrávik sjávar nú um stundir.
Aðallatriðin í þessari veðurmynd eru leikin af stóru pílunum rauðu og bláu sem túlka ríkjandi legu skotvindana sem stjórnað hafa veðrinu með allskonar afleiðingum. Fyrst ber að nefna hæðina yfir vesturströnd Bandaríkjanna sem valdið hefur óvenjumiklum þurrkum í Kaliforníu. Eins og vera ber þá er ríkjandi sunnanátt vestur af hæðinni sem hitað hefur yfirborð Kyrrahafsins þarna við ströndina allt norður til Alaska. Í Alaska var óvenju hlýtt í vetur og nú í vor með tilheyrandi skógareldum. Þetta hafði einnig áhrif allt til Norður-Íshafsins en þar brotnaði ísinn óvenju snemma upp meðfram strandlengunni við Beauforthaf.
Kuldahlið alls þessa er síðan norðanloftið sem streymdi niður eftir Kanada og til norðausturríkja Bandaríkjanna og olli þar miklum hríðarveðrum og kuldum í vetur. Þótti mörgum þar alveg nóg um. Þetta kalda vetrarloft streymdi svo beint út á Atlantshafið og átti sinn þá í öllum þeim stormlægðum sem hrelltu okkur í vetur. Atlantshafið náði að draga úr mesta kuldanum áður en loftið náði til okkar hér á Íslandi en til mótvægis þá náði kalda vetrarloftið einnig að kæla yfirborð hafsins á stóru svæði sem smám saman hefur breitt úr sér allt til Evrópu.
Þannig má segja að ekki sé ein báran stök í veðurlaginu enda eru veðurkerfin samtengd þar sem eitt hefur áhrif á annað. Ómögulegt er líka að segja hver sé sökudólgurinn að þessu öllu saman eða hvort það sé eitthvað eitt frekar en annað. Kannski má líkja veðurlagi heimskringlunnar við hundinn sem eltist stöðugt við skottið á sér. Þó hefur verið talað um að stóru veðurkerfin hafi verið að læsast meira en áður í eitthvað ríkjandi ástand, mánuðum eða misserum saman og aukið þar með á allskonar öfgar. Einnig hefur verið rætt að vestanvindabeltið á Norðurhveli hafi full mikið verið að hægja ferðina og þá með stærri bylgjuhreyfingum til norður og suðurs, eins og hér hefur verið lýst. Svona svipað og fljót sem liðast um láglendissvæði. Ástæðan fyrir þeirri hægingu sé þá hlýnandi norðurslóðir sem þýðir minni hitamunur milli norður- og suðursvæða. Hugsanlega er það tilfellið - en kannski ekki.
- - -
Smá ítarefni:
Falling Snow Records, http://eapsweb.mit.edu/news/2015/falling-snow-records
Jet Stream Steers Atlantic Currents, http://www.livescience.com/50998-jet-stream-controls-atlantic-climate-cycles.html
Alaskas climate hell: Record heat, wildfires and melting glaciers signal a scary new normal
Veður | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.6.2015 | 20:36
Allt á kafi í snjó á Setri
Ég hef öðru hvoru birt línurit með samanburði milli ára á snjódýpt við Setur sunnan Hofsjökuls þar sem jeppamannafélagið er með skála. Upplýsingarnar gref ég upp djúpt úr brunni Veðurstofunnar þar sem hægt er að nálgast snjódýptina hverju sinni og úr þeim upplýsingum vinn ég línuritið og uppfæri reglulega með hálfsmánaðar millibili.
Setur er í 693 metra hæð og er þar iðulega hvít jörð allan veturinn og nær hann venjulega hámarki í apríl og er horfinn um miðjan júní. Nú ber hinsvegar svo við þarna við Setur, eins og víða á suðurhálendinu, að allt er enn á kafi í snjó. Þann 15. júní sl. var snjódýptin 163 cm, en eins og sést á myndinni er snjórinn oftast horfinn eða akkúrat að hverfa um það leyti.
Það má velta fyrir sér hvort 2015-línan muni ná núllinu fyrir næstu mánaðarmót en snjódýptin ætti allavega að dragast mjög mikið saman hér eftir, enda löngu komið sumar. Því miður veit ég ekki hversu snjódýptin var mikil lengst af í vetur en sjálfvirki mælirinn þarna á það til að detta út vikum eða mánuðum saman og því vantar mig upplýsingar alveg frá því í byrjun desember og þar til undir lok maímánaðar.
Snjódýptin er annars mjög misjöfn milli vetra. Veturinn 2009-2010 var til dæmis mjög lítill snjór sunnan jökla og var horfinn upp úr miðjum maí. Veturinn 2012-2013 er ég bara með eina mælingu, þ.e. í marsmánuði og var þá snjórinn minni en á þeim árum sem ég hef til samanburðar - ekki nema um 45 cm. Þann vetur var einmitt óvenju hlýtt tvo fyrstu mánuði ársins þannig að þetta gæti staðist.
Það má segja að allt sé á sömu bókina lært þegar kemur að tíðarfarinu að þessu sinni. Veturinn var mjög umhleypingasamur sunnan- og vestanlands en þó ekkert mjög kaldur. Vorið var hinsvegar kalt og sumarið lengi að ná sér á strik. En nú fer þetta allt að koma.
MODIS-gervitunglamynd frá 15. júní 2015.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2015 | 21:53
Kólnunarpælingar
Það er nokkuð ljóst að árið í ár verður töluvert kaldara en árið í fyrra hér á landi. Þarf svo sem ekki að koma á óvart þar sem árið 2014 var afar hlýtt og næst hlýjasta árið í Reykjavík. En þessi mikli munur á hitafari fyrrihluta þessara tveggja ára er þó nokkuð merkilegur og verður sífellt merkilegri á meðan ekki sér fyrir endann á svalri veðráttu.
Línuritið hér að neðan er unnið eftir elda línuriti frá mér þar sem borin er saman þróun heimshitans og Reykjavíkurhitans frá því upp úr aldamótunum 1900. Með því að setja núllið í heimshitalínuritinu við 4,5° í Reykjavíkurhitanum eins og ég geri, má sjá hvernig árshitinn í Reykjavík hefur sveiflast vel upp og niður fyrir heimsmeðaltalið sem á sama tíma hefur stigið hægt upp á við, með lítilsháttar varíöntum. Þannig hafa flest árin frá 2001 verið nokkuð yfir heimshitanum og á síðasta ári var jákvæða frávikið 0,8 stig. Frávikið var þó heldur meira á hlýjustu árunum kringum 1940 á enda var heimshitinn þá lægri. Á kuldaskeiðinu seinni hluta síðustu aldar voru flest árin vel undir heimsmeðaltalinu, mest árið 1979.
Það má spá aðeins í þessa tölu +0,8 sem árið 2014 var yfir heimsmeðaltalinu. Ef ársmeðalhitinn 2015 í Reykjavík endaði í 4,4 stigum þá væri það sambærilegt neikvætt frávik frá heimshitanum, eða -0,8 stig. Hvoru tveggja ætti að vera jafn eðlilegt eða óeðlilegt miðað við stöðu heimshitans, með þeim fyrirvara að heimshitinn rjúki ekki upp úr öllu valdi á þessu ári.
Mesta kólnun á milli ára?
Það er auðvitað allt of snemmt að spá fyrir um árshitann í Reykjavík en ef áfram verður með kaldara móti þá er árshiti upp á 4,4 stig ekki ólíkleg niðurstaða. Það yrði þá kaldasta árið síðan 1995 og auðvitað það langkaldasta það litla sem af er öldinni. Það væri þó yfir opinbera meðalhitanum í Reykjavík 1961-1990 sem enn er oftast miðað við (4,3°C). Ef 4,4°C yrði niðurstaðan þá yrði kólnun milli árana 2014 og 2015, -1,6 stig sem er meiri kólnun milli ára en áður hefur komið upp hér í Reykjavík, frá 1900 að minnsta kosti. Mesta kólnun hingað til milli tveggja ára er -1,5 stig, frá 1978 til hins ofursvala árs 1979.
Það er svo sem ekkert nýtt að hitinn sveiflist talsvert milli ára, en þessi umskipti nú eru ansi mikil í ljósi þess hve stöðugur hitinn hefur verið hér undanfarið. Hlýindaskeiðið um miðja síðustu öld einkenndist einmitt af miklum sveiflum. Árshitinn í Rvík árið 1941 var 5,9 stig en var síðan 4,4 stig tveimur árum seinna, sem er niðursveifla upp á 1,5 stig. Það gerðist aftur á móti á tveimur árum en ekki á einu ári eins og í fljótu bragði mætti ætla af myndinni. Sömu sögu er að segja um 1964 til 1966 þegar einnig kólnaði um 1,5 stig á tveimur árum.
Við vonum auðvitað að kólnunin 1978-1979 muni eiga metið sem lengst. Ef á annað borð er keppt í því. Hið jákvæða er þó, að eftir því sem 2015 verður kaldara, þeim mun líklegra er að nýtt hlýnunarmet verði slegið í framhaldinu. Núverandi hlýnunarmet sýnist mér vera +1,3 stig, milli árana 1986 og 1987. Það mætti kannski fara að vara sig eftir þetta ár enda ekkert sem segir að hlýindi séu að baki þótt gefið hafi á bátinn.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.6.2015 | 20:24
Í hvað stefnir Reykjavíkurhitinn 2015?
Í fyrra tók ég upp á því að birta súlurit sem sýndi hvernig meðalhiti mánaðana í Reykjavík þróaðist yfir árið eftir því sem á það leið. Til viðmiðunar voru meðalhitar síðustu 10 ára og kalda opinbera meðaltalið 1961-1990 sem enn er í gildi. Þetta reyndist nokkuð áhugavert því árið þróaðist í að verða annað hlýjasta árið í Reykjavík og átti möguleika þar til í lokin að slá út metárið 2003 (6,1°C).
Nú þegar 5 mánuðir eru liðnir af árinu er staðan hinsvegar heldur betur önnur. Fjórir af þessum fimm fyrstu mánuðum hafa verið kaldari en kalda meðaltalið og ekki munaði miklu í mars sem rétt náði að slefa yfir það. Allir mánuðir ársins hafa að sama skapi verið nokkuð fyrir neðan meðalhita síðustu 10 ára og munar mestu nú í maí sem var 2,4 stigum kaldari, eins og sjá má á súluritinu.
Súluritið sýnir ekki einungis hvernig mánaðarhitinn þróast því lengst til hægri eru nokkrar súlur yfir árshita. Þar vek ég athygli á fjólubláu tónuðuðu súlunum sem segja til um hvert stefnir með árshitann eftir því hvort framhaldið er reiknað út frá kalda meðaltalinu eða meðalhita síðustu 10 ára. Tölurnar sem út úr því koma eru 4,2°C og 4,8°C samkvæmt mínum útreikningum. Lægri talan (4,2) er merkileg því það þýddi að árið 2015 yrði langkaldasta árið það sem af er öldinni og það kaldasta síðan 1995 þegar hitinn var 3,8 stig. Ef hitinn hinsvegar nær sér á strik á ný og fylgir 10 ára meðaltalinu þá endar árið í 4,8 stigum sem er öllu skaplegra en þó það kaldasta síðan árið 2000 er hitinn var 4,5 stig.
Við vitum náttúrulega lítið um framhaldið. Ef kuldatíð ríkir áfram út árið er alveg mögulegt að árshitinn í Reykjavík nái ekki 4 stigum. Það er heldur ekki útséð með 5 stigin ef veðurkerfin stilla sér betur upp fyrir okkur - ekki skortir á hlýindin í heiminum um þessar mundir. Það má þó alveg afskrifa að árið 2015 ógni hlýindárinu 2014 sem sýnt er þarna með grænni súlu allra lengst til hægri.
Allt er þetta hið merkilegasta mál og ekki óeðlilegt að menn velti fyrir sér hvort hlýindatímabilinu mikla sem hófst með þessari öld sé lokið eða hvort þetta sé bara tímabundið bakslag sem jafnar sig á ný. Hlýindakaflinn undanfarin 14 ár hefur verið einstakur og hreint ekkert óeðlilegt að fá einhverja kólnun. Þetta er hinsvegar nokkuð brött kólnun og það strax eftir mjög hlýtt ár. Kuldamet eru þó varla í sjónmáli. Nema ef vera skyldi kólnunarmet á milli ára því mér sýnist að ef meðalhitinn 2015 í Reykjavík endaði undir 4,5 stigum þá yrði það mesta kólnun sem um ræðir á milli ára ef horft er á tímabilið eftir aldamótin 1900. Við erum þó kannski ekkert sérstaklega að óska eftir slíku meti.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
2.5.2015 | 22:42
Vetrarhitamósaík
Það er nokkuð síðan ég birti samskonar mynd og þessa sem sýnir með hitafar yfir vetrarmánuðina nóvember-mars í Reykjavík aftur til 1989. Myndin skýrir sig vonandi sjálf en hver láréttur borði táknar einn vetur og litirnir tákna hitafar. Þannig stendur dökkblár litur fyrir kuldakast með 5-10 stiga frosti að meðaltali, en appelsínugulur táknar hlýindi uppá 5-10 stiga hita. Myndin er einfölduð þannig að í stað stakra daga er meðalhitinn tekinn saman nokkra daga í senn en þannig sjást vel einstök hita- og kuldatímabil hvers vetrar. Þetta er byggt á eigin veðurskráningum en til hægri sést meðalhiti sömu mánaða skv. tölum Veðurstofunnar.
Fyrir utan skrautlegt útlit má sjá ýmislegt út úr þessu. Meðalhiti síðasta vetrar var 1,0 stig í Reykjavík sem einmitt er í meðallagi alls tímabilsins frá 1989. Mestu munar þó um hvað nóvember var sérlega hlýr en eftir það höfum við alveg farið á mis við hlýindi hér í borg. Í myndinni í heild má einnig sjá að bláu fletirnir eru algengari á fyrstu árunum og kaflar með hörkufrosti eru orðnir fátíðir.
Gulu fletirnir segja líka sína sögu. Þeir eru nokkuð tíðir seinni hluta tímabilsins en hefur þó farið fækkandi um háveturinn síðustu fjögur ár. Það hefur örugglega sitt að segja. Hiti á bilinu 5-10 stig um hávetur nokkra daga í senn, kemur ekki að sjálfu sér. Til þess þarf eindregna sunnanátt sem flytur með sér vænan skammt af hlýindum nokkra eða marga daga í senn og mætti kalla það sunnanáttarviðburði. Slíkir margendurteknir sunnanáttarviðburðir að vetrarlagi gætu verið grundvöllurinn að þeim hlýindum sem ríkt hafa hér eftir aldamót og þá ekki bara hér í Reykjavík heldur víðsvegar á okkar slóðum við Norður-Atlantshaf. Hlýindagusurnar draga ekki bara úr vetrakuldum heldur hljóta þær einnig að stuðla að hærri sjávarhita hér um kring. Skorturinn á þessum sunnanáttarviðburðum síðustu mánuði gæti því haft sitt að segja um framhaldið enda sitjum við nú súpunni með kaldari sjó við Norður-Atlantshaf en verið hefur lengi.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2015 | 16:33
Snjórúllur á þaki
Út um gluggann í vinnunni í dag í Brautarholtinu mátti sjá þessar myndarlegu snjórúllur á þaki Þjóðskjalasafnsins, en fyrirbærið hefur líka verið kallað vindsnúnir snjóboltar. Þetta mun vera frekar sjaldgæft fyrirbæri sem myndast einungis við mjög ákveðnar aðstæður. Vindurinn er náttúrulega drifkrafturinn í þessu en svo þarf snjórinn og hitinn að vera við einhverjar kjöraðstæður. Dálítill halli í landslagi hjálpar einnig til við myndunina og sama gildir þá um létt hallandi húsþök. Hver snjórúlla myndast líklega mjög hratt í snöggri vindhviðu. Allavega miðað við það sem ég var eitt sinn vitni að.
Á Veðurstofuvefnum er annars ágætur fróðleiksmoli um þetta fyrirbæri. Þar kemur meðal annars fram að fyrirbærið hafi verið kallað Skotta og þótt ills viti veðurfarslega og hafi boðað frekari stórviðri. Sjá hér: Vindur býr til snjóbolta
Allur gangur hlýtur að vera á því hvort eitthvað sé að marka þjóðtrúr en kannski er veturinn rétt að byrja. Köldu norðanáttinni fylgir þó gjarnan bjartviðri hér syðra eins og á þessum degi. Á nýreistum glerhýsum borgarinnar speglast svo vetrarsólin úr óvæntum áttum. Og enn er verið að byggja og enn rísa ný hótel.
Veður | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)