Færsluflokkur: Veður

Hlýi geirinn í öllu sínu veldi

Fyrir veðuráhugamann eins og mig þá eru stórviðri af öllu tagi hin mesta skemmtun svo lengi sem húsið heldur vatni og vindum. En þá er að hella sér út í veðrið. Lægðin sem olli óveðrinu núna á föstudaginn var óvenjuleg miðað við aðrar lægðir í vetur af því leyti að nú fengum við stóran skammt af hlýju lofti og vorum í þessu hlýja lofti í 9 klukkustundir, eða frá kl. 15 og alveg til miðnættis, allavega hér í Reykjavík. Þetta hlýja loft sem fylgir öllum lægðum og knýr þær áfram er oft kallað "hlýi geirinn" og það er að finna á milli hitaskila lægðarinnar og kuldaskilanna sem fylgja á eftir. Hlýi geirinn sem heimsótti okkur að þessu sinni var vel opinn á okkar slóðum en ekki  þröngur eins og oft áður sem hafði sitt að segja. Almennt þá hreyfast kuldaskilin að baki hlýja geirans hraðar heldur en hitaskilin og því þrengist um hlýja loftið við yfirborð eftir því sem lægðin þróast. Þar sem kuldaskilin hafa náð að elta hitaskilin uppi missir hlýja loftið jarðsamband og myndast þá samskil sem oftast eru lituð fjólublá á skilakortum eins og því hér að neðan frá Bresku veðurstofunni. Skilasameiningin gerist fyrst næst lægðarmiðjunni og þróast síðan áfram. Kortið gildir á miðnætti að loknum föstudeginum þegar kuldaskilin voru komin upp að landinu.

MetOffice 23. febrúar 2018

Loftið í hlýja geiranum er oftast talið vera stöðugt enda er þar á ferðinni hlýtt loft sem berst yfir kaldari svæði, öfugt við til dæmis éljaloftið sem á uppruna sinn af kaldari svæðum. Veðrið sjálft í hlýja geiranum er líka gjarnan stöðugt og eindregið. Það er í fyrsta lagi hlýtt og rakt og fer yfir með jöfnum vindi sem getur verið sterkur eins og núna á föstudaginn. Einkenni hlýja geirans komu mjög vel fram á línuritum hér að neðan, sem ég fékk á vef Veðurstofunnar. Þar sést vel hvernig veðrið breytist fyrst þegar hitaskilin ganga yfir um kl. 15 (rautt strik) og síðan þegar kuldaskilin komu um miðnætti (blátt strik) en strikin eru viðbót frá mér. Tímabilið milli skilanna litaði ég bleikt en það er einmitt þá sem við erum í hlýja geiranum. Eins og sést þá er hitinn allan tímann á bilinu 7-8 stig í hlýja loftinu, úrkoman er talsverð allan tímann og raunar óvenju mikil, vindhraðinn heldur sér í um 16 m/sek og er meiri í hviðum. Vindáttin er stöðug af suðaustri allan tímann.

Hlýi geirinn 23. feb línurit VÍ

Það sem sennilega var óvenjulegt við þennan hlýja skammt af lofti var úrkomumagnið en oftast er úrkoman í hlýja geiranum meira í formi súldar sem myndast þegar hlýtt og rakt loftið þéttist þegar það kemst í kynni við kaldara yfirborð sjávar. En þetta var líka mjög djúp lægð enda vindurinn samkvæmt því.

Best er annars að fara varlega í skýringar á þessu enda er ég bara sjálfmenntaður heimilisveðurfræðingur. Ég þykist þó vita að þetta hlýja loft muni halda áfram lengra í norður og leggja sitt af mörkum til að viðhalda þeim miklu hlýindum sem ríkja núna við Norður-Íshafið alveg upp að Norðurpól. Í viðleitni til að viðhalda einhverju jafnvægi í veröldinni mun hæðin í austri senda kalt loft undir sig til að hrella Evrópubúa á meginlandinu. Hér hjá okkur er von á endurkomu á hlýju lofti og verður það enginn hlýr geiri heldur stór hæðarknúin hlýindaframsókn sem gæti síðar snúist í andhverfu sína. Já, það er nóg að gera í þessu. Sýni hér að lokum hitafar á norðurslóðum þar sem sýnd eru hlýindi og kuldar sem frávik frá meðalhita. Ansi miklir öfgar og óvenjulegheit í þessu.

Hiti norðurslóðir 24. feb 2018

- - - -

Veðurkort MetOffice: https://www.metoffice.gov.uk/public/weather/surface-pressure

Línuritin frá Veðurstofunni: http://www.vedur.is/vedur/athuganir/kort/faxafloi/#group=11&station=1

Neðsta myndin: http://cci-reanalyzer.org/wx/DailySummary


Heimshiti og Reykjavíkurhiti 1901-2017

Mér finnst alltaf forvitnilegt að bera saman hitaþróun í Reykjavík við hitaþróun jarðarinnar í heild. Slíkan samanburð setti ég upp á línurit á sínum tíma en hér birtist ný útgáfa þar sem árið 2017 er komið inn. Til að fá réttan samanburð er hitaskalinn samræmdur og ferlarnir því í réttum hlutföllum gagnvart hvor öðrum. Reykjavíkurhitinn er teiknaður út frá árshita en heimshitinn er samkvæmt venju sýndur sem frávik frá meðaltali. Ég stilli ferlana þannig af að núllið í heimshitanum er við 4,5 stig í Reykjavíkurhita en út úr þessu kemur alveg fyrirtaks samanburðarmynd, svo ég segi sjálfur frá. Bollaleggingar eru fyrir neðan mynd.

Reykjavíkurhiti og heimshiti 1901-2017

Bollaleggingar: Fyrir það fyrsta þá sést vel á þessari mynd hversu miklu meiri sveiflur eru í árshita milli ára í Reykjavík en á jörðinni í heild. Það er eðlilegt því Reykjavík er auðvitað bara einn staður á jörðinni og ræðst árshitinn því að verulegu leyti af tíðarfari hvers árs. Allt slíkt jafnast að mestu út þegar jörðin í heild á í hlut. Reykjavíkurhitinn sveiflast mjög í kringum heimsmeðaltalið en í heildina virðist þróunin hér vera mjög nálægt hlýnun jarðar. Hitinn hefur þó sveiflast mjög hér hjá okkur, bæði milli ára og einnig á áratugaskala. Hlýju og köldu tímabilin á okkar slóðum eru þó staðbundin að mestu og má líta á þau sem tímabundin yfir- og undirskot miðað við heimshitann.

Það vill svo til að Reykjavíkurhitinn og heimshitinn enda alveg á sömu slóðum á línuritinu. Í Reykjavík var hitinn á liðnu ári mjög nálægt meðalhitanum frá aldamótum. Hitinn í Reykjavík hefur reyndast sveiflast heilmikið á allra síðustu árum. Árin 2014 og 2016 voru nálægt árshitametinu frá 2003 en á milli þeirra féll meðalhitinn niður í 4,5 stig sem er kaldasta ár aldarinnar í borginni, þótt það hafi í raun ekki verið neitt sérstaklega kalt. Á heimsvísu er árið 2017 yfirleitt talið í 2.-3. sæti yfir hlýjustu árin. Auðvitað er alltaf einhver óvissa í svona niðurstöðum t.d. þegar borin eru saman hlýjustu árin. Enginn vafi er þó á því að síðustu þrjú ár hafa verið mjög hlý á jörðinni sem einkum má rekja til öflugs El Nino ástands veturinn 2015-16.

Hvað tekur við nákvæmlega er lítið hægt að segja um. Þróun hitafars jarðar næstu áratugi er þekkt hitamál. Sumir treysta sér til að segja að það sé að kólna og hafa sagt það lengi á meðan almennt er talið að það haldi bara áfram að hlýna. Ef við spáum þó bara í þetta nýbyrjaða ár þá er ómögulegt að segja til um hvort það verði hlýrra en 2017 í Reykjavík í ljósi þeirra miklu sveiflna sem eru á milli ára. Á jörðinni í heild gæti árið 2018 orðið eitthvað kaldara en síðasta ár vegna kalds La Nina ástands í Kyrrahafinu og svo hjálpar ekki að sólvirkni er í lágmarki um þessar mundir. Varla er þó neitt hrun í heimshitanum framundan en næsti kippur upp á við verður svo þegar hinn hlýi El Nino bregður sér á leik á ný á Kyrrahafinu.

Benda má á hér í lokin að þessi mynd fer í geymslu í myndaalbúminu Veðurgrafík hér á síðunni en þar má finna ýmsar misnýlegar myndir sem ég hef sett upp.

 


Hitamósaík 1981-2017 fyrir Reykjavík

Samkvæmt venju þá er fyrsta bloggfærsla ársins tengd veðrinu. Að þessu sinni er það mósaíkmynd sem sýnir hvernig hitinn hefur þróast í Reykjavík frá mánuði til mánaðar aftur til ársins 1981 og í hvað sæti hver mánuður er í hitaröðinni. Fyrirmyndin að uppsetningu er mynd sem ég sá á vefnum og birti fyrir stuttu, en hún sýndi hitaþróun á norðurslóðum síðustu áratugi. Sjálfur hef ég reyndar gert svipaðar mósaíkmyndir, eins og ég kalla þær, og því fannst mér tilvalið að eyða nokkrum góðum frístundum í eina slíka fyrir Reykjavík.

Það fer ekki á milli mála að það hefur hlýnað talsvert í þessu tímabili. Að einhverju leyti er þar um að ræða almenna hnattræna hlýnun en ekki skiptir minna máli að hér er um að ræða þróun frá köldu tímabili yfir í hlýtt  tímabil. Fyrir sjálfan mig er þetta líka tímabil sem ég man ágætlega veðurfarslega, en þó misvel eins og gefur að skilja. Láta má nærri að sú hlýnun sem þarna hefur átt sér stað sé um 1,4 stig sem er ekki lítið, en meðalhitinn á 1981-1990 var um 4,1 stig en hefur verið um 5,5 stig á þessari öld. Þróunin til hlýnunar er þó ekki samfelld enda hafa alltaf komið mánuðir eða tímabil sem hafa verið á skjön við sinn samtíma. Vonandi skýrir uppsetningin sig sjálf en til að hjálpa til þá er árið 2017 lóðrétt lengst til hægri og svo raðast mánuðirnir niður með janúar í efstu línu. Tölurnar í töflunni vísa í hvaða sæti hver mánuður er hitafarslega frá 1981. Undir myndinni kemur smá greinargerð.Hitamósaík 1981-2017
Smá greinargerð: Í samræmi við hlýnun tímabilsins þá koma hærri tölur og bláir litir oftar fyrir á vinstri helmingi myndarinnar og munar þar mest um árin 1981 og 1983 þegar ársmeðalhitinn var aðeins 3,4 stig. Kaldasti mánuðurinn á myndinni er þó janúar 1984 (-4,0°) þegar mikið vetrarríki var í gangi. Það má líka minnast á október 1981 (0,5°C) sem er langkaldasti október á tímabilinu og sá kaldasti sem mælst hefur í borginni. Ég man reyndar lítið eftir honum sjálfur, nýbyrjaður í menntaskóla og með hugann við annað. Öllu betur man ég eftir hinu alræmda sumri 1983 sem þarna kemur vel fram, og ekki laust við að það kalda sumar hafi kveikt í mér hinn þráláta veðuráhuga.
En svo gerðist hið óvænta í ársbyrjun 1987 þegar allt í einu kom mjög hlýr vetrarmánuður en janúar það ár var hlýjasti janúar sem ég hafði upplifað (3,1°C) og hefur sá mánuður reyndar ekki orðið hlýrri hér síðan. Ekki nóg með það því desember sama ár var einnig einstaklega hlýr (4,2°) og þurfti að fara aftur til kreppuáranna til að finna hlýrri desember. Eitthvað var kannski farið að breytast, en þó var enn eitthvað í það og við tók fimbulkaldur janúar 1988 (-3,0°C) sem voru mikil viðbrigði milli mánaða. Árið 1989 var síðan lengst af mjög kalt en síðustu þrír mánuðirnir björguðu því frá botninum.
Aftur lyftist brúnin á borgarbúum í júlí-hitabylgjunni 1991 en hlýrri júlí (13°C) hafði þá ekki mælst í borginni frá upphafi. Næstu tvö sumur voru hinsvegar köld hér í Reykjavík þannig að þetta var ekki búið. Veturinn 1994-95 er frægur fyrir mikil snjóþyngsli á norðanverðu landinu en árið 1995 er síðasta kalda árið hér á landi og var meðalhitinn í Reykjavík þá 3,8 stig. Svo fór þetta að koma, nema að lokaandvarpið var eftir, því nóvember 1996 var sá kaldast í Reykjavík (-1,9°C) síðan einhverntíma 19 öld.
Strax upp úr miðju ári 2001 hófst núverandi hlýindaskeið sem síðan hefur verið nokkuð samfellt. Raunar hlýnaði svo skart að á 12 mánaða tímabilinu frá nóv.2002-okt.2003 var meðalhitinn 6,6 stig sem er alveg einstakt og hefur ekki náð þvílíkum hæðum síðan. Á nokkrum árum komu svo þarna hlýindakaflar sem eyðilögðu hverja skíðavertíðina af annarri og sjást hlýindin á myndinni sem knippi af dökkrauðum síðvetrarmánuðum árin 2003-2006. Einnig má minnast á desember 2002 sem var hlýrri en nokkurn tíma hefur mælst (4,5°C). Sumarmánuðirnir fóru líka mjög svo hlýnandi. Hlýjasti ágúst sem mælst hefur var árið 2003 (12,8°C) og árið eftir kom ágústhitabylgjan eftirminnilega, sem sló mörg met víða um land. Eftir nokkurra ára tíðindaleysi með áframhaldandi hlýindum kom sumarið 2010 en þá var röðin komin að júní að setja nýtt meðalhitamet (11,4°C) og í kjölfarið fylgdi júlí, sem jafnaði merkismánuðinn júlí 1991 að meðalhita (13,0°). Fleiri hlýir mánuðir áttu eftir koma allt fram á síðastliðið ár, en þó má segja að sveiflur í hitafari hafi aukist. Maímánuður árið 2015 var ansi kaldur en 2015 má annars flokkast sem meðalhlýtt ár (4,5°C) en hefði þótt bara nokkuð gott fyrir 30-40 árum. Árin þar á undan og á eftir 2014 og 2016, voru hinsvegar með þeim allra hlýjustu (6,0°). Meðalhiti nýliðins árs var mjög í samræmi við önnur ár á þessari öld (5,5°C). Síðustu tveir mánuðirnir voru þó í kaldara lagi og missti árið þar með af ákveðnum möguleikum.

Hvert framhaldið verður veit auðvitað enginn, en í ljósi þeirra hitasveiflna sem áður hafa átt sér stað hlýtur alltaf að vera möguleiki á bakslagi eftir svona hlýtt tímabil. Ef það bakslag er nýbyrjað þá munum við ekki vita af því fyrir en eftir einhver ár þegar við horfum á nútímann úr fjarlægð. En svo gætu hlýindin líka bara rétt verið að byrja.


Nýjustu hitatölur úr Reykjavík

Hlýtt var í veðri í október og eins og á sama tíma í fyrra stefnir nú allt í að árið flokkist sem mjög hlýtt ár og enn er smá möguleiki á að þetta verði hlýjasta árið frá upphafi mælinga. Þetta gefur auðvitað tilefni til að birta mánaðarhitasúluritið góða sem sýnir hvernig meðalhitinn í Reykjavík hefur staðið sig á árinu. Að venju standa fjólubláu súlurnar fyrir meðalhita þeirra mánaða sem liðnir eru, en til samanburðar eru annars vegar síðustu 10 ár (rauðar súlur) og hinsvegar 30 ára viðmiðunartímabilið (bláar súlur) sem enn er í gildi og uppnefnist hér kalda meðaltalið vegna þess hversu kalt það var í raun. Lengst til hægri eru auk þess nokkrar árshitasúlur. Allt eins og áður hefur verið boðið upp á.

Mánaðarhitar Rvik 2017 - 10 mánuðir

Eins og sjá má þá skarar nýliðinn októbermánuður vel fram úr bæði kalda meðaltalinu og 10 ára meðaltalinu, þótt hann hafi ekki verið alveg eins óvenjuhlýr og í fyrra. Aðrir hlýir mánuðir það sem af er ári eru febrúar, maí og september. Aðrir mánuðir eru á hefðbundnari slóðum og enginn hefur verið kaldur enn sem komið er. Apríl er þó næstur því að teljast kaldur enda bara örlítið hlýrri en febrúar.

Spennan liggur hins vegar í framhaldinu og þar koma tónuðu súlurnar til hægri við sögu en þá er væntanlegur árshiti reiknaður út frá því hvort síðustu tveir mánuðir ársins verði í kalda meðaltalinu eða í meðallagi síðustu 10 ára. Kaldara framhaldið gefur árshitann 5,7°C og það hlýrra 5,9°C sem hvort tveggja er mjög gott í sögulegu samhengi. Árið í fyrra endaði í 6,0°C (græn súla) og telst vera næst hlýjasta árið í Reykjavík. Metið er 6,1°C frá 2003 og til að slá því við þyrftu góð hlýindi að haldast meira og minna út árið, eins og reyndin var reyndar í fyrra.

Best er að að sýna þetta á allsherjar línuriti yfir hitafar í Reykjavík frá 1901 til vorra daga. Árið 2017 er komið þarna inn til bráðabirgða en fölblá sporaskja sýnir á hvaða slóðum árshitinn mun líklega enda, þegar síðustu tölur hafa borist.

Mánaðarhitar Rvik 2017 - 10 mánuðir

Hvernig sem fer þá er allavega ljóst að hlýindi eru enn í fullum gangi hér hjá okkur og ekkert farið að bera á kólnun eins og einhverjir voru farnir að auglýsa, eftir hið tiltölulega kalda ár 2015. En þótt árið í ár verði ekki það hlýjasta í mælingasögunni þá er samt góður möguleiki á öðru meti sem er hlýjustu tvö árin í röð - eða hlýjasta tveggja ára syrpan. En það er svo sem ekki víst að keppt sé í því. Núverandi hlýjustu tvö ár í röð eru 2003-2004 (5,85°C), samkvæmt því sem ég reikna. Til að ná því þá þurfa síðustu tveir mánuðirnir ekki að gera betur en að hanga í hinu svokallaða kalda meðaltali áranna 1961-1990. Allt getur þó gerst og brugðist - ekki síst á lokasprettinum eins þekkt er og rysjótt tíð framundan.

 


Á fellibyljavaktinni með CNN

Sunnudagurinn 10. september fór að mestu í það hjá mér að fylgjast með margboðaðri landgöngu fellibyljarins IRMU að ströndum Bandaríkjanna. Sjónvarpsstöðin CNN lagði allar aðrar fréttir til hliðar þennan dag og einbeitti sér af fullum þunga að IRMU með beinum útsendingum af vettvangi þar sem fréttamenn fóru mikinn í lýsingum á því sem koma skildi eða því sem þegar var skollið á en inn á milli var skipt yfir á veðurfréttamanninn sem tók stöðuna hverju sinni. Þrátt fyrir sívaxandi spennu var samt nauðsynlegt að taka sér smá hvíld öðru hvoru enda mikið um endurtekningar í svona útsendingu þar sem fréttamönnum alltaf jafn mikið niðri fyrir þótt þeir sögðu frá því sama á korters fresti. 

IRMA_CNN

Hið eiginlega hámark atburðarins og útsendingarinnar varð upp úr klukkan 20 að ísl. tíma þegar fellibylurinn gekk á land við Naples á vesturströnd Flórída en þar hafði einn fréttamaðurinn komið sér fyrir á húsasvölum með ágætu útsýni yfir eina af götum bæjarins á meðan félagi hans tók stöðuna niðri á tómri umferðargötu. Hvað sem segja má um annað þá var afskaplega tilkomumikið að sjá í beinni útsendingu þegar mesti óveðursstrengurinn á undan auga fellibyljarins gekk yfir. Sjálfir höfðu þeir orð á því að þetta væri eins og að standa berskjaldaðar inni í bílaþvottastöð, þvílíkur var krafturinn í regninu. Skömmu síðar féll svo allt í ljúfa löð þegar komið var inn í miðju fellibylsins en þá var reyndar allt komið á flot enda höfðu niðurföll engan veginn undan í þær 15-20 mínútur þegar lætin voru sem mest. Aftur fór að blása þegar miðjan var komin fram hjá en bakstrengurinn var þó öllu hægari en sá sem á undan gekk og úrfellið skaplegra. 

Almennt virtust gegnblautir fréttamennirnir fá nokkuð út úr þessari lífreynslu. Tjónið sem óveðrið skildi eftir sig virtist þó vera mun minna en væntingar gáfu tilefni til. Eitthvað mátti þó finna af smábraki hér og þar en skemmdir voru þó aðallega á gróðri. Sjálf húsin í næsta umhverfi stóðu þetta af sér með sóma enda búa menn vel og byggja vandað þessum slóðum í ljósi reynslunnar af fyrri stormum. Margskonar tjón af ýmsu tagi mun þó væntanlega eiga eftir að koma í ljós, ekki síst af völdum vatns og sjávargangs svo ekki sé talað um víðtækar truflanir á rafmagni.

Við landgöngu var Irma 2.-3. stigs fellibylur og vindhraðinn gefinn upp sem 115 mílur á klst, sem samsvarar um 51 metrum á sekúndu sem er miklu meira en fárviðri. Vindurinn mældist yfirleitt þó mun minni á veðurstöðvum en til samanburðar var vindhraðinn mestur um 180 mílur á klst þegar IRMA fór yfir smáeyjar austar í Karíbahafinu sem 5. stigs fellibylur með tilheyrandi tjóni. Íbúar Flórída gátu prísað sig sæla að braut Irmu var heldur heldur sunnar en spáð hafði verið enda dró nokkuð úr vindhraðanum við að lemja norðurströnd Kúbu. Eins og venja er þá voru spár mikið á reiki allt frá upphafsdögum fellibyljarins lengst austur í Atlantshafinu. Aldrei þessu vant þá fylgdist ég með framvindunni nánast frá upphafi þegar ónefndir hitabeltisklakkar fóru að leggja á ráðin og skipuleggja sig skammt vestur af Grænhöfðaeyjum. Fyrstu langtímaspár um fellibyl bentu til landgöngu í Bandaríkjunum norðarlega á Austurströndinni en með tímanum færðist hættusvæðið smám saman sunnar og fyrir síðustu helgi var stórborgin Miami beint í skotlínunni af Irmu í fullum styrk. Á endanum kom hún síðan að landi bakdyramegin á Flórída í mun mildari útgáfu og enn einu sinni gátu Flórídabúar því prísað sig sæla að hljóta ekki sömu örlög og íbúar ýmissa fátækra eyja í Karíbahafinu.

Irma ferill

Mynd frá Weatherunderground sýnir feril Irmu 30. ágúst - 9. september.

Fellibyljatíminn er þó ekki yfirstaðinn. Jose reikar um í austri en hefur ekki verið talinn til stórræðna. Þróun hans er þó mjög óljós og virðast útreikningar stefna honum ýmist út og suður eða norður og niður og því best að hafa sem fæst orð um hann.


Samanburður á sumarveðurgæðum í Reykjavík

Sjálfsagt eru skiptar skoðanir á því hvernig sumarið hafi komið út veðurfarslega. Hér í Reykjavík, og kannski víðast hvar, virðast þó flestir vera nokkuð sáttir eftir því sem maður heyrir. Þetta var þó ekkert afburðasumar og vissulega höfum við kynnst því miklu verra. Eins og einhverjir vita sem álpast hafa inn þessa bloggsíðu þá held ég uppi daglegum frístundaskráningum fyrir veðrið í Reykjavík og það allt frá árinu 1986. Fylgisfiskur þessa skráninga er einkunnakerfi sem metur veðurgæði frá degi til dags útfrá veðurþáttunum fjórum: sól, úrkomu, hita og vindi. Hver hinna fjögurra veðurþátta fær einkunn á bilinu 0-2 og því getur heildareinkunn dagsins verið á bilinu 0-8 stig. Hver mánuður fær síðan einkunn útfrá meðaltali allra daga og heilu árstíðirnar og árin, ef því er að skipta.
Eins og í fyrra, og hittifyrra, og árið þar áður, þá hef ég tekið saman á súluriti, veðureinkunnir allra skráðra sumra (júní-ágúst) sem nú eru orðin 32 talsins. Einkunn sumarsins 2017 er 4,9 stig sem almennt er nokkuð gott og greinilegt að sumarveðurgæði í Reykjavík hafa náð sér ágætlega á strik eftir hrunið 2013.
Sumarveðurgæði 1986-2017
Þótt sumarið í ár hafi komið ágætlega út var það samt eftirbátur sumarsins í fyrra sem helst státaði að góðum hlýindum. Eftir hlýtt vor átti hitinn núna í sumar lengst af í nokkrum vandræðum með að ná sér almennilega á strik, nema nokkra daga í lok júlí þegar hitinn náði 22,5 stigum sem þykir aldeilis mjög gott hér í borginni. Af einkunnum einstakra mánaða má nefna að júní fékk 4,7 í einkunn sem er rétt svona nógu gott. Júlí varð hinsvegar betri með 5,0 stig og skipti hlýr og góður seinni hluti þar mestu. Ágúst gerði svo ögn betur með 5,1 stigi en það var sólríkur og þurr mánuður en þó án verulegra hlýinda. Einhverjir gætu saknað þess að hafa september ekki með í þessari úttekt enda mun hann líka vera sumarmánuður, en það verður bara að hafa það. Vonum bara að sumarblíða endist sem lengst.

Besta sumarið í Reykjavík á tímabilinu er samkvæmt þessu sumarið 2012 en sumarið 2009 fylgir fast á eftir. Bæði þessi gæðasumur tilheyra einstökum kafla góðra sumra árin 2007-2012. Viðbrigðin voru mikil með sumrinu 2013 sem var meira í stíl við nokkur ómöguleg sumur á fyrstu 10 árum skráningartímabilsins þar sem sumarið 1989 var meðal annars að finna með aðeins 4,1 stig í einkunn. Það má líka nefna einstaka mánuði, en bestu skráðu mánuðirnir eru báðir frá gæðasumrakaflanum á þessari öld: júlí 2009 með 5,8 stig og júní 2012 með 5,9 stig. Afgerandi verstu tveir sumarmánuðirnir komu hinsvegar tvö ár í röð á fyrstu skráningarárunum en það eru júní 1988 með 3,6 stig og júlí 1989 með 3,5 stig. Ef einhver man eftir þeim.

Út frá þessum veðurskráningum og einkunnagjöfum gæti ég heilmikið skrifað, reiknað og velt vöngum. Geri það reyndar stundum. Tímarnir hafa breyst og aðgangur að upplýsingum er öllu betri en á upphafsárum skráninganna þegar veðurfréttir í útvarpi og sjónvarpi voru það sem maður hafði auk eigin upplifunar. Það er erfitt að segja til um hvort ég meti alla veðurþættina alveg eins í gegnum tíðina eða hvort einhver langtímaskekkja sé í dæminu. Metur maður til dæmis hægviðri nú á dögum, mælt í metrum á sekúndu, á sama hátt og á dögum andvarans og golunnar? Maður hefur svo sem lagst í útreikninga og samanburð á slíku út frá opinberum veðurgögnum, sem reyndar gætu líka átt við sínar smáskekkjur að stríða vegna ýmissa atriða. Ýmsum aðferðum er annars hægt að beita við svona veðurgæðamat og ég ekki sá eini sem legg út það, niðurstöður gætu verið mismunandi en þó ekki endilega í aðalatriðum.

Til frekari glöggvunar bendi ég á sérstaka bloggfærslu um besta skráða mánuðinn sem minnst var á hér að framar. Sjá: Bæjarins besti júní


Hitafar í Reykjavík að loknum fyrri hluta ársins

Árið 2017 er hálfnað og því tilvalið að birta mánaðarhitasúluritið sem dúkkar annars upp hér öðru hvoru og sýnir hvernig meðalhitinn í Reykjavík stendur sig í samanburði við tvö fyrri tímabil. Að venju standa fjólubláu súlurnar fyrir meðalhita þeirra mánaða sem liðnir eru af árinu en til samanburðar eru annars vegar síðustu 10 ár (rauðar súlur) og hinsvegar 30 ára viðmiðunartímabilið (bláar súlur) sem enn er í gildi og uppnefnist hér "kalda meðaltalið" vegna þess hversu kalt það var í raun. Lengst til hægri eru auk þess nokkrar árshitasúlur. Allt eins og áður hefur verið boðið upp á.

Mánaðarhitar Rvik 2017 - 6 mánuðir.

Þótt hitinn núna í júlíbyrjun sé heldur í daprara lagi þá má vel una við það sem liðið er af árinu. Febrúar og maí koma mjög vel út og eru hátt yfir 10 ára meðaltalinu (2007-2016). Enginn mánuður er sérstaklega svalur nema kannski apríl sem rétt nær yfir kalda meðaltalið og bara lítillega hlýrri en febrúar. Um framhaldið vitum við ekki mikið annað en að nokkur skortur gæti orðið á sumarhlýindum næstu daga. Nóg er samt eftir en það má minna á að seinni hluti ársins í fyrra var mjög hlýr og endaði árið 2016 í 6,0 stigum sem er með því hæsta sem gerist, en fátt benti hinsvegar til þess um mitt ár í fyrra.

En brugðið getur til beggja vona eins og frægt er og þá koma árshitasúlurnar hægra megin til sögunnar. Litatónuðu súlurnar tvær segja til um hvar árshitinn getur endað ef seinni hluti ársins verður með hlýrra eða kaldara móti. Ef framhaldið verður í kalda meðaltalinu þá verður árshitinn 5,16 stig, samkvæmt mínum útreikningum, sem þó er ekkert sérlega lélegt enda svipað meðalhitanum í Reykjavík á gömlu hlýju árunum sem margir eldri borgarar dásama. Verði meðalhitinn hinsvegar í hlýja 10 ára meðaltalinu mun árshitinn enda í 5,75 stigum sem er bara mjög gott. Alltaf er síðan möguleiki á eindregnum öfgum í aðra hvora áttina en best er að vera ekki að reikna mikið með því. Hófleg svartsýni á áframhaldandi hlýindi á þessu ári er þó alveg raunhæf og heilbrigð að mínu mati.

 


Stóra snjódagamyndin 1986-2017

Enn einn veturinn er nú endanlega að baki og senn fara grundirnar að gróa. Þar með er líka komið að einu af vorverkunum hér á þessari síðu sem er að birta nýja útgáfu af stóru snjódagamyndinni sem á að sýna hvenær snjór hefur verið á jörðu í höfuðborginni. Myndin er unnin upp úr mínum eigin prívatskráningum sem hófust árið 1986 og er þetta því 31. veturinn sem hefur verið færður til bókar. Hver lárétt lína stendur fyrir einn vetur samkvæmt ártölum vinstra megin en tölurnar hægra megin sýna samanlagðan fjölda hvítra daga. Matsatriði getur verið hvenær jörð er hvít en viðmiðunin er a.m.k. helmingssnjóhula í mínum garði undir miðnætti. Nánari útlistanir eru undir myndinni.

Snjódagar 1986-2017

Eins og sést á tölunum hægra megin þá voru flestir hvítir dagar veturinn 1994-95 en fæstir voru þeir veturinn 2012-13. Á liðnum vetri voru hvítir dagar 47 talsins sem er með minna móti miðað við meðaltalið sem eru 73 dagar á vetri. Þeir vetur sem náð hafa 100 hvítum dögum komu allir fyrir aldamót en mjög litlu munaði þó veturna tvo 2014-15 og 2015-16.

Það var frekar löng bið eftir fyrsta hvíta deginum á síðasta vetri enda var haustið hlýtt og veturinn lengst af einnig. Snjórinn var því yfirleitt ekki mikill og staldraði stutt við þegar hann lét sjá sig. Undantekningin á snjóléttum vetri var ofursnjókoman aðfararnótt 26. febrúar sem skilaði 51 cm snjódýpt sem er það mesta sem mælst hefur í Reykjavík í febrúar og næst mesta snjódýpt sem yfirleitt hefur mælst í borginni. Þessi mikli snjór lét smám saman undan síga og í lok dags þann 11. mars skrái ég auða jörð á ný. Eitthvað lítilræði snjóaði eftir þetta og örlaði á hvítri jörð síðustu dagana í apríl þótt ekki dygði það til að rata í skráningarbókina, sem eins og fyrr segir miðar við garðinn heima vestarlega í borginni.

Snjór 26. febrúar 2017

Allt á kafi í garðinum heima að morgni hins 26. febrúar 2017.


Veðrið á sumardaginn fyrsta 1987-2017

Ég hef tekið hér saman létt yfirlit yfir veðrið sumardaginn fyrsta í Reykjavík allt frá árinu 1987 sem byggist á mínum eigin skráningum og á að lýsa einkennisveðrinu yfir daginn. Sumardagurinn fyrsti er alltaf á fimmtudegi á tímabilinu 19.-25. apríl þegar enn er allra veðra von, eins og við höfum reynslu af, en sérstaklega er það hitastigið sem gjarnan á erfitt með að ákveða hvaða árstíð það vill tilheyra. Eins og sést á töflunni er þó yfirleitt nokkuð sólríkt á þessum árstíðaskiptum og að sama skapi þurrt. Köldustu dagarnir dóla sér nálægt frostmarkinu og þeir hlýjustu vippa sér yfir 10 stigin eins og ekkert sé. Engin regla er í vindafarinu fremur en endranær en það má nefna að hægviðrasamir dagar eru þarna táknaðir með hlykkjóttri pílu úr viðkomandi vindátt og tvöföld píla er vindur af tvíefldum styrk. Síðasti dálkurinn er einkunn dagsins á skalanum 0-8, fengin með ákveðnu kerfi sem ég nenni ekki að útskýra nema ef einhver spyr. Eini sumardagurinn fyrsti sem fær fullt hús stiga er árið 2004 og gerir það með miklum glans. Ekki þurfti þó að kvarta árin 1996, 2001 og 2007 þótt sá síðastnefndi hafi verið í svalara lagi. Það stefnir reyndar ekki í mikið sumarveður að þessu sinni á þessum annars ágæta degi. Hefðbundin veðurbókarskráning mun fara fram í lok dags, en ég er þó að hugsa um að bæta við skráningu dagsins eftir kvöldmat.

Sumardagurinn fyrsti

Skráning dagsins er nú komin inn og óhætt að segja að veðrið hafi verið afar fjölbreytt. Bjart var með köflum og stöku él. Hitinn fór í 4 stig í sólinni en kólnaði á meðan élin gengu yfir. Vindur nokkuð sterkur úr vestri fyrri partinn en lægði heldur er leið á daginn. Veðureinkunn dagsins er 3 stig, þar af tvö stig fyrir veðurþáttinn og eitt stig fyrir hitann. Ekkert fyrir vindinn.


Þannig var meðalhiti mánaðana í Reykjavík

Enn eitt árið að baki og allskonar yfirlit líta dagsins ljós. Hér kemur eitt þeirra en það er hitafarsyfirlit sem byggir á línuriti sem ég hef sett saman til að sýna meðalhita hvers mánaðar 2016 í Reykjavík samkvæmt tölum Veðurstofunnar. Til samanburðar eru rauðu súlurnar sem sýna meðalhita 10 áranna þar á undan og bláu súlurnar sem sýna 30 ára viðmiðunartímabilið sem enn er í gildi og uppnefnist hér "kalda meðaltalið" vegna þess hversu kalt þar var í raun. Til hægri eru að auki árshitasúlur sömu tímabila.

2016 meðalhiti mánaða

Eins og sjá má þá létu hlýindi á sér standa tvo fyrstu mánuðina og var febrúar undir kalda meðaltalinu. Fátt benti því til þess framan af að mjög hlýtt ár væri í uppsiglingu. Frá og með mars fór hitinn að ná sér á strik og voru átta af þeim tíu mánuðum sem eftir voru hlýrri en meðalhiti 10 áranna þar á undan. Mest afgerandi voru hlýindin í október sem var sá hlýjasti í rétt rúm 100 ár eða síðan í október 1915 en þá var örlítið hlýrra og er merkilegt í ljósi þess að almennt var nokkuð kaldara fyrir 100 árum. Þetta sýnir þó að óvenjuleg hlýindi, eða kuldar, geta komið upp burt séð frá ríkjandi ástandi hverju sinni. Frávik desembermánaðar miðað við meðaltöl var jafnvel enn meira en þau hlýindi voru þó ekki alveg eins óvenjuleg því einhver tilfelli eru um desembermánuði sem hafa náð 4 stigum en metið á desember 2002 (4,5 stig).

Hlýjasta árið í Reykjavík er 2003 þegar meðalhitinn var 6,1 stig. Árið 2016 endaði örlítið lægra eða í 6,0 stigum. Svo vill til að meðalhitinn árið 2014 var einnig 6,0 stig og eru þessi tvö ár, 2016 og 2014, í öðru til þriðja sæti yfir hlýjustu árin hér í borg. Fast á eftir þeim fylgjir árið 2010 og tvö ár frá hlýindaskeiðinu á síðustu öld 1939 og 1941 og var meðalhiti þeirra 5,9 stig. Samanburður milli þessara tímabila mun þó vera háður óvissu og því gæti dugað að tala um þessi sex ár: 1939, 1941, 2003, 2010, 2014 og 2016, sem hlýjustu árin í Reykjavík síðan farið var að mæla.

Það þýðir víst lítið fyrir mig að spá fyrir um meðalhitann á þessu nýbyrjaða ári enda er ég enginn veðurfræðingur og jafnvel þótt svo væri, væri sjálfsagt fátt um svör. Líklegra þykir mér þó að meðalhitinn verði lægri á þessu ári og þá aðallega vegna þess að erfitt er að toppa svona hlýtt ár. Miðað við fjölda 6-stiga ára undanfarið, þá má kannski alveg velta fyrir sér möguleikum á stórbætingu í meðalhita á næstu árum, þ.e. ef almenn hlýindi halda áfram. Slíkt gæti til dæmis oltið á því hvað gerist með þróun sjávarhita hér í kring og hvernig hafísmálum verður háttað í norðri. Þar hefur mikið verið að gerast undanfarið ár og blæs ekki byrlega fyrir hafísinn sem gæti rambað á barmi algers hruns á komandi sumri miðað við  skortinn á eðlilegum fimbulkuldum þar undanfarið. Ýmislegt er allavega í boði til að fylgjast með í náttúrunni, tala nú ekki um þegar Katla fer að loksins gjósa, sem auðvitað er alveg borðleggjandi að gerist á þessu ári - eða þannig.

 


mbl.is Hlýtt ár að baki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband