Færsluflokkur: Íþróttir

Þegar við steinlágum fyrir Frökkum á heimsmeistaramótinu 1990

Við höfum upplifað misgóðar stundir með strákunum okkar á handboltamótum gegnum tíðina. Þar á meðal eru glæstir sigrar gegn sterkum andstæðingum en líka eftirminnilegir skellir og áföll sem stundum hafa lagst þungt á sálarlíf þess hluta þjóðarinnar sem lætur sig handbolta einhverju varða. Einn af þessum skellum frá fyrri tíð situr ef til vill ekki hátt í handboltaminni þjóðarinnar en markaði engu að síður ákveðin tímamót hjá landsliði okkar og kannski ekki síður hjá andstæðingnum. Þetta var leikur Íslands og Frakklands um 9. sætið á heimsmeistaramótinu í Tékkóslóvakíu árið 1990 sem að sögn Alfreðs Gíslasonar eftir leik, var erfiðasta stund sem hann hafði upplifað sem íþróttamaður. Leikurinn sem var lokaleikur okkar á mótinu var háður eldsnemma á laugardagsmorgni og man ég eftir honum ekki síst vegna þess að ég horfði á hann í “eftirpartíi” sem dregist hafði á langinn en tilvalið þótti að enda gleðskapinn á handboltaleik - sem einmitt varð raunin.

Landslið Íslands hafði átt góðu gengi að fagna árin á undan og var auk Alfreðs skipað þrautreyndum leikmönnum ásamt nokkrum yngri og efnilegum: Kristjáni Ara, Bjarka Sig, Júlíusi Jónassyni, Þorgilsi Óttar, Sigurði Gunn, Héðni Gils, Geira Sveins, Jakobi Sig, Einari Þorvarðar, að ógleymdum hornamanninum knáa Guðmundi Guðmundssyni. Þjálfari var hinn margfrægi Bogdan Kowalczyk. Árangur liðsins á mótinu fyrir leikinn við Frakka var hinsvegar slakur. Of margir tapaðir leikir miðað við væntingar. Versti skellurinn var gegn liði Sovétríkjanna 19-27, en ljósi punkturinn var sigur gegn Austur-Þjóðverjum 19-17. Gamli tíminn var ekki alveg að baki. Þessi síðasti leikur okkar á mótinu var mikilvægur því með sigri gátum við tryggt okkur sæti á komandi Ólympíuleikum í Barcelóna 1992. Þetta var því síðasti séns að gera eitthvað gott á þessu móti - og góðir möguleikar á því enda voru Frakkar ekki hátt skrifaðir í handboltanum. Svokallaður skyldusigur gegn lítilli handboltaþjóð þar sem allt var í húfi.

Ég get ekki sagt að ég muni eftir einstökum atvikum úr þessum leik, annað en að frá fyrstu stundu virtist þessi rimma svo til töpuð. Frakkar mættu til leiks með aflitað ljóst hár sem vakti óhug og óöryggi hjá okkar mönnum. Við réðum engan vegin við hraðann hjá Frökkunum, vorum hikandi og skrefi á eftir í öllum aðgerðum. Þetta var allt annað franskt landslið en við höfðum áður kynnst. Niðurstaðan í leikslok: sex marka tap, 23-29. Partíið búið, engir Ólympíuleikar á Spáni og við blasti í B-keppnin í Austurríki 1992 en þó með von um sæti á heimsmeistaramótinu árið þar á eftir.

Aflitaðir Frakkar

Lez Bronzés á Ólympíuleikunum 1992.

Þessi tapleikur við Frakka var síðasti leikur landsliðsins undir stjórn Bogdans og samkvæmt frétt mbl íhuguðu nokkrir burðarásar landsliðsins að hætta, hvernig sem það fór. Við liðinu tók Þorbergur Aðalsteinsson og endurskipulagning liðsins framundan. Svo fór reyndar að strákarnir okkur tóku óvænt þátt í Ólympíuleikunum 1992 þar sem Júgóslövum hafði verið meinuð þátttaka nokkrum dögum fyrir setningu leikanna. Þar stóðum við okkur framar vonum og lékum um bronsverðlaun á leikunum eftir tvísýnan undanúrslitaleik gegn Samveldi sjálfstæðra ríkja (fyrrum Sovétríkja) sem sigraði mótið. Auðvitað mættum við svo Frökkum í bronsleiknum og sáum ekki til sólar í þeim leik frekar en fyrri daginn.

Af Frökkum er það að segja að lið þeirra var orðið eitt af fremstu handboltaliðum heimsins og kannski var fyrsta vísbending í þá átt einmitt sigurleikur þeirra um 9. sætið gegn Íslandi á heimsmeistaramótinu 1990. Franska liðið fékk viðurnefnið Les Bronzés, eftir frammistöðuna á Ólympíuleikunum 1992 og gerðu svo enn betur á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð 1993 þar sem þeir urðu í 2. sæti, eftir úrslitaleik gegn Rússum (sem loksins voru nú Rússar).

Sællar minningar eða kannski ekki, þá vann Franska liðið sinn fyrsta stórtitil í handbolta, einmitt í Laugardalshöll árið 1995 eftir sigur á nýríkinu Króatíu - og hafa verið óstöðvandi meira og minna síðan. Við íslendingar viljum helst ekki rifja mikið upp það mót sem fór fram við frumstæðar aðstæður í ýmsum íþróttahúsum, auk þröngu gömlu “Hallarinnar” þar sem þó hafði verið bætt við áhorfendaplássum bak við annað markið. Vitanlega vorum við meðal þátttakenda og enduðum í 14. sæti. Þó má rifja upp það sem útvarpsmaðurinn Gestur Einar lét út sér þegar útlitið var sem svartast. “Við töpuðum fyrir Rússum, svo Hvít-Rússum. Hverjir verða það næst? Svart-Rússar?"

Ekki reyndust það vera Svart-Rússar þarna um árið, en hitt er víst að nú síðast voru það Brasilíumenn. Skyldi þið vera næsta stórveldi í handbolta?

- - -

Heimildir:
Íþróttafrétt Morgunblaðsins 11. mars 1990 bls. 34
Heimsmeistaramótið 1990


Þá er það fótboltinn

Eitthvað verður maður að skrifa um fótboltann enda er hann mál málanna fyrir flestum öðrum en hörðustu antisportistum. Að vísu er forsetakosningar á dagskrá í þessum mánuði en spennan liggur ekki þar enda úrslitinn löngu ráðin, nema hvað svo virðist sem tvísýnt gæti verið um annað sætið þótt ekki sé keppt í því.

Í fótboltanum er málið það að Íslenska karlalandsliðið keppir nú í fyrsta skipti á stórmóti í knattspyrnu og merkilegheitin snúast ekki síst um að Ísland er fámennasta þjóðin sem keppt hefur á svona stóru móti. Eins og oft áður erum við litla þjóðin gagnvart hinum stóru og það eitt hefur vakið athygli erlendra á okkur. Þúsundaþjóðin á móti milljónaþjóðum. Fyrirfram ætti það því að vera hreint formsatriði að tapa öllum leikjunum af miklu öryggi. En það er ekki alveg þannig. Við eigum ágætis fótboltamenn sem spila með sæmilegum liðum í stóru löndunum og þegar á hólminn er komið kemur í ljós að við erum ekkert mikið lélegri í fótbolta en hinir. Bara svolítið lélegri. Reyndar er getumunurinn á milli flestra liðanna almennt ekki mjög mikill og því getur allt gerst í hverjum leik. Getumunur milli einstaka leikmanna er heldur ekki svo mikill. Ronaldó hinn víðfrægi er sennilega ekki nema um 10% betri í fótbolta en bestu leikmenn Íslands enda var hann ekkert að leika sér að íslensku varnarmönnunum, sólaði ekki fjóra í hverri sókn og komst varla í almennilegt skotfæri við markið. Portúgalska landsliðið er heldur ekkert ofurlið þótt þessi mikli markaskorari sé þar fremstur í flokki. Þeir voru samt talsvert betri en okkar lið í heildina og gátu alveg verið svektir með jafnteflið.

Þegar þetta er skrifað hefur Íslenska liðið leikið tvo leiki á Evrópumótinu. Liðið hefur skorað jafn mörg mörk og það hefur fengið á sig og báðir leikirnir endað með jafntefli. Möguleiki er enn til staðar að sigra riðilinn og einnig að lenda í neðsta sæti í riðlinum. Hvað varðar mínar væntingar til liðsins þá höfum við með þessum tveimur jafnteflum nú þegar átt ágætis mót. Jafntefli er svo miklu skárra heldur en tap svo ekki sé talað um stórtap með margra marka mun. Tvö lið milljónaþjóða hafa til þessa tapað sínum leikjum með þremur mörkum gegn engu þannig að við getum vel við unað. Þessum jafnteflum okkar hefur verið náð með góðum og skipulögðum varnarleik fyrst og fremst. Miðjuspilið hefur verið öllu lakara þar sem sendingar hafa verið tilviljanakenndar og ratað álíka oft til andstæðingsins og til samherja. Það hefur þó sýnt sig að við getum skorað mörk af öllu tagi enda eigum við gott úrval af skæðum sóknar- og skotmönnum.

Það er þó einn leikur eftir í riðlinum en það er leikurinn á móti Austurríki. Þar ræðst hvort við komumst áfram í í 16 liða úrslit sem væri frábær staða en mögulega þurfum við til þess ekki að gera meira en að knýja fram enn eitt jafnteflið. Þriðja sætið í okkar riðli gæti komið okkur áfram í 16-liða úrslit. Betra er þó að lenda ofar í riðlinum. Þriðjusætisliðin fjögur sem munu komst áfram munu keppa við sigurlið úr öðrum riðlum þannig að best er alltaf að vinna riðilinn til að fá léttari andstæðinga. Austurríkisleikurinn er sem sagt lykileikurinn úr því sem komið er. Fyrst og fremt vonar maður að hann tapist ekki með mjög mörgum mörkum. Vægt tap er miklu skárra og allt fyrir ofan það er miklu betra. Tala nú ekki um að komast áfram á einhvern hátt í 16 liða úrslitin. Þá værum við allavega ekki neðar en í 16 sæti á þessu móti sem hlýtur að vera göfugt markmið.


Týpógrafískir knattspyrnumenn

Það má lengi velta sér upp úr nýafstöðnu heimsmeistaramóti í fótbolta þótt flestir séu eflaust nokkuð sáttir með að öll ósköpin séu liðin hjá. Knattspyrnan á sér margar hliðar, ekki síst bakhliðar. Þar komum við að einu þeirra atriða sem fangað hefur athygli mína, nefnilega leturhönnun aftan á búningum leikmanna, sem eins og annað verður að vera tipp topp. Nike stórveldið sér mörgum keppnisliðum fyrir búningum en til að gefa hverju liði meiri sérstöðu þá fær hvert landslið sína eigin leturgerð sem gjarnan er sérteiknuð af hinum færustu leturhönnuðum.

Búningar Letur

Stundum þykir reyndar við hæfi að nota gamalgróna fonta eins og í tilfelli frönsku búninganna sem státa af hinu gamla framúrstefnuletri AVANT GARDE enda hafa Fransmenn lengi gælt við ýmsar framúrstefnur. Leturgerð Bandaríska liðsins er undir greinilegum áhrifum frá köntuðum leturgerðum sem prýða búninga hafnarboltaleikmanna. Leturgúrúinn mikli Neville Brody mun hafa komið við sögu við hönnun ensku leturgerðarinnar og Sneijderefast ég ekki um að Rooney sé vel sáttur við það. Portúgalska letrið er líka stílhreint og nýstárlegt en mestu stælarnir eru í Hollenska letrinu sem býður upp á þann möguleika að samnýta í einu stafabili bókstafina I og J með því að lyfta I-inu upp svo ekki myndist dautt svæði milli bókstafana. Þetta vakti auðvitað sérstaka athygli mína í hvert sinn er hinn hollenski SNEIJDER snéri baki í myndavélarnar.

Gula spjaldið fyrir týpógrafíu
En svo er það Brasilía sem reyndar var upphaflega kveikjan að þessum pistli. Brasilíska letrið er sérteiknað fyrir heimsmeistaramótið og mun vera undir áhrifum af letrum sem mikið eru notuð í allskonar götuplakötum í Brasilíu. Hið fínasta letur verð ég að segja, sérstaklega tölustafirnir.

Silva SpjaldEn það er að mörgu að hyggja og misbrestir geta verið víða eins og Brasilíska liðið fékk að kenna á í síðustu leikjunum. Fyrirliðinn Thiago Silva var fjarri góðu gamni er lið hans steinlá fyrir Þjóðverjum 7-1 og aftur var hann spjaldaður í tapleiknum gegn Hollendingum. Ég veit ekki hvort hann hafi mikið velt sér upp úr leturmeðferðinni á sinni keppnistreyju en það gerði ég hins vegar.
Þegar nafnið SILVA er sett upp í hástöfum blasa við ákveðin vandamál því þar koma saman stafir sem falla einstaklega misvel hver að öðrum sé ekki brugðist við - sem mér sýnist ekki hafa verið gert. Eins og sést á myndinni standa bókstafirnir I og L mjög þétt saman á meðan stór og mikil bil eru sitt hvoru megin við V-ið sem sundra nafninu.

Upprunalega hefur hver bókstafur sitt kassalaga helgisvæði sem ræðst af lögun stafsins. L-ið hrindir þannig frá sér næsta staf vegna þverleggsins niðri. V-ið er því víðsfjarri L-inu ólíkt bókstafnum I þar sem ekkert skagar út. Einnig myndast stórt bil á milli V og A sem báðir eru duglegir við að hrinda hvor öðrum frá sér. Í heildina virðist þetta nafn SILVA vera alveg sérstaklega erfitt í hástöfum og því nauðsynlegt að laga bilin eins og grafískir hönnuðir hér á landi læra í fyrsta tíma hjá Gísla B. Í nútíma tölvusetningu gerist þetta þó gjarnan sjálfkrafa eins og tilfellið virðist vera á þessu bloggsvæði. Hér að neðan hef ég gert mína tilraun til að bjarga málum fyrir T. Silva og þegar það er búið fær nafnið og letrið að njóta sín. Ja, nema þetta eigi bara að vera svona sundurslitið, stælana vegna. Gula spjaldið fyrir týpógrafíu er alla vega viðeigandi í þessari leturbloggfærslu sem dulbúin er í fótboltabúning.

 Silva jafnað

Nánar um leturhönnun á NIKE heimsmeistarakeppnisbúningum:
http://www.designboom.com/design/nike-world-cup-fonts-07-01-2014

 


Ólympíuhetjur og fulltrúi alþýðunnar

OL London2012Nú þegar frjálsu íþróttirnar eru hafnar á Ólympíuleikunum er hægt að segja að keppnin sé hafin fyrir alvöru. Fram að þessu hefur sjónvarpsáhorfendum nánast verið drekkt með endalausum sundkeppnum þar sem íslensku þátttakendurnir eru jafn langt frá sínu skásta og endranær á svona stórmótum. Annars hefur árangur Íslendinga á Ólympíuleikum í gegnum tíðina verið mjög glæsilegur ef sú skoðun er höfð í huga að þeir síðustu verða ávallt fyrstir og þeir fyrstu síðastir. Stöku sinnum hafa góðmálmar reyndar lent í höndum Íslendinga, ekki síst þarna í Peking þegar handboltamenn komu heim með heilan silfursjóð.

moskva1980Framfarir í sambandi við Ólympíuleika hafa sennilega verið mestar á fjölmiðlasviðinu og af sem áður var þegar treysta þurfti á æsilegar útvarpslýsingar af framgangi okkar helstu íþróttakappa. Ein slík lýsing er mér minnisstæð frá Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980 þar sem meðal annars keppti einn okkar besti 1500 metra hlaupari, Jón Diðriksson. Lítt kunnur fréttamaður, Stefán Jón Hafstein, hafði verið sendur á vettvang og lýsti hann 1500 metra hlaupinu. Allan tímann jós Stefán miklu lofi á Jón Diðriksson sem snemma tók forystu í hlaupinu en inn á milli í öllum hamaganginum mátti heyra eitthvað á leið: „hann er fyrstur … hann er annar … hann er orðinn þriðji … hann dregst aðeins afturúr … hann kemur í mark og er sjöundi – í riðlinum … frábært hlaup hjá Jóni“.

Þótt menn komi síðastir í mark er ekki þar með sagt að þeir séu einhverjir aukvisar eða meðalmenni enda hafa íþróttamenn á Ólympíuleikum lagt á sig ómælt erfiði árum saman. Það má til dæmis minna á að Jón Diðriksson er ennþá handhafi Íslandsmetsins í 1500 metra hlaupi samkvæmt metaskrá FRÍ.

Til að sýna fram á raunverulega getu keppenda á Ólympíuleikunum, ekki síst hinna lakari, langar mig að varpa fram þeirri tillögu að í hverri einstaklingsgrein keppi alltaf einn óbreyttur borgari sem gæti kallast Fulltrúi alþýðunnar. Hann væri valin af handahófi en eina skilyrði fyrir þátttöku hans er að hann hafi burði til að ljúka keppni. Smá sýnishorn af 110 metra hindrunarhlaupi á einhverju móti í Kína fer hér á eftir en miðað við framgöngu eins keppandans verður ekki betur séð en þarna sé einmitt kominn fulltrúi alþýðunnar sem lætur ekki takmarkaða getu hindra sig.

 


Langskemmtilegasta langstökkskeppni sögunnar

Þann 30. ágúst 1991 var heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum haldið í Tókýó. Hápunktur þess móts var án efa langstökkskeppnin sem stundum er talin vera ein mesta keppni sem nokkru sinni hefur verið háð á frjálsíþróttavelli. Þar áttust við ofurmennið Carl Lewis og hinn minna þekkti Mike Powell, báðir frá Ameríku og endaði keppnin með heimsmeti þess síðarnefnda. Þessu ætla ég að gera skil ásamt myndbandi sem sýnir dramatískasta hluta keppninnar, sem var svo sannarlega dramatísk.

Bob BeamonFyrir keppnina í Tókýó var heimsmetið í langstökki 8,90 metrar og orðið 23 ára gamalt og var lengi talið nánast ofurmannlegt að stökkva slíka vegalengd. Metið átti Bob Beamon sem hann setti í þunna loftinu á Ólympíuleikunum í Mexíkó 1968. Með stökkinu bætti hann eldra heimsmet um heila 55 cm og þótti það með slíkum ólíkindum að talað var um stökk inn í næstu öld, þ.e. þá öld sem við lifum á nú.

Þegar Carl Lewis kom fram á sjónarsviðið á 9. áratugnum var farið að gera að því langstökksskóna að heimsmetið frá 1968 gæti verið í hættu enda var Carl Lewis algerlega ósigrandi í langstökki í heil 10 ár og var farinn að höggva nærri heimsmetinu. Þegar kom að heimsmeistaramótinu í Tókýó 1991 var Carl orðinn þrítugur að aldri, þó enn í fantaformi og ætlaði sér hina hina stærstu hluti og heimurinn fylgdist með. En hlutirnir fóru ekki alveg eins og áætlað var því flestum að óvörum var það næst besti langstökkvarinn, Mike Powell, sem stal senunni þrátt fyrir að Carl Lewis hafi átt í það heila, bestu stökkseríu allra tíma í langstökkssögunni.
Hér er langstökkskeppnin rakin en til fróðleiks og samanburðar má nefna að Íslandsmet Jóns Arnar Magnússonar er 8,0 metrar.

1. umferð: Mike Powell á misheppnað stökk, 7,85 metra. Það hefði þó dugað til sigurs á flestum Ungmennafélagsmótum á Íslandi. Carl Lewis hittir vel á það og stekkur 8.68 metra sem þá var mótsmet og myndi duga til sigurs á flestum alþjóðlegum mótum enn í dag.

2. umferð: Mike Powell nær sér á strik og stekkur 8,54 eða jafn langt og sigurstökk nýliðins heimsmeistaramóts. Carl Lewis gerir illilega ógilt.

3. umferð: Adrennan í vandræðum hjá Mike Powell sem stekkur 8,29 metra. Carl Lewis nær fyrsta risastökki keppninnar uppá 8,83 metra. Hans besta stökk á ferlinum fram að þessu.

4. umferð: Mike Powell nær gríðarlöngu stökki en gerir hárfínt ógilt og er afar ósáttur með dómara keppninnar. Carl Lewis svarar með lengsta stökki sögunnar 8,91 metrar en vegna meðvinds er það ekki skráð sem heimsmet. Hann fagnar þó vel og ekki að ástæðulausu.

5. umferð: Mike Powell sem nú var orðið mjög heitt í hamsi nær hinu fullkomna stökki 8.95 metrar og slær heimsmetið frá 1968 á óvefengjanlegan hátt við mikin fögnuð. Carl Lewis var ekkert á því að gefast upp og á enn eitt risastökkið, 8,87 metra sem dugar þó ekki til. Þetta stökk er skráð sem hans besta stökk á ferlinum enda meðvindur innan löglegra marka.

6. umferð: Mike Powell er hættur og horfir á Carl Lewis stökkva sitt síðasta risastökk upp á 8,84 metra og keppninni lýkur þar. Mike Powell fær gullið og heimsmet hans 8,95 metrar er staðfest og stendur enn óhaggað. 

Þannig fór það. Sálfsagt er að minnast á þann sem vann bronsið í þessari keppni en það var enn einn Bandaríkjamaðurinn Larry Myricks, sem stökk „aðeins“ 8,42 metra.

- - - - - - 

Myndbandið sem hér fylgir er tæpar 8 mínútur en við komum til leiks í fjórðu umferð og fylgjumst með hápunkti keppninnar. Þulurinn er bandarískur og talar því í fetum og tommum. Þessa langstökkskeppni mátti sjá beinni útsendingu í sjónvarpinu á sínum tíma og vitanlega fylgdist ég spenntur með og það er því við hæfi að gera þetta að sjónvarpsnostalgíu mánaðarins á þessari síðu.

Ath! Youtube leyfir ekki að myndbandið sé skoðað inn á bloggsíðum, þannig að smella verður á link á myndinni til að sjá það. (Ég mæli hins vegar með því, ásamt því að fara út í garð og reyna að stökkva 8,95 metra)


Ólympíuhitt og þetta

peking2008Þá eru hinir miklu kínversku Ólympíuleikar hafnir, hin glæsilega setningarathöfnin búin og athyglin loksins farin að beinast að íþróttunum sjálfum. Þessir leikar eru auðvitað mikið mál fyrir Kínverja sem voru svo vinsamlegir að skjóta skjólshúsi yfir leikana að þessu sinni, enda gefst þeim þarna tækifæri til að sanna sig og sýna hvers þeir eru megnugir. Ólympíuleikarnir eru auðvitað mikil auglýsing fyrir Kína, þótt sú auglýsing sé kannski ekki alltaf sú sem Kínverjar hafa óskað sér. Víða á vesturlöndum er litið á þetta sem Ólympíuleika loftmengunar, mannréttindabrota og yfirgangs stjórnavalda gagnvart minnihlutahópum þótt flestir Kínverjar líta á þetta sem stórkostlega sigurhátíð eigin ríkis.

Ég er ekkert sérstaklega fyrir það að sniðganga Ólympíuleika þótt gestgjafar séu svona og hinsegin. Það er samt ekkert að því að mótmæla og vekja athygli á málum sem eru ekki alveg í lagi, af þeim er víst nóg í Kína miðað við okkar fullkomnu vesturlönd, en margt af því hefði örugglega ekki verið eins áberandi í umræðunni Kína hefði ekki orðið fyrir valinu, ég nefni bara loftmengunina og Tíbetmálin sem dæmi.

Talandi um að sniðganga Ólympíuleika þá eru auðvitað eftirminnilegast þegar Sovétríkin og Bandaríkin sniðgengu Ólympíuleika hvors annars á meðan kalda stríðið var enn í gangi. Fyrst í Moskvu árið 1980 þegar Sovétmenn hertóku Afganistan, en það þótti mikill alþjóðaglæpur í þá daga. Það kom því engum á óvart fjórum árum síðar að austurblokkin svokallaða sniðgekk Ólympíuleikana í Los Angeles árið 1984. Sem varð reyndar okkur til happs því þá komst íslenska handboltalandsliðið á svona leika í fyrsta sinn og stóð liðið sig þar með prýði og íslenska handboltaævintýrið hófst fyrir alvöru. moskva1980

Árangur Íslendinga á Ólympíuleikum í gegnum tíðina hefur verið mjög glæsilegur ef sú skoðun er höfð í huga að þeir síðustu verða ávallt fyrstir og þeir fyrstu síðastir. Það leiðir aftur hugann að Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980, en þar keppti einn okkar besti 1500 metra hlaupari sem við höfum átt, Jón Diðriksson. Í þá daga voru engar beinar útsendingar í sjónvarpi en Ríkisútvarpið sendi hinsvegar lítt kunnan fréttamann, Stefán Jón Hafstein, til að lýsa beint viðburðum í útvarpi allra landsmanna. Stefán lýsti 1500 metra hlaupi Jóns Diðrikssonar af mikilli ákefð ekki síst vegna þess að Jón tók snemma forystu í hlaupinu. Allt hlaupið jós Stefán miklu lofi á hlaup Jóns Diðrikssonar, en þess á milli mátti heyra: „hann er fyrstur“hann er annar“hann er orðinn þriðji“hann dregst aðeins afturúr“hann kemur í mark og er … sjöundi í riðlinum“.


Kraftwerk – Tour de France

tourParcoursGlobalÍ júlí á hverju ári fer fram í Frakklandi hjólreiðakeppnin mikla Tour de France sem sennilega er ein erfiðasta þrekraun sem háð er á sviði íþrótta. Keppnin í ár hófst þann 5. júlí en líkur nú á sunnudaginn 27. júlí þegar hjólreiðamenn koma í mark í París, eftir að hafa hjólað 21 dagleið um þvert og endilangt Frakkland, samtals 3,500 kílómetra. Þótt ég fylgist ekki með keppninni frá degi til dags og er í rauninni nokk sama hver sigrar finnst mér vera ákveðinn glæsileiki yfir þessari keppni þar sem tugir hjólreiðamanna æða í þéttum hópi í gegnum sveitir landsins, yfir fjöll og niður í dali. 

Félagarnir í þýsku hljómsveitinni Kraftwerk voru brautryðjendur og miklir áhrifavaldar á sviði tölvu- og raftónlistar á sínum tíma en sú hljómsveit var stofnuð árið 1970 þegar hugtakið tölva var flestu fólki ákaflega framandi. En þeir eru líka miklir hjólreiðaáhugamenn og hafa tvisvar samið lög um Frakklandshjólreiðarnar sem bæði heita einfaldlega Tour de France. Það fyrra kom út árið 1983 og er eitt af þeirra þekktari lögum en hið síðara er frá 2003. Það er einmitt lagið sem hér fylgir og er myndband mánaðarins á þessari síðu. Þetta er allt mjög glæsilegt, flott myndband, flott tónlist og flott íþrótt, svo framarlega að menn kunni að meta svona lagað.

 

 


Þar lágu Danir ekki í því

Þá er Evrópumóti í hinni virtu íþrótt handbolta lokið í Noregi. Öll liðin töpuðu að lokum nema það danska sem sýndi einstakan baráttukraft allt til enda. Þegar Dönum gengur vel eru þeir að sjálfsögðu frændur okkar þannig að þetta er að hluta til okkar sigur líka. Strákarnir okkar náðu sér hins vegar ekki á strik að þessu sinni, enda kom í ljós að þeir eru ekkert nema strákar í hinum harða heimi fullorðinshandbolta. En við ætlum ekki gefast upp, næsta Evrópumót verður í Serbíu í vor þar sem keppt verður í dægurlögum og að venju ætlum við okkur stóra hluti þar.
mbl.is Danir Evrópumeistarar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Suður-Kórea tók okkur í bakaríið

Ég get alveg viðurkennt það að eins og margir aðrir þá fylgist ég spenntur með í hvert sinn sem tökum þátt í alþjóðlegum handboltamótum. Handboltaævintýri okkar byrjaði fyrir alvöru þegar við komumst óvænt á Ólympíuleikana í Los Angeles 1984 og unnum þar glæsta sigra eftir að Sovétríkin og fleiri austur-Evrópuþjóðir drógu lið sín til baka til að hefna fyrir fjarveru Bandaríkjamanna á Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980. Þarna var komið til sögunnar okkar harðsnúna lið sem átti síðar eftir að gjörsigra B-keppnina undir öflugri stjórn Bogdans hins Pólska. 

Þau eru orðin mörg mótin sem maður hefur fylgst með í gegnum tíðina. En það mót sem maður man alltaf best eftir er Heimsmeistarakeppnin í Sviss árið 1986 sem var fyrsta keppnin sem var sjónvarpað í beinni. Á þeim árum voru heimsmeistaramót aðeins á fjögurra ára fresti og þarna höfðum við unnið okkur sæti vegna góðs árangurs á Ólympíuleikunum. Fyrsti leikur okkar á mótinu var gegn Suður-Kóreu sem þótti vera í hópi vanþróaðra handboltaþjóða og því kærkomin upphitun áður en lagt yrði í alvöruna. Ég man vel eftir leiknum í beinni útsendingu sjónvarpsins og áður en leikurinn hófst var ekki laust við að maður vorkenndi þessum litlu gulu mönnum að þurfa að kljást við íslensku harðjaxlana á borð við Kristján Arason - þetta yrði burst. Og þetta varð burst, en því miður ekki á þann veg sem búist var við. Það sem þarna fór í hönd átti nefnilega eftir að vera einhver undarlegasta handboltaupplifun sem ég hef orðið vitni að. Þessir Suður-Kóreumenn spiluðu sem sagt handbolta af áður óþekktri færni og hraða. Í vörninni beittu þeir hinni svokölluðu 3-2-1 vörn sem ekki hafði sést áður á stórmótum, þeir hlupu út um allan völl þannig að hinn þaulæfði íslenski sóknarleikur féll algerlega saman. Markvörður þeirra nánast lokaði markinu, hvað eftir annað var okkur refsað með leiftursnöggum hraðaupphlaupum og skyttur þeirra hoppuðu hæð sína í lofti þannig að skot þeirra enduðu nánast undantekningarlaust í markvinklinum. Bjarni Felixson sem lýsti leiknum hafði auðvitað aldrei séð annað eins og hrópaði eitt sinn upp yfir sig: „þeir eru eins og Indíánar!“ Ef ég man rétt þá var leikurinn tapaður strax í hálfleik, okkur tókst stundum eitthvað að klóra í bakkann en töpuðum að lokum með átta marka mun 21-29. 

Það sem gerðist í þessum leik var eins og oft áður, árangur í öfugu hlutfalli við væntingar. En eftir þetta tókum við okkur saman í andlitinu unnum frækna sigra á Tékkum, Rúmenum og Dönum og enduðum ef ég man rétt í 6. sæti. Af framgangi Suður-Kóreumanna í keppninni er það að segja að smám misstu þeir móðinn eða önnur lið lærðu á þá þannig að árangur þeirra varð að lokum lakari en okkar. En þarna í leik þeirra sást hins vegar ný tegund af handbolta, hin hraði handbolti og framliggjandi vörn sem Frakkar áttu eftir að taka upp síðar með frábærum árangri.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband