Þegar Suður-Kórea tók okkur í bakaríið

Ég get alveg viðurkennt það að eins og margir aðrir þá fylgist ég spenntur með í hvert sinn sem tökum þátt í alþjóðlegum handboltamótum. Handboltaævintýri okkar byrjaði fyrir alvöru þegar við komumst óvænt á Ólympíuleikana í Los Angeles 1984 og unnum þar glæsta sigra eftir að Sovétríkin og fleiri austur-Evrópuþjóðir drógu lið sín til baka til að hefna fyrir fjarveru Bandaríkjamanna á Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980. Þarna var komið til sögunnar okkar harðsnúna lið sem átti síðar eftir að gjörsigra B-keppnina undir öflugri stjórn Bogdans hins Pólska. 

Þau eru orðin mörg mótin sem maður hefur fylgst með í gegnum tíðina. En það mót sem maður man alltaf best eftir er Heimsmeistarakeppnin í Sviss árið 1986 sem var fyrsta keppnin sem var sjónvarpað í beinni. Á þeim árum voru heimsmeistaramót aðeins á fjögurra ára fresti og þarna höfðum við unnið okkur sæti vegna góðs árangurs á Ólympíuleikunum. Fyrsti leikur okkar á mótinu var gegn Suður-Kóreu sem þótti vera í hópi vanþróaðra handboltaþjóða og því kærkomin upphitun áður en lagt yrði í alvöruna. Ég man vel eftir leiknum í beinni útsendingu sjónvarpsins og áður en leikurinn hófst var ekki laust við að maður vorkenndi þessum litlu gulu mönnum að þurfa að kljást við íslensku harðjaxlana á borð við Kristján Arason - þetta yrði burst. Og þetta varð burst, en því miður ekki á þann veg sem búist var við. Það sem þarna fór í hönd átti nefnilega eftir að vera einhver undarlegasta handboltaupplifun sem ég hef orðið vitni að. Þessir Suður-Kóreumenn spiluðu sem sagt handbolta af áður óþekktri færni og hraða. Í vörninni beittu þeir hinni svokölluðu 3-2-1 vörn sem ekki hafði sést áður á stórmótum, þeir hlupu út um allan völl þannig að hinn þaulæfði íslenski sóknarleikur féll algerlega saman. Markvörður þeirra nánast lokaði markinu, hvað eftir annað var okkur refsað með leiftursnöggum hraðaupphlaupum og skyttur þeirra hoppuðu hæð sína í lofti þannig að skot þeirra enduðu nánast undantekningarlaust í markvinklinum. Bjarni Felixson sem lýsti leiknum hafði auðvitað aldrei séð annað eins og hrópaði eitt sinn upp yfir sig: „þeir eru eins og Indíánar!“ Ef ég man rétt þá var leikurinn tapaður strax í hálfleik, okkur tókst stundum eitthvað að klóra í bakkann en töpuðum að lokum með átta marka mun 21-29. 

Það sem gerðist í þessum leik var eins og oft áður, árangur í öfugu hlutfalli við væntingar. En eftir þetta tókum við okkur saman í andlitinu unnum frækna sigra á Tékkum, Rúmenum og Dönum og enduðum ef ég man rétt í 6. sæti. Af framgangi Suður-Kóreumanna í keppninni er það að segja að smám misstu þeir móðinn eða önnur lið lærðu á þá þannig að árangur þeirra varð að lokum lakari en okkar. En þarna í leik þeirra sást hins vegar ný tegund af handbolta, hin hraði handbolti og framliggjandi vörn sem Frakkar áttu eftir að taka upp síðar með frábærum árangri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband