Færsluflokkur: Kvikmyndir

Sjálfvirka þulan og Hrafninn flýgur

Yfir mörgu má kvarta svona almennt og vissulega eru umkvörtunarefni misalvarleg. Eitt er það atriði sem hefur hvað eftir annað valdið pirringi hjá undirrituðum en það er það sem ég kalla sjálfvirka þulan í Sjónvarpi allra landsmanna og þá sérstaklega hvernig hún kemur inn í lok dramatískra kvikmynda og kynnir næsta dagskrárlið af mikilli ákveðni. Reglan virðist vera sú að skella á sjálfvirku þulunni eftir að síðasta setningin hefur verið sögð í myndinni og rétt áður en kreditlistinn birtist. Akkúrat sú stund í kvikmyndum er oft ákaflega mikilvægt og viðkvæmt augnablik fyrir upplifunina enda vandlega úthugsað að hálfu leikstjóra og annarra sem sjá um lokafrágang kvikmyndanna og spilar tónlistin þar oft stórt hlutverk.

Síðasta dæmi um þetta og alveg dæmigert var núna sl. sunnudagskvöld þegar Sjónvarpið sýndi Hrafninn flýgur eftir Hrafn Gunnlaugsson. Þá ágætu kvikmynd hefur maður reyndar séð alloft en hún vakti athygli á sínum tíma út fyrir landsteinanna og varð til þess Hrafn hélt áfram að gera myndir í sama stíl - reyndar með misgóðum árangri. Kvikmyndin Hrafninn flýgur er kannski full langdregin og einhæf á köflum en málið er þó að sagan er einföld og segir með sterku lokaatriði hvernig hefndin heldur áfram milli kynslóða. HrafninnGestur (Jakob Einarsson), hefnir föður síns sem veginn var á sínum tíma af tveimur fóstbræðrum leiknum af Flosa Ólafssyni og Helga Skúlasyni. Þegar Gestur hafði með kænsku sinni att fóstbræðrunum saman þannig að liðsmenn lágu í valnum hver af öðrum var komið að lokauppgjörinu þegar Gestur fellir aðalskúrkinn (Helga Skúla) sem hafði einmitt rænt systur Gests (Eddu Björgvins) eftir að föðurmorðið átti sér stað á sínum tíma, tekið hana sem eiginkonu og átti þarna með henni son á barnsaldri. Að öllum vígaferlum loknum segir Gestur að hér eftir muni penninn taka við af sverðinu og gróf vopnin í jörðu við túnfót hins fallna föðurmorðingja og hélt síðan á brott. Systirinn vildi ekki fylgja bróður sínum á brott en stóð nú uppi með son sinn sem nú syrgði sinn föður sárt. Myndin hefði getað endað þannig en allra síðasta atriðið gerði þó gæfumuninn og kvikmyndina að því sem hún var. Litli strákurinn var ekki nógu ungur til að gleyma. Hann gekk rakleitt að þeim stað sem vopnin voru falin, gróf þau upp og horfði á eftir Gesti með hefnd í huga. Nærmyndin af stráknum með vopnin í höndum var lokaandartak og grundvallaratriði myndarinnar, dramatíkin í hámarki með tilheyrandi tónlist - eitt áhrifamesta lokamóment í íslenskri vil ég meina, sem ég ætlaði að njóta enn einu sinni til botns þetta sunnudagskvöld. En hvað gerist? Jú, kemur þá ekki sjálfvirka þulan á viðkvæmasta mómentinu og tilkynnir næsta dagskrárlið hátt og snjallt: “TIL HEIÐURS BEE GEES” og svo einhver heilmikil romsa um það á meðan hljóðið í myndinni er lækkað á þessu grundvallaraugnabliki.

Hrafninn flýgur er annars ekki aðalatriði þessarar bloggfærslu, heldur hin sjálfvirka þula sem á sínum tíma kom í stað sjónvarpsþulanna góðkunnu sem birtust á milli dagskrárliða og kynntu það sem kæmi næst. Sjálfsagt hefur það þótt of kostnaðarsöm útgerð að vera með stífmálaðar þulur á vaktinni heilu kvöldin, jafnt um helgar sem virka daga. Það hlýtur þó að vera hægt að gera þetta af meiri smekkvísi. Sú sem ljáir þeirri sjálfvirku rödd sína er landsþekkt söng- og leikkona og hefur líklega ekkert með þetta fyrirkomalag að gera þótt almennt mætti hún lesa sinn texta með blíðari tón. Fyrir mig sem horfir reglulega á RÚV eru sjálfvirkar kynningar á dagskrárefni fram í tímann oft afar þreytandi og þá er ég ekki bara að tala um það sem kemur í lokaatriði mynda. Væntanlegir sjónvarpsþættir eru kynntir í tíma og ótíma, stundum langt fram í tímann og svo hvað eftir annað. Þá er eins gott að fjarsýringin sé ekki langt undan svo hægt sé að lækka í hljóðinu eða draga alveg niður í því.

 

sjalfvirka þulan

 


Bestu íslensku kvikmyndirnar

Sjónvarpið sýnir íslenskar kvikmyndir tvisvar í viku nú í sumar sem er auðvitað bara ágætt. Sumar þessara mynda hafa reyndar verið sýndar alloft áður í Sjónvarpinu en svo eru nokkrar sem aldrei hafa verið sýndar og ekkert víst að verði sýndar í þessari sumarupprifjun.

En hvað um það. Ég er oft dálítið fyrir að bera saman eitt og annað og nú ætla ég að lista niður hvaða íslensku kvikmyndir mér sjálfum þykja bestar. Ég fer ekki lengra aftur í fortíðina en til upphafs kvikmyndavorsins en síðan þá hafa íslenskar myndir af öllum gæðum og gerðum nánast verið framleiddar á færibandi. Ég hef reyndar ekki séð allar íslenskar myndir, sérstaklega margar af þeim nýjustu en sumar þeirra gætu mögulega verið ágætar. Almennt get ég þó sagt að uppáhaldsmyndir mínar eru nokkuð sígíldar og komnar til ára sinna og eru auk þess meðal fyrstu mynda viðkomandi leikstjóra sem kannski er engin tilviljun. Myndirnar eru hér nefndar í þeirri röð sem þær voru frumsýndar.

1. LAND OG SYNIR. Ágúst Guðmundsson 1980
Myndin er gerð eftir sögu Indriða G. og oft nefnd sem upphafsmynd kvikmyndavorsins. Þetta er fyrsta mynd Ágústar í fullri lengd, gerð af miklum metnaði og heppnast ágætlega. Söguþráðurinn er að vísu ekki sterkur en það er mikið ekta í þessari mynd sem segir af sveitasamfélagi á tímamótum fyrir miðja á síðustu öld. Siggi Sigurjóns er mjög ungur og alvarlegur í þessari mynd.

2. MEÐ ALLT Á HREINU.
Stuðmenn/Ágúst Guðmundsson 1982

Ótrúlega vel heppnuð vitleysumynd sem gerði Stuðmenn svo vinsæla að það var ekki nokkur leið fyrir þá að hætta. Allar tilraunir til að endurtaka gleðina voru þó dæmdar til að misheppnast. Þessi mynd nánast bjargaði kynslóðinni sem var upp á sitt besta á áttunda áratugnum frá leiðindum. Hún mun lengi verða í minnum höfð og verður bara betri með tímanum.

3. HRAFNINN FLÝGUR. Hrafn Gunnlaugsson 1984
Fyrsta víkingamynd Hrafns og útkoman það góð að hann vildi helst ekki gera öðruvísi myndir næstu árin. Seinni víkinga- og miðaldamyndirnar Hrafns náðu þó aldrei að vera eins sterkar og Hrafninn Flýgur enda söguþráðurinn bæði einfaldur og hnitmiðaður.

4. SKYTTURNAR. Friðrik Þór Guðmundsson 1987
Fyrsta leikna mynd Friðriks í fullri lengd. Algerlega hrein og bein saga af tveimur hvalveiðimönnum sem missa fótfestuna í sollinum í Reykjavík á methraða í vertíðarlok. Þarna er heimsfrægðin ekkert farin að trufla leikstjórann né aðra sem standa að myndinni.

5. BÖRN NÁTTÚRUNNAR.
Friðrik Þór Guðmundsson 1991
Önnur mynd Friðriks Þórs og sú sem kom honum á alþjóðlega kortið enda næstum búin að vinna til Óskarsverðlauna sem besta „erlenda“ myndin. Strokusaga af gömlu fólki sem leitar til heimaslóða sinna hljómar ekki spennandi söguþráður en lokaatriði myndarinnar sem gerist á þessum heimaslóðum norður á Ströndum gerði hinsvegar útslagið. Þar fór saman stórbrotin kvikmyndataka og tónlist Hilmars Arnar og í heildina náðist þar einhver kynngimögnuð stemming sem erfitt er að leika eftir.

6. SÓDÓMA REYKJAVÍK. Óskar Jónasson 1992

Óskar Jónasson hitti vel á það í þessari fyrstu mynd sinni sem er eiginlega orðin költ-mynd í dag. Þarna ægir saman kjánalegum glæpamönnum, undirheimaliði, rótlausum unglingum á djamminu og mömmu gömlu sem finnur ekki fjarstýringuna. Lokaatriðið í morgunsólinni Elliðaársdalnum er alltaf jafn gott. Miðhluti myndarinnar dettur aðeins niður þegar söguhetjan er óþarflega lengi að þvælast í loftræstistokknum.

7. DJÖFLAEYJAN.
Friðrik Þór Guðmundsson 1996
Margt má segja um þessa mynd. Hún er auðvitað gerð eftir „Eyjasögum“ Einars Kárasonar og byggir á fólki sem raunverulega var til og bjó í braggahverfi á Melunum. Bækurnar voru skrifaðar í nokkrum ýkjustíl og jafnvel undir áhrifum Suður-Amerísks töfraraunsæis. Ég er sjálfur ekki í vafa um að Einar Kárason hafi meðal annars verið undir áhrifum bókarinnar 100 ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marques en þar má finna nokkur líkindi. Helsti heimildamaður Einars við ritunina var fjölskyldumeðlimurinn Aggi sem var sonur Dollýar í myndinni og systursonur bræðranna Badda og Danna. Aggi þessi er síðan sá sem lék hvatvísa töffarann í Skyttunum sem hér var nefnd að ofan. Þegar svona mikil fjölskyldusaga er færð yfir í kvikmynd þarf að beita miklum einföldunum en auðvitað verður að lýta á kvikmyndina sem sjálfstætt verk. Ömurleiki braggahverfisins er ýktur enn meir í myndinni og kannski full mikið, sumir eru líka full mikið fullir til að vera sannfærandi eins og ólánsami kúluvarparinn og vinurinn Grjóni. En þrátt fyrir ýmis ósannfærandi atriði er kvikmyndin í heildina bæði dramatísk og kraftmikil og ekki síst nokkuð spaugileg á köflum.

8. NÓI ALBÍNÓI. Dagur Kári Pétursson 2006
Eftir 10 ára gat í þessari upptalningu kemur hér mynd sem mér finnst vera ein sú allra besta af öllum íslenskum myndum enda hefur hún fengið allskonar fínar viðurkenningar hér og þar. Enn einu sinni er hér á ferðinni fyrsta mynd leikstjóra. Myndin lýsir köldum veruleika stráks sem sem er utanveltu og fittar ekki inní íslenskt smábæjarlíf og eins og góðum myndum sæmir fer ástandið heldur versnandi eftir því sem líður á myndina og endar með ósköpum. Mjög stílhrein mynd og uppfull af sniðugum atriðum.

9. STÓRA PLANIÐ. Ólafur Jóhannesson 2008
Þetta var nú aldrei nein stórmynd og gerði enga stóra hluti en mér fannst hún skemmtileg. Þetta er mynd um mislukkaða gangstera ekki ósvipað og í Sódómu Reykjavík, en undirtónninn þó alvarlegri og framvindan mun hægari. Pétur Jóhann er góður að venju.

10. ?????
Hér ætla ég að skilja eftir eyðu sem ég tileinka ýmsum nýlegum myndum sem ég hef ekki séð, en ég er núna mun latari að sjá íslenskar myndir en áður. Kannski ætti Reykjavík-Rotterdam að vera þarna því hún mun vera góð samkvæmt lýsingu áreiðanlegra sjónarvotta. Af myndum sem mikið er látið með hef hvorki séð Brim eða Brúðguma Baltasars en ég hef þær fyrirframskoðanir á þeim að þær teljist ekki meðal þeirra mynda sem mér þykja bestar. Oftast eru fyrirframskoðanir mínar á myndum bara nokkuð réttar.


Gömlu Bíóin II

Áfram skal haldið upprifjuninni um gömlu góðu bíóin sem maður heimsótti á seinni hluta síðustu aldar. Í fyrri hlutanum tók ég fyrir fjögur kvikmyndahús en í þessum seinni hluta verða þau fimm. Í hléinu fengum við óvænt gos (en ekkert popp) og það er ástæðan fyrir því að þessi bíóblogg koma ekki hvort á eftir öðru. Við byrjum miðsvæðis en förum svo aðeins víðari rúnt um bæinn. Sem fyrr eru myndirnar af húsunum nýjar en miðarnir gamlir.

Stjörnubíó

Stjörnubíó hóf starfsemi árið 1949 en á þeim árum var mikill uppgangur í bíóhúsamenningu borgarinnar. Stundum er sagt að Stjörnubíó hafi staðið á álagabletti en saga þess markast af tveimur brunum. Fyrst árið 1953 og svo öllu verri bruna árið 1973 sem kallaði á algera endurnýjun hússins. Það var kannski þess vegna sem manni fannst Stjörnubíó vera nýrra en það var, allavega voru sætin þægilegri en gerðist annarstaðar. Í Stjörnubíói horfði maður agndofa á geimverumyndina Náin kynni af þriðja tagi eftir Spielberg en Norska brúðumyndin Álfhóll var einnig eftirminnileg, ekki síst vegna rússíbanaatriðisins stórkostlega. Sögu Stjörnubíós lauk árið 2002. Húsið var þá rifið til grunna og nýtt umfangsmikið hús með undirgöngum reis í staðinn. Kannski vildu menn ekki storka örlögunum af fenginni reynslu og þótt vissara að hafa sem allra minnst jarðsamband á nýju byggingunni þar sem Stjörnubíó stóð áður.

Regnboginn

Regnboginn við Hverfisgötu tók til starfa árið 1980 og var mikil nýjung í bíóhúsamenningu borgarinnar. Þetta var fyrsta kvikmyndahúsið með mörgum bíósölum. Það hafði augljósa kosti í samkeppninni og nokkuð sem önnur kvikmyndahús þurftu að bregðast við. Salirnir voru hver í sínum lit og því lá beinast við að kalla kvikmyndahúsið Regnbogann. Ein af fyrstu myndunum sem ég sá í Regnboganum var stórmyndin Hjartarbaninn sem var alvöru mynd – bönnuð innan 16 og ég bara 15. Regnboginn hélt lengi út sem venjulegt kvikmyndahús en haustið 2010 var ákveðið að gera húsið að metnaðarfullu heimili kvikmyndanna undir heitinu Bíó Paradís sem sýnir ýmist nýjar eða sígildar myndir fyrir djúpþenkjandi fagurkera, en slíkt hefur löngum þótt vanta í kvikmyndahúsaflóruna.

Tónabíó

Tónabíó við Skipholt var starfrækt af Tónlistarfélagi Reykjavíkur frá árinu 1962 en félagið hafði áður séð um rekstur Trípólíbíós á Melunum. Þrátt fyrir að vera ekki í miðbænum var Tónabíó nokkkuð vinsælt bíó og kærkomið fyrir okkur sem ólumst upp í Háaleitishverfinu. Þarna var hægt að sjá Peter Sellers fara á kostum í Bleika Pardusnum og ekki síður Roger Moore sem James Bond. Rússarnir koma var þarna líka, alveg bráðskemmtileg. Magnaðasta myndin var þó Dómsdagur nú eftir Coppóla, en reyndar hefur mig aldrei sifjað eins mikið í bíó og í lokaatriðum þeirrar myndar. Það sama gerðist er ég sá myndina aftur í sjónvarpi 15 árum síðar. Það er langt síðan ég hef stigið inn í þetta hús en margir heimsækja það reglulega til Bingóiðkunar.

Laugarásbíó

Laugarársbíó er elsta kvikmyndahúsið sem enn er starfrækt í Reykjavík en sýningar hófust þar árið 1956. Húsið tengist öldnum sjómönnum sterkum böndum því það er sambyggt dvalarheimili DAS og var lengst af rekið af sömu aðilum, eða þar til Myndform tók reksturinn yfir árið 1993. Til að halda velli í samkeppninni þurfti að stækka húsið og bæta við aukasölum því ekki dugði að lengur að bjóða bara upp á eina mynd í einu. Af mörgum góðum myndum í Laugarbíó man ég ekki eftir neinum sem standa upp úr en Vígastjarnan Galaktíka á þann vafasama heiður að vera fyrsta myndin sem mér hálfleiddist á í bíó. Í dag stendur Þorfinnur Karlsefni vígalegur mjög fyrir utan bíóið, spurning hvort kappinn hafi mikinn áhuga á Brúðarmeyjunum sem þarna er auglýst til sýningar.

Háskólabíó

Háskólabíó var formlega tekið í notkun 1961 á 50 ára afmæli Háskóla Íslands en áður hafði Háskólinn komið að rekstri Tjarnabíós í gömlu íshúsi við Tjörnina. Í þessu mikla harmónikkulagaða húsi hefur margt stórmennið stigið á svið. Stórar hetjur hafa líka birst á sýningatjaldinu. Sjálft Ofurmennið sveif þarna um árið 1979 og bjargaði heiminum sem oftar, King Kong fór hamförum uppá á Tvíburaturnunum og John Travolta grísaðist með greiðsluna í lagi. Háskólabíó stækkaði með nýjum sölum í hliðarbyggingu og nú eru kvikmyndasýningar einungis í þeim húsakynnumi. Sinfóníuhljómsveitin er nýhorfin á braut í ennþá meira hús, þannig að nú er svona frekar tómlegt að horfa til Háskólabíós frá Melatorginu.

- - - -
Það örlar ennþá á bíómenningu í borginni þótt flest gömlu bíóin séu horfin eða hætt. Sú menning finnst þó ekki í miðbænum í sama mæli og áður, en miklu frekar í stórum verslunarkjörnum víðsvegar um borgina. Þangað liggja víðir vegir og margar akreinar.

Fyrri hluti „Gömlu bíóanna“: http://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/1168221


Gömlu bíóin

Margt breytist með tímanum, þar á meðal bíómenningin. Þegar heimsóknir mínar í kvikmyndahús voru í hámarki á árunum kringum 1980 voru flest bíóin ennþá staðsett í gamla miðbænum eins og verið hafði frá upphafi. Hér á eftir kemur dálítið yfirlit yfir þessi gömlu bíó í borginni. Til skreytingar og sem sönnunargagn læt ég fylgja bíómiða frá viðkomandi bíóum en lengi vel geymdi ég flesta bíómiða sem ég fékk. Myndirnar sýna kvikmyndahúsin eins og þau eru í dag hvort sem þau eru til eða ekki. Alls mun ég taka fyrir níu kvikmyndahús með þessum hætti í tveimur bloggfærslum.

Gamla Bíó

Hið eina og sanna gamla bíó er sjálft Gamla bíó sem flutti í þetta glæsilega hús árið 1927. Upphaflega var það stofnað árið 1906 sem Reykjavíkur Biograftheater og var til húsa í Fjalakettinum undir stjórn Bíó-Petersens. Þarna voru sýndar bíómyndir allt til ársins 1981 eða þar til óperan tók völdin. Hún er nú horfin á braut á vit nýrra ævintýra. Þær myndir sem ég man helst eftir úr Gamla bíói eru háklassa teiknimyndir frá Disney eins og Skógarlíf, Hefðarkettirnir og Sverðið í steininum. Í þá daga voru teiknimyndir handteiknaðar og handmálaðar og meira að segja bara í tvívídd.

Nýja Bíó
Nýja Bíó í Lækjargötu er ekki nýrra en svo að það er ekki til lengur. Á meðan ég sótti það bíó var það reyndar orðið ævagamalt enda má rekja sögu þess aftur til ársins 1912 er það hóf starfsemi sína í húsakynnum Hótels Íslands. Frá upphafi var það kallað Nýja Bíó til aðgreiningar frá hinu bíóinu í bænum sem þar með var kallað Gamla bíó. Árið 1920 hófust sýningar í nýju húsnæði inn af Austurstræti þar sem það var alla tíð síðan. Í mínum huga var Nýja Bíó alltaf í Lækjargötu enda var inngangurinn þaðan, en í raun var kvikmyndahúsið algerlega falið bak við önnur hús. Stjörnustríð er sennilega mesta kvikmyndaverkið sem ég sá þarna. Þrátt fyrir flottheit og framtíðarbrellur fannst hún í raun vera hver önnur hasarmynd þar sem vöndu kallarnir eru alltaf jafn agalega óhittnir. Þarna fór ég líka á fyrstu bönnuðu-innan-12-ára-myndina mína án fylgdar fullorðinna og án þessa að vera 12 ára. Sú mynd hét Þeysandi þrenning og var einn samfelldur eltingaleikur og bílahasar. Bíómyndir voru sýndar þarna til ársins 1987 en síðan var húsið gert að skemmtistað sem síðan brann og húsið rifið, en nú er verið að byggja einskonar eftirlíkingu af Nýja Bíói á bak við Iðuhúsið.

Austurbæjarbíó
Austurbæjarbíó tók til starfa árið 1947 og þótti þá mikið og stórt en auk kvikmyndasýninga var það hugsað fyrir tónleika og leiksýningar. Sumir höfðu dálitlar áhyggjur af því að slíkt hús gæti ekki borið sig svona fjarri miðju bæjarins. Þær áhyggjur reyndust óþarfar. Síðustu árin var bíóreksturinn á vegum Sambíóveldisins en kvikmyndasögu hússins lauk árið 2002. Í framhaldi var húsinu naumlega forðað frá niðurrifi þegar reisa átti þarna íbúðarblokkir og því er enn hægt að sækja þarna leiksýningar og tónleika þegar slíkt er í boði. Íslenska kvikmyndavorið er oft talið hefjast árið 1980 með kvikmynd Ágústs Guðmundssonar, Land og synir. Þjóðin fjölmennti á þá mynd, líka þeir sem lönguhættir voru að fara í bíó. Eins og bíómiðinn ber með sér var myndin sýnd í Austurbæjarbíó og þangað var ég mættur kl. 5.

Hafnarbíó

Hafnarbíó tók til starfa árið 1948 í einum af betri bröggum bæjarins og stóð við gatnamót Barónsstígs og Skúlagötu. Þetta var ekki eina braggabíóið því Trípólíbíó á Melunum var einnig í bragga en það var löngu horfið á minni tíð. Hafnarbíósbragginn reyndist einn af lífseigustu bröggunum í Reykjavík og var óneitanlega dálítið sérstakt að fara þangað í bíó en myndirnar voru ekkert verri fyrir það. Af heimsóknum í Hafnarbíó man ég helst eftir Einræðisherra Chaplins en sú mynd var auðvitað komin til ára sinna þegar ég sá hana. Einnig man ég eftir týpískri hrollvekju um hús sem draup blóði og var að auki inngangur í helvíti með öllum þeim óþægindum sem því fylgir fyrir íbúana. Hafnarbíó var rifið árið 1983 og nú er þarna fátt sem minnir á eldri tíð.

- - - -

Hér verður gert nokkurra daga hlé. Eftir hlé mun ég taka fyrir með sama hætti: Stjörnubíó, Regnbogann, Tónabíó, Laugarásbíó og Háskólabíó.


Kafli tvö í eldgosi

Gosið í Eyjafjallajökli sem nú er uppi, er meira í takt við það sem menn töldu sig eiga von á, heldur en túristagosið á Fimmvörðuhálsi. Eina tjónið þar voru túristagöngustikur sem hurfu undir hraun ásamt flísvettlingi sem ég átti, en við teljum hann ekki með. Nú höfum við fengið flóð sem rofið hefur þjóðveginn og öskufall austur um sveitir. Áhrifamest er kannski ef alþjóðleg flugumferð raskast á stórum svæðum Norður-Atlantshafsins.

Vegna veðurs höfum við varla getað séð hið raunverulega gos nema mökkinn sem nær upp úr skýjunum. Af og til rofaði þó til á upphafsdegi gossins án þess þó eldsumbrotin sjálf kæmu í ljós. Miðað við hvernig tilkomumikill gosbólsturinn leit út kl 18.45 var greinilegt að gosið var komið upp úr jökli við toppgíginn og spúði þaðan ösku og eimyrju. Það hefði verið flott að sjá gosstrókana koma upp á þeirri stundu. Miðað við veðurspá eru litlar líkur á að það rofi til fyrr en undir helgi, en á laugardaginn ætti dýrðin að koma ljós. Það verður því væntanlega nokkuð um gosglápara á Suðurlandi um helgina. Hversu tilkomumikið gosið verður þá, veit ég ekki. Það vita líka fæstir hvar og hvenær þetta endar allt saman.

Gosmökkur 14.apríl


mbl.is Kolsvartur strókur frá gosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn sem minnkaði

Það er eiginlega ekki annað hægt á þessum degi, sem er afmælisdagur sjónvarpsins 30. september, en að minnast á eina allra eftirminnilegustu mynd sem ég hef séð í sjónvarpinu og kostaði mig ófáar andvökunætur lengi á eftir. Þetta er myndin Maðurinn sem minnkaði (The incredible shrinking man) frá árinu 1957, sem var sýnd í Sjónvarpinu nítjánhundruð sjötíu og eitthvað, þegar ég var sjálfur miklu minni en ég er í dag.
Söguþráður þessarar myndar er í rauninni einfaldur. Maður einn tók upp á því að minnka eftir að hann lenti í óvenjulegri þoku, þar sem hann var staddur í bát ásamt ósköp venjulegri konu sinni, sem hinsvegar var svo heppin að vera stödd neðanþylja á meðan. Nokkrum dögum síðar kom í ljós að ekki var allt með felldu, þegar skyrtan sem hann ætlaði í, var orðin of stór. Fleiri atvik leyddu þann sannleika í ljós að maðurinn var farinn að minnka og hvorki læknar né vísindamenn vissu sitt rjúkandi ráð.
Eftir ýmsar dramatískar uppákomur hafði maðurinn búið um sig í góðu yfirlæti í dúkkuhúsi á heimili sínu. Vandræðin byrjuðu hinsvegar fyrir alvöru þegar kattarkvikindið komst óséð inn á heimilið, þegar konan hafði brugðið sér út. Manninum tókst með snarræði að flýja inn um kjallaradyr og þar niðri þurfti hann að heyja harða lífsbaráttu innan um stórhættulega könguló. Upp úr kjallaranum komst hann ekki aftur og náði ekki að gera vart við sig þegar konan fór niður í kjallara.
Þó að þetta sé æsispennandi og ógnþrungin saga þá var það eiginlega endirinn sem gerði útslagið. Maðurinn hélt bara áfram að minnka og átti að lokum kost á því að komast í gegnum fuglanetið í kjallaraglugganum og út í garð. Þar úti beið ekkert nema himinhár gróður og risastórir spörfuglar.

Ég held ég verði áræðanlega andvaka eftir að hafa skrifað þetta. Þessa tilhugsun um að minnka endalaust er erfitt að sætta sig við. Hvað ef maður stækkar endalaust, er það betra? Hér kemur sýnishorn úr myndinni, sem er ekki bara sjónvarpsnostalgía mánaðarins á þessari síðu, heldur sjónvarpsnostalgía allra tíma.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband