Háfíslágmark númer tvö

lágmark_NSIDC

Þeir hjá Bandarísku hafísrannsóknarstofnuninni voru heldur fljótir á sér að lýsa því yfir að hafíslágmarki ársins hafi verið náð þann 10. september þegar útbreiðslan var komin niður í 4,76 milljón km2 og farin að aukast á ný dagana þar á eftir. En ísinn hefur sínar kenjar sem mönnum reynist stundum erfitt að ráða í. Síðustu daga hefur útbreiðsla íssins tekið nýja dýfu og er samkvæmt þessu línuriti komin nálægt lágmarki ársins 2008 sem var næst minnsta útbreiðsla íssins á eftir metárinu 2007. 

Línuritið sem er frá NSIDC (Bandarísku hafísrannsóknarstofnuninni) sýnir samanburð við síðustu ár nema að ég hef bætt við (í algjöru óleyfi) nýjustu upplýsingum ásamt viðmiðunarlínum og tölum og virðist útbreiðslan nú vera nálægt 4,6 millj. km2.

Trúlega mun ferillinn ekki fara neðar en þetta í ár en það sem aðallega olli þessari lokadýfu voru sterkir vindar sem mynduðust vegna samspils hæðar við norðurpólinn og lægðar við Síberíustrendur sem sjást þarna á kortinu frá 16. september, en þar sem vindurinn blés frá opnu hafssvæði inn á ísbreiðuna hlaut ísinn að hrekjast undan og þéttast. Myndin er fengin af Wetterzentrale.de og enn er ég að bæta við upplýsingum (H og L). Nú mun allt vera með kyrrum kjörum þarna norðurfrá og Norður-Íshafið fær væntanlega frið til að frjósa saman á ný enda nýtur varla nokkurs sólarhita þarna lengur.

wetterzentrale_1609

Í síðustu færslu fjallaði ég einnig um hafísinn og var þar með ýmsar vangaveltur um efasemdarmenn og áhyggjumenn sem má taka með hæfilegri alvöru. Þar nefndi ég líka að ég hefði haft smá trú á nýju lágmarki sem sem sagt hefur orðið raunin.

 


mbl.is Ísinn bráðnar óvenju hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband