11.1.2010 | 23:55
Hnattræn hlýnun og íslensk hlýnun
Það getur verið forvitnilegt að bera saman línurit yfir hitaþróun jarðarinnar í heild og hitaþróun á einstökum stað. Á línuritum yfir hitaþróun jarðarinnar frá 1900 til dagsins í dag kemur fram sterk en þó sveiflukennd hlýnun fyrir utan tímabil upp úr miðri síðustu öld þegar hitinn lækkaði lítillega að meðaltali. Allt önnur mynd kemur fram þegar einn staður eins og Reykjavík er sýndur. Síðustu 110 ár hafa hér á landi verið talsverðar sveiflur á milli ára og áratuga og ekki auðvelt að sjá að hiti hafi hækkað að ráði á tímabilinu. Allavega ekki miðað við þróunina sem á sér stað á jörðinni í heild, eins og kemur fram á línuritunum hér að neðan:
Bæði þessi línurit eru sett fram á nokkuð hefðbundinn hátt. Línuritið til vinstri vann ég úr gögnum frá Nasa-GISS gagnaröðinni um hitaþróun heimsins en í slíkum línuritum er yfirleitt miðað við frávik frá meðalhita (hjá Nasa-GISS er miðað við árin 1951-'80). Línuritið til hægri sýnir meðalhitann í Reykjavík fyrir hvert ár samkvæmt þeim gögnum sem til eru.
Þegar svona línurit eru borin saman þarf að hafa ýmislegt í huga enda má segja að þau séu varla samanburðarhæf. Þegar talað um meðalhitaþróun fyrir allan heiminn er hér átt við bæði höf og lönd, ásamt pólarsvæðunum svo langt sem upplýsingar um það nær og er þetta því allt annar hlutur en hitaþróun á einum stað eins og Reykjavík.
Annað sem skiptir líka máli er að hitaskalarnir á myndunum hér uppi eru ekki í sambærilegum hlutföllum. Til vinstri er verið að sýna hitabreytingar upp á aðeins eina gráðu en til hægri eru hitasveiflur uppá rúmlega þrjár gráður. Til að bæta úr þessu hef ég útbúið sameiginlegt línurit sem sýnir þessa tvo ferla út frá sama hitaskala:
Þegar búið er að samræma hitaskalana eins og hér er gert koma hlutirnir í ljós í betra samhengi og hægt að draga ýmsar ályktanir eftir smekk og vilja hvers og eins. Það helsta sem ég sé út úr þessu er þetta:
- Sú hnattræna hlýnun sem átt hefur sér stað frá því um 1900 er lítil miðað við þær sveiflur geta orðið á einum stað, enda getur hitamunur milli tveggja ára í Reykjavík verið mun meiri en öll hnattræn hlýnun frá 1900. Að sama skapi geta miklar staðbundnar hitasveiflur átt sér stað á einum stað, eða á tilteknu svæði án þess að það hafi teljandi áhrif á meðalhita jarðar.
- Þrátt fyrir að hitaferillinn fyrir Reykjavík liggi ekki eindregið upp á við, þá er hlýnunin hér alls ekki minni en sú hlýnun sem orðið hefur í heiminum jafnvel meiri. Hinsvegar eru sveiflurnar hér það miklar á milli ára og áratuga, að við getum varla treyst á að ekki komi tímabundið bakslag burt séð frá því sem gerist á heimsvísu.
Spádóma ætla ég þó að láta eiga sig að þessu sinni.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veður | Facebook
Athugasemdir
Sæll Emil og takk fyrir góðan pistil.
Mér þykir alltaf mynd sem er teiknuð eins og sú sem er efst til vinstri vera mjög villandi, en það er einmitt svona mynd sem blasir við okkur í fréttum um hnatthlýnun. Þarna er búið að þenja myndina eins og hægt er á lóðrétta skalann, þannig að það lítur út fyrir að hlýnunin sé rosaleg.
Nú jafngilda um 0,7 gráður C um það bil hitamuninum milli tveggja staða þar sem hæðarmunurinn er 100 metrar, eða gróft fjarlægðamun sem er um 100 kílómetrar í norður suður, svona til að setja hlutina í smá samhengi.
-
Ef við skoðum bláa ferilinn fyrir Reykjavík og sleppum fyrstu áratugunum (tilheyra kannski síðustu árum litlu ísaldarinnar?); hve mikil er þá hlýnunin yfir tímabilið ~ 1925-2010. Sjónrænt virðist hlýnunin ekki mikil, eða jafnvel engin.
-
Að lokum getur verið fróðlegt að bera bláa ferilinn fyrir Reykjavík saman við ferilinn hér fyrir neðan sem sýnir meðalhitann í Bandaríkjunum fyrir svipað tímabil. Fljótt á litið lítur hann ekki ósvipað út. Þar er líka fróðlegt að skoða breytinguna yfir tímabilið ~ 1925-2010.
Svo er það enn eitt í blálokin....
Ég sakna þess alltaf að sjá ekki skekkjumörk á hitaferlum. Það fylgir alltaf óvissa hitamælingum, og hún er jafnvel töluverð þegar horft er 100 ár aftur í tímann.
Skekkjuvaldar eru af ýmsum toga og er alltaf nauðsynlegt að meta þá og nota réttar aðferðir til að leggja áhrif þeirra saman. Síðan að sjálfsögðu birta niðurstöðurnar. Þegar það er gert, þá kemur oft í ljós að óvissan er af sömu stærðargráðu og hitabreytingin sem verið er að leita að. Í alvöru vísindagreinum fara alltaf fram skekkjumatsreikningar og niðurstöður birtar ásamt mæliniðurstöðum, en það er nánast undantekning í loftslagsfræðunum, eins og við vitum.
Ágúst H Bjarnason, 12.1.2010 kl. 06:55
Sæll Ágúst. Ég er alveg sammála því að línurit geta stundum gefið villandi mynd þótt þau séu tölfræðilega rétt.
Hitaferillinn í Bandaríkjunum er nokkuð svipaður því sem er í Reykjavík, sama má reyndar segja um stórt svæði við Norður-Atlantshafið þannig að sömu náttúrulegu sveiflur eru þar sjálfsagt á ferðinni að hluta til. Hitinn í Bandaríkjunum í heild er að sveiflast um ca. 2 gráður á tímabilinu en um 3 gráður í Reykjavík - eðlilegt að hiti sveiflist meira á einum stað en á stærra svæði.
Þegar talað er um hnattræna hlýnun þá er það jörðin í heild sem telur. Þótt þessi 0.75° meðaltalshlýnun á jörðinni sé talin vera mikil er hún þó kannski ekkert sérstaklega alvarleg nema ef sama hlýnun heldur áfram eða eykst á þessari öld eins og spáð er.
- - -
Ég ímynda mér að það sé erfitt að meta óvissu þegar hitafar jarðarinnar er reiknað. Þar sem ég hef séð óvissumörk inni á svona línuritum eru þau þó talsvert minni hitabreytingin í heild.
Emil Hannes Valgeirsson, 12.1.2010 kl. 13:07
Reyndar er gert ágætlega grein fyrir óvissum ef skoðaðar eru t.d. matsskýrslur IPCC, sjá hérna graf 3.6 úr síðustu skýrslu vinnuhóps I. Það er nokkuð auðvelt að nálgast þær upplýsingar t.d. á netinu ef áhugi er fyrir því. Einnig má einnig athuga að óvissan er í báðar áttir. Já, að lokum hér er grafið, og slóðin á skýrslur IPCC:
Sveinn Atli Gunnarsson, 12.1.2010 kl. 14:01
NASA GISS sýnir yfirleitt skekkjuna, grænt á myndinni hér fyrir neðan - reyndar er spurning hvort þetta er viðeigandi, en ætli skekkjan fari ekki bara smám saman vaxandi eftir því sem lengra er frá þeim tíma sem mælingarnar eru gerðar.
NOAA birtir nokkuð góð gröf með skekkjumörkum.
Höskuldur Búi Jónsson, 12.1.2010 kl. 15:58
Sæll Emil. Takk fyrir góða grein.
Það er líklegt að hnattrænni hitaferillinn hér fyrir ofan í greininni þinni sýni ekki alveg rétta mynd af árshita í heiminum og eru nokkrar ástæður fyrir því:
1. Þéttbýlishitnun (urban heat island effect). Í Kaliforníu var gerð rannsókn á þessu þar sem kom m.a. í ljós að á þéttbýlum svæðum var meiri hlýnun en í dreifbýli. Í dreifbýli kólnaði sumstaðar. Leiðrétt hefur verið fyrir þéttbýlishitnun í Bandarísku hitagögnunum. Sjá ferillinn sem Ágúst sýndi í athugasemd fyrir ofan. Fyrir árið 2008 var hiti nálægt meðallagi fyrir tímabilið 1895-2008.
2. Gervitunglamælingar eru ekki í samræmi við yfirborðsmælingar.
3. Mælistöðvar. Ójöfn dreifing og jókst eftir árið 1990 þegar mikið af stöðvum hurfu úr hnattrænu hitagögnunum. Ætti stöðvum ekki frekar að fjölga til að auka trúverðugleika? Sjá einnig hjá NASA. Flestar stöðvarnar sem hurfu voru í dreifbýli.
4. Erfitt fyrir vísindamenn að nálgast upprunalegu gögnin. Hér er smá grein um þetta. Kom í ljós í ágúst síðastliðnum að gögnunum hefði verið eytt af CRU (East Anglia Climate Research Unit), sjá hér. CRU gögnin hafa verið undirstaðan í mörgum alþjóðlegum rannsóknum (IPCC?) sem halda því fram að heiminum er ógnað af loftslagsbreytingum.
Karl Jóhann Guðnason, 14.1.2010 kl. 23:12
Einnig er gaman að skoða þetta línurit. Þessar mælingar eru lengstu samfelldu mánaðarlegu mælingar sem til eru og eru frá Mið Englandi, ná frá árinu 1659! Maður fær einhvern veginn þá mynd að núverandi hlýnun sé alls ekkert rosalega mikil og ekki til að hafa miklar áhyggjur af. Mesta hlýnunin byrjaði ekki fyrr en eftir 1975.
Karl Jóhann Guðnason, 14.1.2010 kl. 23:20
Þú kemur hér inná nokkur viðkvæm og umdeild atriði Karl. En vil nú samt standa í þeirri trú að hitagögnin séu nógu rétt til að hægt sé að fullyrða að það hafi hlýnað og það sé hlýrra nú en hefur verið í háa herrans tíð.
En það sem ég var meðal annars að reyna að koma inn á er að þrátt fyrir að miklar hitasveflur séu á einstaka stað eins og í Reykjavík (sem og í Bandaríkjunum) og ekki auðvelt að koma auga á mikla hlýnun síðustu 100 árin, þá hefur samt hlýnað að meðaltali álíka mikið í Reykjavík sl.100 ár og gerst hefur í heiminum á sama tíma. Þessi heimshlýnun sem kemur fram í línuritum þarf því ekki að vera ósennileg, nema hvað hlýnunin virkar svo miklu meiri þegar línuritin eru teygð mikið lóðrétt. Ef ég hefði sett inn „trend“ línur inná samsettu myndina sæist þetta sjálfsagt betur.
Við ættum að geta treyst nokkuð vel gögnum frá Íslandi en hér hafa sl. 10 ár verið rúmlega 0,4° fyrir ofan hlýjasta tímabil síðustu aldar sem passar ágætlega við heimshlýnunina. En vissulega erum við þá bara að tala um Ísland.
Emil Hannes Valgeirsson, 15.1.2010 kl. 00:24
Þetta eru svo sem ekkert viðkvæm atriði, bara mýtur sem Karl er að bera á borð (mýtur sem að miða að því að fá fólk til að efast um grunnstoð mæligagna sem sýna fram á hlýnun jarðar af mannavöldum) - ég skal svara þessu á eins góðan hátt og ég get, miðað við að við erum ekki búnir að skrifa þessar mýtur niður á blað á loftslag.is - það er reyndar ofarlega á blaði hjá okkur, því enn eru menn að nota þessar mýtur.
1: Karl bendir á rannsókn frá árinu 2000 - síðan þá hefur margt gerst og meðal annars skrifuð greinargerð af vísindamönnum NASA þar sem því er lýst hvernig leiðrétt er fyrir svokallaðri þéttbýlishitnun, sjá Hansen o.fl: A closer look at United States and global surface temperature change - já vísindamenn nota gögn frá þéttbýlisstöðum með fyrirvara, bera saman við dreifbýlari svæði og leiðrétta fyrir þeim mismun sem kann að vera. Þess ber að geta að 42% þeirra þéttbýlisstaða sem voru kannaðir sýndu þéttbýliskólnun - svo í raun myndi þessi þéttbýlisáhrif jafna sig út - en samt er leiðrétt til að gera gögnin áreiðanlegri (enda eru vísindamenn NASA með þeim betri á sínu sviði).
Seinni punkturinn í lið 1 sýnir misskilning Karls á hnattrænum gögnum og staðbundnum (meðalhiti í Bandaríkjunum segir hvernig meðalhitinn var í Bandaríkjunum - en ekki hver hnattrænn meðalhiti var), auk þess sem að hann notar La Nina árið 2008 til að sýna fram á kólnun - árið 2009 var mun heitara. Seinna í dag mun NASA birta gögn sem sýna væntanlega að árið 2009 var jafnt árunum 2007 og 1998 (ef tekin er með skekkjumörk - árið 2005 var heitast).
2: Varðandi þennan lið, þá hafa þeir sem héldu áður fram að það væri greinilegur munur á gervihnattamælingum og yfirborðsmælingum (meðal annars John Christy) skrifað undir eftirfarandi texta, enda búið að leiðrétta fyrir algebruvillu í UAH gögnum og svokölluðu reki gervihnatta:
Hér er mynd sem sýnir samanburð á yfirborðsmælingum og gervihnattagögnum:
3. Þar sem ég fylgist nokkuð vel með loftslagsmálum, þá hef ég heyrt þetta áður - og séð sýnt fram á að þetta skipti ekki máli, með því að bera það saman á línuriti. Man ekki hvar ég sá það, en ef þið takið ekki orð mín fyrir því - þá skal ég finna það - þetta verður með þegar við skrifum um mýtur varðandi það að yfirborðsmælingar séu ekki í lagi. Það má þó segja að þar sem liður 2 hjá Karli er rangur - þá skiptir þessi liður ekki máli, nema hann haldi því fram að gervihnattagögn hafi einnig tekið upp á því að verða vitlaus skyndilega upp úr 1990.
4. Það er hægt að nálgast nánast öll gögn frá þessari heimasíðu: Data Sources. Varðandi eydd gögn, þá eyddu CRU afritum gagna á þeim tíma sem tölvur og geymslupláss var takmarkað (á níunda áratugnum) - hægt er að nálgast upprunalegu gögnin annars staðar. En það skiptir ekki máli þótt ekkert væri að marka gögnin frá CRU - Gögn annars staðar frá sýna sömu hlýnun (sjá tengilinn hér fyrir ofan).
Aukaliður - seinni athugasemd Karls: Staðbundin gögn sýna ekki í öllum tilfellum það sama og hnattræn hlýnun.
Að lokum: Ef svo ólíklega vildi til að hitagögn væru illa unnin eða jafnvel fölsuð (samsæri margra ótengdra stofnana þyrfti til og gígantískt plott) - þá spyr ég, hvernig fóru menn að því að semja við lífríkið (vorboðar koma fyrr, plöntur og fuglar - tegundir hafa fært sig um set), hafís norðurskautsins (sem er að bráðna) og jöklana (sem eru að bráðna)?
Höskuldur Búi Jónsson, 15.1.2010 kl. 09:05
Þessi gagnrýni á hnattrænu hitamælingarnar draga alls ekki úr þeirri staðreynd að það hefur hlýnað síðustu áratugi sem ég trúi einnig. Vísindin sanna það, gervitunglamælingarnar sýna hlýnun, loftbelgjamælingarnar sýna hlýnun. Í raun allir vísindamenn segja að það hafi ótvírætt hlýnað síðustu ár. Það sem vísindamenn eru ósammála um hversu mikið hefur hlýnað og hvernig hitastig mun þróast í framtíðinni (tölvulíkön spá hlýnun). Einnig er spurning hvort hlýnunin sé óvenjuleg miðað við fortíðina. Var hlýrra eða kaldara um miðaldir en er nú? Hvað með til dæmis um 1940? Var hlýrra þá eða er hiti svipaður?
Sammála, hlýnunin er svipuð á heimsvísu og í Reykjavík fyrir síðustu 100 ár. Þá er spurningin kannski hvenær þessi hlýnun varð. Samkvæmt hnattrænu gögnum hlýnaði mest ca 1980 - 2000 en samkvæmt Reykjavík þá hlýnaði álíka mikið fyrir 1940 og gerði síðar. Hitagögnin fyrir Reykjavík sýna svo meiri kólnun á tímabilinu 1940-1980.
Hvort hlýnaði meira fyrir 1940 eða eftir skiptir máli vegna þess að CO2 hefur hækkað mest eftir 1940 og áhrif vegna þess ætti þá að vera mest þá. Sjá hér þar sem sýnt er styrkur CO2 í lofthjúpnum síðustu 100 árin.
Karl Jóhann Guðnason, 15.1.2010 kl. 09:27
Miðað við fortíðina, þá er óvenjulegt að það hlýni svona hratt og svona mikið þegar svona langt er liðið á hlýskeið ísaldar eins og nú er.
Það er mun hlýrra nú en á miðöldum og raunar er síðasti áratugur eflaust hlýrri en nokkurn tíman síðan fyrir 114-130 þúsund árum (þ.e. síðan á hlýskeiðinu Eemien) og jafnvel lengra aftur.
Semsagt við erum að nálgast mesta hnattræna hita síðan homo sapiens sapiens var að stíga sín fyrstu skref. Hvað segir það okkur Karl?
Höskuldur Búi Jónsson, 15.1.2010 kl. 10:45
Hvar stendur þetta, í greininni eftir Hansen? (er ekki búinn að lesa hana). Hér er nýjasta línuritið yfir hitastig í Bandaríkjunum (einnig 2009). Sé ekki mikinn mun á þessu línuriti og því sem Ágúst sýnir í fyrstu athugasemd.
Höski: "Seinni punkturinn í lið 1 sýnir misskilning Karls á hnattrænum gögnum og staðbundnum (meðalhiti í Bandaríkjunum segir hvernig meðalhitinn var í Bandaríkjunum - en ekki hver hnattrænn meðalhiti var), auk þess sem að hann notar La Nina árið 2008 til að sýna fram á kólnun - árið 2009 var mun heitara."
Árið 2009 var ekki mun heitara í Bandaríkjunum. Hér stendur eftirfarandi: Based on data from January through November and considering the long-term mean for December, the average annual temperature for the contiguous U.S. is projected to be 0-1 degrees F above the 20th Century average, thus ranking the country between 26th and 38th warmest. Því var hiti rétt yfir meðallagi 20. aldarinnar.
Bandaríkin þekja 2-3% yfirborðs jarðar yfir sjávarmáli en hinsvegar 6,4- 6,5 % af landyfirborði. Svo Bandaríkin hafa einhver áhrif á hnattrænu meðaltali. En má ekki svo reikna með að ef hnattræn hlýnun var ekki eins mikil í Bandaríkjunum þá hlýtur hún að hafa verið meiri annars staðar, því hnattrænt meðaltal sýnir töluverða hlýnun eftir 1940. Ég væri til í að vita hvaða svæði hlýnaði svona mikið.
Jæja er tímabundinn og svara því restin á morgun. Góða helgi.
Karl Jóhann Guðnason, 15.1.2010 kl. 17:41
Hnattræn hlýnun hefur reyndar náð til Bandaríkjanna eins og annarstaðar nema hvað síðustu tvö árin hafa aðeins verið í meðallagi. Tíu árin þar á undan voru hinsvegar mjög hlý og langt fyrir ofan meðallag. Á sama tíma hefur yfirleitt verið nokkuð hlýtt á öðrum stöðum í heiminum, ekki síst nú í ár. Hugsanlega stjórnast umræðan um hnattræna hlýnun mikið af því hversu heitt eða kalt er í Bandaríkjunum hverju sinni enda búa þar margir efasemdarmenn.
Emil Hannes Valgeirsson, 15.1.2010 kl. 18:43
Já það hefur hlýnað bæði í Bandaríkjunum og hnattrænt nær allir eru sammála um það. En þetta er ekki nein sérstaklega mikil og óvenjuleg hlýnun miðað við mælingar.
En hvernig myndir þú svara þessum spurningum Emil:
Er hlýnunin vandamál? Og hvers vegna?
Karl Jóhann Guðnason, 16.1.2010 kl. 23:10
Svona til að troða mér inn í umræðuna, þá er einmitt talið að þessi hlýnun, sem talin er vera vegna aukins styrks gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum, sé óvenjuleg. Það að aukin styrkur gróðurhúsalofttegunda yfirgnæfi náttúrulegar langtímasveiflur í loftslaginu, hlýtur að teljast varhugavert. Persónulega finnst mér að það væri óábyrgt af okkur að gera ekkert til að draga úr losuninni þegar viðvörunarljósin loga og rannsóknir og mælingar þúsunda vísindamanna benda til þess.
Ég skal líka reyna að svara spurningunum þínum Karl:
Hlýnun getur mögulega verið vandamál því við þekkjum ekki hvernig vistkerfi bregðast við þeirri hlýnun yfir jarðfræðilega stuttan tíma. Þegar breytingar verða á kannski 100 árum í stað þúsunda ára, þá þykir mér varhugavert að telja að einungis verði jákvæðar breytingar. Jörðin er u.þ.b. 4,5 milljarð ára gömul og breytingar hafa oftast (ekki alltaf) tekið langan tíma og þannig gefið vistkerfum tíma til að aðlagast (ef svo má að orði komast). Í tilfellum þar sem t.d. breytingar gerast snögglega eiga vistkerfin erfiðara með að fylgja breytingunum eftir. Þetta er þó engin spá að minni hálfu um að allt fari illa þó hitastig hækki, en það eru ýmsar rannsóknir til þar sem bent er m.a. á sjávarstöðubreytingar og súrnun sjávar (sem reyndar er ekki tengt hitastigi heldur losun koldíoxíðs) sem þætti sem gætu haft áhrif við aukningu styrks gróðurhúsalofttegunda.
Sveinn Atli Gunnarsson, 16.1.2010 kl. 23:53
Ég skal reyna að svara þessu, en ég tek þó fram að ég fylgist aðallega með loftslagsmálunum vegna þess að ég áhuga á veðri og ýmsu sem því tengist.
Sú hlýnun sem þegar hefur orðið á jörðinni myndi ég ekki telja vera mikið vandamál, sérstaklega ekki fyrir okkur sem búum hér á norðlægum slóðum þar sem hlýnunin hefur jafnvel orðið til góðs. En ef það fer að hlýna meira á jörðinni t.d. um 1-2 gráður, þá gæti ýmislegt neikvætt farið að gerast. Ég nefni bara þessa klassísku hluti eins og hækkun sjávarmáls, breytingar á veðurkerfum, tilfærsla á eyðimörkum og allskonar vistfræðilega þætti sem færu úr skorðum. Þetta þurfa þó ekki allt að vera neikvæðir hlutir, sumstaðar gæti t.d, gróður aukist vegna aukinnar úrkomu og/eða hlýnunnar.
En svo er líka alveg spurning hvort spár um hlýnun jarðar rætist eða hversu mikið á eftir að hlýna. Til að geta svarað því að einhverju viti þurfa menn komast að því hversvegna það hefur hlýnað en þar eru auðvitað ekki allir sammála. Sennilega verður lengi deilt um þetta allt saman nema eitthvað afgerandi fari að gerast eins og talsverð kólnun eða mikil hlýnun á næstu árum.
Emil Hannes Valgeirsson, 17.1.2010 kl. 00:29
Svatli, ég var ekki búinn að sjá þitt svar þegar ég skrifaði þetta síðasta. Það má líka alveg bæta því við að vegna allra þeirra milljarða manna sem nú búa á jörðinni núna, geta allar snöggar breytingar á vistkerfinu verið mjög varasamar, vandamálin eru alveg næg fyrir.
Emil Hannes Valgeirsson, 17.1.2010 kl. 00:42
Í grein á loftslag.is er þessum þrem spurningum velt fyrir sér og ætla ég að svara þeim.
Ég er semsagt búinn að svara öllum játandi og því lítur út fyrir að ég sé sammála loftslag.is. En eins og einn höfundanna einnar bókar sem ég hef lesið kemst að orði þá er "the devil is in the details". Smáatriðin skipta miklu máli í þessum málum. Vísindamenn eru aðallega að deila um svarið við spurningu nr 2 hér fyrir ofan, þ.e. hvað er orsökin. CO2 er gróðurhúsalofttegund og veldur hlýnun um það eru allir vísindamenn einnig sammála um. Það sem margir deila um er hversu mikil hlutur CO2 er í hlýnuninni (og þar með hversu mikil áhrif manna er). Ef mannkynið er að valda því þá er hægt að gera eitthvað í því, ef ekki þá þýðir ekki að gera neitt í því augljóslega. Niðurstaða IPCC er að hlýnun sé aðallega vegna aukningar CO2 af mannavöldum. En það er alls ekki allir vísindamenn sammála (hér og hér).
Ef það var t.d. hlýrra eða jafnhlýtt á miðöldum þá vitum við að vistkerfi jarðar getur lifað það af (ekki bara lifað af heldur verið í blóma). En hlýju miðaldirnar og tilvera þeirra eru menn ekki sammála um. Hér má sjá línurit þar sem sýnt eru nokkrar hitastigsferlar fyrir síðustu 1000 ár. Rauða línan er línurit (sýnir töluvert hlýrri miðaldir en nú) sem birtist í skýrslu IPCC árið 1990 en eins og sjá má þá hafa skoðanir breyst mikið síðan þá
Karl Jóhann Guðnason, 17.1.2010 kl. 10:37
Grein í International Journal of Biometeorology kannaði tengsl milli hitastigs og dánartíðni fyrir árin 1991-1995 í Frakklandi. Niðurstaðan er þessi:
Líklega er kaldara veðurfar verra en hlýrra veðurfar samkvæmt þessu. En þetta tímabil var valið vegna þess að ekki voru nein öfgaveður í þessu tímabili t.d. hitabylgjur.
Karl Jóhann Guðnason, 17.1.2010 kl. 11:30
Hér getur sagan einnig gefið vísbendingar. Ef hitastig sveiflaðist um 1-2 gráður í fortíðinni og vistkerfið lifði það af, þá hlýtur það að lifa af aftur ef hitastig hækkar/lækkar í framtíðinni. Nú höfum við einnig með nútímatækni sem gerir mannkyninu auðveldara með að aðlaga sig.
Varðandi sjávarstöðubreytingar þá má sjá þróunina hér.
Karl Jóhann Guðnason, 17.1.2010 kl. 12:07
Karl þú segir; "Ef það var t.d. hlýrra eða jafnhlýtt á miðöldum þá vitum við að vistkerfi jarðar getur lifað það af (ekki bara lifað af heldur verið í blóma)."
Það er almennt talið að það hafi einmitt ekki verið hlýrra að eða jafnhlýtt þá á heimsvísu. Hvað varðar vistkerfin, þá virðast þau hafa hnignað á ýmsum stöðum og er byrjað að vera vandamál allra þeirra milljarða manna sem búa á jörðinni (sem svo eru sjálfir að hafa áhrif á vistkerfin af öðrum sökum einnig, það má ekki gleyma því). En þegar ég er að tala um þessa hugsanlegu hnignun vistkerfa, þá er það einnig vegna þeirra spáa sem til eru varðandi hvað gerist ef hitastig hækkar í framtíðinni ásamt svo t.d. þessu sem ég nefndi í minni síðustu athugasemd, þ.e. sjávarstöðubreytingar og súrnun sjávar (sem reyndar er ekki tengt hitastigi heldur losun koldíoxíðs).
Sveinn Atli Gunnarsson, 17.1.2010 kl. 12:15
Ég hef engar áhyggjur af því að vistkerfið lifi ekki af breytingar, en þar gætu orðið heilmiklar breytingar. Það verður áfram allt iðandi af lífi á jörðinni hvernig sem hitastig breytist.
Annars hef ég aldrei í mínum skrifum blandað mér í umræðuna um það hvort aukin hlýnun sé stórkostlegt vandamál eða ekki, en ég svaraði þessu þó að því ég var spurður. Ég er aðallega í því að skoða hvað er að gerast og reyna að átta mig á ástæðunum fyrir því. Í þessari bloggfærslu er t.d. hvergi talað um neitt vandamál.
Svo vil ég benda á eitt í sambandi við línuritið sem á að sýna hitastig síðustu 1000 ára. Eins og oft er í slíkum línuritum vantar síðustu áratugi, þar sem ferlarnir ættu að liggja mjög bratt upp á við.
Emil Hannes Valgeirsson, 17.1.2010 kl. 12:31
Sagan segir okkur margt Karl Jóhann, t.d. að CO2 styrkur í andrúmsloftinu hefur sveiflast frá ca. 180 ppm upp í ca. 280 ppm á allavega síðustu 800.000 ár og hefur haft áhrif til bæði hlýnunar og kólnunar og þar með t.d. stöðu sjávarborðs (sjá nánar hér). Við höfum s.s. ekki séð þennan styrk CO2 í andrúmsloftinu á langan tíma og þar sem þú ert okkur sammála að styrkur gróðurhúsalofttegunda hafi áhrif á hitastig þá ættirðu að geta séð að þessi tilraun okkar með alla þessa aukningu á u.þ.b. 150 árum (losun af mannavöldum hefur heldur ekki verið meiri en hún er nú og að óbreyttu er hætt við að hún haldi áfram að aukast) getur haft afleiðingar sem hugsanlega getur orðið erfitt að hafa stjórn á í framtíðinni. Ég er alls ekki að segja að það sé ómögulegt, en það er vísbendingar um að það sé hugsanlega ódýrara að gera eitthvað til mótvægis strax í sambandi við gróðurhúsalofttegundir, en að bíða og sjá hvað gerist.
PS. Vistkerfi munu áfram vera til á jörðinni, þau breytast eins og oft hefur gerst í jarðsögunni, en hvort að sú breyting sem við mennirnir stefnum hugsanlega í af eigin völdum sé jákvæð er hægt að taka með ákveðnum fyrirvara.
Sveinn Atli Gunnarsson, 17.1.2010 kl. 12:54
Góðann daginn. Hafið þið skoðað þetta línurit.
Greinin er eftir Loehle og er hæg að ná í hér. Rannsóknin notar söguleg vísbendingagögn sem ekki eru byggðar á árshringjum trjá því vöxtur trjá fer eftir mörgu öðru en hitastigi t.d. aukna upptöku CO2. Línuritið sýnir greinilega Litlu Ísöldina og hlýju miðaldirnar en þá var samkvæmt Loehle um 0,3 gráður hlýrra en á 20. öldinni.
Karl Jóhann Guðnason, 18.1.2010 kl. 11:22
Góðan dag Karl
Kannast við greinina, enda er hefur innihald og aðferðafræði hennar verið hrakinn að mestu leiti. Fyrir utan náttúrulega að greinin er birt í E&E sem er ekki ritrýnt rit þó því sé víða haldið fram. Hér eru nokkrir punktar um þessa grein þar sem farið er yfir veikleika hennar og svo læt ég fjórar krækjur fylgja til glöggvunnar:
- has not been published in peer-reviewed journal (E&E is not a scientific journal).
- contains little tree-ring data despite claiming to be free of tree-ring data. Loehle admits this in the paper, but if one wants to be tree-ring free, then what is the point of including some tree-ring data anyway? If you want to be tree-ring free, then don't use tree-ring data at all.
- has selected almost all proxies are from North-Atlantic area. See the distribution of proxy locations in Figure 1 (page 14 of PDF). Compare the distribution to the Figure 1 here:
http://www.skepticalscience.com/Was-...rm-Period.html
As we can see, almost all Loehle's proxies have been selected from areas where MWP was warmest.
- makes the "reconstruction" by simply taking a mean of all proxies.
Nánar um þetta á hér.
Svo höfum við aðra staði þar sem hægt er að lesa nánar um þetta:
RealClimate; Past reconstructions: problems, pitfalls and progress
OSSfoundation; Loehle Temperature Reconstruction
Strange Weather; The Loehle Reconstruction
Það er væntanlega hægt að finna fleiri heimildir þar sem þetta er hrakið, en í mínum augum er þetta dæmi um það sem hægt er að finna ef maður leitar að sérvöldum gögnum en hunsar betri gögn. Það er mikið meira til af öðrum gögnum og greinum, mæli með að þú kíkir nánar á það, t.d. eftirtalið, svo fátt eitt sé nefnt:
Global Signatures and Dynamical Origins of the Little Ice Age and Medieval Climate Anomaly – Mann et al. (2009) “Global temperatures are known to have varied over the past 1500 years, but the spatial patterns have remained poorly defined. We used a global climate proxy network to reconstruct surface temperature patterns over this interval. The Medieval period is found to display warmth that matches or exceeds that of the past decade in some regions, but which falls well below recent levels globally.”
Climate in Medieval Time – Bradley et al. (2003) “although the High Medieval (1100 to 1200 A.D.) was warmer than subsequent centuries, it was not warmer than the late 20th century. Moreover, the warmest Medieval temperatures were not synchronous around the globe. Large changes in precipitation patterns are a particular characteristic of “High Medieval” time.”
Medieval Climatic Optimum – Mann (2002) “Thus, current evidence does not support the notion of a Medieval Climatic Optimum as an interval of hemispheric or global warmth comparable to the latter 20th century.” [Link to PDF]
Sveinn Atli Gunnarsson, 18.1.2010 kl. 12:42
et al., 2002) which does use tree ring width for two out of the eight series that are averaged to get the composite, or 1.4% of the total data input to the mean computed below". Kemur hér skýrt fram að um 1,4 % gagna eru trjáhringir. Það ætti nú ekki að hafa mikil áhrif mætti maður halda. Kannski voru ekki til önnur gögn en þessi og af einhverjum ástæðum valdi hann að nota þau.
Flest gögnin eru frá N-Atlantshaf en ná yfir mjög stórt svæði samt, frá Karibíska hafinu og Afríku til Grænlands og N-Skandinavíu. Svo eru fjögur frá Asíu og tvö frá Suður Afríku. Svo sýnist mér ekki öll gögn vera frá hlýjum svæðum samkvæmt mynd 1. Hvernig var annars þessi mynd búinn til? Myndin á að sýna hitastig fyrir nánast alla jörðina, gróflega, fyrir tímabilið 950 - 1250 AD. Notuð voru meir en 1000 mismunandi vísbendingagögn. Á kortinu yfir staðsetningu gagnanna í greininni eftir Mann þá sést að flest gögn eru frá landsvæðum en ekki sjó. Mín spurning er hvernig gátu þeir að vitað eða reiknað út hitastig á öllu því svæði þar sem er sjór? Það var hinsvegar notuð nokkur gögn úr sjó í rannsókn Loehle.
Hvað ræður því hvort E&E er ekki ritrýnt rit? Það viðurkennir þó sá sem skrifaði greinina sem þú bentir á.
Karl Jóhann Guðnason, 19.1.2010 kl. 00:53
Hér er tilvitnun í það sem sagt er um E&E í þessari grein, sem ég m.a. vitna í. Það kemur annað fram m.a. í hinum greinunum og hjá öðrum aðilum sem ég hef lesið, um að E&E sé ekki ritrýnt rit:
Karl, þér er náttúrulega frjálst að sérvelja (e. Cherry Picking) það sem fellur að þínum skoðunum, þó nóg annað sé til sem bendir til annars. Hér er meira lesefni um efnið (til viðbótar við það sem ég setti inn í síðustu athugasemd):
Blueprints for Medieval hydroclimate – Seager et al. (2007) “A review of proxy evidence from around the world indicates that North American megadroughts were part of a global pattern of Medieval hydroclimate that was distinct from that of today. … A positive North Atlantic Oscillation (NAO) also helps to explain the Medieval hydroclimate pattern. … Tentative modeling results indicate that a multi-century La Niña-like state could have arisen as a coupled atmosphere–ocean response to high irradiance and weak volcanism during the Medieval period and that this could in turn have induced a persistently positive NAO state.”
Climate in Medieval Time – Bradley et al. (2003) “although the High Medieval (1100 to 1200 A.D.) was warmer than subsequent centuries, it was not warmer than the late 20th century. Moreover, the warmest Medieval temperatures were not synchronous around the globe. Large changes in precipitation patterns are a particular characteristic of “High Medieval” time.”
How Warm Was the Medieval Warm Period? – Crowley & Lowery (2000) “Despite clear evidence for Medieval warmth greater than present in some individual records, the new hemispheric composite supports the principal conclusion of earlier hemispheric reconstructions and, furthermore, indicates that maximum Medieval warmth was restricted to two-three 20–30 year intervals, with composite values during these times being only comparable to the mid-20 th century warm time interval. Failure to substantiate hemispheric warmth greater than the present consistently occurs in composites because there are significant offsets in timing of warmth in different regions; ignoring these offsets can lead to serious errors concerning inferences about the magnitude of Medieval warmth and its relevance to interpretation of late 20 th century warming.”
Sveinn Atli Gunnarsson, 19.1.2010 kl. 09:21
Ég læt ykkur bara um þessar vangaveltur, þið megið halda hér áfram eins lengi og þið viljið. Ég ímynda mér að það sé erfitt að bera saman nákvæmlega hvort það hafi verið hlýrra eða kaldara fyrir 1.000 árum en hinsvegar er vitað að það var hlýtt þá. Ef við miðum við línuritið sem kom frá Karli í athugasemd þ. 18.01. þá ætti hitinn síðustu 10 ár á jörðinni að vera álíka mikill og hæst var á miðöldum.
Ef spár eru réttar, þá mun hitinn fara mun hærra á þessari öld og haldast mjög hár jafnvel í nokkrar aldir. Áhyggjur manna snúast fyrst og fremst um það, frekar en hversu heitt er í dag. En þarna er ég auðvitað að tala um ef spár um framtíðarhlýnun eru réttar.
Emil Hannes Valgeirsson, 19.1.2010 kl. 10:01
Hér er önnur rannsókn sem gerð var á ískjörnum á Grænlandi. Og hér er hitastig síðustu 2000 ára sem fengin voru. Miðað við þetta þá var hlýrra á Grænlandi fyrir 1000 árum. Einnig er þessi mynd í samræmi við hitamælingar síðustu 100 ára, hlýrra eða jafnhlýtt var um 1930 miðað við nú síðan hefur kólnað örlítið. Og þetta var allt fengið úr ískjörnunum.
Og til eru fleiri rannsóknir frá öðrum stöðum sem skoða aðeins ein vísbendingagögn, en ekki margar eins og í grein Loehle.
Eins og ég sé þetta þá eru allar spárnar byggðar á tölvulíkön. Svo er það spurningin hvort þú trúir þeim. Samkvæmt gervitunglamælingum hefur hiti staðið í stað frá ca 1998... Sem var ekki spáð af tölvulíkönum. Mér sýnist að trúverðugleiki tölvulíkana muni ráðast mikið næstu fáu ár því þá ætti að koma í ljós hvort heldur áfram að hlýna eða fara að kólna aftur.
Mikið af rannsóknum eru að mínu mati til sem benda annahvort á óvenjulega hlýnun eða hlýnun sem er ekki óvenjuleg. Hver og einn myndar sér skoðun á þeim gögnum sem manni finnst mest traustvekjandi.
Karl Jóhann Guðnason, 19.1.2010 kl. 23:28
Rannsóknin sem myndin fyrir ofan var tekin úr er frá Dahl og fleirum árið 1998.
Karl Jóhann Guðnason, 19.1.2010 kl. 23:30
Karl skoðaðu greinarnar sem ég setti inn í athugasemdirnar hér að ofan. Það þýðir ekki endalaust að koma með einhverja nýja staðbundna rannsókn eins og það segi eitthvað um hitastig á heimsvísu. Hér að ofan er búið að sýna fram á sterk mótrök við grein Loehle, hún er einfaldlega ekki nógu vel unnin og hefur verið hrakin.
Á Loftslag.is er nýleg grein um loftslagslíkön (tölvulíkön), sem nefnist Eru loftslagslíkön óáreiðanleg? Það er væntanlega fróðleg lesning fyrir þig Karl.
Annars finnst mér vanta athugasemd við eftirfarandi frá þér Karl:
CO2 styrkur í andrúmsloftinu hefur sveiflast frá ca. 180 ppm upp í ca. 280 ppm á allavega síðustu 800.000 ár og hefur haft áhrif til bæði hlýnunar og kólnunar og þar með t.d. stöðu sjávarborðs (sjá nánar hér). Við höfum s.s. ekki séð þennan styrk CO2 í andrúmsloftinu á langan tíma og þar sem þú ert okkur sammála að styrkur gróðurhúsalofttegunda hafi áhrif á hitastig þá ættirðu að geta séð að þessi tilraun okkar með alla þessa aukningu á u.þ.b. 150 árum (losun af mannavöldum hefur heldur ekki verið meiri en hún er nú og að óbreyttu er hætt við að hún haldi áfram að aukast) getur haft afleiðingar sem hugsanlega getur orðið erfitt að hafa stjórn á í framtíðinni. Ég er alls ekki að segja að það sé ómögulegt, en það er vísbendingar um að það sé hugsanlega ódýrara að gera eitthvað til mótvægis strax í sambandi við gróðurhúsalofttegundir, en að bíða og sjá hvað gerist.
Hér er spurning til þín Karl varðandi þetta;
PS. Takk fyrir plássið í athugasemdunum hjá þér Emil, ég var farinn að spá í hvað þú hefðir að segja um þennan ranghala.
Mbk.
Sveinn Atli
Sveinn Atli Gunnarsson, 20.1.2010 kl. 00:38
Ég skal skoða greinarnar...
Þú gerir ráð fyrir að CO2 hafi valdið hlýninni í fortíðinni en mér sýnist flest bendi til þess að hitastig hafi hækkað áður en CO2 hækkaði. Semsagt hitastigbreyting orsök fyrir breytingu í CO2. Sjá t.d. hér á youtube þar sem kemur einnig í ljós að þessi forsenda er mjög mikilvæg í kenningunni um hnattræna hlýnun. Hvað er þín skoðun?
Varðandi 800.000 árin þá trúi ég því að jörðin geti alveg verið yngri en þetta... Árafjöldinn er alltaf að breytast og ýmislegt sem bendir til þess að saga jarðar hafi amk ekki verið svo stöðug miðað við síðustu þúsundir ára, og að allt aðrar orsakir en CO2 hafi orsakað þær breytingar. Aðalatriðið að mínu mati sem hægt er að lesa úr þessu er í hvaða röð hlutirnir gerðust. T.d. hvenær fór CO2 að hækka miðað við hitastig?
CO2 hefur áhrif á hitastig jarðar því CO2 er gróðurhúsalofttegund. En ekki er nú mikið sem bendir til, að mínu mati, að það séu augljós tengsl milli CO2 og hitastigs, ekki ef maður skoðar smáatriðin. Áhrifin frá CO2 eru líklega það lítil að þau koma ekki fram ( þ.e. ef maður skoðar beinar hitastigsmælingar og hækkun CO2 en ekki tölvuspár). CO2 hefur hækkað um 100 ppm (0,01 % af lofthjúpnum) en þessi hækkun virðist ekki vera aðal orsök hlýnunar nú. Einnig þarf að hafa í huga að vatnsgufa er öflugri gróðurhúsalofttegund þótt hún hafi minni líftíma.
Karl Jóhann Guðnason, 20.1.2010 kl. 10:56
Hvað segirðu, heldurðu að jörðin sé yngri en 800.000 ára? Það eru nokkuð góðar heimildir fyrir því að jörðin sé rúmlega 4 milljarða ára gömul... Hvað telur þú annars að jörðin sé gömul og hvað veldur því mati þínu? Hvernig kemurðu t.d. þróunarkenningunni og reki landa inn í þann tímaramma.
Í sambandi við 800 ára seinkunina, þá má lesa um orsakir fyrri loftslagsbreytinga á Loftslag.is, þar segir m.a.:
Sveinn Atli Gunnarsson, 20.1.2010 kl. 12:13
Verð nú að segja til að vera alveg heiðarlegur að ég hallast að kristinni heimsmynd og tel að jörðin sé ekki 4 milljarða ára. Aldursmælingar eru ekki alltaf áreiðanlegar og til eru dæmi um það ásamt rökum fyrir að jörðin sé ekki mjög gömul heldur hafi verið hamfarir á einhverjum tímapunkti sem hafa líklega umbylt öllum setlögum.
Hér er heimildarmynd sem ég tel lýsa þessari heimsmynd og talar um rök fyrir því að jörðin sé ekki mjög gömul.
Ég tel að allt líf jarðar sé yngra en bergið sjálft. Ég myndi segja yngra en 100.000 ára en nákvæmar tölur er alltaf hægt að deila um og er oftast ekki aðalatriðið. En milljónir ára hvað þá milljarða trúi ég ekki.
Nú eru við komin út í aðra umræðu sem kannski hefur ekki mikið með hnattræna hlýnun.... og þó, kannski tengist þetta meira en virðist vera í fyrstu. Veit þó um aðra á blogginu sem hafa talað mikið meira um þetta nákvæmlega.
Karl Jóhann Guðnason, 20.1.2010 kl. 15:46
Ég held að þetta sé líka orðið alveg ágætt hér í bili og við ættum kannski ekki að hætta okkur út í heimsmyndaumræður hér og nú. Ég hef vissulega séð langar umræðubálka um það á blogginu, þó ekki í samhengi við loftslagsmálin.
Emil Hannes Valgeirsson, 20.1.2010 kl. 17:18
Er sammála Emil. Þakka fyrir að hafa fengið að skrifa hér og vonandi var það í lagi.
Karl Jóhann Guðnason, 20.1.2010 kl. 23:12
Mig langar að þakka þér Emil, fyrir plássið sem fór í þessar vangaveltur. Þetta var upplýsandi.
Sveinn Atli Gunnarsson, 21.1.2010 kl. 10:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.