Af snjóalögum á Setri

Í byrjun vetrar birti ég línurit sem ég hef útbúið og sýnir snjódýpt uppi á hálendinu fyrir sunnan Hofsjökul, nánar tiltekið við Setur þar sem skáli ferðaklúbbsins 4x4 staðsettur. Ég hef fylgst með snjódýptinni þarna í nokkur ár í gegnum eldri vef Veðurstofunnar en upplýsingar af snjódýptarmælinum og öðrum sjálfvirkum veðurathugunum birtast á vefnum.
Setur er í 693 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar er hvít jörð allan veturinn og snjódýptin oft vel á annan metra. Veturinn að þessu sinni hefur hinsvegar vegar nokkuð sérstakur og í samræmi við tíðarfarið hér á landi hefur snjódýptin á Setri ekki verið nema svipur hjá sjón, þrátt fyrir bratta byrjun í haust. Lengst af hafa hlýir og rakir vindar ráðið ríkjum eða að komið hafa talsverðir frostakaflar sem ekki hafa skilað af sér neinni úrkomu sunnan jökla. Af þessum sökum hefur snjódýptin rétt náð yfir 20 cm núna í janúar, en ekki 70-130 cm eins og venjan hefur verið síðustu ár.


Snjódýpt SETUR jan 2010

En viti menn. Núna um mánaðarmótin þegar ég gerði mína hálfsmánaðarlegu uppfærslu á línuritinu tók ég eftir því að snjódýptin hafði rokið upp úr öllu valdi að kvöldi hins 30. janúar og var skyndilega komin í 110 cm. Úrkomumælirinn sýndi 25 mm úrkomu og virðist þetta hafa fallið bara á nokkrum mínútum. Hinsvegar var veðrið þennan dag mjög gott um allt land og ekkert tilefni til svona skyndilegs fannfergis. Það sem skyggði þó á annars ágætis helgi var hið hörmulega slys áLangjökli en atburðirnir þar tengjast reyndar að hluta snjóleysinu áhálendinu.

Setur_30janSnjódýptarmælirinn, sem er staðsettur nokkuð frá Skálanum sjálfum, hefur að vísu átt það til að bila eða tekið upp hjá sjálfum sér að sýna skyndilega mjög hátt gildi og haldast þannig langtímum saman og kemur eitthvað slíkt alveg til greina. Hinsvegar finnst mér sérstakt ef þetta er bilun að á sama tíma hafi úrkomumælirinn rokið upp. Skyndilegur skafrenningur kemur þó varla til greina því vindmælirinn sýnir ekkert óvenjulegt. Semsagt, þessi 90 cm aukna snjódýpt á Setri er eitthvað sem ég á erfitt með að samþykkja.

Hitt er svo annað mál að samkvæmt heimasíðu ferðaklúbbsins 4x4 var hið árlega þorrablót félagsins haldið einmitt um þessa helgi og allt gott um það að segja, sennilega var það hið eina sem raskaði ró hálendisins þarna á þessum annars fáförnu slóðum. Hvort sú samkoma hafi haft einhver áhrif á snjómælinguna þarna, veit ég hinsvegar ekkert um.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Mælir kominn í lag. Sýnir nú 25 cm.

Emil Hannes Valgeirsson, 4.2.2010 kl. 17:08

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Það er spurning um að reyna að komast aðeins að því hvað ferðaklúbburinn var að brasa :)

Höskuldur Búi Jónsson, 4.2.2010 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband