12.2.2010 | 21:48
Heklugos á þessu ári?
Þessi gos á um 10 ára fresti frá 1970 hljóta að vera óvenju reglubundinn, það var bara árið 1991 sem hún gaus ekki á ártali sem endar á núlli, en frávikið frá þeirri reglu var að vísu bara 17 dagar. Smágos árið 1981 var eiginlega bara smápúst eftir 1980 gosið.
Heklugos 1991
Það er alltaf heilmikið fár í kringum Heklugos og þessi síðustu gos eru í rauninni það lítil að þau eru fólki frekar skemmtunar en til tjóns, en til að fá alvöru Heklugos af fullum styrk þarf eldstöðin þó nokkra áratugi til að hlaða sig almennilega. Nema svo ólíklega vilji til að Hekla taki upp á því að hrynja saman með látum ofan í kvikuhólfið og mynda öskju. Það er af sumum talið að hafi gerst fyrir um 4 þúsund árum og í framhaldi af því hafi liðið dágóður tími uns fjallið fór að byggjast upp aftur, enda þurfti mörg eldgos til að fylla upp í öskjuna. Ef þetta er rétt þá hefur Hekla verið mun lítilfjörlegri við landnám en hún er í dag. Við hvert gos hleðst utan á fjallið sem fær sífellt meiri lögun eldkeilu með tímanum. Annars er Hekla stundum talin vera eldhryggur, en samkvæmt því sem Ari Trausti segir í bókinni Íslandseldar þá hefur Hekla verið að þróast í átt til eldkeilu frá því að vera eldhryggur, eins og í árdaga eldstöðvarinnar fyrir um 7 þúsund árum, og þá kannski með millibilsástandi sem askja.
Hér á eftir er stutt yfirlit yfir 10 ára gosin í Heklu og ýmist þeim tengd:
1970. Fyrsta áratugagosið í Heklu hófst þann 5. maí með öflugu gosi í Heklugjánni samkvæmt venju og einnig í Skjólkvíum norðan fjallsins. Gosið stóð ekki lengi í fjallinu en hélt áfram í Skjólkvíum í um tvo mánuði og fylgdi því nokkurt hraunrennsli. Þetta gos er því stundum nefnt Skjólkvíagosið og var mjög aðgengilegt til skoðunar. Þetta er líka fyrsta eldgosið á Íslandi sem ég man eitthvað eftir sjálfur, aðallega þó vegna þess að pabbi fór austur á gosstöðvarnar og kom heim með myndarlegan hraunmola sem mér þótti merkilegur.
1980. Það átti enginn von á því að Hekla skyldi taka upp á því að gjósa þetta ár eftir aðeins tíu ára hvíld. Gosið hófst á fallegum sumardegi þann 17. ágúst og náðust myndir af upphafsstigum gossins þegar verið var að kvikmynda hestamannmót á Hellu, (frekar en á Hvolsvelli?). Eins og venjulega varð mikil traffík austur að gosstöðvunum og var ég þar á meðal, þó ég hafi ekki séð gosið nema úr nokkurri fjarlægð í kvöldrökkri. Gosið 1980 fjaraði mjög fljótt út og lauk aðeins fjórum dögum síðar. Talað var um að það gæti tekið sig upp á ný. Það gerðist þó ekki fyrr en í apríl árið eftir, með smávægilegum eldsumbrotum og hraunrennsli í fjallinu sjálfu.
1991. Þann 17. janúar stóð heimurinn á öndinni vegna margboðaðs Persaflóastríðs. Hér á landi stal Hekla þá óvænt senunni með sínu þriðja 10-ára gosi. Þetta var einn fréttaþrungnasti dagurinn á seinni tímum, en sama dag andaðist Ólafur Noregskonungur 87 ára að aldri. Heklugos þetta stóð alveg fram til 17. mars. Það var hefðbundið í fyrstu en var síðan lífseigast í einum gíg í austurhlíð fjallsins. Að þessu sinni fór ég í útsýnisflug yfir gosstöðvarnar og er myndin sem fylgir úr þeirri ferð. Sumarið áður fór ég hinsvegar í mína fyrstu og einu Heklugöngu, allsendis grunlaus um að stutt væri í Heklugos. Það var ekki fyrr en eftir gosið 1991 að menn áttuðu sig á þessari nýju goshegðun farið var að tala um Heklugos á um 10 ára fresti.
2000. Fjórða 10-ára gosið hófst þann 26. febrúar með hefðbundnum krafti í eldhrygg Heklu. Frægast við þetta gos er tilkynningin sem lesin var upp í útvarpi um hálftíma áður en gosið hófst. Þá var liðinn annar hálftími frá því öruggar vísbendingar sáust um yfirvofandi Heklugos. Einu vandræðin sem tengdust þessu gosi urðu þegar forvitnir ferðalangar urðu strandaglópar í Þrengslunum vegna stórhríðar sem skall á síðdegis daginn eftir að gosið hófst. Annars var þetta gos nokkuð svipuð hinum fyrri, eldurinn var einungis upp í fjallinu sjálfu og fjaraði smám saman út á 11 dögum.
- - - -
Að lokum má minnast á að í hinni árlegu og algerlega óábyrgu spá minni frá síðasta hausti, mat ég það svo að 37% líkur væru á því að næsta gos hér á landi yrði í Heklu. Þar á eftir komu Grímsvötn með 20% og Katla með 13%. Sjá: Hvar verður næsta eldgos á íslandi?
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Jarðfræði | Breytt 21.2.2010 kl. 21:17 | Facebook
Athugasemdir
Sæll frændi.. ég má til með að senda þer þessa geimskotsmynd!!
http://antwrp.gsfc.nasa.gov/apod/ap100213.html
kveðjur
Bjorn
Björn Emilsson, 14.2.2010 kl. 05:35
Glæsileg raketta, Björn.
Emil Hannes Valgeirsson, 14.2.2010 kl. 12:11
Það væri nú gaman að fá eitt lítið túristagos bráðum - helst í mars, svona 24. mars - já ætli það væri ekki fínt, rétt fyrir páska
Höskuldur Búi Jónsson, 17.2.2010 kl. 20:45
Það væri alveg kjörið að fá eitt páskagos og yrði örugglega samþykkt einróma af þjóðinni. Nema kannski ekki af þeim sem ætla sér að príla upp á Heklu akkúrat þá.
Emil Hannes Valgeirsson, 17.2.2010 kl. 22:35
Það mætti kannski bæta við fréttaannálinn frá gosinu 1991 að það kviknaði líka um nóttina í skíðaskálanum í Hveradölum, gárungar sögðu að eitt Scud-flugskeyti hefði borið af leið.
Og miðað við reynsluna af síðasta gosi (2000) væri líklega betra að næst væri stefnt á að hafa þetta að vori eða sumri þegar eru betri akstursskilyrði...
Sveinn í Felli (IP-tala skráð) 22.2.2010 kl. 12:16
Það er rétt Sveinn í Felli, það þarf að vanda tímasetninguna vel. Það væri líka gott ef heimspressan sé ekki of upptekin af einhverjum öðrum stóratburðum út í heimi.
Emil Hannes Valgeirsson, 22.2.2010 kl. 13:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.