Plötukynning - Communique með Dire Straits

Það er allur gangur á því hvernig maður kynnist nýjum hljómsveitum. Stundum er maður lengi að taka við sér og sumar hljómsveitir þekkir maður alveg ágætlega hvort sem manni líkar þær vel eða illa. Tilfellið með hina víðfrægu hljómsveit Dire Straits var hinsvegar það að þá hljómsveit uppgötvaði ég, að ég tel sjálfur, upp á mitt eigið einsdæmi en þó án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um hljómsveitina, enda var þetta nokkuð áður en tónlist þeirra tók að hljóma í útvörpum, allavega þannig að ég yrði þess var. Það átti þó eftir að breytast því Dire Straits (eða þröng sund eða kröpp kjör) átti eftir að vera ein af vinsælustu og dáðustu hljómsveitum heimsins á fyrri hluta níunda áratugarins áður en hún datt eiginlega upp fyrir vegna of mikilla og skjótra vinsælda, en kannski ekki síður vegna þess að hún var hún orðin hálfgerð tímaskekkja innan um allt „eighties“ glysrokkið.

CommuniqueEn það sem ég ætlaði að segja var að þegar ég var nýskriðin upp úr fermingu árið 1979, uppgötvaði ég plötu sem stóra systir hafði keypt í útlöndum. Platan hét Communique og var umslagið bláleitt með óræðri mynd af manni á strandgöngu í umslagi, mjög huggulegt. Nafnið á hljómsveitinni Dire Straits sagði mér ekkert og nöfnin á hljómsveitar- meðlimum því síður. Þarna voru tveir sem hétu Knobfler og þeir gátu allt eins verið Hollendingar. Þetta virtist allt vera frekar góðir gæjar, lausir vil prjál og stjörnustæla samkvæmd myndunum af þeim sem fylgdi. En tónlistin sem þarna leyndist að baki var ekki bara hvað sem er. Ég var að vísu ekki mjög veraldarvanur í tónlist á þessum tímum, en fyrir þessari músik féll ég algerlega og því meir sem oftar var hlustað. Þarna var á ferðinni einhver snilld sem ég hafði ekki kynnst áður. Dálítið seiðandi og hægvirkt rokk með svakalega fínu gítarspili og góðum melódíum. Söngvarinn frekar hrjúfur í röddinni og letilegur. Lítið spáði ég þó í textana enda skiptu þeir eiginlega engu máli. Í þessu tilfelli var það tónlistin sem átti orðið – ekki bara gítarleikurinn heldur hljómurinn í hljómsveitinni í heild og takturinn svona almennt séð.

DS_medlimirÓhjákvæmilega átti ég svo eftir að að kynnast þessu fyrirbæri Dire Straits miklu betur. Knobflerarnir tveir voru bræður og var annar þeirra aðalsprauta hljómsveitarinnar og eitt af séníum tónlistarsögunnar. Hinn bróðirinn, ritmagítaleikarinn David (lengst til hægri á myndinni) yfirgaf hljómsveitina áður en næsta plata kom út, til að hefja sólóferill. Síðan hefur ekkert til hans spurst. Platan Communique var önnur plata Dire Straits og kom út skömmu eftir að hið frábæra lag Sultans of Swing af fyrstu plötunni sló loksins í gegn utan Bretlands. Þessar tvær fyrstu Dire Straits plötur eru báðar í miklu uppáhaldi hjá mér enn í dag, en þar sem ég kynntist Communique á undan á ég erfitt með að viðurkenna það sem almennt er álitið að frumburðurinn standi Communique heldur framar. Á næstu plötum Dire Straits var lagt út í metnaðarfullar tilraunir til að stækka lögin og lengja. Vinsældir og hróður hljómsveitarinnar jókst sífellt og náði algeru klímaxi með plötunni Brothers in Arms árið 1985. Þegar þar var komið við sögu fannst mér ég eiga lítið í þessari hljómsveit sjálfur, hún var orðin almannaeign og of vinsæl fyrir minn smekk. Platan Communique er hinsvegar alltaf Dire Straits platan mín. Þar var einhver ómengaður frumkraftur enn til staðar og þetta er enn í dag meðal allra áheyrilegustu hljómplatna sem ég hef kynnst.

Hér má sjá Dire Straits á litlum sjónarpskammertónleikum árið 1979. Lagið er Single-Handed Sailor af Communique sem er nánast óþekkt Dire Straits-lag, en feikna gott engu að síður og með löngu gítarsólói í lokin.

Lagalisti Communique: Framhlið: 1.Once Upon a Time in the West, 2.News, 3.Where Do You Think You're Going?, 4.Communiqué. Bakhlið: 1.Lady Writer, 2.Angel of Mercy, 3.Portobello Belle, 4.Single-Handed Sailor, 5.Follow Me Home. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Algert uppáhald. Takk fyrir þetta. Ég reyni að komast yfir flest frá meistara Knopfler þessa nú til dag, enda er hann afar virkur.  Gaman er að hlusta á dúetta sem hann tekur með Chet Atkins m.a., þar sem ótrúleg gítarfærnin nær hæstu hæðum. Þvilíkir meistarar.

Ég birti oft lög með þeim á mínu bloggi og þá sérstklega eitthvað af Brothers in Arms, sem á sér sérstakan sess í minningunni.  Þegar bankarnir hrundu þá tók ég eitt lag með Knoffler og gerði Íslenskan texta við það um útrásarvíking í felum á Bahamas. Lagið var Postcards from Paraguay, enda textinnn ansi nærri þeim veruleika sem við sáum þá, svo ekki þurfti að skálda mikið í eyðurnar.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.2.2010 kl. 01:35

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Afsakaðu flýtivillur og rugl. Alltaf pirrandi að uppgötva þa eftir að maður ýtir á "senda".

Þarna átti að standa: Ég reyni að komast yfir flest frá meistara Knopfler nú til dags.

Jón Steinar Ragnarsson, 28.2.2010 kl. 01:36

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir þetta, Emil Hannes.

Nú á ég þér skuld að gjalda.

En Dire Straits eru meðal minna eftirlætishljómsveita.

Jón Valur Jensson, 28.2.2010 kl. 01:40

4 identicon

Dire Straits er en besta hljómsveit allra tíma, fáir komast með tærnar þar sem meistari Knopfler er með hælana.

Gaman að sjá að ég og JVJ eigum eitthvað sameiginlegt :)

DoctorE (IP-tala skráð) 28.2.2010 kl. 12:26

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hér sameinast menn um Dire Straits eins og „Brothers in Arms“

Emil Hannes Valgeirsson, 28.2.2010 kl. 16:14

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Music is god.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.3.2010 kl. 22:53

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Music is good indeed, that's what you wanted to say, Mr Namesake!

Jón Valur Jensson, 2.3.2010 kl. 01:23

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

GOD.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.3.2010 kl. 01:55

9 Smámynd: Kama Sutra

Mögnuð tónlist.

Meira að segja við forhertustu trúleysingjarnir heyrum stundum eitthvað guðdómlegt klingja í eyrum þegar hlustað er á Dire Straits.   Sálin flýgur í hæstu hæðir.

Ja hérna, ég vissi ekki að ég ætti það til að verða svona væmin...

Kama Sutra, 2.3.2010 kl. 03:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband