Sölvi Helgason og vísindin

Undanfarna mánuði hef ég verið að lesa bók Davíð Stefánssonar, Sólon Íslandus sem segir af hinum undarlega Sölva Helgasyni. Bókin kom út árið 1940 og er með skemmtilegustu lesningum sem ég hef komist í og er ég því ekkert að flýta mér við lesturinn. Þetta er þó ekki bara hreinn skemmtilestur enda var lífshlaup Sölva Helgasonar enginn dans á rósum. Sölvi var af fátæku fólki kominn, missti föður sinn á barnsaldri en erfði þó frá honum óbilandi áhuga á grúski ýmiskonar við lítinn skilning sveitunganna.

Sölvi málverkSölvi þráði heitt að verða mikilsvirtur vísinda- og listamaður og taldi sjálfan sig bera af í gáfum og andagift. Hans ógæfa var hinsvegar sú hvað hann var erfiður í skapi og hraðlyginn og fékk því flesta á móti sér hvar sem hann kom sér fyrir og varð að lokum alræmdur um allt land. Þegar hann flakkaði um landið í sjálfskipaðri útlegð sinni naut hann sín best þegar hann gat villt á sér heimildir, enda þekktu fæstir þennan flökkumann í sjón. Ég ætla að leyfa mér að birta hér smákafla úr bókinni þar sem Sölvi hefur gert sig heimakominn á bæ einum á Möðrudalsöræfum og fer mikinn um eðli vísinda og meint afrek sín á sviði plöntu- og loftslagsfræða:

Bóndi mælti: Tók ég ekki rétt eftir því áðan, að þú hefðir verið við ýmsar athuganir á leiðinni?
Rétt er það sagði Sölvi með mestu ró. Vísindalegar rannsóknir. … Það er ekki mikið um æðri blómjurtir á sandinum, en vísindin leggja ekki síður rækt við lægri gróðurinn, jafnvel þann sem almenningur sér ekki með berum augum. Flestum sýnast öræfin gróðurlaus sandauðn, en við nákvæma rannsókn hef ég komist að öðru. Ég hef fundið þar örsmá strá og blóm, sem áður voru ókunn hér á landi og álitið var, að yxu hvergi nema suður á Afríkumelum.
O, hvern andskotann eru menn svo bættari? sagði bóndi.
Af því má leiða ýmsar tilgátur, af tilgátum sannanir, en af þeim skapast staðreyndirnar. Ég hef fært vísindaleg rök að því í erlendu fræðiriti, að hér á Íslandi var einu sinni jafn heitt og í Afríku. Þá uxu hér pálmar og rúsínutré.
Andskota ögnina, sagði bóndi og spýtti. Börnin störðu hugfanginn á gestinn.
Nú, vísindamaður verður auðvitað að rannsaka fleira en gróðurinn, þó að hann sé mikilsverður. Ég verð að athuga jarðveginn, sér í lagi jarðlögin; þar les ég sköpunarsögu jarðar og þroskasögu mannkynsins. Oft verð ég að klífa þrítuga hamra, stundum hef ég sigið niður í jökulsprungur og botnlausar gjár. Vísindamaðurinn verður að hætta lífi sínu í þarfir sannleikans og spekinnar.
En að hvaða gagni kemur svo þetta vísindapuð ykkar?
Fyrst þarf að rannsaka og mæla, svo að teikna og mála og reikna út. … Nú er það sannað, að hér var eitt sinn sama loftslag og í Afríku.
Hérna á fjöllunum?
Á öllu Íslandi. En þá er spurningin: hvers vegna er það ekki eins núna, eða að minnsta kosti hlýrra en það er? Fyrir þann sannleika má grafast fyrir með allskonar mælingum á ljósi og hita og ekki síst straummælingum, bæði hafstrauma, loftstrauma, ljósstrauma og ýmissa duldra flugstrauma, sem við lærðir menn nefnum flumina spiritualibus. Nú, þegar staðreyndin er fundin, þá er grundvöllurinn fundinn. Þá liggur næst fyrir að athuga: er ekki hægt að breyta loftslaginu, hita andrúmsloftið að nýju? Til þess þarf nákvæma rannsókn á höfuðskepnunum, sólkerfinu og vetrarbrautinni, en þar kemur reikningsgáfan að góðu haldi. Eitt dæmi getur tekið hálærðan reiknimeistara tvö til þrjú ár. … Þetta nefnum við vísindi. – Með næstu skipum á ég von á fullkomnum stjörnukíki frá París – og þá vona ég að mér takist að leysa gátuna.
Hita andrúmsloftið? sagði bóndinn háðslega.
Já og bræða jöklana –
Hættu nú hreint.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Svei mér þá ef Sölvi hefur ekki verið langt á undan sinni samtíð. Ja hérna. Ég sé ekki betur en hann hafi í aðalatriðum rétt fyrir sér. Svei mér þá

Ágúst H Bjarnason, 16.3.2010 kl. 22:43

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Hita andrúmsloftið - Hættu nú hreint

Höskuldur Búi Jónsson, 16.3.2010 kl. 23:02

3 Smámynd: Kama Sutra

Kama Sutra, 17.3.2010 kl. 06:22

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ekki var það Sölvi sem var þá á undan sinni samtíð, heldur Davíð sem skáldaði þetta.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.3.2010 kl. 16:37

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Textinn er sjálfsagt Davíðs, en þar sem sagan er byggð á raunverulegri persónu getur verið erfitt að segja til um var skáldskapurinn byrjar.

Annars hefði Davíð Stefánsson alveg mátt skrifa fleiri skáldsögur en þessa einu.

Emil Hannes Valgeirsson, 17.3.2010 kl. 17:26

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég man þegar Þorsteinn Ö. Stephensen las söguna fyrst í útvarpið 1958 og sá lestur var endurtekinn fyrir skömmu. Allt landið hlustaði.

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.3.2010 kl. 22:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband