Kort - Þegar hraunið nær niður á láglendi

 Goskort 24. mars

Ef gosið heldur áfram í einhvern tíma mun óhjákvæmilega koma að því að hraunið sem fellur niður Hrunagil muni ná niður á sléttlendið við Þórsmörk. Þá gæti tekið við athyglisvert samspil hraunsins og jökulánna sem þar renna. Einn möguleikinn gæti litið svona út eins og ég hef teiknað inná kortið en ég tek fram að þetta eru bara vangaveltur. Ef hraunið er þykkt og hægfljótandi gætu skapast þær aðstæður að hraunið nái að stífla jökulkvíslina sem rennur úr Tungnakvíslarjökli og jafnvel sjálfa Krossána með þeim afleiðingum að vatnið safnist í uppistöðulón innan við hraunið. Vatnið mun þó alltaf finna sér leið framhjá hrauninu að lokum og renna þá meðfram hlíðunum. 

Gosinu á Fimmvörðuhálsi hefur verið líkt við Heimaeyjargosið en hraunið sem þar rann var þykkt og myndaði háan hraunkamb sem kjörinn er til að stífla gil og smádali eins og þarna eru í Þórsmörkinni. Auðvitað veltur þetta allt á því hversu lengi gosið mun vara. En nú þegar hefur verið talað um nokkurra vikna- eða jafnvel mánaðalangt gos, og má samkvæmt því búast við ýmsu. Ég sleppi því hins vegar að spá í hversu langt hraunið mun renna í átt að Básum og Langadal.

Kortið er úr ÍSLANDSATLAS Eddu-útgáfunnar. Það birtist stæra við nokkrar smellingar.


mbl.is Hraunslettur þeytast hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Virkilega þarfar vangavelturhjá þér Emil og kortið er mjög skýrt. Kannski þyrftu menn að fara að huga því,og það fljótt, hvort hægt sé að að gera eitthvað til varnar hraunrennslinu eða stýra því með fyrirstöðum eða vatnsdælingu. Það versta sem gæti gerst er að það myndaði fyrirstöðu eins og þú sýnir og einhverskonar lón sem þyrfti ekki að vera djúpt til að Þórsmörkin yrði ekki söm eftir. Einnig gætu komið hættuleg flóð ef lónið sem myndaðist tæmdist hratt 

Sigurður Ingólfsson, 24.3.2010 kl. 21:29

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Skemmtilegar pælingar að vanda, mér sýndist (ef eitthvað var að marka myndir í sjónvarpinu) að þetta væri frekar seigfljótandi hraun - en það getur breyst...

Höskuldur Búi Jónsson, 24.3.2010 kl. 21:30

3 Smámynd: Baldvin Björgvinsson

Hvernig væri nú bara að leyfa náttúrunni að hafa sinn gang.

Baldvin Björgvinsson, 24.3.2010 kl. 22:55

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Á þessum stað sérstaklega færi kannski best á því að leyfa náttúrunni að hafa sinn gang. Ef hraunið er svona seigfljótandi ætti það ekki ná að renna langt út eftir Þórsmörkinni. Líklegra finnst mér að það hlaðist upp þarna innst í Þórsmörkinni. En sjáum til.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.3.2010 kl. 23:18

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Fróðlegar og skemmtilegar pælingar.  Tvær spurningar, ef einhver gæti svarað þeim.

Hversu mikið af gosefni (hrauni) þarf til að stífla myndist (gróft reiknað)? Og til samanburðar, hversu mikið af gosefni kom upp í Vestmannaeyjagosinu?

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.3.2010 kl. 00:03

6 Smámynd: Bjarni Óskar Halldórsson

Veit Landsvirkjun af þessu! Verður ekki bara frábært að fá þarna uppistöðulón frá náttúrunnar hendi og virkja svo í framhaldi. Þarf sennilega ekki umhverfismat á lónið. Svo fáum við malbik alla leið í Þórsmörk og engin fyrirstaða í Krossá. Álver gæti síðan risið nærri nýja bryggjustæðinu fyrir Vestmannaeyjaferjuna.

Bjarni Óskar Halldórsson, 25.3.2010 kl. 00:39

7 Smámynd: Jonni

Þetta eru skemmtilegar pælingar.  En ef hraunið er svona seigt hljóta að vera takmörk fyrir því hvað það getur runnið langt.  Ég myndi halda að hraunið væri orðið of kalt og stíft til þess að renna, löngu áður en komið er niður Hrunagil.  Þess vegna muni það hlaðast upp í gilinu.  Sennilega niður að  Múlatungum. Vari hinsvegar gosið í langan tíma getur verið að gilið fyllist hreinlega og þá verður leiðin greiðari niður að Krossá fyrir hraunið. 

Ég tek það fram að ég er ekki jarðfræðingur og get því leyft mér að koma með fullyrðingar um hraunflæði og spár um þróun eldgosa.

Jonni, 25.3.2010 kl. 12:21

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er um að gera fyrir okkur leikmenn að koma fram með óábyrga spádóma og vangaveltur. Ábyrgir vísindamenn þora yfirleitt lítið að segja.

Emil Hannes Valgeirsson, 25.3.2010 kl. 14:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband