27.4.2010 | 21:12
Dare með The Human League - Plötukynning
Það er stundum talað um að hinar og þessar hljómsveitir séu miklir áhrifavaldar í tónlist. Þessir áhrifavaldar eru kannski ekki alltaf einhver stórveldi í tónlistarsögunni, eru jafnvel bara lítt þekkt smáveldi og jafnvel óðum að gleymast. Hljómsveitin The Human League þykir af mörgum vera í þessum flokki og þá sérstaklega vegna þeirra þriðju breiðskífu sem kom út árið 1981 og nefndist DARE en hún þykir gjarnan vera ein þeirra verka sem gáfu tóninn í hljóðgervla-glyspoppinu sem einkenndi næstu árin, eða eitís-poppinu svokallaða.
Plötuna DARE eignaðist ég þegar hún kom út seint á árinu 1981. Tónlistin fannst mér afar nútímaleg eða kannski frekar framtíðarleg og svona hélt maður að tónlistin myndi verða í framtíðinni. Þarna voru bara hljómborð og hljóðgervlar - enda var þetta oft nefnt tölvupopp, sem var nýyrði á þessum árum og svo mátti líka heyra þennan kalda og tilfinningalausa nýrómantíska söngstíl sem einkenndi tímabilið og var alveg í samræmi við vélræna spilverkið á bakvið. Á plötuumslaginu birtust hljómsveitarmeðlimir stífmálaðir og mátti vart sjá hvors kyns hver var. Það var líka eitt af tískueinkennum þessa tíma að gera karlmenn kvenlega og konurnar karlmannlegar, kannski átti það að verða þannig í framtíðinni.
Sögu The Human League má rekja aftur til ársins 1977 þegar tveir strákar í Sheffield, Ware og Marsh, fóru að fikta við framúrstefnulega raftónlist í anda Kraftwerk. Það fjölgaði í bandinu og þeir fengu hinn snoppufríða Philip Oakey til að sjá um söng og náðu útgáfusamningi við Virgin útgáfuna. Út komu tvær breiðskífur sem náðu engri sérstakri hylli utan takmarkaðs hóps. Áður en upptökur á þriðju plötunni hófust kom upp týpískur tónlistarlegur ágreiningur, meðal annars vegna pressu frá útgáfufyrirtækinu sem vildi aðgengilegri tónlist. Það varð til þess að stofnfélagarnir tveir hættu en söngvarinn Phil Oakey sat einn uppi með hljómsveitina. Þá var ráðist í endurmönnun sem fólst meðal annars í að ráða tvær unglingsstelpur sem Oakey fann á djamminu og bauð hann þeim að syngja og dilla sér með hljómsveitinni. Þetta voru þær Sulley og Catherall sem hafa verið með allar götur síðan.
Það var hinn nýji Human League hópur sem á heiðurinn að baki DARE plötunni. Áður en hún kom út náðu þrjú smáskífulög inn á top 10 í Bretlandi en platan sjálf fór rakleiðis á toppinn þegar hún kom út í október 1981. Hljómsveitin náði greinilega til stærri hóps en áður án þess að tapa sínum framúrstefnulega hljómi. Síðasta lagið Don't you want me var talsvert poppaðra og hefðbundnara en önnur en var veikasta lagið að mati Philip Oakey sem vildi helst ekki gefa það út á smáskífu. Það var þó gert og sló svo rækilega í gegn beggja vegna Atlantshafsins að hljómsveitin náði aldrei almennilega sínum rétta takti á ný. Allt sem hópurinn gerði eftir þetta féll í skuggann af hinni mögnuðu DARE plötu og ekkert lag átti eftir að leika eftir fyrri árangur.
Sjálfur er ég eiginlega sammála Oakey með þetta Don't you want me-lag. Þegar það sló í gegn hér á landi sumarið 1982 fékk ég satt að segja nóg af þessari hljómsveit og platan var varla sett á fóninn eftir það. Mér fannst platan eldast illa og þetta tölvuteknó eiginlega bara hálf hallærislegt. En kannski var þetta ósanngjarnt því þegar ég set plötuna á fóninn eftir öll þessi ár, heyri ég hvað þetta er í raun merkileg plata og jafnvel á undan sinni samtíð þótt því fari fjarri að öll tónlist hljómi svona í dag.
Lagið sem ég valdi af YouTube heitir Do or Die. Það kannast örugglega mjög fáir við það, en þetta er bara þetta fína teknópopp með miklu instrumentali og þarf helst að spilast á fullum styrk allt til enda.
- - - - -
Þetta var plötukynning mánaðarins en hún er mánuði á eftir áætlun vegna eldgoss.
Heimildir eru héðan og þaðan.
Uppfærsla 18.des. 2015: Örfáar prentvillur lagaðar.
Athugasemdir
Vegna eldgoss? Allt eru menn nú farnir að nota sem afsökun.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 01:39
Hér eru sko engin 17 blogg á dag.
Emil Hannes Valgeirsson, 28.4.2010 kl. 08:35
Nei, hér er það vandvirkni og yfirvegun sem ræður ferðinni, annað en hjá mér, ofvirka asnanum!
Ertu annars búinn að gera Hamfarakortið klárt í prentun? Það þyrfti að hengja það upp á öllum túristastöum fyrir sumarið.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 11:21
Ég held ég geri ekkert meira við hamfarakortið, en það mun víst hafa gengið einhverja hringi í netheimum.
Annars virðist enginn ætla að tjá sig um Human League. Það kemur mér svo sem ekkert á óvart. Lesendur mínir eru kannski ýmist of ungir eða gamlir fyrir þetta 30 ára gamla táningapopp. Spurning líka hvort nokkur hafi nennt að hlusta á lagið til enda.
Emil Hannes Valgeirsson, 28.4.2010 kl. 17:23
Hey, þetta er flott lag! :D Fyrsta hljómsveitin sem ég sá á tónleikum, í Laugardalshöll árið 1982. Þá var ég nýfermt kríli, og fannst Phil Oakey alveg rosalega sææætur... hehe...
Gunnhildur Reynisdóttir (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 18:47
Ég segi það sama og þú Emil um þetta ... Ég var að vinna í plötubúð á árunum '79 til '84 og fékk alveg nóg af Don't You Want Me og bara af öllu þessu tölvupoppi sem tröllreið öllu á þessu tímabili, þannig að ég gaf plötunni sjálfri kannski aldrei sanngjarnan séns. En líklega er það satt sem þú segir, þetta var líklega stórmerkileg hljómsveit sem ætti skilið meiri viðurkenningu.
En hvað þá með t.d. Ultravox, Gary Neuman, Yazoo og marga fleiri?
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 19:28
Eiginlega var það þannig á þessum tímum að ef litlar fermingarstelpur fóru að fíla þær hljómsveitir sem maður hlustaði á, þá gaf maður þær alveg upp á bátinn. Ég er samt ánægður með að Gunnhildur sé sammála mér með „Do or Die“.
Þessar þrjár hljómsveitir eru auðvitað líka merkilegar og voru á þessari sömu línu. Gary Neuman var kannski meiri brautryðjandi í þessu tölvupppi en ég hlustaði ekki mikið á hann á sínum tíma. Þessar hljómsveitir virðast ekki hafa enst lengi eftir að nýjabrumið var horfið og margt af þessu varð frekar hallærislegt með tímanum. Cars lagið hans Gary Neuman er þó t.d. alltaf flott og Vienna með Ultravox og auðvitað mörg fleiri.
Emil Hannes Valgeirsson, 28.4.2010 kl. 21:00
... t.d. Only You með Yazoo ... auk þess sem sú sveit ruddi brautina fyrir hina ágætu söngkonu Alison Moyet sem nýtur enn mikillar hylli, sérstaklega í Bretlandi.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 2.5.2010 kl. 08:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.