Er að spá í hvað ég á að kjósa

Þegar þetta er skrifað er runninn upp  mikill kosningadagur sem gæti orðið sögulegur. Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvað ég á að kjósa en ólíkt mörgum finnst mér ýmislegt boðlegt í boði. Á maður að taka grínið á þetta eða láta alvöruna ráða hvernig ég greiði atkvæði?

Sjálfur er ég nokkuð hrifinn af léttu gríni og gæti vel hugsað mér að kjósa rússneska lagið sem er mjög harmrænn og fallegur tregasöngur en það þarf að hlusta á það með húmorinn í huga. Skemmtilegustu lögin duttu þó út í forkeppninni að mínu viti, Hollenska Geirmundarsveiflan hefði alveg mátt vera með og líka Slóvenska lagið sem blandaði saman þjóðlagahefð og gallabuxnarokki og virkaði bara stórskemmtilega á mig. Finnsku harmoníkustelpurnar voru líka bara skemmtilegar og hefðu gjarnan mátt vera með. Króatísku þokkadísirnar duttu óvænt út en þær voru með flott lag eins og sú sænska, kannski vantaði einhvern afgerandi kraft í þessi atriði þegar á sviðið var komið. Slóvakíska skógardísin náði því miður ekki að halda lagi í undankeppninni og varð því lítt ágengt.

Annars er athyglisvert hvað vönduð lög koma frá Kákasuslöndunum og þeim framandi slóðum, miklar og flottar skvísur með alveg hörkulög, ekki síst sú fyrsta sem stígur á svið en það er hin Azerbajdaníska Safura sem drip droppar með miklum tilþrifum. Frakkarnir eru alltaf flottir í Eurovision og nú er það hin blakki Jessi Matador sem ætlar að trylla lýðinn með miklu „Ola Ole“-stuði. Þýskaland teflir fram líflegri stelpu sem syngur með sérstökum „kokney“-enskuhreim“. Grikkir eru að venju með ógurlega flugeldasýningu og drumsbuslátt til heiðurs Grikkjanum Zorba og eru alltaf sigurstranglegir.

Ýmis önnur lönd mætti telja upp sem gætu hugsanlega unnið keppnina þó framlög þeirra höfði ekki öll til mín. Við verður svo að gera okkur grein fyrir því að Íslenska eldfjallið - Hera Björk, gæti stolið senunni með þeim afleiðingum að við vinnum keppnina. Það eru meiri líkur á því nú í ár en í fyrra því þá var alltaf vitað að norska lagið myndi vinna, sem það og gerði.

Hvað ég kýs verður bara að ráðast í kvöld. Í dag mun ég hinsvegar taka þátt í öðrum kosningum þar sem málið snýst um að kjósa í borgarstjórn. Sumir virðast þó misskilja þær kosningar - telja að þar eigi að kjósa það sem er skemmtilegast, svona eins og það sé verið að kjósa í skemmtinefnd.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Spái því að rússneska lagið vinni með nokkrum yfirburðum ... tek samt fram að ég hef ekki heyrt þessi fimm lög sem koma "sjálfvirkt" inn í kvöld ... veit t.d. að Frakkar heilla marga. En ... sem sagt ... ef ekkert þessara fimm vinnur, þá vinnur það rússneska.

Spái Heru 6 til 8 sæti ... sama og ég spáði Jóhönnu í fyrra, en þá var ég auðvitað með norska sigurvegarann á hreinu eins og flestir.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 29.5.2010 kl. 14:53

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Á maður ekki að vera bjartsýnn fyrir Íslands hönd og spá laginu hærra en 6. sætinu, vill þó ekki vera nákvæmari en það

Það eru nokkur alveg ágæt lög í þessari keppni og mér finnst flest lög vera verðskuldað í úrslitunum. En þó, eins og þú bendir einnig á, hefði ég viljað sjá Geirmundarsveifluna og finnska hópinn í úrslitum einnig, var persónulega minna hrifinn af slóvenska laginu. Svona sem "gamall" rokkari þá var ég líka hrifinn af tyrkneska laginu, en á svo sem ekki von á að það verði mjög ofarlega.

En nú ætla ég að fara að kjósa til borgarstjórnar, svo það verði nú ekki eftir í kvöld.

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.5.2010 kl. 15:44

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég óttast satt að segja að Ísland sitji uppi með sigur í þessari Eurovisionkeppni hvernig sem við höndlum það. Rússneska lagið á held ég varla möguleika en Tyrkirnir rokka feitt og ættu skilið að ná langt. Svo má ekki gleyma danska laginu sem mér finnst afskaplega leiðinlegt lag, en það eru oft þessi leiðinlegustu sem ná lengst.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.5.2010 kl. 15:57

4 identicon

Jamm, tyrkneska lagið gæti tekið þetta. Spái því öðru sæti. Hef enga trú á velgengni dasnkra ... þeir verða a.m.k. aftar en Hera.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 29.5.2010 kl. 16:20

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Jæja, þá hefur maður skundað á fyrsta kjörstað dagsins og ekkert því til fyrirstöðu að finna til snakkið fyrir kvöldið.

Danir gætu gert ágæta hluti, lagið er allavega nokkuð grípandi við fyrstu hlustun, þó maður gleymi því auðveldlega þegar frá líður, ég man allavega ekkert sérstaklega eftir því núna. Ég spái því að við Íslendingar gefum Dönum 10-12 stig, að venju liggur mér við að segja, en að sjálfsögðu verður Hera ofar

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.5.2010 kl. 16:46

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Gleymdi að minnast á það, að þegar Danir héldu keppnina hér um árið, þá minnist ég þess að hafa heyrt að þeir hafi komið út á núlli eftir að allt var gert upp (sel það þó ekki dýrara en ég keypti það). Þannig að það er ekki nóg að skoða bara útgjaldahliðina, heldur þarf líka að skoða tekjuhliiðina þegar við spáum í hvað kostar að halda svona keppni. Ekki að ég hafi sérstakar áhyggjur af því að til þeirra vangaveltna komi.

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.5.2010 kl. 16:49

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Við erum kannski ekki miklir spámenn og ótti minn um íslenskan sigur var algerlega ástæðulaus. Mér þótti þetta góð úrslit í söngvakeppninni.

En pólitíkin, hún hefur tapað. Það held ég að sé alveg ljóst.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.5.2010 kl. 01:13

8 identicon

I rest my case ... alla vega í bili.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 01:50

9 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Nei, það er ekki hægt að segja að spádómsgáfa okkar sé mikil varðandi júróvísíjón, en það má taka það fram að Tyrkland endaði þó í öðru sæti (bara svo það komi fram). En það er náttúrulega æðislegt hversu trú okkar á okkar þátttakanda er mikil. Kannski við séum bara hlutdrægir í okkar mati Reyndar fannst mér Hera standa sig alveg ljómandi við flutning lagsins. Annars held ég að úrslitin í júróvísíjón hafi verið nokkuð sanngjörn, þó að það hefði verið ljúft ef Ísland hefði endað aðeins hærra.

Ekkert um pólitík frá mér...

Sveinn Atli Gunnarsson, 30.5.2010 kl. 01:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband