Á Neskaupstað

Neskaupstaður

Á ferðalagi um landið í síðustu viku kom ég við á Neskaupstað. Fyrir mig svona persónulega var þetta nokkuð stór stund því að Neskaupstaður var eini stóri þéttbýlisstaðurinn á Íslandi sem ég hafði ekki heimsótt áður. Staðurinn er heldur ekki í neinni alfaraleið en til að komast þangað þarf fyrst að fara í gegnum Reyðarfjörð, síðan Eskifjörð, þaðan upp svimandi háan fjallveg og í gegnum lítil og þröng göng í Oddskarði. Sömu leið þarf síðan til að komast til baka. Þetta ferðalag er þó vel þess virði enda landslagið stórbrotið, ekki síst þegar síðdegissólin keppir við austfjarðarþokuna um völdin.

Þegar komið var til Neskaupstaðar fannst mér fara vel á því að setja upp Kúbuhattinn góða sem ég er þó alla jafna ekki með á höfðinu. Neskaupstaður hafði lengi vel mikla sérstöðu meðal annarra þéttbýlisstaða því þar horfðu menn jú í austur í leit að pólitískum lausnum enda staðurinn oft kallaður Litla-Moskva. Á meðan Neskaupstaður var sjálfstætt sveitarfélag fór Alþýðubandalagið með völdin og menn skömmuðust sín ekkert fyrir sinn sósíalisma. Kannski skiptir þarna máli að Neskaupstaður er austasti þéttbýliskjarni landsins og þar með lengst frá Ameríku. Þessu er hinsvegar öfugt farið vestur í Keflavík þar sem Ameríkuáhrifin hafa verið allsráðandi.

Neskaupstaður er nú hluti af hinu sameinaða sveitarfélagi Fjarðabyggð. Staðurinn getur því ekki lengur státað af sinni pólitísku sérstöðu og kannski vilja íbúar lítið kannast við sína pólitísku fortíð. Kannski voru það áldraumarnir sem fór með hugsjónirnar. Allavega virðast tímarnir breyttir og kannski hefur menningarástandinu hnignað eitthvað í leiðinni, en staðurinn er eiginlega þekktastur í dag meðal yngra fólks fyrir sína árlegu þungarokkshátíð Eistnaflug.

Annars veit ég ekki mikið meira um þennan stað en man þó eftir snjóflóðinu mikla á áttunda áratugnum. Hinsvegar veit ég að á landbyggðinni er ég alltaf aðkomumaður og á eiginlega aldrei erindi út fyrir borgina nema sem ferðamaður. Ég get varla sagt að ég hafi stuðlað að framgangi neinna mála á landsbyggðinni með vinnuframlagi, allavega ekki þannig að ég hafi þurft að mæta á staðinn. Á Neskaupstað var ég þó mættur sem ferðamaður og sem slíkur gerði ég vonandi eitthvað gagn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Verst að ég skyldi ekki vera mætur á staðin með minn Indíana jónasar hatt þér til leiðsagnar.  Þar kom ég fyrst 1960 á Gissuri Hvíta frá Sandgerði og var honum brýnt þar upp í fjöru og botnmálaður og kom ég þar aftur 1964 nokkru fyrir jól og var þar í hart nær 30ár. 

Hafði álpast á ball í Atlavík og rakst þar á stúlku sem sagði sveiattan við búsetu í Reykjavík og því varð sem fór.  

Norður af er líka merkilegt svæði og  saga og fólk í Mjóafyrði sem og á fjörðunum suður af Hellisfirði og Viðfirði svo og suðurbæjum, en Sandvíkin er slíkur dýrðar staður að ég vonaðist alltaf til að verða þar veður tepptur til að geta frestað heimkomu.   

Hrólfur Þ Hraundal, 18.7.2010 kl. 16:08

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Sé að sól er í vestri og þokuruðningur in með Búlandinnu. Til hægri frá þér er þá safn Jósafats Hinrikssonar en þar var áður netaverkstæði og síðar geimslur útgerðar SVN.

Hrólfur Þ Hraundal, 18.7.2010 kl. 16:16

3 identicon

Flottur staður, Neskaupsstaður.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 18.7.2010 kl. 16:49

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já, ég horfi þarna beint í austur. Myndin er tekin þriðjudaginn 13. júlí. Þokan náði alveg inn að göngunum við Oddskarð en hinu megin var bjart veður. Ég væri alveg til í að kanna þetta allra austasta svæði landsins betur.

Emil Hannes Valgeirsson, 18.7.2010 kl. 17:05

5 identicon

Vertu velkomin aftur og gaman væri að fræð þig aðeins um svæðið en hér eru margir enn stoltir af Litlu-Moskvu og pólitískri arfleifð okkar.

Jóhann Tryggvason (IP-tala skráð) 18.7.2010 kl. 23:32

6 identicon

Fallegasti staður landsins :).

Hugi Þórðar (IP-tala skráð) 19.7.2010 kl. 08:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband