4.8.2010 | 18:57
Náttúrulegur breytileiki og hlýindin á Íslandi
Þau hlýindi sem hafa verið á Íslandi undanfarin ár eru mjög eindregin. Veðurgæðum á sumrin hefur kannski verið eitthvað misskipt en veturnir hafa hinsvegar allstaðar verið mildir og snjóléttir miðað við það sem gjarnan var áður. Það eru sjálfsagt ýmsar ástæður fyrir því hversvegna svo mikið hefur hlýnað hér en algengast er auðvitað að nefna almenna hlýnun jarðar sem er vissulega staðreynd. En náttúrulegar staðbundnar aðstæður skipta hér einnig máli.
Á myndinni hér að ofan sem ættuð er frá NASA, má sjá yfirborðshita hafsins sem frávik af meðalhita. Hér í Norður-Atlantshafi er rauður litur ríkjandi sem þýðir að efri lög hafsins eru hlýrri en venja er. Annarstaðar eru höfin ýmist kaldari en venjulega, jafnhlý eða hlýrri. Þessi hlýi sjór á okkar slóðum hefur reyndar verið hér viðloðandi í allnokkur ár og á vafalaust sinn þátt í mildari tíð hjá okkur. Sjávarlífið hefur ekki farið varhluta af þessu og sjófuglalífið í framhaldi af því.
Ef maður veltir fyrir sér hvort þessi hlýsjór sé kominn til að vera, er ágætt að hafa í huga fyrirbæri sem kallast Atlantic Multidecatal Oscillation (AMO) og er lýst þannig á vefsíðu Bandaríku haf- og veðurstofnunarinnar NOAA:
The AMO is an ongoing series of long-duration changes in the sea surface temperature of the North Atlantic Ocean, with cool and warm phases that may last for 20-40 years at a time and a difference of about 1°F between extremes. These changes are natural and have been occurring for at least the last 1,000 years.
Í nánari útskýringum er tekið fram að nú sé hlýr fasi í gangi sem passar ágætlega við okkar upplifun. AMO-sveiflan mun hafa snúist nokkuð eindregið til þessa hlýja fasa um árið 1995 og haldist þannig síðan. Kaldur fasi var hinsvegar uppi á árunum ca. 1965-1995 en á því tímabili kólnaði á Íslandi, hafísinn lét þá sjá sig, jöklar snéru vörn í sókn og á sama tíma hrundu síldveiðar við Ísland. Hlýindaskeið var svo á tímabilnu ca. 1925-1964 þegar AMO var í hlýjum fasa eins og nú. Þetta má sjá á myndinni hér að neðan.
Á neðra línuritinu ber ég hitann í Stykkishólmi saman við hlýja og kalda fasa AMO-sveiflunnar. Frá aldamótunum 1900 og til okkar dags er fylgnin nokkuð greinileg hlýju árin eru þegar AMO er hlýr og öfugt. Á 19. öldinni virðist þetta þó ekki fara saman en þá var litla ísöldin enn í gangi með almennt kaldari sjó hjá okkur og árvissum hafískomum.
Verði þetta samband áfram til staðar og yfirborðshitastig sjávar mun halda áfram að sveiflast á áratugaskala þá er ekki hægt að álíta annað en að kaldari tíð mun taka við á Íslandi eftir einhver misseri. Núverandi hlýja tímabil hefur þó ekki staðið lengi og því ættum við að geta fagnað hlýindum áfram hér á landi næstu árin. Ekki virðist þó vera hægt að spá fyrir hvenær næstu umskipti verða enda mun lengd tímabilana ekki vera regluleg.
Aðrar langtímasveiflur svipaðar þessari munu einnig eiga sér stað. Ein sú mest umtalaða er í Norður-Kyrrahafi og nefnist PDO (Pacific Decatal Oscillation) Sú sveifla uppgötvaðist ekki fyrr en um síðustu aldamót þegar kaldi fasinn tók þar við, en síðan hefur tekist að rekja PDO sveiflurnar allmarga áratugi aftur í tímann. Eins og sjá má á fyrstu myndinni er blár litur einkennandi núna við Kyrrahafsstrendur Norður-Ameríku.
Tengslin við hnattræna hlýnun.Vegna þessara hitasveiflna í hafinu er erfiðara að meta hversu stór hluti hlýnunar jarðar er vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa. Þegar AMO og PDO hafa verið í hlýjum fasa á sama tíma hefur hlýnun jarðar verið mjög mikil. Við verðum samt að líta á hlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa á jörðinni sem viðbót ofaná náttúrulegar sveiflur. Staðbundnar sveiflur munu auðvitað einnig halda áfram og því getum við ekki treyst á að kaldari tíð tilheyri algerlega fortíðinni hér á landi. Það er samt aldrei að vita nema hlýnandi jörð geti raskað þessu munstri, en einfaldast er að líta svo á að almenn hlýnun jarðar geri köldu tímabilin mildari og mildu tímabilin hlýrri.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:59 | Facebook
Athugasemdir
Rétt er að benda á að myndirnar tvær eru ekki alveg sambærilegar. Til að rétta aðeins hlut 19. aldarinnar þarf að sía langtímaleitni Stykkishólmshitans út. Það er auðvelt en hún er um 0,7 stig á 100 árum. Þetta er búið að gera á AMO-línuritinu og þess vegna rétt að gera það á báðum sé ætlunin að bera þau saman.
Trausti J.
Trausti Jónsson (IP-tala skráð) 4.8.2010 kl. 23:41
Takk fyrir ábendinguna, það má hafa þetta í huga. Kannski mætti þá halla höfðinu aðeins til vinstri þegar neðra línuritið er skoðað. Þetta breytir því þó varla að á 20. öld eru hitasveiflurnar sjálfar ágætlega í takt við AMO ferilinn.
Emil Hannes Valgeirsson, 5.8.2010 kl. 11:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.