Veðurteppt Grænlandsferð

Nuuk gamli bærinn

Ég lagði upp í mína fyrstu Grænlandsferð um miðja síðustu viku og varð sú ferð satt að segja heldur lengri en búist hafði verið við. Þetta var vinnutengt ferð til höfuðstaðarins Nuuk sem sem er á vesturströnd Grænlands álíka norðarlega og Reykjavík. Ferðin var góð og gagnleg sem slík. Miðvikudaginn 25. ágúst þegar við komum á staðinn var veðrið líka fínt og náttúran skartaði sínu fegursta. Það breyttist hinsvegar til hins verra strax daginn eftir.

Nuuk útsýni2Þegar kom að heimför á föstudeginum og fólk mætt út á flugvöll varð öllum ljóst skilyrði til flugferða voru ekki upp á það besta, eða réttara sagt, vindurinn á flugvellinum var þvílíkur að maður var eiginlega fegnastur því að takast ekki sjálfur á loft, enda fór það svo að flugvélin sem átti að koma okkur heim náði aldrei að lenda. Daginn eftir, á laugardeginum, urðu vonir um flugferð aftur að engu þegar við fengum þær fréttir að ekkert yrði flogið þann dag á vegum Flugfélags Íslands. Á sunnudeginum var enn sami strekkingsvindurinn og rigning. Þrátt fyrir það voru farþegar boðaðir út á flugvöll, bókað í vél og farangur innritaður því aftur átti flugvél að vera á leiðinni. Allt kom þó fyrir ekki því aftur þurfti vélin frá að hverfa vegna hvassviðris á flugvellinum og var þá svona heldur farið að reyna á þolinmæði farþega. Það var svo ekki fyrr en á mánudeginum sem vindinn lægði fyrir alvöru og sem betur fer náðu Flugfélagsmenn að koma vél til Nuuk við góðan fögnuð strandaglópskra ferðalanga.

Maður komst vel að því þarna hvað veður getur sett strik í reikninginn þegar kemur að ferðalögum, og slæmt veður er auðvitað fylgifiskur þess að vera veðurtepptur. Því var ekki alveg hægt að njóta staðarins til fulls, en fyrir utan vindinn þá rigndi þarna nánast stöðugt frá fimmtudegi til mánudags vegna þrálátrar lægðar suðvesturundan landinu. Trúboðinn Hans Egede og stofnandi staðarins var heldur ekki mikið að hugsa flugsamgöngur á sínum tíma enda var hann uppi á 18. öld. Flugvöllurinn í Nuuk (Godthåb) er nefnilega einn af erfiðustu flugvöllum á Grænlandi en margir helstu flugvellir landsins eru betur staðsettir lengra inn í hinum stóru fjörðum sem þarna eru. Vegasamgöngur eru þar að auki engar á milli þéttbýlisstaðanna sem eru mjög dreifðir í þessu stóra landi. Grænland er samt merkilegt land og Grænlendingar merkileg þjóð og margt er þarna hægt að upplifa þegar betri aðstæður er í boði.

Nuuk flugvöllur

Langþráð flugvél lendir í Nuuk, mánudaginn 30 ágúst. Veðurathugunargræjur í forgrunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Velkommin heim til Íslands. Það er gaman að lesa svona frásögn þegar staðreyndir koma fram og þolinmæði og skilningur á staðháttum koma skýrt fram. Nuuk ( þar sem ég bý ) er staður sem liggur útvið sjó og getur verið vindrassgat á tímabilum. Þannig að það getur skeð að ekki er hægt að fljúga. Þetta skeður hinsvegar ekki oft þar sem bæði flugvélakostur er góður og ákaflega duglegt fólk sem stjórnar þeim sér okkur fyrir þjónustu sem ekki er hægt að setja útá á neinn hátt. Öryggi framar öllu hjá báðum flugfélögum ( Air Iceland og Air Greenland) sem fljúga á völlinn eru í fyrirrúmi. Bestu kveðjur í Hvíta Húsið

Guðmundur Þorsteinsson ( Gujo )

Guðmundur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 31.8.2010 kl. 13:36

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég skila kveðjum Gujo. En skjótt skipast veður í lofti því strax nú í upphafi september berast fréttir af hitabylgju á Vestur-Grænlandi með yfir 20 stiga hita í Nuuk.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.9.2010 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband