16.10.2010 | 01:19
Bara Helvetica
Allar leturgerðir hafa sinn karakter. Sum letur eru flippuð eða flúruð og önnur eru fáguð og virðuleg. Sum letur eru framúrstefnuleg á meðan önnur eru forn eða klassísk. Svo eru til letur sem eru svo hógvær að þau falla í fjöldann án þess að nokkur veiti þeim sérstaka athygli. Eitt þeirra er hið stílhreina letur Helvetica en það er svo venjulegt á að líta, að ósjálfrátt segja menn gjarnan bara Helvetica ef það ber á góma. Þó er það eitt dáðasta og mest notaða steinskriftarletur letur sem komið hefur fram.
Helvetica letrið er ættað frá Sviss og nefnt eftir fornu latnesku heiti landsins Confderatio Helvetica. Hönnuður letursins Max Miedingar er að sjálfsögðu svissneskur en letrið kom upphaflega fram undir heitinu Neau Haas Grotesk árið 1957. Stundum er talað um Svissneska skólann í grafískri hönnun en sá stíll einkennist af miklum hreinleika og formfestu og þykir mjög vitsmunalegur. Helvetican féll mjög vel að þessum hreina stíl enda hvert smáatriði þaulhugsað og vandlega frágengið þannig að næstum má tala um fullkomnun í formum.
En auðvitað hefur Helvetica sinn karakter. Þetta er steinskriftarletur eins og þau letur eru kölluð sem eru án þverenda en slík letur fóru ekki að vera algeng fyrr en eftir aldamótin 1900. Ef til vill má líta á Helveticu nú orðið sem grunnletur allra steinskriftarletra líkt og Times letrið er á meðal fótaletra. Helvetica er mjög læsilegt letur og er því mikið notað samfelldum texta og þykir hentugt í allskonar smáaletursútskýringar auk misskemmtilegra eyðublaðatexta. Helvetican nýtur sín þó vel í meiri stærðum þar sem hin stílhreina teikning í hverjum staf kemur vel fram. Það er enda ekki að ástæðulausu að Helvetica, og þá sérstaklega Bold útgáfan, er notuð í fjöldamörgum merkjum stórfyrirtækja um allan heim.
Oft hefur notkun Helveticu ekki þótt standa fyrir miklu dirfsku og frumlegheit í grafískri hönnun. Á hippaárunum þótti Helvetican til dæmis alltof stíf og leiðinleg og á níunda áratugnum var hún ekki nógu fríkuð og framúrstefnuleg. Á síðustu 10-15 árum hefur Helvetican hinsvegar fengið einskonar uppreisn æru á sama hátt og eðalhönnun sjötta áratugarins, ekki ósvipað og stólarnir hans Arne Jakobsen.
Til eru nokkur letur sem eru mjög svipuð Helveticu, t.d. Univers og skrifstofuletrið Arial. Ef einhver vill þekkja Helveticu frá þessum letrum og öðrum er ágætt að miða við nokkur atriði
- Hver stafaendi er skorinn beint lárétt eða lóðrétt. Þetta sést vel í bold útgáfunum.
- Skáleggurinn í stóra R er sveigður. (Atriði 1 og 2 eiga einnig við Univers)
- Í tölustafnum 1 myndast rétt horn þar sem litla strikið er.
- Bókstafurinn stóra G er með lóðrétt strik í endann auk lárétta striksins.
- Litla a í light og regular letrinu endar í greinilegu sveigðu skotti.
- - - - - -
Að lokum má svo nefna að Helvetica er meðal örfárra leturheita sem fallbeygjast í íslensku (Helvetica um Helveticu o.s.frv.) og er jafnvel notuð með greini eins og kemur fyrir hér í pistlinum.
Meginflokkur: LETUR | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Breytt 17.10.2010 kl. 00:08 | Facebook
Athugasemdir
Hverji eru höfundar Universe og Arial? Til dæmis er Helvetica aldrei að finna í Microsoft Word en Arial er þar. Í Makka er hvort tveggja letrið.
Sigurdur Sigurdarson (IP-tala skráð) 16.10.2010 kl. 09:32
Arial er í rauninni stæling og einskonar Microsoft útgáfa af Helveticu og nýtur ekki næstum því eins mikillar virðingar og Helvetica. Þetta snérist á sínum tíma um réttindamál meðal annars og peninga þannig að í stað þess að kaupa réttinn á þeim fontum sem áttu að fylgja stýrikerfinu var ákveðið að stæla helstu prentfontana og kalla þá nýjum nöfnum. Fyrirtækið Monotype sem teiknaði Arial vildi þó ekki kópera Helveticu alveg og því hefur Arial nokkur séreinkenni en lýtur þó mjög svipað út og Helvetica - sérstaklega í samfelldum texta.
Universe letrið er hinsvegar virðulegt letur eftir einn að fremstu leturhönnuðum heims Adrian Frutiger sem einnig er Svisslendingur. Það kom fram á svipuðum tíma og Helvetica en er ekki eins algengt. Sumum finnst þetta letur jafnvel vera betur heppnað en Helvetica. Besta letur Frutigers er þó sennilega Frutiger-letrið sjálft sem nefnt er eftir höfundi sínum.
Emil Hannes Valgeirsson, 16.10.2010 kl. 10:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.