Hvar verður næsta gos á Íslandi?

Þótt við höfum fengið góðan eldgosaskammt fyrr á þessu ári er ekki þar með sagt að eftirspurn eftir eldgosum hér á landi hafi alveg fjarað út. Frá náttúrunnar hendi virðist líka vera nægt framboð af vænlegum eldstöðvum sem geta kveðið sér hljóðs með litlum fyrirvara. Nú ætla ég að rýna í stöðuna og reyna að meta hvar líklegast er að næsta eldgos gæti orðið hér á landi eins og ég hef gert árlega í minni bloggtíð. Sem fyrr eru þetta algerlega ábyrgðarlausir spádómar enda er ég hvorki jarðfræðingur né sjáandi hverskonar og til marks um litla spádómsgáfu mína þá spáði ég í fyrrahaust að litlar líkur væru á því að næsta eldgos yrði í Eyjafjallajökli. Að vísu hef ég mér það til afsökunar að skjálftavirkni hafði þá legið þar niðri um nokkurt skeið en hófst á ný af tvíefldum krafti stuttu á eftir.

Spádómurinn að þessu sinni kemur hér. Prósenturnar vísa í líkindi þess að næsta eldgos verði í viðkomandi eldstöð. Annað mál er hinsvegar hvenær næsta eldgos verður – það gæti komið í næstu viku eða ekki fyrr en eftir 10 ár.

34% Grímsvötn eru alltaf ofarlega á blaði sem næsta líklega eldstöð enda gýs hvergi eins oft á Íslandi. Á dögunum var talað um að eldgos væri þar nánast yfirvofandi sem framhald af Grímsvatnahlaupi en með slíkum atburðum léttir mjög fargi af eldstöðinni. Ekkert hefur orðið af gosi þannig að líkurnar fara minnkandi. Samt mun Grímsvatnaeldstöðin vera nokkurn vegin tilbúin í gos og er talin líkleg hvenær sem er, burt séð frá því hvort vötnin hlaupist á brott eða ekki. Kannski þurfum við samt bíða um sinn, jafnvel til næsta hlaups sem ætti þá að verða eftir nokkur ár. Skaftáreldar flokkast varla sem Grímsvatnagos þótt kvikan hafi verið ættuð þaðan, það er samt ágætt að hafa þennan möguleika í huga en sennilega ekki kominn tíma á slíka atburði.

22% Hekla. Samkvæmt 10 ára reglunni sem Hekla hefur komið sér upp síðan í gosinu 1970 ætti eldstöðin að gjósa á þessu ári. Það hefur ekki gerst enn þannig að nú fara að verða síðustu forvöð. Það má þó gefa Heklu smá frest fram yfir áramót með það í huga að 1990-gosið kom ekki upp fyrr en þann 17. janúar 1991 – sama dag og Persaflóastríð hófst eins og margir muna. Annars má segja sama um Heklu og Grímsvötn, að þrýstingur undir fjallinu mun vera orðinn jafnmikill eða meiri en var fyrir síðasta gos. Varla held ég þó að hægt sé að bóka Heklugos alveg strax og kannski leitar fjallið bara aftur í það far að gjósa sirka tvisvar á öld eins og í gamla daga.

15% Katla minnir á sig öðru hvoru með stöku skjálftum en þó ekki alveg af þeim krafti sem vænta má ef eitthvað mikið er í aðsigi. Katla er stór eldstöð og gýs ekki bara svona allt í einu eins og Hekla gerir. Nú eru liðin 92 ár frá gosinu 1918 en til samanburðar hefur meðalhvíldartími milli Kötlugosa verið nálægt 60 árum. Mjög órætt samband virðist vera á milli Eyjafjallajökuls og Kötlu, en þótt fyrri reynsla sýni að Katla hafi farið af stað eftir gos í Eyjafjallajökli er alls ekki hægt að stóla á að slíkt gerist núna. Allavega eru ekki miklar vísbendingar í gangi um breytingar í Kötlu svo ég viti. Eins og með Kötlu þá má minna á að eitt mesta eldgos á sögulegum tíma á Íslandi, Eldgjárgosið skömmu eftir landnám, var sprungugos út frá Kötlu og fékk þaðan sitt hráefni. Er kannski kominn tími á nýtt svoleiðis?

12% Eyjafjallajökull er kannski ekki alveg búinn að syngja sitt síðasta að þessu sinni. Menn virðast allavega ekki treysta sér til að lýsa yfir goslokum ennþá, hafandi í huga að gosið á 19. öld var sífellt að taka sig upp á ný. Sjálfum finnst mér þó líklegra að þetta sé alveg búið en geri mér þó grein fyrir að allt getur gerst. Ekki vil ég vanmeta þessa eldstöð aftur.

7% Bárðarbunga getur alveg stolið stelunni og verið á undan þessum heimsfrægu eldstöðvum okkar sem hér hafa verið nefndar. Bárðarbunga er mikil megineldstöð og útfrá henni hafa orðið stórgos á Suðurhálendinu en einnig hafa gos tengd þessu kerfi komið upp norðaustan Vatnajökuls. Undir Bárðarbungu er askja og þar hefur í mörg ár verið allnokkur skjálftavirkni af og til sem gæti verið vísbending um að eitthvað sé í undirbúningi. Það er ekki vitað til að gosið hafi í öskjunni sjálfri eftir landnám en síðasta goshrina tengd Bárðarbungu varð vestur af Vatnajökli á árunum 1822-24. Gjálpargosið gæti þó talist til Bárðarbungukerfisins en Grímsvötn gera einnig tilkall til þess.

5% Askja og nágrenni verður einnig að fá að vera með hér. Upptyppingaóróinn fyrir 2-3 árum hefur fjarað mikið út en gæti tekið sig upp aftur og þá kannski ekki alveg á sama stað. Þar er að vísu um að ræða svæði sem einnig tengist Kverkfjallaeldstöðinni. Askja og Dyngjufjöll eru mjög eldvirkt svæði með miklum sprungukerfum í norður og þar gaus mikið á 19. öld. Skjálftavirkni er alltaf einhver á þessum slóðum.

5% Ýmsir aðrir staðir koma svo til greina en eru varla mjög líklegir. Reykjanesgosbeltið er áfram í sínum dvala en gæti alveg farið að rumska á okkar tíð. Eftir landnám hefur ekkert gosið á vestara gosbeltinu á svæðinu frá Hengli og upp í Langjökul. Það hafa annars verið merkilegir skjálftar undanfarið norðan Langjökuls, en ég trúi varla að þar sé eitthvað á ferðinni sem boðar eldgos enda erum við þar eiginlega komin út fyrir eldvirka beltið. Snæfellsneskerfið er síðan í enn fastari Þyrnirósarsvefni. Svo eru staðir eins Torfajökull, Öræfajökull, Vestmannaeyjar og fleiri sem hægt væri að nefna. Hvaða skjálftar voru þetta t.d. í Esjufjöllum norðan Breiðamerkurjökuls?

- - - - -

Myndina af Eyjafjalljökli hér að neðan tók ég laugardaginn 17. apríl á Hvolsvelli á fjórða degi gossins. Margar þeirra mynda sem hafa birst af gosinu voru teknar einmitt þennan dag enda bjart í veðri og gosmökkurinn upp á sitt besta.

Eyjafjallajökull 17. apríl


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Frábær pistill. Takk fyrir hann.

Heimir Tómasson, 28.11.2010 kl. 18:21

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ekkert að þakka. En ég vil bæta við að í dag hefur verið nokkuð þétt skjálftavirkni norðaustur af Öskju og því væntanlega eitthvað á ferðinni þar í undirheimum en hvort það nái upp á yfirborðið er önnur saga.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.11.2010 kl. 21:35

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Og nú rétt áðan í fréttum Stöðvar2 var sagt frá hugsanlegum kvikuhreyfingum undir Krísuvík, þannig að það svæði er greinilega ekki alveg sofandi.

Emil Hannes Valgeirsson, 30.11.2010 kl. 19:01

4 Smámynd: Heimir Tómasson

Ísland er lifandi land.

Heimir Tómasson, 4.12.2010 kl. 04:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband