10.2.2011 | 22:08
Verstu leturgerðirnar
Eins og gengur og gerist með flesta hluti þá njóta leturgerðir mismikillar virðingar ekki síst meðal þeirra sem fást mikið við letur. Þau letur sem njóta þess vafasama heiðurs að teljast meðal þeirra verstu eru þó ekki endilega slæm letur því sum þeirra hafa einfaldlega verið misnotuð eða ofnotuð og þá gjarnan við tækifæri sem hæfa ekki karaktereinkennum letursins. Tíðarandinn breytist líka stöðugt. Það sem eitt sinn þótti meiriháttar smart þykir í dag meiriháttar hallærislegt. Mörg letur hafa síðan einfaldlega komist í slæmudeildina með því að vera svo óheppin að fylgja stýrikerfi tölva og komist þannig í hendur fjölda notenda með misgott auga fyrir smekklegheitum
Letrin átta sem ég nefni hér að neðan eru gjarnan nefnd meðal verstu leturgerða nú á tímum. Hver og einn verður síðan að dæma fyrir sig hvort þau eigi það öll skilið. Mörg önnur letur gætu auðvitað átt heima þarna líka.
Comic Sans er eiginlega frægasta versta letrið í dag. Það er svo illa liðið að hægt er að fá viðbætur í tölvur sem hreinsa það burt úr tölvunni og til er vefsíða sem heitir ban comic sans. Eins og nafn letursins gefur til kynna er það hugsað til notkunar í gríni hverskonar og þá helst í texta við skrípamyndir. Enginn sem vill láta taka sig alvarlega ætti því að nota þetta letur en því miður hafa margir flaskað á því.
Brush script var teiknað árið 1942. Það hefur talsvert verið notað á allskonar auglýsingaefni í gegnum tíðina en er nú algerlega komið úr móð. Þetta er ágætt dæmi um letur sem alls ekki má nota í hástöfum, ekki frekar en önnur hallandi skriftarletur. Samt sjást oft dæmi um slíka misnotkun.
Hobo hefur sjálfsagt verið elskað á hippaárunum en í dag elska margir að hata þennan font. Sveigðu línurnar eru í anda jugent stílsins frá aldamótunum 1900 en letrið var annars teiknað árið 1910. Hobo er ágætt þegar höfða á til barna og dýra en í öðrum tilfellum ættu menn að hugsa sig tvisvar um.
Marker Felt er helst nothæft þegar markmiðið er að gera eitthvað verulega ódýrt. Við erum því kannski að tala um brunaútsölu.
Zapf Changery er í sjálfu sér ekki slæmt letur í lágstöfum en er auðvitað algerlega bannað í hástöfum öðrum en upphafsstaf.
Cooper Black er mjög í anda 8. áratugarins en í dag ætti enginn að nota þennan font nema að vera mjög meðvitaður um hvað hann er að gera.
Mistral er mjög óformlegt skriftarletur. Það náði dálitlum vinsældum á 9. áratugnum þegar menn vildu poppa sig aðeins upp.
Arial kemur hér að lokum og er eina steinskriftarletrið í upptalningunni. Það hefur það helst á samviskunni að vera hannað sem skrifstofustaðgengill hins fræga Helvetica leturs án þess að ná elegans fyrirmyndarinnar.
- - - -
Það má hér í lokin minna á þennan frábæra DVD-disk um Bíladaga á Akureyri. Þó ekki væri nema til þess að dást að Mistral letrinu.
Athugasemdir
Skemmtileg samantekt. Sú var tíð fyrir daga tölvunnar að ekki var um auðugan garð að gresja í leturúrvali fyrir bóka- og plötutitla, fyrirsagnir og þess háttar. Í auglýsingabransanum var letur keypt á plastörkum og letrið nuddað af þeim á pappír. Það var hátíð í bæ þegar "nýjar" leturgerðir bárust í hús. Þær voru iðulega ofnotaðar fljótt og rækilega.
Jens Guð, 11.2.2011 kl. 00:46
Ég man eftir plastörkunum eða letrasettinu svokallaða þar sem hægt var að fá fleiri letur en voru í boði í setningartölvunum. Þetta var talsvert föndur en verst var að það vantaði íslensku stafina þ og ð og því þurfti að mixa þá með ýmsum hætti.
Emil Hannes Valgeirsson, 11.2.2011 kl. 12:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.