Horft á heiminn

Það er stundum ágætt að velta fyrir sér hvernig við sjáum veröldina í kringum okkur. Það er nokkuð ljóst að við lífum í þrívíðum heimi. Það sem við sjáum er mislangt í burtu, sumt er öðru megin og annað hinumegin en svo getur verið afstætt hvað er fyrir ofan okkur og hvað fyrir neðan. Hinsvegar fer margt ofan garðs og neðan því við getum ekki séð allt í kringum okkur á sama augnabliki enda er víðsýni okkar takmörk sett af líffræðilegum ástæðum. Þessari þrívíðu heimsýn okkar má líkja við það að við séum inni í miðri kúlu með heiminn allt í kringum okkur, sem er öfugt við þá sýn þegar við horfum á hnöttinn okkar utanfrá.

Þegar það sem við sjáum er yfirfært yfir á tvívíða ljósmynd eða teikningu kemur í ljós að samsíða línur geta ekki alltaf birst beinar og samsíða. Á myndum þar sem sjónarhornið er mjög vídd hvelfast formin út og þá virðumst við ekki lengur vera inní kúlu heldur utan hennar. Bjögun á sér stað og verður meiri eftir því sem myndin er víðari. Svipað á sér stað á landakortum þar sem kúlulögun hnattarins veldur því að ekki er hægt að teikna stóra heimshluta án bjögunar.
Blokkir nær og fjær

Þessi sannindi má bera saman með því að skoða þessar tvær myndir hér að neðan sem teknar eru af sömu húsunum úr mismunandi fjarlægð. Sjónsviðið á myndinni til vinstri er mjög þröngt og þess vegna er bjögunin varla sjáanleg – línur er hreinar og beinar miðað við myndina til hægri þar sem sjónsviðið er miklu víðara og talsverð bjögun kemur fram.

Beinar línur í náttúrunni eru annars ekki áberandi nema þar sem maðurinn hefur staðið að verki. Eiginlega má segja að sjóndeildarhringurinn sé eina beina línan í hinni náttúrulegu náttúru á meðan beinar línur og rétt horn einkenna mannanna verk. Frá okkur séð stefna samsíða fletir og línur í umhverfinu að sameiginlegum hvarfpunktum. Láréttar línur stefna að hvarfpunktum við sjóndeildarhring en lóðréttar línur eiga sína hvarfpunkta fyrir ofan okkur og neðan.

Þetta læt ég nægja að sinni en þessi færsla er annars bara hugsuð sem inngangur að næsta pistli sem er nánari skoðun á því hvernig við sjáum hinn þrívíða heim og hvernig honum er varpað yfir á tvívíðan flöt með fjarvíddarbrellum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband