Tímaflakkið - annar hluti

Ég sagði frá því í fyrsta hluta þessarar frásagnar hvernig mér var mjög óvænt vippað allnokkur ár aftur í tímann eftir samstuð við mann á rafskutlu við Nóatúnið. Ég vissi ekki nákvæmlega hvaða ár þetta var sem ég hafði dottið inn í en taldi sennilegast að um væri að ræða árin um eða fyrir 1980. Eftir heimsókn í Tómstundahúsið hafði ég komist að því að gamla krónan var enn í gildi og gat því útilokað árin eftir 1981 – ég var þó ekki alveg viss hvenær myntbreytingin átti sér stað. Ég hafði ákveðið að labba niður að Hlemmi til að fá gleggri mynd af því sem var að gerast ef það væri mögulegt og þar skildi ég við frásögnina síðast.

Mér fannst umhverfið þarna ofan við Hlemm öllu kreppulegra miðað við það sem það er í dag þótt deila megi um hvort minna kreppusástand sé uppi nú en þarna á árunum um 1980, þegar öllu var reddað með endalausum gengisfellingum. Svæðið við Búnaðarbankann ofan við Hlemm hefur talsvert breyst til batnaðar en þar er nú búið að færa til götur og koma fyrir hestastyttunni sem áður var við Miklubraut. Skiptistöðin við Hlemm er þó komin eins og átt von á. Sennilega er hún tiltölulega nýreyst þarna en byggingin þótti mörgum óþarflega skrítin í útliti og framúrstefnuleg. Klukkuturninn sýndi að klukkuna vantaði korter í eitt, sama og mín klukka sýndi.

1980Það var nóg um að vera þarna á Hlemmi og margt um manninn eins og löngum hefur verið. Þrír grænleitir strætisvagnar voru þarna á sama tíma. Úr einum þeirra streymdi fólk á meðan aðrir stigu inn. Þetta var leið nr.3 – Nes Háaleiti – sem einmitt var alltaf vagninn minn. Greinilega voru síðdegisblöðin komin út því gegnum umferðarniðinn mátti heyra kunnugleg köll blaðasölustráka: „Vííííísir eða Daaaagblaðið“. Mér fannst auðvitað tilvalið að kanna hvað blöðin höfðu að segja þennan dag og ekki síður að sjá á hvaða degi og ári ég væri staddur. Ég ákvað að fara inn fyrir til að kíkja á blöðin.

Ég held að ég hafi ekki skorið mig sérstaklega úr hvað varðar klæðaburð þarna inni á Hlemmi. Fólk var vissulega ekki klætt eftir nýjustu tísku okkar tíma en þó var munurinn ekki alger. Til dæmis var ég í gallabuxum eins og margir aðrir en kannski hefur einhverjum þótt svarti TheNorthFace jakkinn nokkuð nýstárlegur. Ég hef samt ekki trú á að nokkur hafi séð að ég væri ráðvilltur aðkomumaður frá árinu 2011. Sennilega hefðu flestir átt von á að slíkur gestur væri meira en lítið framtíðarlega klæddur, kannski í silfursamfestingi með innrauð gleraugu eða eitthvað þvílíkt. Fólkið sem þarna var statt var á öllum aldri, einstaka andlit kannaðist ég við en þó var enginn þarna sem ég beinlínis þekkti. Innanum nokkra unglinga sá ég einn rauðbirkinn strák með kunnuglegan svip. Ég ákvað að heilsa upp á hann.
„Sæll, heitir þú ekki Jón Gnarr?“ spurði ég.
Hann horfði á mig tortrygginn og sagði svo vera. Ég lét undan freistingunni og sagði:
„Haltu áfram að vera þú sjálfur og þú munt enda sem Borgarstjóri“
Ég veit ekki hvað hann hefur haldið um mig, en um leið og ég sagði þetta áttaði ég mig á að það er ekki viturlegt að vera með svona komment með skýrskotunum um framtíðina. Það er aldrei að vita til hvers slíkt getur leitt.

En nú þurfti ég að athuga með sjoppuna til að kíkja á blöðin. „Eru þetta blöðin í dag?“ spurði ég afgreiðslumanninn sem bæði játaði og samþykkti með semingi að ég kíkti aðeins blöðin. Nú var þetta farið að vera spennandi. Í fyrsta lagi sá ég að dagurinn var 18. ágúst 1980, þannig að nú var það komið á hreint. Þetta var rétt dagsetning samkvæmt mínu tímatali en munurinn var 31 ár. Af hverju endilega 31 ár hafði ég enga hugmynd um, en annars skildi ég svo sem ekkert í þessu öllu saman. En það var ekki bara dagsetning, því á forsíðu Vísis var aldeilis stórfrétt. Stór mynd af eldgosi og fyrirsögnin: „Stendur í einhverja mánuði ef að líkum lætur“ og var þar vitnað í Sigurð Þórarinsson jarðfræðing um gosið í Heklu. Hér var greinilega um ræða ræða eldgosið sem kom svo óvænt þetta sumar. Þarna vissi ég betur en Sigurður Þórarinson því þetta gos entist ekki vikuna. Mér fannst mér ég vera öllu nær um þessa tilveru sem ég var lentur í.

En hvað átti ég nú að gera? Skildi ég einhvertíma komast til baka í minn nútíma? Ég var kominn út aftur og stóð fyrir utan skiptistöðina Hverfisgötumegin gegnt Lögreglustöðinni. Átti ég að gefa mig fram við yfirvöld og segja farir mínar ekki sléttar eða átti ég kannski að skoða þennan fortíðarheim betur? Verst var að geta ekki borgað neitt. Fimmhundruðkallinn og nokkrir smápeningar sem ég var með í veskinu dugðu skammt því þetta var á dögum gömlu krónunnar. Ef ég hefði horfið aftur um 30 ár væri staðan allt önnur og ég getað lifað góðu lífi á þessum eina seðli í marga daga. Einnig var möguleiki á að hafa uppi á mínu fólki. Hvað gerðist ef ég bankaði uppá hjá foreldrum mínum, hvernig ætti ég að útskýra það að ég hefði allt í einu elst um 31 ár? Gæti ég kannski þóst vera áður óþekktur ættingi? Hvað með mig sjálfan? Ætli ég geti haft uppi á sjálfum mér? Get ég verið til í tveimur útgáfum á misjöfnum aldri? Ef svo er, hvar ætli ég sé staddur núna? Það er að segja yngri útgáfan af mér.

Það rifjaðist upp fyrir mér að þetta sumar var ég sendisveinn hjá Sláturfélagi Suðurlands sem þá var staðsett við Skúlagötuna. Sjálfur var ég þá 14 ára, bráðum 15. Nú ákvað ég, að áður en lengra yrði haldið, að næsta verkefni væri að hafa uppi á sjálfum mér.

- - - - -
Meira um það eftir tvo daga þegar lokahlutinn birtist.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband