Hversu séríslensktur er éljagangurinn?

Það er mikið fjör í veðrinu núna og þykir örugglega mörgum nóg um. Það er spurning hvort hægt sé að kalla þetta útsynning enda er vindáttin eiginlega beint úr vestri. Einkennin eru þó hin sömu, dimm él ganga yfir með sterkum vindgusum og styttir upp á milli. En hversu algengt ætli þetta veðurlag sé í öðrum löndum? Getum við kallað þetta séríslenskt? Ég hef kannski ekki alveg svar við þessu sjálfur en ætla samt að spá í þetta.

Veðurtungl éljagangur

Éljaloftið sem hingað kemur úr vestri og suðvestri er ættað frá hinum mjög svo köldu svæðum Grænlands og Kanada. Þegar loftið berst yfir hafið hitnar það að neðanverðu og gerist óstöðugt þegar það leitar upp í kaldari háloftin. Þetta er ekki ósvipað og gerist á heitum skúrakenndum sumardögum nema að á veturna myndast éljaklakkar yfir hafinu, því sjórinn er þá svo miklu hlýrri en loftið fyrir ofan. En þótt éljaloftið sé oft allsráðandi á stórum svæðum hér nyrst í Atlantshafinu kemur það ekki víða að landi á byggðu bóli. Það á þó auðvelda leið hingað til Íslands bæði með suðvestanáttinni og norðanáttinni. Það er kannski helst að Austfirðingar fari á mis við élin því ekki koma þau með austanáttinni - úr þeirri átt koma aðallega hlýindi að vetrarlagi.

Íbúar hinna köldu svæða í vestri fá varla mikið af éljum utan að hafi enda myndast élin aðallega þegar kalda loftið berst frá þeim svæðum að vetrarlagi eins og minnst var á hér að ofan. Ef éljaloftið nær alveg yfir Atlantshafið þróast það yfir í skúraveður sem getur herjað á Breta og meginland Evrópu. Kannski upplifa íbúar þar þó stöku sinnum él eða slydduél. Það væri helst að íbúar norðurhluta Noregs upplifi almennilegan éljagang eins og við. Þar væri þá um að ræða kalda heimskautaloftið sem éljast á leið sinni suður um hafið þegar norðan- og norvestanáttin nær sér þar á strik. Norðlendingar eiga því það sameiginlegt Norðmönnum að fá sitt éljaloft ofan af ísilögðu Norður-Íshafinu.

Það má fara víðar í leit að éljagangi. Nyrstu svæði Kyrrahafs koma til greina og strandvæði Síberíu gætu líka orðið fyrir éljum en þá kannski helst þegar opið haf myndast milli ísbreiðunnar og meginlandsins en á þeim svæðum eru ekki margir til frásagnar. Á suðurhveli ættu éljaklakkar að myndast útfrá ísbreiðu suðurskautsins en ekki sé ég fyrir mér að þau él nái landi nema kannski syðst í suður-Ameríku.

Það eru mörg kannski í þessu hjá mér, og kannski er éljagangur algengari en ég sé fyrir mér. Samt finnst mér svona veður þó vera mjög Íslenskt og ekki síst mjög Reykvískt – sérstaklega að vetralagi – og alltaf jafn skemmtilegt.

- - - 

Veðurtunglmyndin er fengin af vef Veðurstofunnar og gildir þriðjudaginn 10. jánúar 2012. Bláa krotið eru mínar viðbætur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Sennilega eru él algeng sunnatil í Alaska. Líklega einnig syðst í suður-Ameríku eins og þú benntir á.

Hörður Þórðarson, 10.1.2012 kl. 23:13

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það éljar þá væntanlega sjaldan hjá ykkur suður á Nýja Sjálandi?

Emil Hannes Valgeirsson, 10.1.2012 kl. 23:43

3 Smámynd: Hörður Þórðarson

Já, frekar sjaldan niðri við sjávarmál vegna þess hversu hlýr sjórinn umhverfis landið er. Hins vegar eru oft él til fjalla.

Hörður Þórðarson, 11.1.2012 kl. 12:11

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Svo má bæta við að síðustu daga hefur verið talað um snjóél í löndunum í kringum Eystrasaltið og líka við vötnin miklu í N-Ameríku. Það kunna því að vera ýmsir sem upplifa íslenskt veðurlag.

Emil Hannes Valgeirsson, 13.1.2012 kl. 23:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband