Vefsíða ársins komin í loftið

Eins og ég fjallaði um fyrir áramót þá réðist ég í það verkefni í fyrra að taka mynd af Reykjavík séð frá Öskjuhlíð á sama stað og sama tíma alla daga ársins 2011. Nú er ég tilbúinn með vefsíðu sem ég kalla 365 Reykjavík þar sem getur að líta allar myndirnar – settar upp á skipulagðan hátt.

365Reykjavik
Þarna má sjá veðrið á hverjum degi um hádegi, hvenær snjór lá yfir borginni, hvenær Esjan var hvít og hvernig gróðurinn tók við sér að vori og fölnaði að hausti.

Við þekkjum vel hversu mikill breytileiki er á milli ára og varla hægt að segja að eitt ár sé dæmigert fyrir öll ár. Eins og sést á myndunum þá var mjög snjólétt í upphafi síðasta árs en það átti eftir að breytast. Þann 1. maí var til dæmis alhvít jörð og hvít Esja blasti við borgarbúum 10. júní. Prýðilegt sumar kom þó að lokum. Ekkert snjóaði síðasta haust fyrr en seint í  nóvember og hélst sá snjór út árið. Allt þetta má skoða á myndunum og einnig framvindu gróðursins. Hin öfluga planta skógarkerfill þýtur upp og blómstrar í júní og tekur yfir forgrunn myndanna en fölnar fljótt upp úr miðju sumri. Á myndunum má sjá hvernig hæstu trén bæta við sig á vaxtartímanum og síðan hvernig haustið tekur á sig lit. Mannlíf er ekki áberandi frá þessu sjónarhorni. Göngustígur var lagður rétt neðan við tökustað á árinu en lítið sést þó til framkvæmda fyrir gróðri nema einn dag í september þegar vart fer á milli mála að eitthvað er í gangi. Það er sem sagt ýmislegt að sjá á þessari myndaseríu – á vef ársins.

Sjón er sögu ríkari - slóðin á síðuna er:

www.365reykjavik.is

Þegar komið er inn á síðuna þarf að velja mánuð til að skoða. Myndirnar flettast sjálfkrafa í rólegheitum en þá má líka handfletta og skoða stöku myndir af vild.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Frábært, takk. Mæli með 14 okt og maí í heild

Höskuldur Búi Jónsson, 22.1.2012 kl. 00:50

2 identicon

Frábært framtak. Kærar þakkir fyrir að leyfa okkur aðgang að þessu. Athyglisvert að bera saman janúar 2011 við janúar 2012! Skemmti mér líka vel við að skoða t.d. maí mánuði hvernig gróðrinum fleygir fram. Endurtek þakkirnar.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 22.1.2012 kl. 08:34

3 identicon

Algjör snilld hjá þér, gaman að sjá hve janúar í fyrra var mildur og snjóléttur, algjör andstæða við janúar 2012.

Flott að sjá víðinn byrja að bruma um vorið og sjá síðan allt laufgast og verða grænt að lokum.

En hafðu þakkir fyrir sniðugt framtak.

Valur Norðdahl (IP-tala skráð) 22.1.2012 kl. 12:00

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Frábært framtak! Til hamingju með þetta.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 22.1.2012 kl. 14:40

5 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Þetta er flott framtak Emil. Er hægt að setja þetta í morph?

Hjálmtýr V Heiðdal, 22.1.2012 kl. 15:06

6 identicon

Til hamingju með þetta, Emil.  Sérstaklega áhugavert.

Erlendur Hjaltason (IP-tala skráð) 22.1.2012 kl. 17:04

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég þakka jákvæð viðbrögð. Ég sé að kvikmyndagerðarmaðurinn spyr um morph eða hreyfimynd. Það er vissulega hægt en til þess að það komi almenilega út hefði myndavélin þurft að vera nákvæmlega eins staðsett allan tímann á fastri undirstöðu.

Emil Hannes Valgeirsson, 22.1.2012 kl. 17:41

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Til hamingju með þetta Emil, flott framtak.

Ég gerði það að gamni að skoða minn eigin afmælisdag á síðasta ári, en þá skartaði Esjan sínu fegursta í góðu veðri - ekki get ég sagt að ég hafi munað eftir því...

Sveinn Atli Gunnarsson, 22.1.2012 kl. 21:38

9 identicon

Frábært hjá þér Emil.

Bestu þakki fyrir þessa vefsíðu og alla þá vinnu sem þú hefur lagt í  þetta verkefni.

Kristján Sig. (IP-tala skráð) 23.1.2012 kl. 14:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband