Vetrarhitasúlur

Nú þegar aðal vetrarmánuðirnir eru að baki ætla ég að bjóða upp súlurit sem sýnir hitafar allra daga í Reykjavík frá nóvember til mars nú í vetur. Tölurnar sem þarna liggja að baki eru úr mínum prívatskráningum en hver súla sýnir dæmigerðan hita hvers dags. Dagar yfir frostmarki eru litaðir rauðir og rísa upp úr núllstrikinu en frostdagarnir eru bláir.

Vetrarsúlur 2011-2012

Svo farið sé aðeins yfir þetta þá sést vel hversu hlýtt var í nóvember enda mánuðurinn lengst af framarlega í samkeppninni um hlýjustu nóvembermánuði. Það kólnaði þó mjög í lok nánaðarins og þá sérstaklega síðasta daginn þegar frostið fór niður úr öllu valdi en þá byrjaði einmitt kuldakastið sem mörgum þótti svo óskaplegt. Sjálft kuldakastið stóð yfir í 10 daga og kaldasta daginn, þann 9. desember, skrái ég 8 stiga frost. Mest fór frostið niður í 11,7 stig á Veðurstofumælinum um kvöldið eða nóttina eftir og var það mesta frost vetrarins – eftir því sem ég kemst næst. Það telst reyndar ekkert óvenjulegt sem mesta frost vetrarins.
Það sem eftir lifði desember og lengst af í janúar var hitinn ekki fjarri meðallagi og án mikilla öfga en vegna kuldakastsins var þessi desember sá kaldasti síðan 1981 og auðvitað alveg óvenju snjóþungur. Febrúar var mjög hlýr miðað við það sem venjan er enda bara tveir frostdagar. Sama má segja um nýliðinn marsmánuð sem státar af miklum hlýindum síðustu 10 dagana.
Í heildina má segja að veturinn hafi staðið undir nafni frá lokum nóvember til síðustu vikunnar í janúar, en í báða enda var veturinn mjög hlýr hér í Reykjavík. Enn mun þó eitthvað framboð vera af köldu lofti norðurundan sem gæti gert atlögu að okkur enda veturinn ekki alveg búinn.

Til frekari samanburðar þá eru sambærileg súlurit fyrir tvo síðustu vetur í myndaalbúminu Veðurgrafík, hér til vinstri á síðunni.

- - - - -
Læt hér svo fylgja mynd sem ég tók úr vinnunni þann 14. nóvember þegar „hitabylgja“ mánaðarins var í hámarki. Óvenjuleg birta var þann dag þegar dimmt ský lagðist yfir borgina sem skammdegissólin skein undir í austsuðaustanátt og 11 stiga hita.

14. nóvember 2011


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Fróðlegt að venju hjá þér Emil. Þessar staðreyndir varðandi hitastigið í vetur útskýra kannski hvers vegna ekki hefur heyrst mikið í þeim sem spáðu miklu kuldaskeiði og hnattkólnun eftir staðbundna kuldakaflann í desember...en ætli þeir nái sér ekki á strik aftur næst þegar það kólnar tímabundið, sjá t.d. hina skemmtilegu mýtu Það er kalt á Klonke Dinke og því er engin hnattræn hlýnun sem lesa má á loftslag.is.

Sveinn Atli Gunnarsson, 1.4.2012 kl. 01:09

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Mig grunar að þú hafir sérstaklega einn í huga en sá virðist alveg vera horfinn.

Annars skiptir auðvitað mestu um hitafar einstaka vetra hvort loftið yfir okkur hverju sinni er af köldum eða hlýjum uppruna. Uppruninn núna í lok mars er t.d. greinilega allt annar er var í upphafi desember.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.4.2012 kl. 12:20

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Veður er veður og stjórnast af ýmsum þáttum sem ekki hafa endilega beina tengingu við hækkandi hitastig á heimsvísu, eins og við vitum mætavel, þó einhverjir hafi látið glepjast af kuldanum um tíma. Það voru reyndar nokkrir aðilar í huga mér, m.a. sá sem þú ert líklega að vísa til og sem virðist nú reyndar hafa horfið af yfirborði netheima í bili... En í næsta kuldakasti heyrum við væntanlega sama hjalið frá einhverjum nýjum (eða gömlum) svipað því sem hinn týndi hélt uppi um tíma - ef mér skjátlast ekki því mun meira...

Sveinn Atli Gunnarsson, 1.4.2012 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband