5.5.2012 | 18:22
Hart sótt að Reykjanesskaga
Stundum er sagt að við sem búum á höfuðborgarsvæðinu séum á móti öllum virkjana- og stóriðjuframkvæmdum nema þeim sem eru í okkar allra næsta nágrenni. Kannski á þetta við í einhverjum tilfellum en ef ég á tala fyrir mig sjálfan þá er það einmitt næsta nágrenni höfuðborgarinnar sem ég hef mestar áhyggjur af. Ef fer sem horfir þá mun Reykjanesskaginn verða stórlega raskaður vegna jarðhitavirkjanna og ýmissa umsvifa allt frá Þingvallavatni og út á Reykjanes.
Nú þegar hafa virkjanir lagt Hengilssvæðið undir sig með Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun. Að vísu er ekki búið að reisa virkjun á sjálfri Hellisheiðinni en það er auðvitað í bígerð með Hverahlíðarvirkjun sem verður mjög áberandi mannvirki á sjálfri háheiðinni. Öllum þessum virkjunum fylgir og mun fylgja gífurlegt rask á hraunum, jarðhitasvæðum, smágígum og öðru því sem fylgir Atlantshafshryggnum þar sem hann gengur hér á land og er einstakt fyrirbæri í heiminum. Fjöldi misvelheppnaðra borhola fylgja hverri virkjun. Gufublástur með óhljóðum er viðvarandi þegar borholur eru látnar blása og getur slíkur hávaði verið á við Júmbóþotu í stöðugu flugtaki eins og mér var minnisstætt við Leirhnjúk er ég var þar síðast. Svo eru það öll rörin sem sikksakkast útum allar grundir á virkjanasvæðunum og auðvitað stöðvarhúsið sjálft, kæliverkið, vegaslóðarnir, afrennslisvatn, spennulínur, rafmagnsmöstur að ógleymdu öllum vinnuvélunum og dótaríi sem fylgir svona starfsemi.
Það er þó varla hægt að amast við öllu raski á Reykjanesskaganum. Til dæmis liggur Þjóðvegur 1 þarna í gegn ásamt háspennumöstrum. Einhvern veginn þarf fólk og rafmagn að komast á milli landssvæða. En þetta eru bara smámunir miðað við annað. Einhver fjöll er búið að grafa í sundur og sum jafnvel horfin. Á skíðasvæðum í Bláfjöllum er búið að skafa og slétta heilu fjallshlíðarnar og leggja lyftur. Lengra í vestur stendur svo til að virkja við Krísuvík suður af Kleifarvatni og þar með er það svæði ónýtt. Síðan er talað um Trölladyngjusvæðið milli Keilis og Kleifarvatns sem í dag er nokkuð stórt ósnert svæði á miðjum Reykjanesskaga og býr yfir mikilli náttúrufegurð sem fáir njóta eða vita af. Hætt við að það svæði verði eyðilagt í kyrrþey. Suðvestur af Trölladyngusvæðinu stendur einnig til að bora og virkja ósnertar auðnir við Sandfell.
Fleiri vita af hinu heimsfræga Bláa Lóni við Svartsengi sem er ágætt út af fyrir sig og er reyndar mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn og því varla hægt að amast við því, en það er þó ekki þar með sagt að það sé til fyrirmyndar fyrir önnur svæði. Eitt slíkt er ágætt. Í undirbúningi er líka virkjun við Eldvörp vestan Grindavíkurvegar og við Sandvík vestast á Skaganum. Reykjanesið sjálft allra yst á nesinu er stórkostlegt svæði af náttúrannar hendi. Það er nú þegar undirlagt af borholum og leiðslum Reykjanesvirkjunar sem til stendur að stækka. Myndin hér að neðan er þaðan og sýnir hún dæmigert rask af einni virkjun. Vegurinn að Reykjanesvita liggur þarna innan um borholur og fleira utan myndar. (skjáskot af kortavef ja.is)
Auðvitað þurfum við rafmagn og við búum vel hvað orkuöflun varðar. Við framleiðum nú þegar gífurlega orku með fallvötnum og jarðvarðma en spurningin er hversu langt á að ganga. Í uppkasti af svokallaðri rammaáætlun er Reykjanesskaginn hærra metin sem orkuöflunarsvæði en verndurnarsvæði, enda er orðið fátt vænlegra kosta á lausu sem ekki hafa í för með sér óásættanlegt rask á náttúrunni. Samt láta sumir sig dreyma um mikla uppbyggingu stóriðju og jafnvel útflutning á rafmagni í stórum stíl. Þar er lofað hreinni raforku frá hinu dásamlega landi í norðri sem boðið getur upp á næstum endalausa hreina orku eins og kemur fram í þessari erlendu frétt frá the Guardian, Iceland´s energy comes naturally en þar er vitnað í einn af okkar mönnum:
Albert Albertsson, the deputy chief executive officer at Iceland's Resource Park, which includes the Blue Lagoon hot springs and one of the country's largest geothermal power stations, says that while no one knows how much energy could be eventually harnessed, it could be possible that all the energy needs of the northern hemisphere could be met by Iceland.
Það er bara ekkert annað. Ég spyr þá bara. Hvernig verður Ísland og þá ekki síst Reykjanesskaginn útlítandi þegar búið verður að sjá öllu norðurhveli fyrir orku frá Íslandi?
Flokkur: Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 18:29 | Facebook
Athugasemdir
Öll nýtanorka Íslands mun aðeins anna langt innan við einu prósenti af orkuþörf Evrópu.
Miðað við forsendur háhitavirkjana yrði öll sú orka uppurin eftir 50 ár.
Stórfelldar og ósvífnar síbyljulygar íslenskra ráðamanna árum saman á borð við orð Alberts Albertssonar kaupa erlendir fjölmiðlar og ráðamenn án þess að gera svo lítið að fletta upp orkutölunum sem um er að ræða.
Bendi á blogg mitt á blog.is í dag.
Ómar Ragnarsson, 5.5.2012 kl. 18:42
Fólk í sveitarfélögum á Reykjanesi á að ráða því hvort virkjað verði í viðkomandi sveitarfélögum.Fólk á höfuðborgarsvæðinu getur ráðið því hvað er virkjað þar.Flóknara er það ekki.En því miður teygir frekja og yfirgangur höfuðborgarsvæðisins og öfgaumhverfisstefna sig langt út fyrir allt sem eðlilegt getur talist.Skást væri sennilega að setja í lög að íbúakosning í viðkomandi sveitarfélögum eigi að ráða.
Sigurgeir Jónsson, 6.5.2012 kl. 05:29
Sigurgeir, þú meinar þá væntanlega að ef Árnesingum dytti í huga virkja Gullfoss og Geysi þá kæmi okkur það bara ekkert við? Þingeyingar gætu þannig líka virkjað Dettifoss og grafið Herðubreið í sundur ef íbúarnir kjósa svo.
Emil Hannes Valgeirsson, 6.5.2012 kl. 10:07
Ef Íslendingum fjölgaði nú í ... segjum 5-10 miljónir, ...
Þá myndu hinar ófæddu kynslóðir sem Ómar segir að við eigum að vernda náttúruna fyrir, hugsa fyrst og fremst um sjálfa sig og afkomumöguleika sína. Og þá munu þessar kynslóðir þakka okkar kynslóð fyrir framsýnina í að þróa orkunýtingu úr iðrum jarðar.
Þessar kynslóðir munu þakka okkur fyrir ómetanlegt frumkvöðlastarf.
Gunnar Th. Gunnarsson, 7.5.2012 kl. 23:54
Mér finnst þetta verulega snúin athugasemd Gunnar en það yrði allavega margt mjög mikið öðruvísi ef svo ólíklega færi að Íslendingum fjölgaði í 5-10 milljónir. En áður en þeim fjölda verður náð væri líka nokkrum sinnum búið að gjósa á Reykjanesskaganum sem fært gæti einhverjar virkjanir undir hraun.
Emil Hannes Valgeirsson, 8.5.2012 kl. 23:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.