Heiðmerkureldar

Vegna umræðu um hugsanlegt sprungugos nálægt Höfuðborgarsvæðinu tók ég mig til og teiknaði kort sem sýnir hvað gæti hugsanlega gerst ef 10 km löng gossprunga opnaðist í næsta nágrenni við byggðina. Gossprunga þessi er í beinu framhaldi af gossprungum í Krísuvíkurkerfinu, með sömu stefnu og nær frá Helgafelli ofan Hafnarfjarðar og þaðan yfir Heiðmörk og endar rétt ofan við Elliðavatn. Líkurnar á akkúrat svona stóratburði eru ekki miklar enda er 10 km gossprunga ansi löng. Ef gos verður á annað borð í Krísuvíkurkerfinu er líklegra að það verði nær miðju eldstöðvakerfisins og næði ekki svona langt í norðaustur. Gos og hraunrennsli tengt Krísuvíkurkerfinu gæti því allt eins runnið að megninu til suður með sjó. Gossprungan gæti líka opnast í nokkrum aðskildum umbrotum svipað og gerðist í Kröflueldum og einnig gæti eldvirknin fljótlega safnast á einn stað á sprungunni eins og reyndar gerist gjarnan. En það sem ég hef teiknað hér upp er aðeins möguleiki. Kannski hinn versti og fjarlægasti.

Kortið er unnið af kortavefnum á ja.is. Hraunið teiknaði ég inn með því að fara eftir hæðarlínum eins og ég best gat séð út úr kortinu. Ég vil hafa alla fyrirvara á þessu og vona að ég sé ekki að skapa óþarfa hræðslu eða koma einhverjum í uppnám. Það má stækka kortið talsvert með nokkrum ásmellingum.

Heiðmerkureldar

Heiðmerkureldar gæti þetta gos kallast. Með þessari staðsetningu á gossprungu og eins og ég teikna hana eru ýmis borgarhverfi í hættu svo sem Vallarhverfið í Hafnarfirði og sjálft Álverið. Ein hrauntungan rennur inn í miðbæ Hafnarfjarðar og út í höfnina. Breiðari straumur liggur milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar og í sjó fram við Gálgahraun eftir viðkomu í IKEA. Nyrsti hraunstraumurinn (og kannski sá ólíklegasti) rennur í Elliðavatn og fyllir það, en síðan liggur leiðin niður Elliðaárdal og út í Elliðavoginn. Með þessum hamförum eru allar leiðir út úr borginni vestan Elliðaáa í hættu og nokkur hverfi einangrast. Það myndi þó varla gerast strax í upphafi þannig að fólk ætti að hafa ágætan tíma til að forða sér. Fjöldarýming Höfuðborgarsvæðiains ætti að vera óþörf en verra er þó auðvitað með ýmsar veitustofnanir svo sem vatn og rafmagn. Fólk þarf þó ekki að óttast öskufall í svona gosi því þetta er fyrst og fremst hraungos - og allnokkuð ólíklegt. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jack Daniel's

Flott framtak hjá þér og sýnir nokkuð vel hvað GÆTI gerst ef svona gos kæmi upp.

Jack Daniel's, 28.5.2012 kl. 10:08

2 identicon

Mjög forvitnilegt kort og nauðsynlegt að skoða sem flesta möguleika.

Sagan segir okkur hvað náttúran hefur lag á að koma á óvart.

.

Í sambandi við pælingar um eldgos á Reykjanesi, þá ætti fólk að velta fyrir sér mikilvægi Reykjavíkurflugvallar, ÞEGAR það gerist.

.

Áður en mannvirkið er lagt af þarf að hugsa slíkt til enda

einsi (IP-tala skráð) 28.5.2012 kl. 13:22

3 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sammála með flugvöllinn, þetta er eitt af þeim atriðum skipta máli varðandi staðsetningu hans og þá ekki síst vegna þess að ef gýs á skaganum þá er leiðin til Keflavíkur í talsverðri hættu, ekki bara við Straumsvík.

Mér hefur í raun alltaf fundist nánast útilokað að borgin gæti lokast bæði við Elliðaárvog og suður af Hafnarfirði í sama gosi, en það virðist þó vera hægt. Hraunrennsli niður Elliðaárvog er þó sennilega líklegra vegna umbrota á Bláfjallasvæðinu. Síðasta hraunið sem þangað rann er Leitarhraunið fyrir ca. 4700 árum en það mun vera upprunið nálægt Þrengslunum og rann einnig suður til sjávar þar sem Þorlákshöfn er.

Spurning er hvort hraun af Bláfjallasvæðinu geti umkring Höfuðborgarsvæðið. Sjálfsagt er það hægt ef gossprungurnar eru nógu langar.

Emil Hannes Valgeirsson, 28.5.2012 kl. 17:35

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

umm.. hvaða mikilvægi er flugvöllurinn svona .. sérstaklega Einsi ?  ætlaru að selfytja fólk úr bænum á 4 fokkerum og 17 chessnum ?

góðar pælingar samt Emil, en ég verð samt að segja að þessi lega á sprungunni er frekar ólíkleg og svona stórt gos hefur ekki komið á Reykjanesi í árþúsundir ef þá nokkurn tíma.. flest gos þarna hafa verið lítil sprungugos og virðist gosvirknin færast sunnar og sunnar og virðist ´núna vera út í sjó..  en maður veit aldrei þetta er þrátt fyrir allt yngsti hluti íslands.. 

Óskar Þorkelsson, 28.5.2012 kl. 20:53

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Óskar, ég er að mörgu leyti sammála þér. Varðandi flugvöllin þá er hann ekki úrslitaatriði. Það er varla þörf á því selflytja fólk í stórum stíl af höfuðborgarsvæðinu ef upp kemur gos og allra síst með flugvélum. En flugsamgöngur eru samt mikilvægar ef það fer að gjósa, af ýmsum ástæðum. Leiðin til Keflavíkur gæti hæglega lokast vegna hraunrennslis og þá væri slæmt að vera án flugvallar í Reykjavík.

Mest allt svæðið austur og suður af höfuðborgarsvæðinu er þakið hraunum og þar sem er hraun, getur hraun runnið aftur. Reykjanesskaginn er ennþá alveg þrælvirkur. Þar eru fjögur eldstöðvakerfi og gæti verið stutt í næstu hrynu. Í síðustu hrynu á fyrstu öldum Íslandsbyggðar gaus í þremur þessara kerfa með hléum frá Bláfjöllum og út að Reykjanesi. Eins og ég segi í textanum þá er líklegra að gos út frá Krísuvíkureldstöðinni verði nær miðju kerfisins við Sveifluháls eða Krísuvík en gossprungurnar geta þó hæglega verið í nokkrir kílómetrar að lengd og framleitt talsvert af hraunum sem ná í sjó fram. Legan á sprungunni þarf þó ekki að vera ólíkleg, lengdin á sprunginni á þessum slóðum er hinsvegar meira vafaatriði.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.5.2012 kl. 00:29

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Áhugaverðar pælingar, Emil.

Mig langar að koma með nokkrar ábendingar:

1.  Hæðarlínur hjá ja.is eru eitthvað að blekkja þig.  Þú mátt ekki líta framhjá því að Hjallarnir í Heiðmörk eru sams konar sigdalur og má finna á Þingvöllum, þó stærðin sé misjöfn.  Það þýðir að ekki er greið leið fyrir hraun norður eftir Vífilsstaðahlíð til Garðabæjar.  Hamrabeltið sem markar brotið á sigdalnum nær nánast frá efstur sumarbústöðum á Kaldárselsleið og austur að Þingnesi við Elliðavatn.  Hraun frá gosi ofan við Heiðmörk myndi því annað hvort þurfa að fara framhjá Hjöllunum eða fylla Hjallana og flæða svo upp úr þeim, fyrir utan að talsvert er um mishæðir milli Heiðmarkar og hugsanlegrar sprungu.  Fyrra þýddi að hraunin leituðu norður fyrir Þingnes og út í Elliðavatn (yfir talsvert landslag að fara) eða suður fyrir sigdalinn sem gæti vissulega leitt það út á Smyrilbúðahraun, en líklegra er að hraunið færi sunnar, þ.e. í átt að Kaldárbotnum og Helgafelli, eins og hallinn í landinu þarna segir til um og reynslan segir okkur.

2.  Hraun gæti vissulega runnið Elliðaárdalinn, en þá þyrfti það annað hvort að renna yfir Elliðavatn eða framhjá því um Rauðhóla og Norðlingaholt.  Á svæðinu við austur- og suðurhluta vatnsins er talsvert landslag sem myndi byrja á því að sveigja leið hraunsins og þar með tefja það.  Vatnið myndi síðan ennfrekar tefja framrennslið og þyrfti því magnið að vera mjög mikið til að komast þarna í gegn.  Frá því að Elliðadalshraunið rann fyrir 5.200 árum hefur ekki orðið hraungos í líkingu við það, þar sem rennsli hraunsins hefur verið í átt að höfuðsborgarsvæðinu.  Talið er að um 6,3 rúmkílómetrar af hrauni hafi komið upp í því gosi (Leitargosi), en síðaritímahraun á þessu svæði ná ekki einu sinni 1/10 af því magni (þ.e. í hverju gosi).  Leitargosið var auk þess á sunnan verðum Reykjanesskaga, en fór um Þrengslin og kringum Lambafell að Reykjavíkursvæðinu.  Er það eitt fárra gosa sem skilaði hrauni til sjávar í báðar áttir.

3.  Sprungurnar þínar snúa sv-na meðan sprungukerfið þarna er s-n.  Skiptir hugsanlega ekki megin máli.  Þýðir þó að sprungurnar opnast ekki með hliðarnar að höfuðborgarsvæðinu heldur annan endann.  Þetta veldur því að hraunið dreifir úr sér a.m.k. til að byrja með út frá sprungunni í na og sv áður en það tekur stefnuna að byggðinni.

4.  Annað varðandi sprungurnar, að þær eru úr minnst tveimur eldstöðvakerfum, þ.e. Brennisteinsfjallakerfinu og Krísuvíkurkerfinu/Trölladyngjukerfi.  Ekki er þekkt að þessi kerfi gjósi samtímis að ég best veit, þó stutt geti verið á milli þeirra.  Frá landnámi (eða þar um bil) eru fjölmörg gos þekkt úr þessum tveimur kerfum.  Það fyrsta frá um 900 og þau síðustu líklegast 1340 og 1341 hvort úr sínu kerfinu.  Hafa þessi gos verið ýmist sunnan til á skaganum eða norðan til.  Aðeins eitt þeirra hefur verið jafn nálægt byggð og sprungan þín gefur til kynna og var það mjög lítið.  Mesta hraunrennsli hefur verið metið um hálfur rúmkílómetri.  Ástæðuna fyrir því að hraunrennsli var meira á forsögulegum tíma má líklegast rekja til þess að þá var landið enn að rísa eftir að ísaldarjökullinn hörfaði og því var meiri gliðnun í landinu sem auðveldaði leið kvikunnar upp á yfirborðið.

5.  Mesta hættan á svæðinu er án efa á Völlunum í Hafnarfirði.  Minnst þrjú hraun hafa runnið yfir það svæði á sögulegum tíma eða á mörkum sögulegs tíma.  Tvö frá Brennisteinsfjallakerfinu og eitt frá Krísuvíkurkerfinu.  Segja má að landslagið hreinlega leiði hraunin í þessa átt. Þetta eru hraun frá Tvíbollum og Kistu í Brennisteinsfjöllum (Flatahraun/Hvaleyraholtshraun) og úr sprungu við Undirhlíðar (Kapelluhraun). Tvö hin fyrri koma upp suð-austan við Helgafell og hefðu því getað runnið niður í Heiðmörk miðað við staðsetningu, en gera það ekki vegna landslagsins.

En þrátt fyrir þessar ábendingar mínar, þá er kortið þitt mjög gott.  Ég var að reyna að lýsa svipuðum hlutum í athugasemd á facebook hjá Frosta og því af gott að sjá þetta svona á korti.

Marinó G. Njálsson, 29.5.2012 kl. 00:46

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sjálfsagt margt til í þessu hjá þér Marínó. Svona hraunrennsliskort þarf ábyggilega meiri yfirlegu og vinnu en ég lagði í þetta. Sprungugos hefur ekki orðið ofan við Heiðmörk í langan tíma en ef hraunrennsli á upptök þar þá sé ég samt ekki betur en það geti farið í sama farveg og hraunið úr Búrfellsgjá sem rennur á milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Ég tek síðan fram að hraunstrumurinn útí Elliðavog er ólíklegastur.

Stefnan á gossprungum þarf ekki að vera sú sama og á gliðnunarsprungum. Flestar gossprungur hér liggja í SV-NA eins og sést á móbergshryggjunum. Þessi gossprunga væri í beinu framhaldi af Krísuvíkur/Trölladyngjukerfinu en kannski í það lengsta á þessum slóðum. Sprungugos vegna Brennisteins- og Bláfjallakerfisins lægju ofar í landinu og koma þessu hugsanlegu gosi ekki við og er önnur saga.

Tengslin við landris vegna ísaldarloka þurfa kannski ekki að skipta svo miklu. Það var vissulega helst á allra fyrstu árþúsundum eftir ísöld sem stóru dyngjugosin urðu en það þarf samt ekki útiloka neitt á okkar tímum. Það er til dæmis ekki langt síðan Skáftáreldur geisuðu þó ég ætla ekki að spá neinu slíku hér.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.5.2012 kl. 01:15

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Búrfell gaus áður en landsigið varð í Hjöllunum.  Því er leiðin sem Búrfellshraunið rann blokkeruð af hamravegg sem er örugglega hátt í 20 m hár, ef ekki meira.  Hraunið þyrfti því fyrst að hlaðast upp í Hjöllunum og ekki renna í aðrar áttir til þess að það geti farið eftir Vífilsstaðahlíð.  Jarðsigið hefur líka orðið til þess að hallinn í landslaginu er í átt að Helgafelli og Kaldárbotnum annars vegar og hins vegar inn í Hjallana.  Því finnst mér ólíklegt að hraunstraumurinn fari í sama farveg og Búrfellshraunið, en gerist það, þá mun það alveg örugglega dreifa meira úr sér.  Eins má búast við því að Búrfellshraunið sjálft muni hafa áhrif á stefnu og rennslishraða nýs hrauns.

Marinó G. Njálsson, 29.5.2012 kl. 16:03

9 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Mér skilst reyndar að þetta misgengi í Hjöllunum sé í sífelldri þróun og sé bæði yngra og eldra en Búrfellsgjáin. En kannski er ég að vanmeta skjólið vegna missgengissins, sem er ekki verra. Ég hef annars ekki miklar áhyggjur af akkúrat svona gosi sem væntanlega er ekki á dagskrá. Í sambandi við hraunrennsli þá valdi ég versta kostinn sem mér datt í hug. Ég sé frekar fyrir mér annars konar gos tengt þessu eldstöðvarkerfi samanber það sem ég skrifa í sjálfri bloggfærslunni.

Emil Hannes Valgeirsson, 29.5.2012 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband