Vefmyndir 17. júní

Í tilefni dagsins brá ég mér í smá ferð um landið og tók nokkrar myndir. Ekki þurfti ég þó að hafa mikið fyrir ferðalaginu en allar myndirnar eru skjáskot af vef Mílu. (http://live.mila.is). 

Reykjavík 17. júní 2012

Austurvöllur á miðjum Þjóðhátíðardegi. Bjart veður en skýjað með köflum. Dálítill vindur sér til þess að fánaborgin breiðir hæfilega úr sér en hrífur einnig með sér eina og eina blöðru og feykir út á Faxaflóa. 

Þingvellir 17. júní 2012

Sólin reynir að brjótast fram úr skýjunum á Þingvöllum kl. 10.45. Fátt minnir reyndar á að það sé þjóðhátíðardagur á þessum helga stað og íslenski fáninn ekki enn kominn upp. Hvítur toppur Ármannsfells ber vitni um loftkulda og snjókomu til fjalla nóttina áður.

Hekla17júní2012

Sólbjört Hekla ber höfuðið hátt yfir Suðurlandsundirlendinu en sauðfé er á beit í forgrunni á iðagrænum völlunum. Hekla gaus síðast árið 2000 þannig að nú erum við komin tveimur árum framyfir 10 ára goshléin sem verið hafa við lýði frá 1970. Hvað skyldi Hekla vera með á prjónunum að þessu sinni?

Jöklsárlón 17. júní 2012

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi í fallegu og björtu veðri. Þetta er nú ekki amalegt útsýni og kemur ekki á óvart að vefmyndavélin þarna hefur verið útnefnd sem ein þeirra 25 bestu í heiminum. Jakarnir á lóninu eru síbreytilegir frá degi til dags og ýmist flæðir inn og út úr lóninu vegna sjávarfalla. Það er ágætis bíó að fylgjast með því.

Akureyri 17. júní2012

Akureyri er ólík Reykjavík að því leyti að það er fallegra að horfa til staðarins en frá honum. Allavega þá er útsýnið yfir Eyjafjörðinn til Akureyrar með því allra fínasta sem gerist á hringveginum, ekki síst á góðviðrisdögum eins og þarna snemma dags á sjálfum Þjóðhátíðardeginum áður en hafgolan nær að gára fjörðinn.

- - -  


mbl.is Bjart yfir þjóðhátíðardegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Emil

Það er gott framtak hjá Mílu að vera með þessar vefmyndavélar. Það er þó miður hve oft myndavélarnar í uppsveitunum eru bilaðar, sérstaklega myndavélin við Geysi. Um þessar mundir eru myndavélarnar við Geysi og Gullfoss óvirkar.

Ágúst H Bjarnason, 19.6.2012 kl. 08:49

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Sammála að það er hvimleitt þegar vefmyndavélar virka ekki eins og svo algengt er.

Ég held mikið upp á vefmyndavélina á Þórólfsfelli þar sem sér til Eyjafjallajökuls en sú myndavél er oftast óvirk. En vonandi verður Kötluvélin í lagi þegar og ef gos hefst þar. Svo mætti auðvitað biðja um fleiri staði t.d. fyrir vestan og austan. En framtakið hjá Mílu er samt mjög gott.

Emil Hannes Valgeirsson, 19.6.2012 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband