Á toppi Botnsúlna

Undanfarin sumur hef ég komið mér upp þeirri venju að ganga einsamall á eitthvert gott fjall sem ég hef ekki gengið á áður. Bestar eru þessar göngur þegar maður á fjallið alveg útaf fyrir sig og nægur tími til ráðstöfunnar. Það eru alltaf takmörk fyrir því hversu miklar fjallgöngur skynsamlegt er að leggja út í einsamall en nauðsynlegt er þó að einhver viti af ferðum manns og svo er farsíminn auðvitað gagnleg uppfinning sem öryggistæki. Ekki fer ég þó í fjallgöngur til að hanga í símanum og ekki hef ég heldur með mér músíkgræjur nema kannski vasaútvarp til vonar og vara. Hinsvegar er fuglasöngurinn alltaf kærkominn þótt flytjendur hans séu ekkert alltof hressir með að ró þeirra sé raskað, svipað og með blessaðar rollurnar sem horfa á mann úr fjarska með tortryggnum augum.

Botnsúlur 1

En þá að fjalli sumarsins sem að þessu sinni var Syðsta-Súla í Botnsúlum sem blasir við ofan Þingvalla. Þangað fór ég þriðjudaginn 10. júlí í björtu og hlýju veðri en dálitlum vindi af norðri sem greinilega spólaði upp fínlegum söndum við Langjökul og olli mistri sem skerti heldur útsýnið í austur. Ég lagði í gönguna frá gamla túninu við Svartárkot ofan Þingvalla en til að komast að fjallinu þarf að krækja fyrir hið hyldjúpa Súlnagil. Bæði er hægt að fara upp fyrir gilið eða niður fyrir eins og ég gerði. Í heildina hef ég gengið nálægt 13 kílómetra í göngunni sem tók um 8 klukkutíma með góðum stoppum. Leiðin að fjallinu er mjög þægileg en sama er ekki hægt að segja uppgönguleiðina austast á hryggnum sem er stórgrýtt og laus í sér áður en komið er að miklu móbergsklungri.

Botnsúlur 2

Sjálfur hryggurinn er misgreiðfær og með ýmsum truflunum sem þarf að krækja fyrir, en þá er vissara að hafa í huga að norðurhluti hryggjarins er eiginlega bara hengiflug. Þótt ég sé ekki mjög lofthræddur þá hvarflaði samt að mér á tímabili að þetta ferðalag væri kannski ekki svo mjög sniðugt. En þá var bara að fara varlega og ana ekki að neinu. Útsýnið var líka stórbrotið, ekki síst þegar horft var í norður þar sem fleiri og öllu óárennilegri Botnsúlur blöstu við í þessum fjallaklasa. Fjær mátti sjá Langjökul, Þórisjökul, Okið og fleira flott.

Botnsúlur 3

Sjálfum toppnum var að lokum náð. Syðsta-Súla er 1093 metrar á hæð og um leið hæsti tindur Botnsúlna. Á hæsta punkti er steyptur landmælingastöpull þar sem tilvalið er að stilla upp myndavélinni og láta sjálftakarann mynda kappann með Hvalfjörðinn og hálfan Faxaflóan í baksýn.

Á bakaleiðinni lagði ég smá lykkju á leið mína til að skoða Súlnagilið. Það kom mér á óvart hversu hrikalegt það er en það hefur grafist lóðrétt og djúpt niður í þykkan mósbergsgrunn og svo þröngt að ekki sést allstaðar til botns.

Súlnagil


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Fallegt veður sem þú fékkst. Sé að þú hefur passað þig á Súlnagili, sem mörgum hefur komið á óvart og tafið göngu á fjallið og jafnvel af því aftur. Til eru árennilegar og líka óárennilegar Botnsúlur. Vestursúla er ekkert tiltökumál fyrir frískan röltara eins og þig, jafnvel léttari en Syðstasúla.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 12.7.2012 kl. 23:46

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Reyndar er dálítil ónákvæmni hjá mér að segja að ég hafi ekki gengið á þetta fjall áður því fyrir margt löngu gekk ég einmitt á Vestursúlu frá Botnsdal en í mun verra skyggni. Það er í raun allt önnur fjallganga og mun auðveldari þótt hækkunin sé væntanlega meiri.

Emil Hannes Valgeirsson, 13.7.2012 kl. 00:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband