Hellt úr fötu

Af veðrinu er það að segja að dagurinn í dag, 5. september var sérlega úrkomusamur í Reykjavík en samkvæmt veðurfréttum í útvarpi mældist úrkoman 19 mm frá kl. 9 í morgun til kl. 18 síðdegis. Til samanburðar þá var úrkoman í öllum maímánuði einnig 19 mm en bara um 13 mm allan júnímánuð. Þótt rigningar séu ekki fátíðar í Reykjavík þá rignir samt sjaldan svona eindregið allan daginn og það með dembum inn á milli eins og hellt væri úr fötu.

Þar sem ég stunda veðurskráningar þá reyni ég eftir bestu getu að fylgjast með hvað kemur upp úr hinni opinberu úrkomudollu Veðurstofunnar og þá ekki síst á svona dögum. Í veðurskráningum mínum er ég nefnilega með ýmsar viðmiðanir og þar á meðal eru svokölluð öfgamörk sem hafa áhrif á veðureinkunnagjöfina. Í úrkomunni er ég með öfgamörk upp á 20 mm úrkomu frá kl 9-18 yfir daginn og dregst þá eitt stig frá þeirri einkunn sem dagurinn hefði annars fengið. Þessi öfgamörk náðust sem sagt ekki í dag þrátt fyrir vænlega atlögu og fær því dagurinn eftir sem áður 2 stig (af 8) fyrir það að vindur og hiti hafi verið í meðallagi. 20 mm dagsúrkomu mætti kannski líkja við það í tíðni að hitinn fari yfir 20 stig, sem eru reyndar önnur öfgamörk hjá mér og gefa +1 aukastig í einkunnagjöf.

Eftir að hafa farið lauslega í gegnum bækur þá sé ég að ég hef reyndar bara 7 sinnum skráð yfir 20 mm dagsúrkomu frá upphafi skráninga í júní 1986 - eitthvað gæti þó hafa farið fram hjá mér. Þrír dagar eru þar efstir og jafnir, allir með 26 mm úrkomu yfir daginn: Síðast gerðist það 30. desember 2007 en sá mánuður reyndist úrkomusamasti desember sem mælst hefur í Reykjavík, 197 mm. Þar áður mældist 26 mm dagsúrkoma þann 29. maí 1994 daginn eftir borgarstjórnarkosningar þar sem R-listinn vann sögulegan sigur með Ingibjörgu Sólrúnu fremsta í flokki. Elsta skráða dæmi mitt um 26 mm dagsúrkomu er 31. mars 1989. Þeim degi man ágætlega eftir en sá dagur einkenndist af eindreginni rigningu í hægviðri sem fór yfir í slyddu um kaffileytið en um kvöldmatarleytið fór að snjóa alveg látlaust með þeim afleiðingum að snjódýptin að morgni 1. apríl mældist 33 cm í Reykjavík og þótti frásögum færandi - meira að segja á þeim árum.

Af einstökum dembum slær þó fátt út 18 millimetra úrhellið í Reykjavík að kvöldi hins 16. ágúst 1991. Alveg óháð því reyndu nokkrir að koma skikk á málin í Sovétríkjunum sálugu tveimur kvöldum síðar með misheppnaðri valdaránstilraun. Boris Yeltsín tók hinsvegar völdin í staðinn, bannaði kommúnistaflokkinn og lagði svo Sovétríkin niður. Hann var frekar skrautlegur karakter en þótti helst til blautur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvað skyldi Jeltsín hafa innbyrt merga millimetra af vodka á dag og hvað ætli hafi verið mestu öfgamörk hjá honum?

Sigurður Þór Guðjónsson, 7.9.2012 kl. 19:28

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er nú það. En hann hefði áreiðanlega farið létt með eina mánaðarúrkomu.

Emil Hannes Valgeirsson, 7.9.2012 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband