13.10.2012 | 00:55
Stjórnarskrár(vanda)málið
Fyrsta setningin í bloggfærslum finnst mér alltaf erfiðust og ekki síst núna þegar ég ætla að reyna að skrifa um þetta mikilvæga mál eða ómikilvæga eftir því hvernig á það er litið. En til að lesendur fái smjörþefinn af afstöðu minni til stjórnarskrármálsins þá vil ég rifja upp dálítið sem ég var spurður um fyrir mörgum árum þegar einn kunningi minn var kominn í framboð og spurði hvort ég vildi meiri völd. Ég skildi spurninguna ekki alveg í fyrstu en eftir frekari útskýringar kom í ljós að spurningin snérist um það hvort ég sem almennur borgari ætti að hafa meiri áhrif um stjórn landsins og þannig fá meiri völd. Eftir smá þögn og umhugsun kom svar mitt sem var einfalt: Nei.
Neitunin hefur sennilega valdið þessum kunningja mínum dálitlum vonbrigðum og líklega komið honum eitthvað á óvart. Kannski kom svarið mér sjálfum líka á óvart en það var allavega einlægt því að í rauninni langaði mig ekkert sérstaklega í meiri völd. En það var líka annað sem ég hafði í huga sem var að ef ég fengi meiri völd, þá fengju allir hinir líka meiri völd og ef allir hinir fá líka meiri völd þá hefur í rauninni enginn fengið meiri völd, nema kannski bara meirihlutinn. Eða hvað? Best væri auðvitað fyrir mig ef ég fengi að ráða öllu einn, en slíkt einræði er varla í boði.
Þannig er um margar spurningar að það er ekki auðvelt að svara þeim neitandi. Barn sem spurt er hvort það vilji nammi eða fisk, hlýtur yfirleitt að velja nammið, jafnvel þó það viti að fiskurinn sé hollari. Og þegar þúsund manns koma saman á þjóðfundi til að gera óskalista fyrir þjóðina verður útkoman alltaf einhver útgáfa af að boðorðunum þremur: Frelsi, jafnrétti og bræðralag - reyndar allt gott um það að segja. En svo þegar þetta er sett í stjórnarskrá verður útkoman einhvern veginn þannig: Allir eiga að fá að ráða meiru og allir jafn miklu. Semsagt allir eiga að fá að ráða, nema reyndar þeir sem eru svo óheppnir að hafa aðrar skoðanir en meirihlutinn. Sem þýðir að minnihlutinn fær engu ráðið þegar upp er staðið og fellur þá um sjálft sig að allir fái að ráða. Málamiðlanir eru ekki í boði í svona Já- og Nei-ræði.
Þetta er kannski orðið dálítið snúið hjá mér og á mörkunum að ég skilji þetta sjálfur. En allavega þá voru það pælingar í þessum dúr sem urðu til þess að ég varð fljótlega mjög efins þegar talað var um að kjósa stjórnlagaþing til að breyta stjórnarskránni, svo ekki sé talað um að skrifa algerlega nýja. Mikilvægt plagg eins og Stjórnarskrá er ekki sett saman nema mjög rík ástæða er til. Þetta er sáttmáli sem almenn sátt á að ríkja um og engar deilur. Þetta er sáttmáli sem allir eiga að bera virðingu fyrir hvar sem þeir standa í pólitík. Þess vegna er í raun ógjörningur að koma slíku plaggi saman nema þegar nýtt ríki er stofnað eða þegar meiriháttar stjórnarfarsbreytingar eiga sér stað.
Fjármálahrunið var örlagaríkt en þó varla nægilega þungvægt til að koma fram með nýja stjórnarskrá. Hugmyndin að nýrri stjórnarskrá varð í rauninni til í nokkurskonar panikástandi eftir hrun þar sem öllu átti helst að breyta og það hið snarasta. Þetta féll mér ekkert sérstaklega vel þannig að þegar kosið var til stjórnlagaþings, kaus ég þá frambjóðendur sem vildu fara sér hægt og halda vörð um ríkjandi stjórnarskrá en þó kannski með smá lagfæringum. Enginn þeirra sem ég kaus náði kjöri enda voru þetta lítt þekktir einstaklingar sem varla höfðu sést í sjónvarpi og alls ekki í Silfri Egils. Þeir sem völdust í ráðið voru því ekki þar samkvæmt mínum óskum enda tilheyrði ég þarna minnihlutanum sem fékk engu ráðið. Ekki var ég heldur á Þjóðfundinum og get því ekki sagt að þarna sé verið að fara eftir mínum þjóðarvilja.
Ég veit ekki hvernig þetta mál fer en það er nú kyrfilega komið í skotgrafir stjórnmálanna eins og við mátti búast frá upphafi. Það er svo sem eðlilegt í mörgum málum en mjög óheppilegt þegar um stjórnarskrá Lýðveldisins er að ræða. Þess vegna hefði kannski verið betra að fara hægar í sakirnar, breyta nokkur atriðum núna og öðrum seinna. Í fyllingu tímans verður þá búið að endurskrifa stjórnarskrána og þá verður kannski hægt að tala um stjórnarskrána eins og gamla hamarinn hans afa sem fyrst fékk nýtt skaft og seinna nýjan haus en varð samt alltaf sami gamli hamarinn hans afa.
Frá Esjuhlíðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:00 | Facebook
Athugasemdir
Það er stundum ánægjulegt og stundum fyllist maður bjartsýni á að allir séu ekki bara í skotgröfum.. Þessi pistill þinn er dæmi um hvernig hægt er að árétta öfgalaust skoðanir, færa fyrir þeim rök, ræða í samræðutón og ekki þörf á að níða niður þá sem eru á öndverðum meiði.
Kári H. Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 13.10.2012 kl. 05:12
Góður pistill hjá þér Emil, að vanda.
Það er þó í raun ein setning sem þú þarna setur fram, sem er kjarni málsins. "Þetta er sáttmáli sem almenn sátt á að ríkja um og engar deilur."
Þessi setning segir allt, þó auðvitað sé illmögulegt að gera sáttmála sem engar deilur eru um. En það er hægt að hafa það að leiðarljósi að möguleiki til deilna sé eins lítill og hægt er og almenn sátt ríki um. Stjórnlagaráð gleymdi algerlega þessu atriði, þeirra tillögur eru sprottnar og settar fram af hroka þeirra sem telja sig hæfari en aðrir. Í hveju það hæfi liggur er hins vegar erfitt að sjá.
Það er skelfileg tilhugsun ef þessar tillögur verða að stjórnarskrá, með litlum meirihluta þjóðarinnar að baki.
Ég vil þó taka fram að ýmislegt í þessum tillögum er efnislega ágætt, þó framsetningin sé ófær. Það mætti vel hugsa sér að gera skoðanakönnun á því hvaða efnislegu atriði tillagnanna fólk vildi sjá í stjórnarskrá og hver ekki. Síðan má nota niðurstöðu þeirrar skoðanakannanar til bóta við gildandi stjórnarskrá.
Slík könnun gæti hæglega verið rafræn og þannig hægt að spara þær hundruði milljóna sem kostar að halda kosningu um allt land.
Gunnar Heiðarsson, 13.10.2012 kl. 08:50
Sæll Emil
Bestu þakkir fyrir einstaklega vel saminn og skynsamlegan pistil. Hann er í þeim anda sem ég hefði viljað fjalla um málið og í raun á þeim nótum sem hafa verið að brjótast í mér undanfarið. Ég hef engu við þetta að bæta nema þakka fyrir.
Ágúst H Bjarnason, 13.10.2012 kl. 09:04
Góður pistill, segi ég líka. Og þó ég sé sammála öllum commentum, vil ég bara segja að það var ekki hægt að ræða málið í þessum anda og í samræðutón vegna yfirgangs Jóhönnu og co. í málinu bæði gegn Hæstarétti og lýðræðinu. Það átti að pína þetta í gegn með asa og flýti og rústa okkar gömlu stjórnarskrá fyrir þetta þegar allt sem þurfti var að gera þetta í rólegheitunum og yfirvegað í samráði við lýðræði og þjóðarvilja. Þannig verður aldrei unnið meðan þessi flokkur er í ríkisstjórn.
Elle_, 13.10.2012 kl. 11:10
Ég þakka þér kærlega fyrir góðan pistil, og hjartanlega sammála þeim hér fyrir ofan!
Eyjólfur G Svavarsson, 13.10.2012 kl. 16:37
það er ekki hægt að segja "mínum þjóðarvilja" með viti.
KV
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 13.10.2012 kl. 17:38
Ég þakka ágætar undirtektir. En þetta með "minn þjóðarvilja" er bara mitt eigið orðalag og ætti að skiljast. Þjóðarvilji er annars varla til nema hann endurspegli vilja allrar þjóðarinnar.
Emil Hannes Valgeirsson, 13.10.2012 kl. 17:53
Ég tel að nei í þessum komandi þjóðarkosningum sé skírt nei við ESB. Það verður að vera sjálfhætt því að stjórnarskrá okkar hefir aldrei leift þessar viðræður. Hegningalögin okkar hafa heldur aldrei leift þessar viðræður. Hún kallar þær Landráð. Tillaga að þingsályktunni var bara tillaga en ekki leifi að brjóta stjórnarskrá og landslög. Eftir tillögu kemur stjórnarerindi. Eftir stjórnarerindi þarf forseti íslands að skrifa undir ásamt viðkomandi ráðherra. Þetta var aldrei gert. Ég skil enganvegin hvernig stendur á að Ríkissaksóknari hefir ekki tekið þetta mál upp þar sem það er búið að kæra það nokkrum sinnum. Nei við öllu svo lögum við stjórnarskránna síðar.
Valdimar Samúelsson, 13.10.2012 kl. 17:58
Það vöknuðu nokkrar spurningar við lestur þessa fróðlega pistils - það er merki um góðan pistil.
Í fyrsta lagi er það spurning hvort að það geti náðst þjóðarvilji um breytingu stjórnarskráarinnar - hverjar sem breytingarnar eru? Það má hugsanlega halda því fram að það sé ekki þjóðarvilji um núverandi stjórnarskrá...eða hvað? Og svo hvort það sé eitthvað til sem er þjóðarvilji þegar upp er staðið? Getur "þjóðarvilji" í praksís nokkuð orðið annað en vilji meirihluta á þeim tíma sem athugun á því fer fram (hvort sem um er að ræða já eða nei - eins og í þessu tilfelli)? Er þjóðarvilji kannski ofmetin ásetningur að ná fram?
Annars fróðlegar vangaveltur að venju Emil - takk fyrir mig.
Sveinn Atli Gunnarsson, 13.10.2012 kl. 18:48
Emil skilgreindi ágætlega hér að ofan hvað þjóðarvilji er - eða ætti að vera.
Aðeins 36% kjósenda mætti á kjörstað til þess að velja fulltrúa á stjórnlagaþing. Aðeins þriðjungur kosningarbærra manna þjóðarinnar. Þá þegar hefði málið átt að falla um sjálft sig.
Það er í rauninni undarlegt að málinu hafi verið haldið til streitu af ríkisstjórninni með þeim afleiðingum að n.k. laugardag verði boðið upp á ennþá undarlegri skoðanakönnun í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þrátt fyrir pappírslega upplýsingu er hinn almenni borgari er enn í óvissu um hvort atkvæðið hans verður gilt eða ógilt ef hann krossar við þetta en ekki hitt.
Í einföldu máli sagt; ekki kjósendum bjóðandi!
Kolbrún Hilmars, 14.10.2012 kl. 17:58
Samkvæmt bæklingnum þá er nóg að svara einni spurningu til að atkvæðaseðillinn sé talin gildur og ekki er tekið fram að fyrsta spurningin skipti meira máli en hinar. Ég lít á þetta sem 6 sjálfstæðar spurningar og ætti því að vera í lagi að segja NEI við þeirri fyrstu og JÁ við einhverjum hinna seinni.
Úr því að verið er að kjósa, þá hafa þeir sem mæta á kjörstað alltaf meiri áhrif en þeir sem sitja heima þannig að ef manni er ekki alveg sama þá tekur maður þátt.
Emil Hannes Valgeirsson, 14.10.2012 kl. 18:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.